Risið uppúr beyglinu

allar3hystoryum Hystory eftir Kristínu Eiríksdóttur í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar

Höfundur: Kristín Eiríksdóttir
Leikstjóri: Ólafur Egill Egilsson
Leikarar: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Birgitta Birgisdóttir og Elma Lísa Gunnarsdóttir
Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger
Lýsing: Valdimar Jóhannsson
Tónlist: Högni Egilsson og Valdimar Jóhannsson
Hljóð: Baldvin Magnússon

Sögur kvennanna þriggja sem við kynnumst á sviðinu í Borgarleikhúsinu, í leikritinu Hystory í uppsetningu Sokkabandsins, sitja í manni þegar farið er heim og næstu daga. Það er hægt að túlka verkið og persónur þess með margskonar leiðum. Fjallar það um heiftina í mannlegu eðli, breyskleikann eða þörfina fyrir að gera upp áföll?

Kveikjan að verkinu virðist vera vangavelta um örlög kvenna sem „lenda í“ að beita ofbeldi. Það má í raun segja að þannig sé verkið innblásið af sannsögulegum atburðum, í ljósi þess að það sem bindur konurnar saman og sundraði um leið, er atburður sem átti sér stað í Reykjavík fyrir rúmum 20 árum. Það má þó ekki verða að aðalatriði, hvorki í umfjöllun um verkið né í þeirri leiktúlkun sem notast er við þegar ljóðrænn texti Kristínar er settur á svið. Sagan er fyrst og síðast saga þriggja vinkvenna sem eyddu grunnskólaárunum í slagtogi við hverja aðra en misstu sjónar á hverri annarri í kjölfar áfalls. Þær eru saman komnar eina kvöldstund heima hjá Dagnýju (Elma Lísa Gunnarsdóttir) sem í fyrstu virðist sú þeirra sem hefur komið sér best fyrir í lífinu (aðjúnkt við Háskóla Íslands).

Þrjár hliðar á sama peningnum?

Það er mikilvægt að velta því fyrir sér hvernig við tölum um og túlkum drifkraftinn á bakvið þessar persónur Kristínar, undir leikstjórn Ólafs Egils, í meðförum Elmu Lísu, Birgittu Birgisdóttur (Lilja) og Arndísar Hrannar Egilsdóttur (Begga). Kannski skiptir miklu máli hvaðan við sjálf komum og hversu mikið drama hefur verið í kringum okkur í lífinu. Hvernig ofbeldi höfum við beitt og verið beitt eða hvernig fáum við útrás fyrir reiði í lífinu? Það stakk mig á einhvern hátt að hlusta á viðtal við leikstjórann í Víðsjá, stuttu fyrir frumsýningu á verkinu, þar sem reiðin var gerð að aðalatriði í verkinu; að við værum að fylgjast með afleiðingunum af bældri reiði. (Ég vil taka það fram að ég hlustaði vissulega á viðtalið eftir að hafa upplifað verkið.) Í viðtalinu hélt Ólafur því á lofti að þær væru allar reiðar og það hefði verið nauðsynlegt að reyna færa þessa reiði upp á leiksviðið. (Þar var því að auki haldið fram að konur hefðu færri leiðir til útrásar fyrir reiði í nútímasamfélagi en það væri of langt farið út fyrir rýni í Hystory að fjalla um þá afskaplega hæpnu yrðingu.) Nóg um það. Hér er verkið til umfjöllunar en ekki viðtalið við Ólaf Egil og Kristínu og eðlilegast að snúa sér að því.

Ljóðrænn og hlaðinn texti

Ljóst er að Kristín er eitt okkar efnilegasta leikskáld og síðasta verk í fullri lengd, Karma fyrir fugla sem hún skrifaði með Karí Ósk Grétudóttir, í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur, afskaplega falleg og sterk sýning. Ef til vill er óeðlilegt að bera verkin saman en þó verður að gefa því gaum að hið ljóðræna í textanum er afskaplega mikilvægur þráður í höfundarverki Kristínar. Hystory hefst einmitt á þessum nótum, með ljóðrænum mónólógum sem draga mann inn í heim verksins áður en hinar raunsæislegu aðstæður, þar sem þrjár manneskjur eru samankomnar með augljósan ásetning – að gera eitthvað upp – leiða söguþráðinn af stað.

