Vesen að vera

Vesenis tesenis vera – um Viðrini veit ég mig vera

óskilgreinda tegund bókmennta eftir Óttar Guðmundsson, Skrudda 2015

 Áhugaverð – en undarleg

Það er vissulega satt og rétt sem Óttar Guðmundsson geðlæknir tekur fram í upphafi bókarinnar um frænda sinn, Magnús Þór Jónsson – Megas – að sitt sýnist hverjum um túlkanir á ljóðum/textum hans í gegnum tíðina. Ef verkið er því skoðað með hliðsjón af því hversu stór hluti þess fjallar um textana og plöturnar verður því að segjast að túlkanir Óttars og baksögur verða að sjálfsögðu umdeilanlegar þegar á heildina er litið. Verkið er fyrir vikið undarlegt að uppbyggingu þar sem yfirferð yfir plöturnar hefst nánast frá og með bls. 37 og stendur út bókina – sem er rúmlega 300 síður.

Esenis tesenis tera, yfirtitill bókarinnar – latínuskotið nafn ættað frá Æra-Tobba – er ágætis titill á þessu skringilega verki. Það lýsir útgangspunkti Óttars að einhverju leyti og gengst upp í mýtunni um hversu vel menntaður og kaldhæðinn Megas sé, en ég efast um að Magnús sjálfur myndi nefna ævisögu sína með þeim hætti, hefði hann skrifað hana sjálfur (eða í nánara samstarfi en raun ber vitni). Raunar væri eðlilegast að kalla þetta fan-lit (aðdáenda-bókmenntir) sem rekur æviferil listamannsins, með blæbrigðum þess að Óttar verður mjög náinn aðili sem hefur sérstakan aðgang að manninum Magnúsi í seinni tíð. Vottað er á kápu verksins að það sé ritað með blessun Megasar – og engin ástæða til að efast um það, þó nokkuð skorti á að það beri með sér að um samstarf sé að ræða (líkt og raunin var með Sól í Norðurmýri, píslarsögunni sem Magnús vann ásamt Þórunni Erlu- Valdimarsdóttir og fjallar um æsku hans í skáldlegum búningi). En þetta er heiðarleg og áhugaverð afmælisgjöf, gefin út í tilefni af sjötugsafmæli skáldsins.

esenis tesenis kápa

 

Á mörkum margra mæra

Ljóst er að verkið er fengur fyrir marga, sér í lagi þá sem vilja skyggnast í bakland Magnúsar sem Óttar fjallar um í upphafi bókarinnar. Auk þess kann mörgum að þykja áhugavert að lesa frásögn og túlkun Óttars á ákveðnu tímabili í lok níunda áratugarins eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum, þar sem varpað er ljósi á kjaftasögur og eina hlið sannleikans um ástarsamband Magnúsar og ungs tælensks manns sem hingað til lands flutti á hans vegum og bjó með honum um tíma. Aftur á móti þá kann það að trufla margan hversu fyrirferðamikil persóna Óttars er í bókinni, án þess þó að Óttar setji fram sannleikann um þau samskipti öll – svona til að hreinsa loftið – enda sem læknir Magnúsar bundinn Hippókratesareiði um það sem þeim fer á milli í því ljósi. Aftur á móti er alveg ljóst að margt af því sem kemur fram í bókinni hvílir að einhverju leyti á því trúnaðarsambandi sem læknir og skjólstæðingur eiga, meðal annars þegar fjallað er um æskuna og umgjörðina sem ungi villingurinn sprettur úr.

Óttar fylgir ákveðnu konsepti í verkinu, útfrá undirtitlinum Megas og Dauðasyndirnar og verður að segjast að talsvert vantar upp á að sá þráður verði að einhverjum sterkum undirliggjandi þræði sem varpi ljósi á höfundarverkið sem fjallað er um. Sá fókus sem Óttar hefur þar af leiðandi á lostann, reiðina, öfundina, girndina og allar hinar syndirnar þegar reynt er að fara túlka textana er eiginlega bara truflandi og skekur nokkuð flæðið í verkinu. En að því sögðu verður að segjast að það er nokkuð fljótlesið ef áherslan liggur ekki í því að lesa túlkanir Óttars á öllum textunum. Í raun og veru kom það á óvart að geðlæknirinn skyldi ekki hvíla rólegri í sínu sérsviði og túlka fjölbreytt geð og lundarfar skáldsins í verkinu, jafnvel með vísunum til fræðanna, en slík nálgun hefði jafnvel getað orðið stórfróðlegt verk. Í stað þess lítur dagsins ljós nokkuð persónuleg frásögn sem bæði hefur nokkra kosti og stóra galla. Talsvert er um endurtekningar í textanum og hefði vel mátt stytta um ca. 70 síður.

