Mynd: Ragnheiður Harpa. https://www.instagram.com/ragnheidurharpa/

Skyldu sorgirnar verða eyrnamerktar?

Slitförin er ekki auðveld bók, hvorki aflestrar né að umfjöllunarefni. Jafnvel titilinn mætti skilja á tvenna vegu: slitför henda margar konur eftir barnsburð, órækur vitnisburður um líkamlega áreynslu meðgöngunnar. En leiðin til sátta þar sem ekki er gróið um heilt eftir sár fortíðar getur sömuleiðis verið slítandi, eins konar slitför. Þannig verða slitför móðurinnar táknræn fyrir öll samskipti hennar og dótturinnar, en sú síðarnefnda er ljóðmælandi bókarinnar. Faðirinn er að mestu fjarlægur, og lesandi fær jafnvel á tilfinninguna að hann hvorki vilji né telji sig bera mikla ábyrgð á nokkru undangengnu. Söguna fáum við svo í slitrum, ljóð fyrir ljóð.

Þetta er svona bók sem verður betri því oftar sem hún er lesin. Góðar ljóðabækur eru þannig að helst þarf að lesa þær þrisvar með stuttu millibili, leyfa huganum aðeins að marinerast í textanum. Þannig náði Slitförin mér mest á milli lestra, svo næst þegar ég tók hana upp þá sá ég hana í nýju ljósi.

Upphafsljóðið „Mamma“ slær strax sterkan tón í upphafi bókar með náttúrulýsingum á líkama móður sem er heillum horfin: „undir augum hennar / lækjarfarvegir“. Þetta fyrsta ljóð stendur utan afgangs bókarinnar sem annars skiptist í þrjá kafla: Skurð, Slitförin og Sauma. Líkingamálið helst í gegnum bókina, tíðar náttúrulýsingar, mæðgurnar rauðhærðu sem líkt er við eldfjall sem tekur að hokna. Í næsta ljóði, „Keisari,“ er ljóðmælandi tekin með keisaraskurði:

eins og kaka
sem er að brenna

og jú
það logaði aðeins í hárinu

Sífellt reynir ljóðmælandi að átta sig á foreldrum sínum, og leitar leiða til skilnings um myndlíkingar. Þannig er foreldrum ljóðmælanda líkt við fugla í ljóðinu „Á ystu nöf“: hún er rjúpa, hann fálki. Hann fer á eftir nýrri bráð þegar hún „fór að sýna sig / í hvaða ham sem var.“ Þannig er einnig um ljóðið „Melrakkar,“ sem ber með sér nýja dýralíking fyrir foreldrana; hún mórauð, hann hvíthvítur (skemmtileg lýsing), og þau skiptast á að hverfa hvort öðru sjónum, ofan í snjóbreiðuna eða inn í lyngið. Þriðja líkingin er svo í þriðja hluta bókarinnar, í ljóðinu „Selir eða sjómenn,“ þar sem óvænt og óhugnanleg þjóðsagnavísun ber móðurina saman við konu sem hefur verið rænd selsham sínum og haldið fanginni af föðurnum, eða var það öfugt? Hún man það ekki, „gleymskan /er vond þoka […] síðan gliðnar / sagan í sundur // í hlið föður þíns / í hlið móður þinnar“. Sannleikurinn um það hvernig núverandi ástand er raunverulega tilkomið getur aldrei borist ljóðmælanda ómengað; hver hefur sína útgáfu af atburðum, og ekki endilega mikið að marka neina þeirra. En ljóst er að fortíðin er dökk.

Ég veit að gagnrýnandi skyldi varast að falla í þessa gryfju en ég þykist skilja um hvað bókin er og að hún sé mjög persónuleg; mér finnst það vegna þess að ég þekki umfjöllunarefnið eins og ég skil það af eigin raun. Ef til vill litar það lesturinn, en það hefur ekki meiri áhrif á álit mitt á bókinni en svo að ef hún er ekki skrifuð af persónulegri reynslu þá er hún eftir sem áður skrifuð af mikilli næmni. Á hvorn veginn sem er þá eru það meðmæli með bókinni.

Stundum þykja mér ljóðin helst til löng. Kannski er ég að verða meiri mínímalisti með árunum, en yfirleitt þegar ljóð teygir sig yfir á næstu opnu í Slitförunum þætti mér betra ef það hefði stoppað á fyrri síðunni. Til að mynda er ljóðið „Hár,“ mjög kröftugt að mörgu leyti en líður að mínu mati fyrir að vera óþarflega langt (fimm, að vísu ekki heilar, blaðsíður), alveg að þeim mörkum að það dragi athyglina frá meginatriðinu. Það eru svo margar flottar línur í því að það er rétt að taka smá glefsur úr ljóðinu:

og þú orðin varanlega aum
eftir að hafa reynt aftur

að þvo andlit foreldra þinna
framan úr þér

[…]

