Fjórtán ára föstnuð

I saw the Zeffirelli version when I was 13, and I cried my eyes out, because I couldn’t understand why the morning after they shagged, they didn’t just run away. The song is written for two people who should run away before all the bad stuff starts.


Thom Yorke, um
Exit Music (For a Film)

Ekki hefði ég getað giskað á að þegar ég yrði miðaldra yrði mitt helsta tómstundagaman að skrifa bókmenntaritgerðir. Eða kannski frekar „kjörbókaritgerðir“ eins og þessi bókmenntagrein hét þegar ég var í menntaskóla. Þar skrifaði ég bara eina svona ritgerð, um Kyrr kjör eftir Þórarin Eldjárn, og það með umtalsverðum harmkvælum. Í háskóla valdi ég ævinlega að taka próf frekar en skrifa ritgerðir eða vinna önnur slík verkefni. Og svona er nú komið fyrir mér.

Ástæðan fyrir þessum inngangi er að kannski verður þessi ritsmíð eitthvað aðeins meira eins og rétt sköpuð bókmenntaritgerð en þessar formlausu nótur undanfarið. Allavega ætla ég að byrja hana á rannsóknartilgátu:

Rómeó og Júlía er ekki harmleikur, heldur gamanleikur með sorglegum, en þó aðallega slysalegum, endi.

Þetta rann upp fyrir mér þegar ég sá rómuðustu uppfærslu á Shakespeareleikriti í íslenskri leiklistarsögu, loftfimleikasýningu Vesturports 2002. Þar var gleðin lengst af við völd, rækilega studd af þýðingu Hallgríms Helgasonar sem dró af alefli fram alla möguleika á tvíræðni og breytti henni í einræðni væri þess nokkur kostur.

Vissulega eru strax í upphafi dregin yfir æskufjörsandrúmsloftið skuggatjöld óútskýrðrar deilu Capulet og Montague, en þá má benda á að hún er fyrir sitt leyti ekkert myrkari en hinn lífshættulegi fjandskapur Sírakúsu og Efesus í skrípaleiknum The Comedy of Errors, sem Shakespeare skrifaði nokkrum árum fyrr. Og svo má muna eftir dauðadómnum yfir Hermíu í næsta leikriti, ef hún neitar að lúta valdi föður síns yfir kynlífi hennar.

En svo ég byrji strax að sjúska út kenningu mína þá er líka eitthvað nett-Íslendingasögulegt við þessa heimskulegu og blóðugu fæðardeilu, og þá ekki síst við Merkútsíó og örlög hans. Þessi vinur Rómeós er einstaklega kunnuglegur kappi. Hugdjarfur, vopnfimur, heiðursdrifinn og orðheppinn á dauðastundinni. Og fellur í stríði sem hann á þannig séð engan þátt í, hvorki Capulet né Montague, (sbr. „A plague on both your houses“).

Önnur íslensk R&J sýning gerði mér þetta ljóst, uppfærsla Guðjóns Pedersen í Þjóðleikhúsinu 1991, sem snarhætti að vera áhugaverð þegar Þór Tulinius lokaði augunum í 3.1. Eitt af því sem gleður mig mest í uppáhaldsmyndinni Shakespeare in Love (já, hún er betri en þið haldið) er það hvernig skáldið selur stórstjörnunni Ned Alleyn, í frábærri túlkun Ben Affleck, Merkútsíó sem aðalhlutverk hinnar tragísku hetju. Sem hann er ekki. Smá Skarphéðinn í honum:

…ask for me to-morrow, and you shall find me a grave man.

3.1.100

En Skarphéðinn er heldur ekki aðalhetjan í sinni sögu.

Ég verð líka að viðurkenna að í prýðilegum formála sínum minnist editorinn René Weis á þessa hugmynd sem ég kalla „kenninguna“ mína: að lengi framan af sver Rómeó og Júlía sig skýrt í ætt við gleðileiki Shakespeares miklu fremur en harmleikina framundan. Persónuleikar parsins eru líka eins og dýpri, fyllri og þrívíðari útgáfur af öllum hinum ástsjúku drengjunum og tilfinningaþroskuðu stúlkunum í Verónsborg, Padúa, Navarra og (nokkrum árum síðar) Ardenskógi. Miklu frekar en að þau líkist fólkinu á barmi hyldýpis ástríðna, metnaðar og geðveiki á Helsingjaeyri, Cornwall, Glaumukastala eða Kýpur.

