Klórinn í hárinu gufar upp
undir birtunni frá ljósastaurnum
Hitinn þurrkar gangstéttina
Þú strýkur henni
því þú strýkur alltaf
öllu sem er hrjúft og á meðan
talarðu um framtíðina:
Við gætum gengið um borgina
Brotið ljósastaura í tvennt
eins og saltstangir
Kreist rafmagnskassa
eins og svalafernur
Eins og við séum skrímsli
í gamalli japanskri bíómynd:
Eðlukonan og vélmennið
Í berserksganginum
myndu þúsundir
deyja
Það er eitthvað spennandi við ást
sem leiðir af sér svona hörmungar