Við kynnumst þessum persónum Arndísar (Beggu), Elmu Lísu (Dagnýjar) og Birgittu (Lilju) í raun mjög hratt; þær eru allar á útopnu gagnvart hvor annarri auk þess sem að þær snúa sér að áhorfendum til að eiga við þá einhverskonar díalóg. Áköfust er Begga, sú þeirra þriggja sem verst er stödd félagslega séð og reiðust, ef við leyfum okkur að halda þeim túlkunarlykli á lofti áfram. Dagný er sú sem valdið hefur í þessum aðstæðum, hún hefur boðið hinum til sín og hefur félagslega sterkustu stöðuna, en auk þess áttum við okkur á því þegar líður á verkið að á bakvið yfirborð aðjúnktsins í félagsfræðum býr margt óuppgert. Verkið ber titil sinn af því að Dagný ljóstrar því upp snemma að hún hafi vísað fyrrum sambýlismanni sínum út fyrir að hafa verið að grafast fyrir um fortíð hennar. Fortíð sem er sameiginleg fortíð þeirra þriggja.

Textanum vantreyst?

Lilja er um margt kostulegust og grætilegust af þessum þremur konum, hún er kannski venjulegust og óuppfylltust, en þegar líður á verkið vorkennum við henni mest og Birgitta fær séns á safaríkustu senunum í verkinu. Við hana er kannski einfaldast að tengja því hún hefur alltaf verið að þóknast og spyrja. Hún er sú sæta sem hinar tvær hafa sóst eftir að vera með og vernda. Hún er vinalaus og umkomulaus á þessum tímapunkti ef við reynum að nálgast persónuna í gegnum það sem hún gefur upp, meðvirk og óhamingjusöm, en að mínu mati fer jafnvel þessi karakter í sama farið og hinar í leikstjórn Ólafs Egils. Það er eins og hann tengi ekki við ljóðrænu textans, eða hefur a.m.k. ekki áhuga á að hægja á tempói sýningarinnar til þess að leggja áherslu á draumkenndan hugarheim persónanna. Það hverfur t.a.m. allur munur á því hversu örvæntingafullar þær eru eða óhamingjusamar, blæbrigðin á milli persónanna sem eru undirbyggð í textanum hverfa í ákveðinni farsatúlkun á þessum þrem systrum.

 Að elska þessar konur

Begga, Dagný og Lilja eru einstæðingar þrátt fyrir allt, elskuverðar hver um sig en verkið fer ívið of mikið að fjalla um þær sem eina sál; hvernig þær áttu æsku saman, urðu útundan saman og kölluðu yfir sig fordæmingu, saman. Þær verða að hópi – og vandi verksins er sá. Það er mjög sterkt að í upphafi verksins hittum við þrjár ólíkar konur, tvær nokkuð venjulegar og eina útskúfaða, og fallegt hvernig við áttum okkur hægt og rólega á því að þær eiga allar bágt að einhverju leyti. (Við áttum okkur t.d. á því að sú útskúfaða er ekki sú óhamingjusamasta osfrv.) Það sem vantar aftur á móti uppá er að það hverfur í hasarnum þær eiga sér allar margar hliðar eins og við sjálf og eru ekki bara þrjár hliðar á sama peningnum (frumkvæða metnaðargjarna hliðin, meðvirka þjónandi hliðin og hömlulausa skapandi hliðin). Þær framandgerast að mínu mati sem hópur sem við getum fjarlægt okkur frá. Þær eiga það sameiginlegt að hafa framið glæp – áhorfandinn þarf ekki að taka þær með sér heim; þær eru svona týpur sem mistókst og eiga sér ekki viðreisnar von. Eða hvað?

 Drama eða farsi?

Styrkleiki verksins felst í ljóðrænum texta sem hleypir okkur inn í hugarheim persónanna umfram raunsæislegt yfirborð, hann er uppfullur af drama sem þarf ekki að leika og felur í sér blæbrigði sem gefa öllum persónunum skýr einkenni. Og það er mjög margt fyndið, ef við erum tilbúin til að horfast í augu við breyskleikann.

Veikleiki uppsetningarinnar felst aftur á móti í því að það er um of verið að reyna skemmta áhorfendum; nánast í hvert skipti sem texti verksins býður upp á það. Alltof oft er verið að „leika“ það sem er verið að segja – og þar með alltaf verið að viðhalda þræði sem er að mörgu leyti vanstilltur í verkinu; samræðunni við áhorfendur. Dramatík og ljóðrænu textans er ekki treyst til að heilla áhorfandann og því mörgum brellum leikhússins ofbeitt. Tónlist og lýsing, skjávinnsla og annað sem mótar þessa umgjörð er prýðilega unnið, en í of mikið lagt til að halda áhorfandanum í stuði. Gangurinn í sýningunni er allavega mjög kraftmikill og mikið show en um leið verður stefnumið sýningarinnar bara eitt. Að komast að því hvað gerðist. What is the drama all about?