Weis dvelur nokkuð við aldur persónanna, einkum Júlíu (bráðum 14) og frú Capulet (26) og fóstrunnar (óræður, en hún átti dóttur um svipað leyti og Júlía fæddist, sem dó í vöggu), nokkuð sem nútímauppfærslur kjósa að horfa framhjá, pínu vandræðalegar. Hann fer einnig í saumana á þéttum og áberandi tímaramma verksins og vekur athygli á hinni fádæma fögru lýrík sem gegnsýrir það. Nokkuð sem hefur gert R&J að einu ástsælasta leikriti bókmenntanna. Og á örugglega sinn þátt í að skapa því dálítið sérstakan sess í menningarsögunni. Meira um það hér síðar.

Vangaveltur um ólíkar prentanir verksins eru skemmtilegar eins og oft. Að þessu sinni snúast þær um eðli Q1 textans; hvort hann sé stytt „leikferðaversjón“, eða upprifjuð sjóræningaútgáfa. Sennilega bæði. Annað sem er pínu skemmtilegt þessu tengt eru „tvíteknar línur“; þar sem talið er að Shakespeare hafi skipt um skoðun eftir að hafa skrifað eina setningu, orðað svipaða hugsun upp á nýtt strax fyrir neðan og ekki hirt um að strika þá fyrri út. Báðar síðan ratað á prent. Ágætt dæmi er úr kvonbænasenu Parísar greifa, þar sem Capulet segir:

The earth hath swallow’d all my hopes but she,
She is the hopeful lady of my earth:

1.2.14

Weis prentar bara þá fyrri, og telur tilvist beggja í grundvallartextanum Q2 segja okkur að hann hafi verið settur eftir eiginhandriti Shakespeares. Þær eru mjög oft látnar standa báðar, eru t.d. báðar í Helgaþýðingu, og svo vel þýddar og fagrar reyndar að mann fer að gruna að Weis sé hér í ruglinu:

Í moldu hvíla mínar vonir allar
nema hún ein, sem öll mín von er helguð.

Sem leiðir hugann að því hvað upphafslínur inngangssonnettunnar eru mikið skemmtilegri hjá Helga en William:

Vort leiksvið er hin bjarta Verónsborg
hér berjast ættir tvær af fornri heift
sem hverri kynslóð sendir nýja sorg
því sonarblóði er föðurhefndin keypt.

vs:

Two households, both alike in dignity,
In fair Verona, where we lay our scene,
From ancient grudge break to new mutiny
Where civil blood makes civil hands unclean.

Um sýningarsöguna staldrar Weis óvenjumikið við ummyndanir verksins, enda fá leikritanna sem hafa orðið eins mikill innblástur að þessu leyti, frá Gonoud til Prokofievs til Bernsteins til Knopflers, Costellos og fyrrnefndrar Radiohead, sem Weis minnist reyndar ekki á. Ekki frekar en Vesturport, sem eru smá vonbrigði.

Eitt af því sem hann fer yfir er hvað endirinn stóð lengi í fólki, ekki beinlínis að ungmennin dæju, heldur hitt að þau nái ekki að sjást og kveðjast áður en öllu er endanlega lokið. Þetta hefur mörgum þótt óbærilegt, þar á meðal bæði Gonoud og Prokofiev sem bættu úr í óperu og balletti, og það sama gerðu allir sem löguðu verkið að smekk tímans frá því leikhúsin opnuðu aftur undir Karli II 1660 og fram á nítjándu öld.

Annars er uppfærslu- og túlkunarsaga verksins á sviði sérkennilega „flöt“. Lítið um sögufrægar byltingarkenndar uppfærslur, djarfar tilraunir sem teljast í frásögur færandi. það er helst nútímauppfærsla Michael Bogdanov í Stratford 1986, með bílum og sundlaugum og mafíuyfirbragði. Kannski er eitthvað í hinni ljóðrænu „hreinu“ unglingaást sem hefur haldið aftur af tilraunagleði leikstjóranna. Það er eitthvað sem veldur því að það virðist ekki vera áhugi á að prófa þanþol þessa texta á sama hátt og gert er við Ríkarð II, Kaupmann í Feneyjum, Hamlet eða Lé.

Það vekur t.d. athygli að R&J er sennilega stærsta „nafnið“ sem ekki er til í upptekinni sviðsuppfærslu í netverslun Royal Shakespeare Company.

Persónurnar Rómeó og Júlía eru dálítið „öll þar sem þau eru séð“. Það er helst í umhverfinu sem svigrúm er til túlkunar og endurmats. Í ættardeilunni. Í persónuleika Capulet-hjónanna. Í afstöðu fóstrunnar og prestsins. En í kjarna verksins blasir allt við.

