Að tigna vörtuna í kontrast

 – Garðaleiðir eftir Skarphéðinn Bergþóruson

Spurningarnar sem koma yfirleitt upp í huga mér þegar ég les ljóðabækur eru (ekki endilega alltaf þessar og ekki endilega alltaf í þessari röð):

  1. Hvað vill bókin segja mér, ef þá nokkuð?
  2. Hvernig myndi ég lýsa stemningunni í bókinni?
  3. Hverju líkist þessi texti (og hvernig er hann ólíkur því sem hann líkist)?
  4. Hvað gerir textinn við fagurfræðilegu línuna einsog hún liggur um þjóðfélagið – er henni stefnt gegn einhverju?
  5. Er þetta gott?

Afgreiðum þetta bara.

HVAÐ VILL GARÐALEIÐIR 2010-2016 EFTIR SKARPHÉÐINN BERGÞÓRUSON SEGJA MÉR?

Garðaleiðir 2010-2016 er táradalsbókmenntir, heimslýsing gegnsýrð af rómantík utangarðsmannsins, ef ekki hreinlega útigangsmannsins – þar sem allar helstu sögupersónur eru einmitt utanveltu og gjarnar á að beita óheilbrigðum meðulum til þess að líkna sér, þær drekka of mikið og fara ekki nógu mikið úr húsi, sjá ekki alveg tilganginn í því að takast á við hvers daginn, finnst betra að vera heima að hamstra óhamingju. Þið vitið, Pollýanna á röngunni; og þá er ekki þar með sagt að Garðaleiðir 2010-2016 sé ljót eða boði ljótleikann, því afstaða hennar er frekar fólgin í upphafningu ljótleikans – eða, réttara sagt, í því að sjá hið fagra í hinu ljóta, að tigna vörtuna, klappa upp ofdrykkjumanninn og segja: sjá, einnig hann er fagur.

Pollýannan á röngunni er vel að merkja líka að reyna að lifa af; bara með annarri aðferð.

Og sennilega er þetta aðeins orðum aukið – þetta er bragarhátturinn, en heimur Garðaleiða 2010-2016 ýkir sig ekkert, er frekar jarðbundinn og íslenskur, og þar með er harmurinn í Garðaleiðum 2010-2016 alltaf dálítið einsog að vera timbraður í of þunnum jakka í slabbinu og strigaskórnir löngu orðnir gegndrepa og maður myndi taka leigubíl, nema þá ætti maður ekki lengur fyrir kvöldmat. Eða bleyjum. Eitthvað þannig. Kunnuglegur staður.

Það er alltaf nótt og handan við eitthvað ógreinilegt mók eru „hinir“. Köllum þá Epalhommana. Veröldin birtist hér ekki síst í kontrast við Epalhommana.

HVERNIG MYNDI ÉG LÝSA STEMNINGUNNI Í GARÐALEIÐIR 2010-2016 EFTIR SKARPHÉÐINN BERGÞÓRUSON?

Ég á vinkonu sem er auk þess að vera vinkona mín bæði tónlistarmaður og móðir. Mér finnst hún oft dálítið sérsinna og ekki síst þegar hún tilkynnti mér að hún ætlaði ekki að syngja nein lög í moll fyrir barnið sitt, þegar það var nýfætt, því moll færði með sér meiri sorg en börn gætu höndlað. Ég held að ég hafi hugsanlega alltaf meðal annars litið á listina – þar með taldar tónlistina og ljóðlistina – sem aðferð til þess að takast á við sorg og áföll í öruggu umhverfi; sem aðferð til þess að hrista sig inn að innsta kjarna án þess að það kostaði mann beinlínis lífið (ekki að það geti ekki gerst, ljóð geta sennilega drepið, en áhættan er minni en þegar t.d. bílar eða hnífar eiga í hlut). Til þess að efla manni þrótt í baráttu við lífið þar fyrir utan. Það margborgi sig að gráta sig fyrst í svefn yfir bók áður en maður grætur sig í svefn yfir ástarsorg eða ástvinamissi. Þannig hef ég alltaf tekið þveröfugan pól í hæðina en vinkona mín og viljað að börnin mín verði sjóuð í sorginni þegar hún bankar.

Garðaleiðir 2010-2016 er ekki beinlínis í moll. Hún er sennilega í blús, ef það væri tóntegund, sem það næstum er því blúsinn verður til í veröldinni þar sem dúr og moll skarast – blúshljómar með áberandi sjöundum og leik milli moll- og dúrþríunda. Blúsinn er harmurinn sem er sífellt að minna á sig í gleðinni, og gleðin sem sífellt stingur upp nefinu í miðjum harminum. Kannski hreinlega til þess að undirstrika að lífið er ekki einhlítt og þessir skalar eru mannanna smíðar. Og hann er í senn einhæfur og ævinlega nýr og spennandi.