á haustin er tími til uppskeru
á haustin ætti árið að byrja

en það er arfur í garðinum
sem gleymdist að reyta

svartur arfur svört hár

og eitt þar á milli
rautt eins og ryð

sem ristir langt
ofan í svörðinn

Eitt eftirlætisljóðið mitt í bókinni er „Brunalykt,“ sem hefst á áleitinni mynd af móður sem er að breytast í ósvarað símtal og „heitur faðmurinn / að storkna,“ líkingin við eldfjallið sem er að kulna heldur áfram. Askan, það sem er eftirhreitur hins brunna, þess sem er glatað, berst inn um lúguna hennar. En það er eldur sem hún virðist bera ábyrgð á sjálf, og niðurlag ljóðsins er alveg til að nísta hjartað:

mamma geltir í símann
eins og bundinn hundur
sem fær ekki að koma nær

og þegar hún kemst nær
vill hún ekkert nema greiða þér
leiða þig

flétta löngum fingrum
saman við stutta putta

Sum ljóð í bókinni næ ég ekki tengingu við skal ég viðurkenna, að minnsta kosti ekki í samhenginu; sum eru óræðar stemningar sem lýsa sálarlífi ljóðmælanda, ekki slæm ljóð en stemma ef til vill ekki alveg við heildarmynd bókarinnar. Svo koma kjaftshöggin inni á milli, eins og í ljóðinu „Skömm“:

stelpan mín er í pössun
það er verið að
passa hana

passa hana
fyrir mér

Ljóðmælandi birgir sig inni fyrir móður sinni „þangað sem hún / kemst ekki,“ fleytir dagbókum eins og kertum til að losa sig við minningar nú þegar móðirin er lokuð inni, reynir að hefja nýtt líf á nýjum stað, og nýtt líf innra með henni sjálfri er í fæðingu. Í ljóðinu „Funalind“ birtist þessi skemmtilega úthverfastemning:

aspir

sprautaðar í jarðveginn
eins og bráðabólusetning við bílastæðum

Og beint í kjölfarið kemur það ljóð bókarinnar sem mér þykir mest sláandi, titilljóð bókarinnar:

héðan
segir hún og bendir

þú komst
út úr maganum á mér

áherslurnar hristast í
höndunum

eins og rimlar

nei
segir þú

ég fór þaðan

Ljóðmælandi heldur áfram að leita eigin sjálfsmyndar en pabbinn hringir eins og úr fjarska til að spyrja um veðrið. „Dagamunur“ er fallegt ljóð þar sem angurværð er persónugerð í trjánum. Smám saman færist friður yfir ljóðmælanda, altént skilningur á eigin aðstæðum og annarra. Ljóðið „Saumar“ fjallar um hvernig dóttir og móðir eru gerðar úr sama efni, hvernig þær burðast hvor með aðra ekki einhamar heldur tvíeinar, önnur af hinni komin og því eiginlega eins. Allt það vonda sem því fylgir er myndgert í greftri sem gusast út um illa saumuð örin sem samband þeirra hefur skilið eftir sig. Í ljóðinu „Við sem erum hölt“ hverfur „fyrnd vinkona“ burtu með lest, margnotuð en sígild táknmynd um glötuð tækifæri. Hér reynist engin leið til að tengja á milli lífsins sem var, lífsins sem er og lífsins sem aldrei varð.

En „það er allt í lagi þegar kona er bál“. Það er hægt að kyngja lyklunum að sorginni með saltvatni, þannig er tryggt að það pandórubox verði ekki opnað aftur, altént ekki í bráð. Bókinni lýkur á „Eldfjalli,“ ljóði sem lýsir lausn. Uppgjöri við fortíðina er slegið á frest en þess í stað er horft fram á veginn, í átt til sátta:

í þetta skiptið
göngum við framhjá eldfjallinu

leyfum því að vera

þótt enn sé hægt að pota
í sárið, finna hvar blæddi

leyfum því að gróa

við göngum yfir hraunið
yfir heilu heimilin

yfir víravirki úr silfri
sem voru skilin eftir

gleymum þeim

grasið potar sér áfram
upp rauða hlíðina

tjaldur ybbar gogg

askan verður að
mold, einhvern tíma

við göngum niður að sjó
leggjum brunann í bleyti

og pössum okkur
að sakna einskis

Slitförin eftir Fríðu Ísberg er verk þroskaðs höfundar, nístandi erfitt en ekki alveg laust við kankvísi. Bókin er drekkhlaðin líkingum, tilfinningum og stemningum sem njóta sín betur með hverjum lestri. Bókin er jafnframt hlý, það er ást í henni sem kraumar undir niðri átakanlegu yrkisefninu. Það er þessi hlýja sem gerir bókina. Húmorinn er sömuleiðis glettilegur þar sem hann brýst í gegn, og það er á þeim nótum sem ég vil ljúka dómnum með tilvitnun í ljóðið „Réttir“:

við getum fjallað um þetta
eins og fólk í leit að kindum

ef við finnum þær
heldurðu þá
að sorgirnar verði eyrnamerktar?