Það kom mér á óvart að Weis stillir bíóaðlögun Baz Luhrman upp sem ákveðnum hápunkti í nútímasögu Rómeó og Júlíu. Fræðimenn eru oftast lítt hrifnir af svo djörfum nálgunum, en þarna gekk greinilega eitthvað upp. Þess má reyndar geta að Luhrman stenst ekki frekar en forverar hans á nítjándu öld freistinguna að láta elskendurna ná augnablikssambandi á dauðastundinni í trássi við texta verksins.

Eitt af því sem Romeo + Juliet dregur fram, og kannski mynd Franco Zeffirelli frá 1968 líka, er að þetta leikrit er ekki bara kómedía/tragedía og Íslendingasaga, heldur líka fyrsta unglingaleikritið. Það birtist auðvitað fyrst og fremst í atburðarásinni og aðalpersónunum, en ætli ansi margir unglingaforeldrar geti ekki fundið sig í þessum orðum Montague þar sem hann ber sig illa yfir geðsveiflum sonarins í upphafi verks:

Many a morning hath he there been seen,
With tears augmenting the fresh morning dew.
Adding to clouds more clouds with his deep sighs;
But all so soon as the all-cheering sun
Should in the furthest east begin to draw
The shady curtains from Aurora’s bed,
Away from the light steals home my heavy son,
And private in his chamber pens himself,
Shuts up his windows, locks far daylight out
And makes himself an artificial night:
Black and portentous must this humour prove,
Unless good counsel may the cause remove.

BENVOLIO
My noble uncle, do you know the cause?

MONTAGUE
I neither know it nor can learn of him.

BENVOLIO
Have you importuned him by any means?

MONTAGUE
Both by myself and many other friends:
But he, his own affections’ counsellor,
Is to himself–I will not say how true–
But to himself so secret and so close,
So far from sounding and discovery,
As is the bud bit with an envious worm,
Ere he can spread his sweet leaves to the air,
Or dedicate his beauty to the sun.
Could we but learn from whence his sorrows grow.
We would as willingly give cure as know.

1.1.129–145

Lokar sig inni í myrkvuðu herbergi. Sennilega að hlusta á The Cure.

Alveg burtséð frá öllum „genre“-um þá fer Shakespeare alveg upp um „level“ hér. Fram að Rómeó og Júlíu hafa hans sterkustu verk verið sögulegir harmleikir. Leikritin um Ríkarðana tvo og glefsur úr Rósastríðaþríleiknum. Í undanförnum verkum (Love’s Labour’s og Richard II) hefur ljóðræn mælska og skáldlegt flug verið við það að kæfa leikrænuna. Hér kemur allt saman. Og vítamínið sem hefur vantað er … plott. Söguflétta sem leggur sína eigin orku í púkkið.

(Sann)söguleg verk búa yfir sínum eigin skriðþunga, en hann er háður duttlungum flókins raunveruleika, sem á það til að þynna og afvegaleiða dramatíkina. Farsar á borð við The Comedy of Errors byggja á mekanískum forsendum en Romeo and Juliet er það sem kallast má „góð saga“. Þjóðsaga í grunninn, en útfærð af höfundum (Matteo Bandello – Arthur Brooke – William Painter – Shakespeare) sem slípa og fága framvinduna þannig að úr verður sú öfluga grind sem ber uppi og drífur áfram ljóðræna tilfinningatúlkunina.

Útkoman er ómótstæðileg. Bæði ef horft er á heildarmyndina og svo einstakar senur. 1.5 (veislan hjá Capulet-fólkinu) er t.d. nánast eins og kvikmynd með hröðum klippum milli sjónarhorna:

Rómeó sér Júlíu – Týbalt sér Rómeó – Rómeó nálgast Júlíu – Kapúlett stöðvar Týbalt, sem fer (sjóðandi af reiði sem springur svo út í þriðja þætti og breytir gamanleiknum í harmleik) – Rómeó og Júlía mætast og kyssast.

Og svo allur þriðji þátturinn þar sem jafnvægið milli óviðjafnanlegs skáldskapar og æsilegra atburða er fullkomið:

C & M gengjunum lendir saman – Tybalt drepur Merkútsíó – Rómeó drepur Týbalt og er dæmdur í útlegð – Júlía fær fréttirnar – Rómeó skipuleggur flótta sinn – Júlía trúlofuð París – Kveðjustund eftir brúðkaupsnótt – Júlía fréttir af yfirvofandi brúðkaupi sínu með París greifa.