Þetta eru breið pensildrög og erfitt að taka dæmi – fyrir því er góð ástæða. Garðaleiðir er 300 blaðsíður af margbreytilegum og ekki alltaf auðtúlkanlegum texta.

En við tökum samt dæmi. Tökum þrjú dæmi:

i

Morgungyðjan hefur á klæðum

blóðrauð morgungyðjan

hana skiptir geislavirkt hunangstungl ekki neinu lengur

engin reynsla ristir hana djúpt

meðan gamlir ruslakallar sofa ekki fyrir liðnum himnum

(úr Júníkvæði, bls. 128)

ii

og þú varst með landabrúsa, síróp, sóp og pizzaskóflu, bakpoka, kókópöffs, stöð 2 og ofnhanska og geisladiskaveski – og það kom framaná morgunblaðinu, stórum stöfum

allir eiga heima undir headfónunum

undir svölunum undir headfónunum

í rigningunni undir svölunum undir headfónununum

það kom framaná morgunblaðinu, það sem við sögðum:

allir mega eiga heima

(úr Sama hatti, bls. 111)

iii

Sjávarsíðuónytjungar –

sorgbundnir

og sjóhræddir

svona illa gerðir

að upplagi

löngu mæddari en mæddir

híma í vari –

híma í vari langt-að-fluttra

bókahlaða

öllum ógleðisjón

þessir skúmaskotspiltar

(úr Sjávarsíðuónytjungarnir, bls. 30)

Ég gæti haldið svona áfram í allan dag án þess að finna neitt sem mér þætti kjarna eitthvað eitt um bókina. Hún fer bara þangað sem hún fer á einhverju furðulegu og oft dáleiðandi hugarflugi. Kannski er þetta Reykjavíkurkróníkan sem ég lýsti einhvern tíma eftir (á FB) en átti að vera bíómynd – verk þar sem kjarninn, aðalsöguhetjan, er borgin, þessi eina íslenska borg, og er hvorki spéspegill eða ýkjur eða einu sinni hundrað prósent sönn – bara afstaða, sögn um borg, eitthvað til að festa hendurnar í og ræða, innlegg í goðsagnagerð, Reykjavík sem persóna.

Orðið „garðaleiðir“ á einmitt við um leiðirnar á milli húsa – þar sem maður styttir sér leið í gegnum garða og það vita allir sem það hafa lagt í vana sinn að á þeim leiðum öðlast maður aðra sýn á umhverfi sitt, ekki endilega heiðarlegri eða betri, þetta er náttúrulega svolítið einsog að liggja á gægjum og sýnin er brotakennd, og brotin birtast manni í hendingu einsog maður hafi verið skotinn í andlitið með þeim (maður verður að drífa sig út úr garðinum áður en maður verður skammaður). En ekki ósönn; kunnugleg, jafnrétthá hinni.

Og hver veit, kannski er Garðaleiðir 2010-2016 ekkert um Reykjavík. Kannski er hún um Garðabæ.

HVERJU LÍKJAST GARÐALEIÐIR 2010-2016?

Upp í hugann komu: Charles Bukowski, Dagur Sigurðarson (sem er skopstældur á einum stað), Haukur Már Helgason (Rigningin gerir ykkur frjáls), Tom Waits (bæði rómantíski ógæfumaðurinn og leikhúsóhljóðamaðurinn), Bubbi Morthens, Didda. Áreiðanlega einhverjir fleiri (sjá neðanmáls).

– En hvað?

– En auðvitað er ekkert tvennt alveg eins.

– Það segir sig sjálft. Stundum er það ekki einu sinni líkt.

– En hvað?

– Stemningin er samleit þrátt fyrir allt. Það svífur „andi“ yfir vötnum.

– Maður fær það á tilfinninguna að Skarphéðinn gæti skrifað fjörutíu svona bækur. Tvö-þrjú ljóð á dag.

– Bukowski tilfinningin.

– Hugsanlega eru gæðin jafnari. Bukowski er dásemd (jú, hann er víst dásemd) en hann var líka hrottalega mistækur.

– Dagur segir sig sjálft.

– Skarphéðinn segir meira að segja Dagur sjálfur. Segir sig sjálft.

– Haukur Már?

– Jájá.

– Hvernig?

– Eitthvað bara með það hvernig hugsunin flýtur; hvernig það verður fljótaskrift á hlutunum á sama tíma og þeir virðast gegnheilir og úthugsaðir.

