Góður félagi

Það er erfitt fyrir mig að viðurkenna það en, ég hef aldrei áður lesið bók eftir Gyrði Elíasson. Ég reyndi að lesa Gangandi íkorna á sínum tíma en hún höfðaði lítt til míns 16 ára sjálfs. Seinna gerði ég mér grein fyrir því að ég þyrfti að gefa Gyrði annan séns en ég hafði mig aldrei í það. En þegar mér bauðst að skrifa um nýjustu bók hans, Langbylgju, ákvað ég að tími væri til kominn og greip tækifærið. Fyrsta bók Gyrðis var ljóðabókin Svört axlabönd frá árinu 1983. Síðan hafa komið út eftir hann fjölmargar bækur; Ljóð, skáldsögur og smásagnasöfn. Gyrðir hefur eins verið ötull þýðandi.

Langbylgja, sem er gefin út af Dimmu, er safn svokallaðra smáprósa. Í bókinni eru 104 sögur á 264 blaðsíðum. Það verður að segjast eins og er að Gyrðir er einstaklega góður penni. Það finnst hvergi orð sem á ekki heima þar sem það er. Hver einasta setning er sett saman sem best verður á kosið og jafnvel grófustu augnablik bókarinnar einkennast af fágun.

Sögurnar hafa misjafnlega mikið að segja og margar þeirra lýsa þessum gráu dögum þar sem ekkert markvert gerist aðrar segja hins vegar frá heldur ótrúlegum hlutum eins og upphafsagan Fallið sem er kostuleg skoðun á fáránleika fordóma og hrepparígs, hér nota ég orðið hrepparíg í mjög víðum skilningi. Stundum eru sögurnar nokkuð nálægt því að vera ljóðrænn prósi eins og t.d. sagan Grámi.

Stundum leikur Gyrðir sér með orðin eða gerist sniðugur. Oft er ekkert sniðugt að vera sniðugur en hann kemst upp með þetta að mestu. T.d. finnst mér virka vel hjá honum þegar hann kýmist með orðavaðal besserwissera blaðanna í Gráma segir: „Maður opnar blöðin og alvitringarnir þrír birtast samstundis, með bull, ergelsi og firru í farteskinu“ . Mér þykja sniðugheitin hins vegar virka verr í sögunni Byltingarþankar, sérstaklega í upphafi sögunnar.

Í bókinni er að finna nokkrar glæpasögur. Sú fyrsta er afskaplaga sterk en sú næsta síðri en alls ekki slæm, svo þynnast þær hver á fætur annarri en verða aldrei gjörsamlega vonlausar. Þær hætta bara að vera eitthvað sérstaklega áhugaverðar. Kannski er það svona í raunveruleikanum þar sem ótal höfundar skrifa margar bækur um sömu sögupersónur að leysa misflókin sakamál. Fyrsta bókin í flokki getur verið verulega sterk og grípandi en svo þynnist þetta út með tímanum þar til að maður skilur ekkert í því af hverju maður er að eyða tíma í þessa vitleysu eða hvers vegna maður fór að lesa flokkinn til að byrja með.

Langbylgja er gott smásagnasafn og gaman að glugga í aftur og aftur. Ég tek hana oft upp, opna hana einhvers staðar og les eina kannski tvær og jafnvel þrjár sögur. Sumar sagnanna eru drepfyndnar, aðrar kímnar og enn aðrar sniðugar. Sumt tekst betur en annað en safnið er aldrei leiðinlegt né lélegt og þolir vel endurtekinn lestur. Ég gæti vel trúað að hún sé ein af þessum bókum sem getur verið manni góður félagi um ókomin ár.