Barnsleg jólakæti lágmenningarinnar

Jólin eru fólki svo ótalmargt. Ýmist tími ljóss og friðar — orðatiltæki sem hlýtur að hafa verið sagt háðslega við fyrstu notkun, lýsandi stystu og myrkustu dögum ársins — eða tími samheldni. Sameiningarstund þar sem ástvinir koma saman og njóta samverunnar, hlýjunnar og þess að gleðja og gleðjast með ástvinum. Sumir fagna fæðingu Jesú Krists og aðrir hylla kapítalismann og jólasveininn með gjafaflóði — gjafir þurfa vitaskuld ekki að vera til marks um ást á græðgi og veraldlegum auðæfum, rétt eins og að hlusta á messuna yfir matnum þarf ekki að vera trúarjátning og guðhræðsla, við einfaldlega fögnum eins og við viljum.

Að þessu öllu sögðu eru jólin einnig andhverfa alls sem ég hef þegar nefnt. Þau eru kveikja kvíða, þunglyndis og streitu. Foreldrar sem sjá ekki fram á að geta keypt gjafir handa börnum sínum eða borið fram kvöldverð á aðfangadagskvöld og einstæðingar sem eyða jólunum án nokkurra hátíðahalda. Börnin sem spyrja sig af hverju þau fá spilastokk meðan önnur börn fá iPhone. Fögnuður á það nefnilega til að sýna þeim sem búa við skort frekar skýrt fram á misræmið í veraldlegri upplifun og eigum annarra og þín. Skilnaðarbörn mæta spurningum á við það af hverju þau eyða jólunum alltaf hjá sama foreldrinu, hvort þeim sé sama um hitt foreldrið og oftar en ekki er spurningin lögð fram af einhverjum sem hvorki á rétt á að spyrja hennar né að fá henni svarað. Vitaskuld er þó ætlunin, í flestum tilfellum, sú að sjá til þess að sem flestir haldi gleðileg jól og skynji ánægjuna, friðsemdina og manngæskuna sem hátíðin snýst vitaskuld um — óháð hugmyndum um trú, gjafir, hefðir eða félagsskap.

Í jólagjafa-, jólamáltíða- og almennt öllu jólastressinu gleymist nefnilega manngæskan og friðsemdin. Mamma hleypur um húsið með edikbrúsann, tusku og Wham í botni að reyna að sjá til þess að húsið sé hreint. Í beinu framhaldi er hryggurinn settur í pottinn og byrjað að huga að kartöflunum, rjúpunum og öllu meðlætinu. Iðulega stóð móðir mín ein í hreingerningunni, eldamennskunni og jólagjafainnpökkun öll mín unglingsár. Gelgjur heimilisins ýmist lágu í sófanum eða húktu hver í sínu horni og biðu þess að vera kallaðar fram í mat án þess að detta í hug að aðstoða, fara í sturtu eða skipta úr náttfötunum í ögn fínlegri klæðnað fyrir kvöldverðinn.

Jólaumræða hefst iðulega á þann hátt sem ég hef sýnt fram á hér að ofan, hamrað er á hugmyndum um gæsku og náungakærleik. Bent á að skömmin í því að fá stuðning mæðrastyrksnefndar, fjölskylduhjálpar eða annarra samtaka sem styðja bágt stadda um jólin sé engin — sem er vissulega satt og rík þörf að benda fólki á að jólin eiga að snúast um það eitt að öllum líði vel; myrkustu stundir ársins þurfa ekki að vera myrkar að neinu leyti öðru en í sólarstundum talið.

Umræðan verður beinskeyttari þegar talið berst að jólamenningu. Svo virðist sem fólk vilji, upp að vissu marki, upplifa streituna sem fylgir hátíðahöldum. Ef litið er til nokkurra frægustu jólamyndanna, þeirra sem allir þekkja og horfa jafnvel á ár eftir ár. Myndir á borð við Jack Frost (1998), Home Alone (1990), Jingle All the Way (1996) og Christmas with the Kranks (2004) sem sýna allar fram á stressið, pressuna um að jólin verði að vera fullkomin og töfrum líkust og erfiðleikana sem margir þurfa að kljást við á jólunum. Slíkar kvikmyndir lifa áfram í minningum fólks. Á meðan einfaldari jólamyndir — þessar sem framleiddar eru fyrir talsvert minna fé og varpað beint úr milljónum sjónvarpsskjáa á þorláksmessu, aðfangadag og jóladag, aðallega í Bandaríkjunum — eru litnar hornauga, taldar einfaldar og lélegar vegna skorts á „verisimilitude“. 1 Til þessara mynda teljast jólamyndir Justin G. Dyck, sem iðulega eru ástarsögur á jólunum sveipaðar brúðkaupsundirbúningi, jólafríum á skíðasvæðum eða sambærilegum klisjum. Í raun taka kvikmyndir Justins á öllum helstu tuggum, erkitýpum og best þekktu klisjum kvikmyndalistarinnar. Hin alþekkta erkitýpa ríka, leyndardómsfulla karlmannsins og mislukkuðu konunnar, sem annaðhvort er einhleyp til margra ára, nýfráskilin eða kemst að ótrygglyndi maka síns um miðja mynd (sé uppskriftinni fylgt eftir af kostgæfni). Iðulega er maðurinn leyndardómsfullur og þarf að útskýra að hann sé ekki sá sem allir halda að hann sé vegna þess að þá er hægt að koma upp um einhvern leyndardóm við upphaf síðasta þriðjungs myndarinnar og stofna ástarsögunni í skæða lífshættu.