– Skarphéðinn er samt ekki „akademískur“.

– Ætlarðu nú að fara að uppnefna Hauk Má?

– Haukur er meira menntaður.

– Ókei. Jæja. Samþykkt.

– Tom Waits er ekkert menntaður.

– Er Skarphéðinn menntaður?

– Hann kann að skrifa. Annars er hann áreiðanlega bara grafískur hönnuður eða eitthvað. Hljómborðsleikari. Ég hef það á tilfinningunni að hann sé svona oflestrartýpa. Maður sem stútar 40 bókum á vikum. Hefur lesið allt frá Bensa Gröndal til Naomi Klein.

– Og ljóð?

– Sennilega allt sem hann kemst í.

– Eru þetta ekki getgátur?

– Jú, þetta eru getgátur. Næsta?

– Við vorum ekki búnir með Tom Waits.

– „Reykjavík einsog Waitsískur sirkus“. Er það ekki eitthvað?

– Nei, það nær því ekki. Kannski „óhamingjan sem meðvitaður performans“.

– Já!

– En enginn sirkus, beinlínis; meira raunsæi.

– Einmitt.

– Didda?

– Hún er brútalli. Hennar sýn á heiminn er ekki beinlínis grimmari, en hún er ekki utan úr garði – hún er innanúr ægilegum húsum. Hann er meinlausari. En það eru líka flestir.

– Hann hefur afkastað meira í einni bók en hún í öllum sínum.

– Plús allt sem Dagur skrifaði.

– En þau eiga sameiginlegt eitthvað með fegurðina.

– Að sjá fegurðina í rónanum.

– Er það ekki voða íslenskt samt, líka? Eitthvað svona LallaJohnsblæti?

– Jú, kannski. En það er kannski ágætt samt. Kannski satt samt.

– Svo held ég þú sért líka að ýkja rónarómantíkina í þessari bók.

– Það er kannski líka satt. Ég ætla ekki að verja það mjög lengi.

– Var þetta búið?

– Bubbi. Ekki gleyma Bubba.

– Slorið. Það er slor í öllum Íslendingum og það er slor í Garðaleiðum 2010-2016. En flestar borgarmyndir skera hjá því eða skreyta það einhvern veginn. Láta verstöðina hverfa.

– Stærstu verstöð landsins.

– Ertu viss?

– Ég las það á Twitterinu hans Gísla Marteins.

– Ókei. En við erum ekkert að selja það dýrara en við keyptum það.

– Meikar sens. Stór borg.

– Jájá. En er slor í Gísla?

– Djúpt niðri er slor í öllum hérna. Meira að segja túristunum.

HVAÐ GERA GARÐALEIÐIR 2010-2016 VIÐ FAGURFRÆÐILEGU LÍNUNA EINSOG HÚN LIGGUR UM ÞJÓÐFÉLAGIÐ

Ég fór einhvern tíma að undra mig – er rétt að segja það, stundum er svo mikil sænska í eyrunum á mér að ég fer að efast, og samt finnst mér ég alveg mega tala einsog mér er eðlilegt, en jæja, ég fór að undra mig á því, eða öllu heldur furða mig á því (bingó!) að stór hluti íslensku ljóðasenunnar væri tekinn að snúast um hömlur og naumhyggju. Stærsti ljóðaútgefandi landsins – Partus Press – gefur ekki út ljóðabækur sem eru meira en 30-40 síður og bækurnar sem þau hafa gefið út hafa til þessa farið sparlega með rýmið á þessum síðum. Þetta þýðir að næstum allir debútantar landsins hljóta að miða sig að naumri fagurfræði – því önnur forlög fyrir ungskáld eru varla í boði. Stóru forlögin gefa eiginlega ekki út nýja höfunda nema þeir séu búnir að meika það annars staðar – séu rapparar, poppstjörnur, leikhúsfólk, og svo framvegis. Eða séu bara á sinni tíundu ljóðabók.

Auk Partus Press, sem gefur sín ljóð undir merkjum Meðgönguljóða, var/er Tunglforlag. Í fyrstu gáfu þau út bækur sem birtust í mjög takmörkuðu upplagi, voru gefnar út á fullu tungli og fylgdi það fororð að maður gæti bara keypt þær á útgáfufögnuðinum (við ljóðræna landsbyggðapakkið sem lifum enn í póstlistarómantíkinni máttum s.s. éta það sem úti fraus) og svo yrði það sem eftir var upplagsins brennt. Bækurnar voru líka fremur stuttar, en þó allt að þrisvar-fjórum sinnum lengri en bækur Meðgönguljóða og innihéldu oft talsvert af texta (voru alls ekki alltaf kallaðar ljóðabækur, né voru þær alltaf ljóðabækur, en stundum voru þær það samt, þótt þær væru ekki kallaðar ljóðabækur – það þarf einhver að draga þetta smáprósahugtak út í húsasund og skjóta það). Nú gefa þau út ljóðabréf sem maður kaupir í áskrift.

