Rétt mynd vann Óskarinn

Moonlight

Það er ekki oft sem maður er sammála akademíunni þegar kemur að vali á bestu mynd ársins. Raunar held ég að það sé óhætt að segja að það eigi við um langflesta kvikmyndanörda. Það hefur nánast verið árleg hefð að bölva henni og meðalmennskunni sem hún ákveður að verðlauna með stærstu og frægustu verðlaunum kvikmyndabransans, þrátt fyrir að segja megi að hlutirnir hafi skánað töluvert síðustu ár með valinu á 12 Years a Slave, Birdman og Spotlight. Ég held hins vegar að ég hafi aldrei verið jafn ánægður með val akademíunnar á bestu mynd og í ár.

Moonlight er í þremur hlutum og fjallar, á svipaðan hátt og frægt verk Tolstoys, um bernsku, æsku og uppvaxtarár Chirons, ungs samkynhneigðs blökkumanns sem elst upp í fátækrahverfi í Miami (sama hverfi og leikstjórinn sjálfur ólst upp í). Hann er föðurlaus og móðir hans er krakkfíkill. Honum er mikið strítt og hann er lagður í einelti fyrir að vera öðruvísi. Hann kynnist í fyrsta hlutanum fíkniefnasala (frábærlega leiknum af Mahershala Ali sem fékk einnig Óskar fyrir leik sinn í myndinni) sem gengur honum í föðurstað. Það er þó íronía fólgin í því að hann er einmitt fíkniefnasalinn sem sér móður hans fyrir krakki. Í seinni hlutanum er hann orðinn að unglingi sem er ennþá lagður í einelti og á í miklum erfiðleikum með að skilja þann ólgusjó tilfinninga sem er að finna innra með honum. Þessi barátta verður enn flóknari eftir afdrifaríkan atburð með sem á sér stað með vini hans Kevin. Í þriðja hlutanum er Chiron svo búinn að breyta sér í  nákvæma eftirlíkingu af Juan, fíkniefnasala sem er búinn að sitja inni og lítur mjög ógnandi út. Hann fær símtal frá Kevin, sem hann er ekki búinn að tala við síðan á unglingsárunum, og fer á fund hans.

Samkynhneigð blökkumanna er ekki eitthvað sem hægt er að segja að sé veruleiki sem mikið hefur verið sýndur í sjónvarpi og kvikmyndum. Þó má benda á persónur eins og Keith úr Six Feet Under og Omar í The Wire – kannski frægustu dæmin. Hér er þó stór munur á þar sem þær persónur voru sjálfsöruggar í karlmennsku sinni og í ákveðinni valdastöðu (Keith var lögreglumaður og Omar fígúra í undirheimunum sem allir voru skíthræddir við). Helsta einkenni Chirons er hins vegar viðkvæmni og varnarleysi, hann er – í fyrstu tveimur hlutunum að minnsta kosti – algjörlega á botninum félagslega. Eins hafa einnig verið gerðar þónokkrar frábærar kvikmyndir um blökkumenn og veruleika þeirra nýlega, eins og áðurnefnd 12 Years a Slave og Selma. Þessar myndir hafa hins vegar haft fókusinn á söguna frekar en nútíma veruleikann. Moonlight er aftur á móti með báða fætur í nútímanum og talar mjög sterkt til dagsins í dag.

Eins og titill leikritsins eftir Tarell Alvin McCraney sem myndin er byggð á, In Moonlight Black Boys Look Blue, gefur til kynna, er helsta þema myndarinnar samsemd einstaklingsins og karlmennsku. Myndin grefur undan hefðbundnum hugmyndum okkar um þetta efni með aðalpersónunni, ásamt því að undirstrika hversu mikilvægt það er hvernig aðrar persónur sjá mann – en hver hluti myndarinnar er titlaður eftir gælunafninu sem Chiron er kallaður á þeim tímapunkti lífs síns. Myndin grefur einnig sterkt undan staðaltýpum með Juan, fíkniefnasalanum sem er þó góðhjartaðasta persóna myndarinnar sem er raunverulega annt um fátækan strák sem hann finnur á götunni og lifir að því er virðist mjög hefðbundnu, hamingjusömu heimilislífi.

