Falstaff and his mistress quickly eftir listamanninn Francis Philipp Stephanoff. Circa 1840.

Fituskömmunarþríleikurinn

Atburðarás
Falstaff er búsettur í Windsor ásamt tveimur gömlum félögum sínum og unir hag sínum illa, auralaus og vansæll. Hann ákveður að koma sér í mjúkinn hjá tveimur vel stæðum frúm í bænum, hafa af þeim gaman og fé. Frúrnar Ford og Page ákveða að refsa honum grimmilega fyrir biðilsbréfin. Frú Ford læst hafa áhuga en tekst í tvígang að koma karlinum í ljótar klípur þegar hún segir eiginmann sinn á heimleið á versta tíma. Sem er reyndar rétt, því félagar Falstaffs hafa kjaftað áformum hans í hinn afbrýðisama hr. Ford og hann situr um að standa konu sína að verki. Page-hjónin eiga dóttur sem elskar hinn unga Fenton, en faðir hennar vill gifta hana ríka aulanum Slender, og móðir hennar kýs helst geðstirða franska lækninn dr. Cajus fyrir dóttur sína. Að lokum tekst henni þó að fá Fenton, Ford sannfærist um tryggð eiginkonu sinnar og Falstaff fær makleg málagjöld, allt í góðu þó.

The Merry Wives of Windsor is a very dull play indeed. We can be grateful for it having been written, because it provided the occasion of Verdi’s Falstaff, a very great operatic masterpiece. Mr. Page, Shallow, Slender and the Host disappear. I have nothing to say about Shakespeare’s play, so let’s hear Verdi

(Fyrirlestur WH Auden í kúrsi um verk Shakespeares við New School for Social Research í New York 1946–47)

Samhengi skiptir máli. Það á ágætlega við um The Merry Wives of Windsor, sem skipar ekkert sérlega virðulegan sess í höfundaverki Shakespeares. Forvitnilegan þó, samhengisins vegna, að tvennu leyti.

Í fyrsta lagi er það tilurðarsagan og ritunartíminn. Hún fór snemma á kreik, þjóðsagan um að skáldið hafi skrifað verkið að kröfu Englandsdrottningar, sem var víst alls ekki búin að fá nóg af Falstaff eftir tvö leikrit og bað um eitt til, þar sem feiti riddarinn væri ástfanginn. Afraksturinn á að hafa verið þetta verk, sem heitir reyndar Falstaff, and the Merry Wives of Windsor í fyrstu prentuðu útgáfu. Á þessi saga að skýra fljótaskriftina sem er á verkinu, sem er að mestu leyti í óbundnu máli, og reyndar er það hlutfall enn hærra í fyrrnefndri frumútgáfu. Ekki fylgir sögunni hvernig Elísabet tók því að þó hennar maður sé vissulega á biðilsbuxunum hér, er hann svo sannarlega ekki ástfanginn, nema þá af sjálfum sér eins og löngum.

Ritstjóri Ardenútgáfu verksins er Giorgio Melchiori, emerítusprófessor við Rómarháskóla, og hann blæs á þessa gömlu sögu. Hans kenning um uppruna Merry Wives er flókin. Hann rekur hluta verksins, bæði ljóðatexta lokakaflans og lært orðaleikjagrín sem tekur mikið pláss hér og hvar, til hátíðahalda Sokkabandsorðunnar 1597, en þar hafi leikflokkur Shakespeares sýnt einhverskonar „Masque“, skrautsýningu eða grímuleik, þar sem dygðir sannra riddara og lestir hinna ósönnu voru tíundaðir og sýndir. Um tveimur árum síðar hafi svo orðið til gamanleikurinn um viðreynslu Falstaffs við hinar virðulegu borgarafrúr í Windsor, frú Ford og frú Page. Fyrrnefnd frumútgáfa hans sé minnisvarði um þá gerð, en þó ekki með orðum Shakespeares, heldur hafi einhverjir úr leikhópnum rifjað upp textann fyrir prentunina. Enn síðar hafi svo þessum textum: alþýðlegum skopleiknum (ekki upprifjuninni samt) og hátimbruðu masque-inu, verið steypt saman og útgáfa þeirrar gerðar verið lögð til grundvallar fyrir heildarútgáfuna 1623.

