Miðborgarblús

Miðborgarblús

handa Siggu

Þegar við kynntumst smullum við strax saman
bæði með snert af óhamingju í okkur
og þú með eilítinn sársauka
Við læddumst saman á klósettið
á skítugri búllu í miðborginni
til að skiptast á leyndarmálum
                                 og fallegum orðum
spenntum greipar á klósettskálinni
                                 og föðmuðumst (manstu sprenginguna?)
Bæði þá og alla tíð síðan
hefur þú verið dansandi ljós
á myrkragöngunni sem ég þreyti (en hún er önnur saga)
Vaktir strax athygli mína
fólk af okkar meiði kynnist ekki
eins og annað fólk
Líkast til höfum við kynnst á
annarri öld
áður en miðborgin og hörmungar heimsins komu til
ég spurði þig: hver ertu?
þú svaraðir: ég er norn

Morguninn læddist að mér í gegnum þokuna
reykurinn á kránni var enn í loftinu frá kvöldinu áður
ómur af tónlist hlátrasköll bárust gegnum tjaldið
                                 mannamál og glasabuldur
einhver sló taktinn á trommu…
Þú veist um manninn sem málaði alltaf sama fjallið?
hann var ekki að mála fjallið heldur sjálfan sig —
þú kastaðir hljóðlega galdri og smeygðir þér inn fyrir
ég hélt áfram að lifa
þannig komstu mér til