Brot úr Konu sendiherrans

K.S. flýtti sér skelkuð inn á læknastofuna. Hún fann stór augu ritarans fylgja sér eftir þar sem hún sat hokin fyrir aftan skothelda glerið eins og stór karta.

Af lækninum stafaði daufum sígarettufnyk. Hann dustaði rykið af skrifborðinu með annarri erminni áður en hann lét þykka möppu falla þunglamalega á borðið með miklum skelli.

– Ropi segirðu?

Hann renndi gulum fingrunum í gegnum grátt hárið, klóraði sér í skeggbroddunum og settist alvörugefinn en þreytulegur á móti K.S. Hann fletti í gegnum möppuna í nokkra stund, leit síðan upp og virti K.S. gaumgæfilega fyrir sér.

– Þú ert örugglega bara stífluð, sagði læknirinn, hásri röddu.

– Ég mæli með því að þú drekkir meira vatn og takir eina magnesíumtöflu á dag.

K.S. svelgdist á en náði ekki ropanum upp. Hún fann fyrir þrýstingi undan öllu loftinu sem sat nú fast í maganum.

– En ætlarðu ekkert að kíkja á mig? Hvað ef þetta er eitthvað annað?

Læknirinn sagði ekkert en rétti henni magnesíumtöflurnar, stóð upp og opnaði dyrnar út á gang. Hann beið þar uns K.S. yfirgaf loks herbergið.

– Ég bið að heilsa sendiherranum, sagði læknirinn og glotti andstyggilega svo glitti í gular tennurnar.

Á heimleiðinni reyndi K.S. að spyrja leigubílstjórann hvort hann vissi eitthvað um rauðklæddu konuna eða bakgrunn læknisins. En leigubílstjórinn lagði vísifingur upp að vörum sínum, alvörugefinn á svip, til marks um það að þau skyldu ekki tala um slíka hluti á þessum tíma.

Þegar heim var komið gekk K.S. uppgefin upp stigann því lyftan var biluð. Þegar hún var komin á efstu hæð blokkarinnar stakk hún lyklinum í skráargatið og sneri. Börnin tvö biðu eftir henni í forstofunni, rauð í munnvikunum. Í fjarveru móður sinnar höfðu þau neyðst til að veiða sér mýs til matar. Í kjölfarið höfðu neglur stúlkunnar lengst og augasteinar drengsins orðið að örþunnum röndum. K.S. hristi hausinn og tautaði með sér.

– Þið getið sjálfum ykkur um kennt.

 

 

 
Úr sögunni Kona sendiherrans eftir Sólveigu Eir Stewart sem birtist í bókinni Það er alltaf eitthvað.