Klisjurnar þekkja allir af minni kynslóð og eldri, sem þurftu að taka því sem línuleg dagskrá bauð uppá og sáu því vænan skerf af lélegum, fyrirsjáanlegum myndum. Kynslóðin á eftir sem elst upp með Netflix og ólöglegu niðurhali kannast líklega við klisjurnar vegna eigin óheillalegu ákvarðana, stiklum sem lofuðu meira en myndin gat boðið og barnaefnis. 2. Það sem skilur Justin G. Dyck og myndir hans frá þorranum af klisjulegum lágmenningarræmum heimsins er augljós ástríða hans fyrir því sem hann gerir. Kvikmyndirnar verða aldrei Fargo (1996) eða The Departed (2006) en þær hafa annað fram að bera en þær myndir. Í stað aðdáunar og spennuþrunginnar stemningar er andrúmsloft mynda á borð við Christmas Wedding Planner (2017) og Christmas with a View (2018) afslappað og mun líkara því að þær einfaldlega taki áhorfanda í opinn faðm sinn svo allur heimurinn detti úr fókus og skipti ekki máli. Ólíkt hefðbundnum ástarsögum, spennutrillum, hasarmyndum og jafnvel gamanmyndum, þá er spenna og óvissa aldrei látin liggja í loftinu of lengi. Henni er reglulega aflétt og er augljóslega með ráðum gert svo áhorfandi upplifir í örskömmtum togstreituna í sagnaframvindunni og minnist þannig einnig, í örskotsstund, togstreitunnar sem til staðar er á jólum og í lífinu öllu (þetta eftirsótta verisimilitude).

Báðar fyrrnefndar myndir Justins, þ.e. Wedding Planner og View, eru fyrirsjáanlegar, einfaldar og klisjukenndar; í kenningu allt hlutir sem undirritaður ætti að hata — sér í lagi eftir að hafa hraunað yfir Marvel myndirnar fyrir að vera nákvæmlega það sama. Það sem skilur þær frá öðrum fyrirsjáanlegum, klisjukenndum myndum er einmitt það sem verður þeim til upphafningar; þær þykjast ekki vera annað en það sem þær eru. Engar tilraunir til að fela plottholur sem dýrum tæknibrellum, brandara úr munni Chris Pratt eða Robert Downey Jr. eða rándýrum leikstjórum og handritshöfundum sem þurfa að aðlaga fimmtíu ára gamlar sögur á nýan hátt þannig að þær virki „móðins“. Sagan er einföld, snýst um ást, jól, kærleik og — eins kaldhæðnislega og það hljómar í samhengi þessarar rýni — að allt sé ekki sem sýnist í fyrstu. Ekki að myndirnar séu gallalausar, það eru viss atriði sem stinga í stúf og gætu hæglega framkallað djúpstætt hatur einhverra, en þrátt fyrir fáeina galla eru þær allt að því barnslegar í einlægri ósk sinni um að áhorfendur geti sest fyrir framan sjónvarpið eftir langa vakt í jólaopnun Kringlunnar eða hlaup um allan bæ í leit að síðasta jólafæti Reykjavíkur (sem finnst, nota bene, í Garðheimum, Mjódd; ásamt Vivid Brain og vingjarnlegasta starfsfólki þessarar jólavertíðar). 3

Þær boða í grunninn sömu gæsku og náungakærleik og jólaumræðan öll, að meðtöldum öllum hinum jólamyndunum. Þær gera það einfaldlega á hátt sem reynir ekki að taka á stressinu og nagandi óþægindunum sem fylgja eftirvæntingu af þessu tagi með rökum og fullorðinslegum þankagangi heldur með brosi og gleðinni í röddu tveggja ára barns sem segir þér af jólasveinunum, skógjöfunum og hversu gaman verði að eyða jólunum í rauða húsinu með ömmu, afa og hvað jólin snúast um í raun. Hatist því við einlægni, einfeldni og heiðarleika en vitið að slíkt þýðir að hatast út í barnslega gleði og trúgirni á góðmennsku í þessum annars dimma, kaldlynda heimi. Gleðileg jól og farsælt komandi ár.

   [ + ]

1. n. Það að e-ð virðist vera raunverulegt eða satt; sennileiki. Hinn heilagi graleikur allra lista er að gagnrýnandi noti þetta orð sem enginn, sem ekki lifir og hrærist með regn í nefinu og orðaforða eins og „mannvitsbrekka“, (iðulega sagt í háði um einhvern sem hlutaðeigandi þykir ekki mikið til koma) þekkir.
2. Disney og Nickelodeon eru þekkt fyrir að vinna með skýrt afmarkaðar formúlur fyrir kvikmyndir og þætti svo hægt er að benda á nákvæmlega hvenær húmorinn, spennuþrungið kossaflens og „óvænt“ dauðsföll munu láta á sér kræla
3. Takist þeim eitthvað, þessum einföldu myndum, er það einmitt að losa um pressuna sem jólin skapa. Undirritaður sá Christmas Wedding Planner í prófaundirbúningi tveimur vikum fyrir jól og tókst myndinni algjörlega að losa um alla streitu og fylla hjarta hans af hamingju og jólaeftirvæntingu.