 ottar fadmur

Stórar persónur og villandi sýnir                                                                 Mynd: mbl.is

Af samtölum við nokkra af samferðamönnum Magnúsar þótti mörgum Óttar helst til fyrirferðamikill í bókinni. Með hlutlausum augum verður maður þó að taka til greina flesta af þá varnöglum sem slegnir eru í formála bókarinnar. Þó hann skýri ekki hvers vegna hann hefur haft „betri innsýn í lokaðan heim hans en flestir aðrir“ þá verður samt að segjast að nálgun hans er nokkuð hástemmd og vel hefði mátt sníða agnúa af sem vekja þá kennd að Óttar sé mjög upptekinn af eigin stöðu. (Sbr. út hefði mátt fara setningin í formála hvar segir: „Ég er sérfróður um persónuleika og persónusögu fólks og áhugamaður um fagrar listir. Bókin ber þess merki.“ Bls. 7) En samkvæmt greiningu Óttars eiga þeir kannski þessa upphafningu á sjálfum sér sameiginlega – og það er kannski eitthvað í ættinni (sbr. bls.12).

Í raun og veru er það samt kynlífs- og lostafókus Óttars sem truflar meira en persóna hans, og þar með villusýnin um að dauðasyndirnar séu eitthvað sérstakt yrkisefni Megasar í gegnum tíðina. Réttilega segir Óttar „Mörg verka hans fjalla að meira eða minna leyti um mannlegan breyskleika og endurtekna ósigra mannsins fyrir eigin hugrenningum og veikleikum.“ (Bls. 10) Það þýðir aftur á móti ekki að þær syndir sem Óttar kýs að gera að túlkunarlyklum á höfundarverkinu gagnist, enda bregður hann á það ráð að afgreiða þorra textanna sem „heimspekilega“ og þar með ekki á sviði þess sem verði tekið á með reiðinni, letinni, munúðarlífinu – lostanum – eða öðru sem kallast á við staðalmyndina af pervertíska snillingnum sem ögrar öllu og ærir alla. En kannski er þetta leiðin sem Óttar sér helst færa til að fjalla um það hispurlaust hversu vímusjúkur listamaðurinn var allt frá barnæsku til vorra tíma.

Allt daður við dulvitundina er víst tengslamyndun við dauðsyndirnar, segir læknirinn.

Í verki eins og þessu, þar sem dauðasyndirnar eru einhverskonar útgangspunktur verksins, nægir ekki í að telja það fram að Megas hafi alltaf verið að ögra siðferðislegum gildum og borgaralegri sagnfræði, staðið í haugbroti þjóðararfsins og fjallað djarflega um hið forboðna. Óttar virðist nefnilega sérstaklega á sleipu svelli í orðræðunni um dauðasyndirnar, einfaldar þær eiginlega óhóflega og tengir þær í engu grundvelli sínum, kristnum trúararfi, sem Megas hefur svo oft gert að yrkisefni sínu ef gaumgæfilega er gáð. Glíman við djöfulinn og erfðasyndina er nefnilega lífsstarf manneskjunnar Magnúsar, rétt eins og okkar hinna, ef við kjósum að skoða líf okkar í samhengi tungutaks og táknmáls freistinga, staðfestu, trúarþarfar og siðferðis. Hin viðkvæma og vængbrotna písl, sem sækir í skjól áfengis og eiturlyfja til að fóstra snilligáfu sína (smkv. túlkun Óttars) hættir aldrei að vera manneskja sem dansar á jafnvægislínu þess að þarfnast viðurkenningar, ástúðar og valds yfir huga sínum.

Mynd: Gunnar Gunnarsson – úr Mannlífi.

 megas gunnar gunnarsson

Æviferillinn rakinn

Eins og áður sagði er stór hluti verksins túlkanir – lýsing á hughrifum – Óttars sjálfs á textum Megasar á plötunum, teknum fyrir í krónólógískri röð. Hann fjallar um viðtökur í blöðum auk þess að leggja út af flestum verkum með einhverskonar hugleiðingum um þau. (Eitt dæmi um ósamræmi/slælegan prófarkalestur er að sumstaðar heita þeir kaflar hugleiðingar en annarsstaðar hugrenningar – en nóg um það, umbúnaður bókarinnar frá hálfu útgefanda virðist lítill og aðalatriði e.t.v. að bókin hafi komið út á „réttum tíma“ – á afmælisdegi skáldsins 7.apríl.) Það er ljóst að ef að bókin væri unnin af poppspekúlanti eða menningarfræðing af einhverju tagi þá væri t.a.m. ekki vitnað jafn frjálslega í dóma og viðtöl eins og raun ber vitni, án tilvísana, og þegar fram líða stundir má segja að það sé nokkur ljóður á frágangi bókarinnar. Aftur á móti er nokkur akkur að því að öll verk Magnúsar eru með í þeirri upptalningu, t.a.m. þýðingar á leikverkum (t.d Djúpi daganna e. Gorkí) og fjallað um sýninguna Hún er gefin fyrir drama þessi dama, einleik sem mikið var lagt í á tíunda áratugnum. Eins er nokkur akkur að umfjölluninni um Björn og Svein, skáldsöguna sem Megas gaf út árið 1995. Aftur á móti er ekki mikil viðbót við þær umfjallanir sem þegar eru til um margt, lítil innsýn er í sjónarhorn annarra á meistarann (eins og t.a.m. bókin Megas, sem kom út hjá Omdúrman uppúr aldamótunum er stútfull af) og rödd Magnúsar dregur framvindu verksins ekki áfram, heldur túlkun Óttars.

