Líkhamur


Þrjú ljóð úr ljóðabókinni Líkhamur eftir Vilborgu Bjarkadóttur.

Hún segir honum að í kvöld sé hún bókapersóna og því engin venjuleg stúlka. Þegar hann hyggst halda henni fastri er hún rokin í næsta kafla. Það versta er að hann hefur ekki hugmynd um á hvaða blaðsíðu hún er eða í hvaða bók svo það er engin leið fyrir hann að elta hana.

Meðleigjandi minn ræktaði þrýstin jarðarber í eldhúsglugganum eftir að hann hætti með kærustunni. Það furðulega var að berin gáfu frá sér kynfæralykt og hann hætti að stunda kynlíf um leið og hann hóf að borða þau. Oft situr hann í húmdökkri stofunni og gefur frá sér munúðarfull hljóð. Satt best að segja sárlangar mig að setjast hjá honum og bragða á berjunum en hræðist að hann hafni mér.

Ást hans á köttum hreif stúlkuna frá fyrsta kvöldi. Í hvert skipti sem hún kom til hans var hann með kattardýrið í fanginu. Þegar hún færði sig nær honum malaði læðan hærra og týndist í kjöltu hans og stundum sleikti læðan bert andlit hans af svo miklum ákafa að stúlkan hafði aldrei séð annað eins. Hún kippti sér lítið upp við ögrandi hegðun læðunnar þar sem aðeins væri um að ræða ástleitinn kött. Viðmót hennar breyttist á svipstundu þegar hann glopraði því út úr sér að eigandi kattarins væri fyrrverandi kærasta hans.