Þetta er ekki verri kenning en hver önnur. Það er gaman þegar fræðimenn sýna dirfsku í kenningasmíð, og það vekur athygli að Melchiori er eini editorinn sem ég hef séð kinka kolli í átt að að góðkunningja okkar Eric Sams og hans jaðarkenningum um fyrsta hluta ferilsins. Kenning Melchioris um Merry Wives hefur reyndar í för með sér að leikritið sé aftar í röðinni en í þeirri krónólógíu sem ég er að nota. Hér og þar á internetinu eru raðir þar sem verkið er sett næst á eftir Hamlet, heilum sex leikritum síðar en „mín“ röð segir. En það skiptir ekki öllu svo sem.

Hitt samhengismálið er ekki síður forvitnilegt. Hvernig passar Merry Wives inn í söguna af Falstaffi? Og skiptir það máli? Er eitthvað vit í að skoða sögu Falstaffs alla, frá fyrstu kynnum við hann í 1 Henry IV þar til dauða hans er lýst í öðrum þætti Henry V?

Það er í það minnsta gaman að skoða hvort það er vert að skoða. Fyrirfram blasir við að hér sé sögð samfelld saga, það séu röktengsl milli hluta hennar. Þar skiptir máli að Merry Wives gerist einmitt í Windsor. Þar héldu fyrrum hermenn til og kölluðust „The Poor Knights of Windsor“.

Þeir bjuggu við kröpp kjör og strangan aga, naumt skammtaðan lífeyri og tvær messur á dag. Ekki ólíkt detoxi því sem Hinrik fimmti leggur á sinn gamla drykkufélaga í lokaræðu sinni í 2 Henry IV:

I know thee not, old man: fall to thy prayers

2H4, 5.5.47

og

For competence of life I will allow you,
That lack of means enforce you not to evil:

2H4, 5.5.66–67

Að þessu leyti fellur Merry Wives ágætlega að forsögunni, þó við verðum reyndar ekki mikið vör við kirkjurækni í verkinu og velski presturinn sem er plássfrekur hér geri engar athugasemdir við hvað riddararnir eru fáséðir við guðsþjónustu. En fátæktin er hinsvegar drifkraftur atburðanna, fær Falstaff til að reyna við tvær ríkustu frír bæjarins í von um að komast í buddurnar (afsakið).

Þess má svo geta í fróðleiksframhjáhlaupi að eggjabrauðsrétturinn „fátækir riddarar“ heitir einmitt „Poor Knights of Windsor“ á ensku.

Í fylgdarliði Falstaffs eru kunnugleg nöfn, bæði Bardolph og Pistol hafa fylgt honum á elliheimili uppgjafahermanna. Reyndar líka Corporal Nym, sem hefur ekki komið við sögu klíkunnar áður, en er síðan persóna í Henry V eins og þeir B & P.

Málið vandast aðeins þegar kemur að Mistress Quickly. Hún er hér líka, en er komin í nýtt djobb. Er ekki lengur veitingakona og/eða vændishússtýra heldur ráðskona hjá virðulegum frönskum lækni. Og það sem verra er; það er engu líkara en þau Falstaff hafi aldrei sést áður þegar hún kemur á fund hans að reka erindi kvennanna kátu og gabba karlinn til ástarfundar.

MISTRESS QUICKLY
Give your worship good morrow.

FALSTAFF
Good morrow, good wife.

MISTRESS QUICKLY
Not so, an’t please your worship.

FALSTAFF
Good maid, then.

MISTRESS QUICKLY
I’ll be sworn, as my mother was, the first hour I was born.

FALSTAFF
I do believe the swearer. 

2.2.32–38

Það sama má segja um Justice Shallow, sem bæði virðist fluttur milli héraða á gamals aldri, og vera hættur að vera gamall vinur og skólabróðir Falstaffs.

