Kona í baðkari


Hún liggur í baðkarinu
í hnipri, heldur utan um hnén,
ljós hárþyrillinn úfinn, augun starandi.
Skrámuð og marin á skrokkinn,
sköðuð til ólífis á sálinni.

Í fallegu og velhirtu baðherbergi í austurborginni
er þessi kona í baðkerinu eins og sprenging,
geðveiki hennar ekki í samræmi við neitt venjulegt.

Þeir komu með hana á svörtu maríu
í skjól bróður og mágkonu,
hafði sést ráfa hálfnakin niðri við sjó
íklædd harmi og skynvillum,
sagði ekkert um neitt.

Hún er böðuð af varfærni
og ástúð, eins og barn.
Þvegin af henni vonska annarra,
en sorgina innvortis
nær ekkert kærleiksþel að hreinsa.

Sorgin eftir drengnum,
blóði af hennar blóði,
sem hvarf og aldrei fannst,
hefur tært innyfli hennar,
gert sálina að saltstólpa.

Hún sér sjaldan eitthvað vitlegt
þaðan sem hún horfir úr auðninni.