Og svo enn aftur hin næstum óbærilega undirliggjandi spenna í 4.4 þar sem foreldrar Júlíu og staffið er að farast úr stressi og glöðum spenningi yfir brúðkaupinu sem þau halda að sé yfirvofandi, en við vitum að Júlía liggur í dái í herberginu sínu.

Auðvitað gefur plottið verkinu vissan óraunveruleikablæ. „Plots are unlikely“ sagði einhver (Stoppard? Peter Hall? Manekki). Það er ekkert óhjákvæmilegt við söguna í heild þó hvert skref sé sannfærandi afleiðing þess sem á undan er gengið.

Og á þessu plotti hangir síðan einstakur skáldskapur í hinum ljóðræna anda sem einkennir þetta tímabil á ferli Shakespeares. Hápunktur þess. Margt er það alþekkt og jaskað eftir fjögurhundruð ár í helstu snjallyrðasöfnum – ræða Júlíu um nafn Rómeós á svölunum til dæmis. Samtalið um lævirkjann og næturgalann á kveðjustundinni eftir brúðkaupsnóttina. Eða þessi stórkostlega lína – fyrstu viðbrögð Rómeós við að líta ástina sína augum:

O, she doth teach the torches to burn bright!

1.5.43

Fyrstu orð Júlíu um verðandi eiginmann eru ekki eins ívitnuð, en mögnuð, meitluð og – auðvitað – áhrínisorð. Þetta er jú Íslendinga/unglingasaga:

Go ask his name: if he be married.
My grave is like to be my wedding bed.

1.5.133–134

Rómeó er ekki alveg jafn spámannlega vaxinn á kveðjustundinni:

JULIET
O think’st thou we shall ever meet again?

ROMEO
I doubt it not; and all these woes shall serve
For sweet discourses in our time to come.

3.5.51–53

Kómíkin er reyndar ákaflega stirð og leiðigjörn mestan partinn, fyrir utan kannski senuna þar sem Júlía er að fara á límingunum að bíða fregna af Rómeó sem fóstran á að bera henni, en sú aldeilis að mjólka mikilvægi sitt og tefja sem mest hún má.

Innan um alla flugeldana eru síðan svo dásamlega sannir og hversdagslegir hlutir. Meira að segja í svalaatriðinu háróman- og ofurdramatíska, þegar Rómeó er rokinn af stað og Júlía kallar hann til sín einu sinni enn:

JULIET
Romeo!

ROMEO
My dear?

JULIET
At what o’clock to-morrow
Shall I send to thee?

ROMEO
At the hour of nine.

JULIET
I will not fail: ’tis twenty years till then.
[…]
I have forgot why I did call thee back.

2.2.167–170

Það þarf náttúrulega að hugsa sér drjúga þögn milli síðustu línanna hjá ungfrúnni. Þá er þetta líka frekar brilljant.

Foreldrar Júlíu eru forvitnilegt par með tiltölulega stórt túlkunarsvigrúm. Hr. Capulet sýnir stjórnvisku í upphafi, þegar hann hindrar Tybalt í að ráðast á Rómeó og spilla þannig veislunni, en hann er líka bulla í samskiptum við bæði þjónustufólk og dóttur sína. Slepjulegur gagnvart París greifa (Capulet- og Montaguefólkið eru sennilega ekki aðalborin), og skemmtilega og barnslega spenntur í brúðkaupsundirbúningnum. Frú Capulet á þessa sérdeilis krípí línur þegar hún reynir að stappa stálinu í útgrátna dóttur sína, sem hún heldur að sé að gráta Tíbalt frænda sinn en ekki yfirvofandi tvíkvæni:

Evermore weeping for your cousin’s death?
What, wilt thou wash him from his grave with tears?
An if thou couldst, thou couldst not make him live;
Therefore, have done …

3.5.69–72

Síðasti textamolinn sem mig langar að tala um er úr skrítnum kafla undir lok fjórða þáttar þar sem Capulet-fólkið hefur fundið „lík“ Júlíu og harma þessi illu tíðindi. Gefum fóstrunni orðið:

O woe! O woeful, woeful, woeful day!
Most lamentable day, most woeful day,
That ever, ever, I did yet behold!
O day! O day! O day! O hateful day!
Never was seen so black a day as this:
O woeful day, O woeful day!