Svo er þess að geta að hér er ungur maður að nafni Fenton, vonbiðill ungfrú Önnu Page, en foreldrar hennar hafa hugsað sér að gefa hana annað hvort veimiltítunni Slender (pabbinn) eða rígfullorðnum og geðillum frönskum lækni (mamman). Það sem pabbinn hefur á móti Fenton er fortíð hans:

The gentleman is of no having: he kept company with the wild prince and Poins …

3.2.64–66

Fenton kemur ekkert við djammsögu prinsins í fyrri verkum. En auðvitað gerum við ráð fyrir að þau séu ekki tæmandi heimild um ólifnaðinn.

Það eru semsé bæði skýrar tengingar og æpandi ósamræmi. Sem er bara fínt. En þegar hinu tæknilega sleppir þá þarf að horfast í augu við stærstu skekkjuna: Falstaff sjálfan. Sá feiti er hér varla heill né hálfur maður miðað við hinn ódrepandi og óniðurkveðanlega gleðibelg Hinriksverkanna. Hér er hann heldur ósjálfbjarga, því er verr. Hefur enga stjórn á sitúasjónum og litla málsnilld. Óskammfeilnin rétt dugar til að reyna við frýrnar, en alls ekki til að gera gott úr klípunum sem viðreynslan skilar honum í. Hefði originallinn t.d. ekki skrifað rismeira bónorðsbréf en þetta?

‘Ask me no reason why I love you; for though Love use Reason for his physician, he admits him not for his counsellor. You are not young, no more am I; go to then, there’s sympathy: you are merry, so am I; ha, ha! then there’s more sympathy: you love sack, and so do I; would you desire better sympathy? Let it suffice thee, Mistress Page,–at the least, if the love of soldier can suffice,– that I love thee. I will not say, pity me; ’tis not a soldier-like phrase: but I say, love me. 

By me, Thine own true knight,+
By day or night,
Or any kind of light,
With all his might
For thee to fight,
JOHN FALSTAFF’

2.1.4–15

Einstaka glampar af gömlu snilldinni er reyndar að finna hér og þar:

Well, if I be served such another trick, I’ll have my brains ta’en out and buttered, and give them to a dog for a new-year’s gift. 

3.5.5–7

En almennt er Falstaff ekki svipur hjá sjón hér. Það verður líka að segjast að skrautlegu aukapersónurnar eru ákaflega þreytandi. Melchiori bendir á líkindi Merry Wives við Love’s Labour’s Lost hvað varðar fyrirferð orða- og málfarsgríns. Formlega séð eru líkindin ljós, en himinn og haf milli áhrifanna. Ofmenntuðu vitleysingarnir í LLL eru talsvert skemmtilegri en málhöltu glóruleysingjarnir hér. Hinir ótalandi séra Hugh og franski læknirinn eru lítið fyndnir, og það sama má segja um „Brávallagötumálfar“ Mistress Quickly. Eins langar mann fljótt að stinga skítugum sokkum upp í bæði kráareigandann sem notar „bully“ í hverri setningu, og fyrrnefndan Nym, sem er álíka viss um að það sé sniðugt að ofnota orðið „humour“.

Af þeim sem ekki ráða við tunguna í sér er vonbiðillinn Slender eiginlega skemmtilegastur:

Mistress Anne Page? She has brown hair, and speaks small like a woman.

1.1.43

og

SHALLOW
Mistress Anne, my cousin loves you.

SLENDER
Ay, that I do; as well as I love any woman in Gloucestershire.

3.4.42–43

Meiri aulinn. Við skiljum vel hana Önnu, sem er eins og allar ungar eftirsóttar stúlkur í Shakespeareleikritum, orðheppin og vel læs á aðstæður og vonbiðla:

Alas, I had rather be set quick i’ the earth
And bowl’d to death with turnips!