Nú er ég ekki að segja að túlkun Óttars sé röng, heldur miklu fremur að það skorti stílfimi og dirfsku í að lýsa Magnúsi sem manneskju, umfram það að staðfesta aðeins mýtuna um Enfant Terrible íslenskrar poppsögu, viðra myndina af Meistaranum Megasi, sem er hátt yfir allt og alla hafinn á einhverskonar goðsögulegum stalli. Oft er vísað til erfiðleika og basls, vissulega, en útskýringarnar á vandræðum hans einatt af þeim meiði að þar sé neyslu og alkóhólisma um að kenna. Hin margbrotna sjálfsmynd, píslin, útlaginn, pönkarinn, listaskáldið, pabbastrákurinn og öldungurinn, svo eitthvað sé nefnt, er ekki skýrð með neinum af þeim tækjum sem geðlæknisfræðin eiga jú yfir að búa sem og sálfræðin. Af slíkum útúrdúrum hefði mátt hafa heilmikinn fróðleik, því jú ljóst er að margt býr í djúpinu fleira en dauðasyndirnar. Erfitt samband hans við síðari barnsmóður sína hefði t.d. getað varpað ljósi á „ástandið á honum“ á tíunda áratugnum (þegar húsnæðisleysi og önnur örvinglan blasti við). Og eins hefði það verið gagnlegt að skýra tilfinningalegt jafnvægi sem hann hefur notið frá því um aldamót, í ljósi hamingjuríkrar vináttu við ónefnda konu hér í bæ, því það er nauðsynlegt púsl í þá mynd sem varpað er upp af hinu frjóa tímabili sem staðið hefur allt frá því að hann hlaut Jónasarverðlaunin og var settur á heiðurslaun listamanna.

 

Eyjólfur bóndi og einhyrningurinn

Þrátt fyrir þá fjölmörgu agnúa sem finna má á verkinu Viðrini veit ég mig vera eftir Óttar Guðmundsson má segja að fyrir áhugafólk um Megas, sem og samferðafólk á sjöunda áratugnum, sé um verk að ræða sem það hefur gaman af að glugga í. En það er langt í frá að vera ævisaga eða fullburða verk um höfundarverk Magnúsar Þórs Jónssonar og fábreytilegar skorpur eru teknar í orðræðunni um dauðasyndirnar.

Það er gott í hilluna með öllu hinu Megasar-dótinu, ef fólk er með svoleiðis, en ef fólk er ekki að safna þá eru önnur verk eigulegri. Það vantar t.a.m. mikið uppá að myndir fylgi bókinni sem segi söguna á sjónrænan hátt, þó nokkur myndverk eftir Magnús séu birt og plötuumslögin. Ef maður treystir því að þær frásögur af kveikjum textanna sem Óttar vísar til að Megas deili með sér, séu sannar þá er þar ný sjónarhorn að finna á allskyns texta og fyrir áhugafólk er eins akkur að þeim. En verkið líður fyrir hátt flækjustig þar sem rödd Óttars sjálfs verður á köflum of hávær til þess að maður hafi húmor fyrir öllum hans órum um annars óra. Þeir varpa nefnilega upp skýrari mynd af áhugamálum Óttars en Magnúsar á stundum, án þess að hann þori að stíga út fyrir ramma sem mótast af því að vera – að eigin áliti – frjálslyndur og ögrandi. Á endanum er verkið nefnilega mjög vel innan rammans og mun borgaralegra en höfundurinn vill vera láta þegar fyrirvararnir eru lagðir í upphafi verksins. Það þýðir um leið að hinn breyski maður Magnús Þór, er ekki í sviðsljósinu, þrátt fyrir allt, heldur hin mytólógíska fígúra Megas, Einhyrningur sem Óttar í gervi Eyjólfs bónda hefur unun af því að elta, og mun til enda veraldar ef heldur sem horfir.

 

Arnaldur Máni Finnsson, áhugamaður um höfundarverk MÞJ