Bláa Hawaii: Haukur


Dómar

I.
Kölnarvatn á maður ekki
úr krananum drekka,
segir Katharina á palli.

Lestina setur hljóða,
uns hún
greikkar sporið
og leggur München að baki.

Ilmvatn, kvenmannsháls, sól
leiða hugann til Hólmavíkur,

þang, tíst, fjara
vorið í Norðri hefur sinn sérstaka angan.

II.
Altari kirkjunnar í Köln
þarf líka að þrífa.
Svo Petra krýpur
og um ryksugustútinn grípur
sem úr teppinu sýgur
myrkur undan rykugum hempum.

Rótin er svört
og liturinn úr sér vaxinn.
Já, það líður að plokkun
og litun í maí,
hugsar Petra með sér
undir vökulum augum
manna sem
veggina prýða.

II.
Við opinn glugga
á horni Beethovenstaße
situr Lena og reykir.
Kryddaður angan
Austurlanda
leikur um vitinn
er reykurinn slæðist til himins.

Hún horfir út
og hugsar til Guðs
sem býr fyrir ofan
– ef ekki efst þá
uppi á þaki.

Hún heyrir hann stundum
leika á hörpu og syngja
bjartri röddu
og væri hún yngri
byði hún honum í kaffi
og sæi svo til
hvað gerðist.