3.4.85–86

Bullukollarnir dr. Cajus, sir Hugh, Shallow og Slender eru fyrirferðarmiklir fyrst í stað en það er ekki fyrr en frúrnar Ford og Page mæta sem gleðin tekur völd, eða sækist allavega eftir þeim. Þær eru stórksemmtilegir karakterar án þess að því fylgi einhver sérstök áreynsla. Bara vel skrifaðar og trúverðugar kellingar með bein í nefinu.

Hér er frú Ford:

What tempest, I trow, threw this whale, with so many tuns of oil in his belly, ashore at Windsor?

2.1.56–58

og militant-feministinn frú Page:

Why, I’ll exhibit a bill in the parliament for the putting down of men.

2.1.23–24

Og auðvitað er hún líka konan sem umsvifalaust fer að velta því fyrir sér hvað HÚN hafi gert þegar karl hegðar sér óviðeigandi:

… it makes me almost ready to wrangle with mine own honesty. I’ll entertain myself like one that I am not acquainted withal; for, sure, unless he know some strain in me, that I know not myself, he would never have boarded me in this fury.

2.1.75–79

Herra Ford er líka fjári flottur karakter, bæði glórulaus í afbrýðisemi sinni, en líka með talsverða glóru og fljótur að læknast þegar sönnunargögnin eru lögð fyrir hann. Mun betri en þeir Othello og Leontes, en Merry Wives er að sjálfsögðu fyrsta leikrit Shakespeares þar sem yfirþyrmandi afbrýðisemi eiginmanna er drifkraftur atburða.

Þetta er líka eitt hið fyrsta Shakespeareleikrit – ef ekki einfaldlega ÞAÐ fyrsta – sem tónskáld og líbrettistar gripu til í efnisleit fyrir óperur, eftir að sú öld gekk í garð. Hvað það segir um listræna dýpt óperuformsins að flatasti og ómerkilegasti gamanleikur skáldsins sé vinsælasta viðfangsefnið skulum við ekki hætta okkur út í. Þær eru orðnar þónokkrar, óperurnar upp úr The Merry Wives of Windsor. Ég gerði mér lítið fyrir og hlustaði á tvær slíkar. Önnur þeirra er ein sú elsta: Falstaff eftir ekki ófrægari (óillræmdari) mann en hirðtónskáld Jóseps II Habsborgarakeisara, Antonio Salieri. Frumflutt í Vínarborg 1799. Snyrtilegt verk, búið að klippa burt öll súbbplott og óþarfa persónur og bæta við ókjörum af leiðinlegu tónlesi. Svo eru þarna nokkrar verklegar aríur. Allt í lagi bara.

Samnefnd ópera Verdis er hinsvegar vel rúmlega allt í lagi, eins og Auden var búinn að benda okkur á. Svei mér ef þetta er ekki bara uppáhaldsóperan mín. Myljandi sniðug og algerlega laus við hangs. Skilst líka að hún sé nokkuð frumleg smíð, ekki síst ef tekið er tillit til þess að Giuseppi var um áttrætt þegar hann samdi, og Falstaff varð hans síðasta verk, frumflutt á Scala 1893, sama ár og Sólnes byggingameistari eftir Ibsen fór upp. Hér er t.d. lokasöngurinn, fúga þar sem allir syngja glaðir í sinni eitthvað á þá leið að „öll erum við nú hálfvitar“, sem er svo sannarlega ekki lygi.

Uppfærsluna fann ég á hinum snilldarlega vef Naxos Video Library, sem maður fær aðgang að með bókasafnsskírteini á Borgarbókasafninu og ég mæli með að fólk nýti sér óspart (það er líka Music Library). Hún er frá Glyndebourne óperunni í Englandi, leikstjórinn heitir Richard Jones, og hefur unnið glæsilega úr efniviðnum. Stórfallegt lúkk og nostrað við smáatriðin. Ástar-haturssamband mitt við óperur varð heldur betur meira „complicated“ við þetta gláp.

