Ljóð úr Tólf


Tólf eru tólf ljóðabækur eftir Brynjar Jóhannesson, sem allar munu eða hafa komið út árið 2017. Nú þegar þetta er skrifað hafa þrjár bækur þegar komið út.

[Úr bók tvö: Flugvél]

beltin spennt og
bökin rétt
og tækin slökkt
og ópíumfílingur í maganum
í hækkuninni

við sitjum saman og horfum á ljósin flökta í myrkrinu

hlustum á hundruðir radda
hvísla, spjalla, öskra
hver í sínu höfði

allt saman málmur og gler
og eðlisfræði

eldflaugabensín
sem fuðrar okkur upp
í andrúmsloftið

og guð hjálpar þeim
sem aðstoða sjálfa sig
um súrefnisgrímur á undan
barni
og guð hjálpar þeim
sem ríða inni á klósetti
eða kaupa sér bjór þangað til neitun kemur upp
í flugfreyjunni
og guð hjálpar þeim
sem taka
svefnlyf
fyrir flugtak

[Úr bók þrjú: Og]

Hún skúrar af áfergju, hún sem er svo vön að leyfa þessu bara að gerast. Leyfa hugsununum að ryðja hvor annarri út í buskann, höndunum að snúa skaftinu og líkamanum að snúast um plastefnið. Nú eru engar bækur til að lesa, konur til að hitta eða lyf til að taka. Engar spennandi eða óspennandi hugsanir. Bara skaftið sem hreyfist í takt við augnatillit og moppan sem hefur aldrei runnið svona vel um gólfin. Febrúarmyrkrið magnar rafglampann á brákinni. Hún hefur þegar tekið stökkið og núna er bara að kveikja í.

Bara að sleppa spýtunni.