Að skrifa 300 blaðsíðna ljóðabók inn í þennan veruleika – eða að skrifa 12 heilar bækur á einu ári og gefa út mánaðarlega einsog Brynjar Jóhannesson, báðir gefa þeir vel að merkja út sjálfir – er svolítið einsog að grýta hann með múrsteini í skjóli nætur og bíða svars. Bara stærð Garðaleiða 2010-2016 ein og sér er ögrun – og þar sem hún gefur ekkert eftir í gæðum nema síður sé, finnst manni nánast einsog þessu verði að svara. Nú verði smælkin eða smæðin – því mér finnst ekki ganga að kalla þetta minimalisma – eða þessi fagurfræði hins dulitla og kannski enn fremur ofur hógværa að sanna mátt sinn, sanna fagurfræði sína. Sem hún gerir auðvitað ekki, það væri alveg gersamlega úr karakter hins hógværa og smáa, hann kann ekkert að æsa sig. Og það er ekki einsog Skarphéðinn sé að segja neinum að fokka sér. Alls ekki. Hann er bara í sínu.

ER GARÐALEIÐIR 2010-2016 GÓÐ BÓK?

Stutta svarið er auðvitað: já, það er heilmikið í þetta varið. Þetta eru alvöru bókmenntir, ölvandi og ölvaðar, skrifaðar af heilmikilli ástríðu og heilmiklu talent og heilmikilli tilfinningu fyrir alvöru tungumálsins og þetta fjallar heilmikið um heiminn og það skiptir máli – mölvar hann og byggir hann og hann verður aldrei samur og einhvern veginn er þetta samt heimurinn sem við þekkjum. Fullkomlega nýr og fullkomlega gamall.

En spurningunni mætti líka allt eins svara neitandi og segja: er ekki komið nóg af einhverri svona heteró róna rómantík tilþessaðgera ungra cis karlmanna í tilvistarkreppu? Og jújú, kannski er það líka satt. Kannski er ég líka sérlega ginnkeyptur fyrir svonalöguðu. Þetta er áreiðanlega sérhannað fyrir allt sem er að mér (er hægt að hugsa sér bókmenntir sem eru betri en svo að þær séu sérhannaðar í kringum annmarka lesanda síns?).

Og því mætti svo aftur svara með: Er ekki bara líka komið nóg af blómarómantík djúpómandi og ofurstilltra skálda sem droppa frösum einsog orð þeirra væru síðustu ljóstillífandi lífverurnar á jarðríki og ef þær skjóti ekki rótum verði úti um allt líf á plánetunni; droppa þeim af varkárni og þaulæfðum þokka þess sem myndi aldrei láta sjá til sín gerandi eitthvað ófullkomið?

Þá værum við bara komin í hávaðarifrildi!

Ekki að ég ætli eitthvað að fara að þykjast vera einhver póstmódernisti. Ég segi já, það er mitt lokasvar og þið þaggið aldrei niður í mér.

En hvað er ég þá að segja? Er Garðaleiðir ófullkomin? Frábær? Gamaldags? Ég á kannski við að hún sé ekki passasöm – ég meina það vel, ég meina að hún veður dálítið á súðum og verður auðvitað sem slík dálítið þreytandi, eða getur orðið það ef maður innbyrðir hana í of stórum skömmtum. Ætla ég að lá henni fyrir það?

Nei; ég stend með sjálfum mér, ég stend með Skarphéðni Bergþórusyni (það er samt ekkert hægt að heita Skarphéðinn Bergþóruson!), þetta er frábær bók, ekki láta hana framhjá ykkur fara.

ps. Ég gleymdi að segja að eitthvað þarna minnir mig líka á Jack Spicer – hjá honum er líka þessi stöðugi taktur, þar sem ljóðin skara ekki beinlínis hvert fram úr öðru, og eru ekki í samkeppni, heldur standa öll einsog tré í sama skógi eða ljósastaurar í sömu borg, vinna sömu vinnuna, gætu verið færri og gætu verið fleiri – stöku er kannski bilaður – en það er heildin sem er mögnuð, einhver tilfinning fyrir heilli heimssýn.

pps. Minnir mig líka pínu á sænska skáldið Johan Jönson. En það er erfiðari samanburður og bíður betri tíma. Látum duga að segja að hér sé ákveðinn vinnumórall á ferðinni.