Farsælt ástarsamband með húmorinn að vopni

Um leikverkið Ahhh... Ástin er að halda jafnvægi / nei fokk / ástin er að detta

Leikhópurinn RaTaTam bauð upp á dýrindis kvöldskemmtun í Tjarnarbíói föstudagskvöldið 9. febrúar. Þá frumsýndi hópurinn leikverkið Ahhh… Ástin er að halda jafnvægi / nei fokk / ástin er að detta eftir Elísabetu Jökulsdóttur sem er leikstýrt af Charlotte Bøving. Við skemmtum okkur konunglega, ég og gamli maðurinn sem sat við hliðina á mér og auðheyranlega margir aðrir í salnum. Við gátum aldeilis hlegið. Við hlógum ekki alltaf á sama tíma en það kom samt oft fyrir og þá tók allur salurinn undir og hlátrasköllin glumdu. Sýningin er þannig gerð. Hún er skemmtun fyrir alla þá sem hafa einhvern tímann verið skotnir, ástfangnir og ekki síst hryggbrotnir. Verkið á jafn mikið erindi við háskólanema rétt skriðinn yfir tvítugt og eldri mann kominn langt yfir sjötugt. Sýningin býður upp á eitthvað fyrir alla, konur og karla. Ahhh er kannski ekki fyrir krakka með hár, sem eiga eftir að kynnast ástinni, en verkið er alveg tvímælalaust fyrir kalla með skalla, samanber sessunaut minn.

RaTaTam hefur breytt um stefnu frá því að hann setti upp sýninguna Susss… haustið 2016 sem fjallaði um heimilisofbeldi, með aðferð sem kallast verbatim. Þá herma leikararnir alveg eftir frásögnum raunverulegra einstaklinga, að þessu sinni fórnalamba, aðstandenda og gerenda heimilisofbeldis. Þó húmorinn hafi að vissu leyti komið við sögu í Susss… kveður nú við nýjan tón þar sem leikhópurinn vinnur með allt annars konar form: kabarettinn. Það er satírískt form þar sem dansi, söng og leik er blandað saman.

Tónlistin í sýningunni, sem er stjórnað af Helga Svavari Helgasyni, er að langmestu leyti flutt af leikurunum sjálfum. Flutningurinn var ekki mikilfenglegur en það skipti ekki máli því þau atriði sem byggðu á spaugilegum söng voru helstu hápunktar sýningarinnar. Sviðshreyfingarnar voru, eins og tónlistin, ekki fullkomnar og litu ekki út fyrir að vera þaulæfðar. Vandræðagangur leikaranna átti stóran þátt í að vekja hlátur viðstaddra. Leikmyndin, sem er eftir Þórunni Maríu Jónsdóttur, samanstendur af fjórum þykkum eldrauðum borðum sem hanga úr loftinu. Einföld leikmyndin skapaði alls kyns möguleika, bæði til þess að mynda hina ýmsu leikmuni en einnig til tilrauna með loftfimleika. Meðför leikaranna á sviðsmyndinni var ekki alltaf hnökralaus en klaufskan hæfði trúðslegum persónunum mætavel. Leikurunum fipaðist ekki í söng eða leik þó þau ættu stöku sinnum í basli með að koma leikmyndinni í réttar skorður.

Leikhópurinn notaði texta eftir Elísabetu Jökulsdóttur sem unninn er upp úr ýmsu efni sem hún hefur áður gefið út. Textinn er rifinn úr samhengi ljóðabóka og annarra verka og settur saman á nýjan leik. Í þessu breytta samhengi fær textinn allt aðra merkingu. Uppsetning RaTaTam býður upp á nýja sýn á ljóð Elísabetar sem fjalla um ástina og í samspili við kabarettformið verður hláturinn ekki umflúinn. Grátbroslegur textinn og stórhlægileg sviðsetningin haldast í hendur og mynda nýtt og spennandi verk. Ljóð Elísabetar hvetja mann til að líta í eigin barm því oft á tíðum yrkir hún um reynslu og tilfinningar sem flestir þekkja vel. Áhorfandinn hlær því ekki aðeins að bráðfyndinni kabarettframkomu RaTaTam heldur hlær hann einnig að sjálfum sér, rifjar upp minningar og sér þær í nýju ljósi.

Eftir á að hyggja var sýningin að vissu leyti einföld og jafnvel einsleit, þó hún ætti ýmsa góða spretti. Einstaka atriði eru ekki eftirminnileg þó sýningin í heild hafi heppnast vel. Verkið skilur kannski ekki annað eftir sig en kitlaðar hláturtaugar og áminninguna um að hafa svolítinn húmor fyrir ástinni og sjálfum sér. En ef markmið sýningarinnar er að skemmta áhorfandanum og sýna ástina í nýju ljósi, með hjálp kabarettformsins og ljóða Elísabetar Jökulsdóttur, þá tókst RaTaTam það mætavel. Sambandi texta Elísabetar og kabarettformsins má líkja farsælt hjónaband. Ástin gengur aldrei hnökralaust fyrir sig og það gerir verkið Ahhh… kannski ekki heldur. Þetta ófullkomna en glaðværa ástarsamband texta og kabaretts er frábær skemmtun fyrir alla þá sem hafa kynnst ástinni.