Fiskur af Himni eftir Hallgrím Helgason

Að lesa ljóð - Gagnrýnandinn, aðallega um sjálfan sig

Mér finnst ég bara geta skrifað um þessa bók þegar ég er pínu fullur. Verð svo miskunnarlaus og fæ harðar skoðanir; langar að meiða Hallgrím. Hitti hann bara einu sinni og það var mjög næs, skemmtilegur, viðkunnanlegur, klár náungi og ég pínu starstruck og heimskur.  (Hef aldrei fyrirgefið honum Suit&Tie dæmið.)

Þegar ég er pínu fullur þá langar mig til að birta hér bókina í heild sinni, fara yfir hvert ljóð með rauðum penna, krota, krassa, skamma: „Djöfulsins helvítis smáborgaraplebbadrasl! Samið af auglýsingastofu eða eitthvað! Það er eins og hann hafi kortlagt lægstu sameiginlegu samnefnara samfélagsins – sjómannalíkingar(cringe), fótbolta, skutla krökkunum, gæludýr, krakkar eru alltaf í símanum sínum, rúv, horfa á sjónvarp,tott, New York, Reykjavíkurborg í rómantísku ljósi, ó Esjan, framandi kaupmenn í Ankara (wtf), endurtekningin, dagurnóttdagurnóttryþminn, ó! lífið, jörðin eins og fótbolti, símar í nýju ljósi, fullur og graður á djamminu, skáldið sem stendur fyrir utan allt og horfir á leikritið sem lífið er, Airbnb og evrur,  fortíðin og séríslenskar minningar fyrir væntanlegar þýðingar í þýskalandi, „foreldrar halda að börn séu börn“, hö hö þetta er sniðugt hjá mér þó ég segi sjálfur frá höhö. Svo gerir hann bókina fullkomlega ósnertanlega og ógagnrýnanlega með því að lýsa mjög persónulegum og hryllilegum atburði í lífi sínu og fjölskyldu sinnar. Andskotans helvítis fokk fokk bók!!“

En þegar ég er ekki pínu fullur … þegar ég er ekki eða mjög fullur, þá skil ég bókina öðruvísi. Þetta er ekki bók fyrir pínu fulla. Þetta er bók eftir venjulegan og næs mann, sem lifir venjulegu lífi. Hann reyndar vinnur við það að þurfa að horfa utanfrá og djúpt innanfrá á hluti sem gerir hann kannski óvenjulegan að einhverju leyti en það er ekki aðalatriðið hér. Venjulegur maður; hann þarf að vera svo ofboðslega venjulegur til þess að við getum skilið hryllingin og harminn sem hann lýsir í seinni hlutanum. Ef geimvera lendir í einhverju þá er erfitt að setja sig í hennar spor, skilja hvernig henni líður og upplifa samúð og finna til samkenndar.  Þess vegna er fyrri hlutinn sennilega svona ærandi skelfilega pedestrian. Svo ætti kannski líka að vera fyrirgefanlegt að vera venjulegur. Ég held það allavegana stundum þegar ég er ekki pínu fullur …  Hryllings- og harmhlutann ætla ég ekki að tala neitt um. Langar bara til þess að votta honum samúð mína og vona innilega að hann og fjölskylda hans hafi það sem allra best.  

Svo var ég beðinn að taka nú aðeins fyrir einhver stök ljóð í bókinni. Ég veit ekki… Eins og er kannski augljóst þá er ég ekki mikill ljóðaunnandi; þekki ekki formið og fræðin og er illa lesinn. Hvað ætti ég svosem að segja? Hvað er ég eiginlega búinn að vera að segja? Kræst…

Titill

Orð orð orð
vísanir vísanir vísanir
líkingar líkingar líkingar
Nennekki nennekki nennekki

Svona sé ég ljóð, upplausnin hjá mér er ekki mikið hærri en þetta. Ég fæ auðvitað einhverja upplifun en hún er þá yfirleitt eitthvað af eftirfarandi: Fullkomið hlutleysi, þetta er mér óviðkomandi, skil ekki, sjitt hvað þetta er lélegt, pirrandi en nenni ekki að skilja afhverju, öfund, afhverju datt mér þetta ekki í hug, ég get gert betur, ég ætla að semja ljóð sjálfur, þetta er fyndið.

Leti og hroki eru semsagt mínar grunn nálganir að ljóðalestri. Ég vil láta skemmta mér eða láta fræða mig. Bók Hallgríms gerir hvorugt.

Latur Palli: Þetta er hvorki skemmtiefni né fræðirit. Next!

Hrokafullur Palli: Bók Hallgríms er bara tilgerðarleg dagbók.

En nú spyr ég mig (eða nú verð ég að spyrja mig) hvort það sé möguleiki á því að skoða þetta öðruvísi.

Ekki latur Palli: Þetta er hvorki skemmtiefni né fræðirit. Hvað ætli þetta sé þá? Best að athuga.

Ekki hrokafullur Palli: hmm… ok það er margt í bókinni sem ég skil ekki. Allskonar tengingar sem ég skil ekki, myndir sem ég sé ekki. Lesa aftur, lesa hægar, hugsa, ekki dæma, tengja, finna.

Ok jú, hérna er eitt:

11.11.14

Ligg í rúminu dormandi
með lokuð augu

Heyri tíkina koma inn ganginn
klóatiplið á parketinu
(sem minnir helst á nagladekk á malbiki)
síðan öllu daufara hljóð
þegar hún kemur á mottuna
við rúmið

Fimm sekúndna þögn

Síðan aftur sama tiplið
út úr herberginu
og fram ganginn

Ég las þetta fyrst hratt, ok hér er ekkert, næsta. En nú sé ég að þetta ljóð er betra en öll hin í bókinni.  Þetta er eins og stutt vídjó, ekkert verið að trufla mig með einhverju tungumálaveseni eins og skrautlegum orðum, fjarlægu myndmáli sjómennskunar eða rödd og tilfinningum sögumanns. Hreint, skýrt, ég hef upplifað þetta sjálfur en lítið hugsað um þetta, er meira eins og draumur en minning en gerðist samt alveg örugglega. Hvað eru voffarnir að spá þegar þeir gera þetta? Hef ég verið í sporum voffans?

Æi á heildina litið er þetta ábyggilega mjög fín bók en ég held að það nenni enginn að fylgjast með mér komast að því smám saman í löngu og lélegu máli. Ég lofa samt að vanda mig betur við ljóðalestur í framtíðinni, ekki bara mín vegna heldur líka vegna þess að einn af mínum bestu vinum er ljóðskáld. Hann á það skilið. Við eigum það skilið.

Kærar kveðjur,
Páll Ivan