Annars er í rauninni lítið sem þessi gagnrýnandi getur sagt um þann raunveruleika sem settur er fram í myndinni. Hann er manni einhvern veginn svo framandi, með tilliti til félagslegra aðstæðna, kynþáttar og kynhneigðar, að það væri hálfgert virðingarleysi að ætla að þykjast geta varpað einhverju frekara ljósi á hann. Mikilvægi myndarinnar liggur ekki síst í því hvernig hún nær að setja þennan veruleika fram á sannfærandi og áhrifaríkan hátt. En á sama tíma – eins og öll mikilvæg listaverk – þá nær myndin langt út fyrir þær persónur og aðstæður sem til umfjöllunar eru og nær að fanga tímalausar og sammannlegar tilfinningar: þörfina fyrir viðurkenningu og erfiðleikann við það að vera maður sjálfur.

Myndin sækir áhrif til James Baldwin en hún minnti mig á tilvitnun frá honum:

love forces us to take off the mask we know we cannot live within but fear we cannot live without

Þessi tilvitnun er góð lýsing á helsta þema myndarinnar, einna helst í þriðja hlutanum, sem minnir mann stundum líka á leikrit eftir Tennessee Williams. Baldwin var einmitt samkynhneigður blökkumaður sem skrifaði mikið um karlmennsku og erfiðleikann við að öðlast heilsteypt sjálf í kúgandi samfélagi (en svo vill til að heimildarmynd um Baldwin, I Am Not Your Negro, kom út á sama ári og var einnig tilnefnd til Óskarsverðlauna). Fyrir utan hann má greina áhrif frá meistaraverki Ralph Ellison, Invisible Man, en hún fjallar einnig um samsemd blökkumanna og baráttunnar fyrir viðurkenningu – þótt leikstjóri myndarinnar Barry Jenkins flækir málin með því að fjalla einnig um samkynhneigð.

Kvikmyndalega fannst mér ég helst sjá áhrif frá Wong Kar-wai. Til dæmis í því hvað myndin er hæg og lágstemmd, en ekki síst í notkun Jenkins á litum á mjög áberandi og áhrifaríkan hátt. Sterkar tilfinningar krauma undir yfirborðinu og eiga í miklum erfiðleikum við að brjóta sér leið upp á yfirborðið líkt og í In The Mood For Love til dæmis, og það kæmi mér á óvart ef sú mynd hafi ekki haft töluverð áhrif á leikstjórann. Þar fyrir utan minnir strúktúr myndarinnar, kaflaskipt uppvaxtarsaga ungs stráks, óneitanlega á Boyhood (Richard Linklater, 2014), en það var einmitt almennt talinn vera mikill skandall að hún hafi ekki fengið Óskarinn fyrir bestu mynd.

Fyrir utan þessi áhrif, þá undirstrikar Jenkins þemu sín með áberandi vísunum í kristni. Þar má helst nefna atriðið sem óhætt er að fullyrða að eigi eftir að vera klassík í kvikmyndasögunni – sundsprettur Juan og Chiron sem virkar einnig sem einskonar skírn. Kevin, líkt og Júdas, kyssir einnig Chiron rétt áður en hann svíkur hann. Þegar þeir hittast aftur í þriðju hlutanum drekka þeir rauðvín – blóð Krists.

Ýmsar kenningar eru uppi um að akademían hafi ákveðið að gefa myndinni verðlaun til að bæta upp fyrir hneyksli síðasta árs þar sem engir blökkumenn voru tilnefndir til helstu verðlaunanna, eða sem skýr skilaboð til Trump. Það er ekkert ólíklegt en ég tel það ekki skipta nokkru einasta máli. Moonlight er án nokkurs vafa ein af bestu myndum síðasta árs og hvorki Trump, né Óskarinn sjálfur og eitthvað ómerkilegt klúður við verðlaunaafhendinguna, ætti að fá leyfi til að skyggja á þetta meistaraverk.