Eina uppfærsla verksins sjálfs sem mér var handbær var sú úr BBC-heildarútgáfunni. Merry Wives var frumflutt 1982, þremur árum síðar en fyrri Falstaff-verkin, og er greinilega ekki hugsuð í neinu listrænu samhengi við þau. Það stingur nánast í stúf að einn leikari fer aftur í sama hlutverk og í Henry IV-leikritunum, Gordon Gostelow sem Bardolph. Því hvorki Pistol, Mistress Quickly, Corporal Nym né Justice Shallow eru hin sömu og þá. Og hér er það Richard Griffiths sem er Falstaff, og það er allt önnur ella en snilldartúlkun Anthony Quayle í fyrri verkunum.

Griffiths er sérkennilega daufur í hlutverkinu. Lítur reyndar helvíti reffilega út, og er talsvert grennri en síðar varð, t.d. þegar Íslenskir sjónvarpsáhorfendur kynntust honum sem spæjarakokknum Henry Crabbe í Pie in the Sky um miðjan tíunda áratug síðustu aldar.

Griffiths setur aldrei í „djöfull er ég snjall og orðheppinn“ gírinn. Verður fyrir vikið frekar litlaus, sem er mjög skrítið. Það er ekki hægt að leika Falstaff fyrri leikrita svona. Og það er málið – þetta er ekki hann!

Myndin er annars helvíti fín. Einvalalið þarna. Ben Kingsley er snilldarlegur Ford og Judy Davies og Prunella Scales dýrðlegar sem maddömurnar móðguðu. Fyndið að heyra Judy Davies hræra óvart nokkrum áströlskum sérhljóðum saman við west-country enskuna sem lögð er til grundvallar í þessu Windsori. Þarna bregur líka fyrir einum dáðasta leikara Breta sem aldrei varð heimilisvinur sjónvarps- og bíóglápara, Michael Bryant, sem er kröftugur dr. Caius, en kemst svo sem ekki langt með það leiðinlega hlutverk. Ron Cook, sem nokkrum mánuðum síðar var aldeilis prýðilegur Ríkarður III í Rósastríðaleikritunum og sinni eigin tragedíu, er hér í pínulitlu þjónshlutverki. Eisabeth Spriggs dásamleg Mistress Quickly. Og þjóðargersemin Alan Bennett, sem er aðallega þekktur sem rithöfundur (einn af mínum uppáhalds) er Justice Shallow. Rifjast þá upp dagbókarfærsla frá honum þessu tengd.

13 October. I am rehearsing Merry Wives of Windsor for TV, in which I play Justice Shallow. Today I go for a costume fitting to find I am dressed from head to foot in red brocade. I look like an animated tandoori restaurant.

The Merry Wives of Windsor er, þrátt fyrir sterk og mótsagnakennd tengsl við tvö af frægustu og merkustu leikritum skáldsins, pínu eyland í höfundaverkinu. Næstum án bundins máls. Eina leikritið þar sem „venjulegt“ fólk í smábæ er í forgrunni, og eina leikritið sem hverfist um tvær miðaldra konur. Eina kómedían sem gerist í Englandi, og þó hún standi í sögulegu samhengi við fyrri hluta fimmtándu aldar er allt innihaldið kirfilegu bundið við ritunartímann. það er auðvitað heillandi, en á líka sinn þátt í að gera verkið minna virði sem „fúnkerandi“ gamanleik í dag. Of mikið af smáatriðum úr smáborgaralífi Elísabetartímans. Of mikið af trénuðum bröndurum.

Ekki algalið þó. Fjölskyldurnar tvær eru fjári vel mótaðar og það er einhver raunsæ rót í þeim sem trompar þegar best lætur áreynsluna í gríninu. Við stöndum með þeim frúum, Ford og Page, þó þær séu á endanum ansi andstyggilegar við aumingja gamla biðilsbelginn.

Talsvert neðarlega á listanum yfir bitastæðustu leikrit Shakespeares. En merkilegt sjálft á sinn einstaka hátt. Það er gaman að hann skuli hafa getað skrifað svona líka. Og gott að það tókst ekki svo vel að hann hætti í háfluginu og djúpköfuninni.

Textinn.

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.