 Glæpurinn eða lausnin?

Persónurnar eru allar þrjár sterkar og áhugaverðar, það býr mikið á bakvið hverja og eina og það innlit í æsku þeirra sem við verðum vitni að gefur okkur færi á að skilja þær að einhverju leyti. Þess vegna er í raun boðið upp á of fáar lausnir til túlkunar í lok verksins. (Það kemur raunar alltof fátt til greina sem svarið við þessari spurningu. Er það A) útskúfunin sem þær urðu fyrir áður en þær frömdu glæpinn eða B) fordæmingin sem þær upplifðu í kjölfarið og sundraði þeim?)

Vandinn er nefnilega sá að þær eru orðnar flóknar og miklar persónur sem skýrast ekkert frekar af því að við vitum í hverju glæpurinn fólst. Ég held að minnsta kosti að áhorfandinn sé ekki tilbúinn til að fordæma þær þegar reynt er að hefja verkið á loft með kraftmiklum leikhúsbrellum þar sem við „verðum vitni að reiðinni“ sem umkringir glæpinn með reyk, stappi og músík. Þær ásaka hverja aðra, hver þeirra hafi kallað þennan atburð yfir þær – og sættast svo í samhljómi nostalgíunnar. Þetta er að mínu mati alltof einföld lausn, þó hún geti hentað fyrir það form sem leikhúsin leggja mikla áherslu á að halda til streitu, rúmlega klukkutíma löngum sýningum án hlés, þar sem mikið er gefið í og svo bara allt búið. Maður fann það alveg á áhorfendum að þeir vissu ekki alveg hvaðan stóð á þá veðrið þegar sýningunni lauk. Áhorfendur vildu fá að vita meira um þessar konur. Það var ekki nóg að þær ætluðu að hverfa til nostalgíu æskunnar þar sem þær væru alltaf vinkonur, heldur vildum við sjá lausn þeirra mála í dag. Það skipti í raun og veru miklu meira máli heldur en að draga fram í dagsljósið hvernig glæp þær höfðu einhverntíma framið.

En það er kannski ekki hægt að kvarta undan því nú til dags að sýningar séu of stuttar?

Gulræturnar tvær

Það sem ég á við að það er á einhvern hátt tvær gulrætur í verkinu; önnur drífur söguþráðinn áfram – hvernig komumst við að því hvað þær gerðu; hin dregur persónusköpunina áfram – hvernig geta þessar konur fundið lausn sinna mála? Þó að margt sé vel unnið og sýningin áhugaverð sem umfjöllun um ákveðin efni (hugarheim unglingsstelpna, útskúfun, ofbeldi og afleiðingar þess) þá hefði vel mátt klippa út „endurupplifun“ þeirra á ofbeldisglæpnum (eða sensationalismann) og leggja áherslu á að þær eiga sér von með geðhreinsun (katharsis) af öðrum meiði. Þær eiga nefnilega eftir að vakna eftir þetta sleepover, orðnar að einhverjum glænýjum prinsessum.

 

Arnaldur Máni Finnsson

 

 

TEXTI BORGARLEIKHÚSSINS TIL KYNNINGAR Á VERKINU:

Dagný, Begga og Lilja voru bestu vinkonur í grunnskóla. Þegar þær voru fimmtán ára hættu þær að tala saman. Síðan eru liðin tuttugu ár.

Þær mætast stundum á förnum vegi: í Melabúðinni, á Ægisíðunni eða í ræktinni úti á Nesi. Þær brosa, kinka kolli, segja: Sæææl … en hendurnar dofna og þær verkjar í hjartað. Dagnýju finnst kominn tími til að þær hittist svo hún sendir þeim skilaboð á Facebook og býður þeim heim til sín í kaffi. Hana langar til að hreinsa andrúmsloftið en Beggu finnst ekki vera hægt að laga til í minningum annarra og Lilja man ekki neitt.

Kristín Eiríksdóttir er myndlistarmenntaður rithöfundur. Fyrsta bókin hennar, Kjötbærinn, kom út árið 2004. Á eftir fylgdu svo ljóðabækurnar Húðlit auðnin (2006) og Annarskonar sæla (2008). Árið 2010 kom út smásagnasafnið Doris deyr og haustið 2012 sendi hún frá sér sína fyrstu skáldsögu, Hvítfeld – fjölskyldusaga. Hún hefur einnig skrifað tvö leikrit: Karma fyrir fugla ásamt Kari Ósk Grétudóttur, sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu í febrúar 2013 og Skríddu sem sett var upp í Borgarleikhúsinu í apríl 2013.