4.5.49–54

Nú leikur einhver smá vafi á hvort R&J eða A Midsummer Night’s Dream kom á undan undan fjöðurstaf Shakespeares, en eigum við ekki að gefa okkur að það sé þessi ræða sem hann er að skopstæla þegar Píramus lætur vaða á nóttina og vegginn:

O grim-look’d night! O night with hue so black!
O night, which ever art when day is not!
O night, O night! alack, alack, alack,
I fear my Thisby’s promise is forgot!
And thou, O wall, O sweet, O lovely wall,
That stand’st between her father’s ground and mine!
Thou wall, O wall, O sweet and lovely wall,
Show me thy chink, to blink through with mine eyne!

MND 5.1.168–175

Svo má aftur velta því fyrir sér hvort áhorfendur hafi óvænt hlegið að óhemjuskapnum í fóstrunni og Shakespeare ákveðið að snúa þeim tragíska ósigri í kómískan sigur, eða hvort honum hafi blöskrað rembingurinn og veitt sjálfum sér þessa ráðningu.

Merkilega lítið er að finna af uppteknum sýningum á þessu sívinsæla leikriti, eins og fram hefur komið. Í mínu ansi umfangsmikla safni eru fjórar myndir: Ein úr heildarútgáfu BBC frá 1978, brjáluð og myrk klukkustundarlöng ungversk útfærsla sem ég sá á alþjóðahátíð áhugaleikhúsfólks í Mónakó 2009 og svo tvær bíómyndir, sem ég horfði á báðar.

Mynd Zeffirellis frá 1968 er mikið augnayndi, fjörug, litrík og kröftug. Virkar á mann eins og hún sé að miklu leyti „án túlkunar“, fyrir utan styttingar og að oera viðureign Merkútsíós og Týbalts að hreinræktuðum „gannislag“ þar sem enginn ætlar að meiða neinn (vond hugmynd). Svona uppfærsla sem einfeldningar kalla „að leika verkið eins og það er skrifað“ – það eru meira að segja sokkabuxur! Fín sem slík, en voða finnst mér þau Leonard Whiting og Olivia Hussey mélkisuleg í hlutverkunum. Var virkilega ekki hægt að láta þau skæla sannfærandi, en ekki eins og frek börn að reyna að fá sínu framgengt? Þetta vekur auðvitað hugsanir um þann grundvallarvanda verksins (og eina ástæðuna fyrir að það er ekki jafn fyrirferðarmikið á efnisskrám leikhúsanna og sum önnur) að það er vandasamt að finna leikara á réttum aldri sem valda hlutverkunum, hafa næga þjálfun og innistæðu til að skila þessum börnum svo vel sé.

Þessi tvö eru t.d. komin yfir þrítugt. Gera þetta frábærlega, en andskoti er erfitt að trúa á mey- og sveindóm þeirra. Skiptir það kannski ekki máli? Auðvitað skiptir það máli.

Mynd Luhrman stenst þetta próf. Di Caprio og Danes eru kannski ívið of fullorðin, en sleppa fyrir það horn (svo sæt), og eru hreint frábær bæði tvö. Myndin er verulega vel heppnuð sem slík. Heimurinn sem hún skapar fullkomlega trúverðugur á sínum forsendum, og hinir saklausu unglingar yndislega hrein og heil innanum allt taumleysið og úrkynjunina. Það er eitthvað við glannalega og næstum-smekklausa notkun Luhrman á teiknimyndalegum rythma, klippingum og stíl sem kallast á við, myndar hliðstæðu við bundinn og skrúðmikinn textann. Ef honum (eða því sem eftir stendur af honum) hefði verið sýnd eilítið meiri alúð væri Romeo + Juliet enn ofar á kvarða kvikmyndaðs Shakespeares, og stendur hún þó næsta hátt á honum.

Romeo and Juliet er stórvirki og mikill áfangi á vegferð Shakespeares. Hann skrifaði aldrei neitt þessu líkt aftur. Sem má reyndar segja um ansi mörg verkanna sem verða til þessi árin.

Og já. Gamanleikur fyrst. Fer svo út af sporinu. En hugsum í lokin um þriðju síðustu línuna þar sem Verona-prinsinn segir,:

Some shall be pardon’d, and some punished

Það er auðvelt að missa af þessu vegna snökts og leit að vasaklút. En það lítur út fyrir að það sé tragísk hetja í verkinu þrátt fyrir allt, sem hefur tvo kosti og hvorugan góðan. Stendur með hugsjón sinni – og ferst.

Þetta er þá harmleikurinn um Friar Laurence eftir allt saman.

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra. Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast. 

Textinn

http://shakespeare.mit.edu/romeo_juliet/full.html