Bilað snjóruðningstæki?

Úti var nýfallin mjöll, ég setti Herbergingu í geislaspilarann og gekk inn í eldhús þar sem eiginkona mín var að undibúa kvöldmatinn. Hún spurði mig. Hvaða hávaði er þetta? Er snjóruðningstækið bilað? Ég útskýrði fyrir henni að þetta væri tónlist sem við værum að hlusta á. Bætti svo við að þetta gæti hugsanlega verið góð tækifærisgjöf fyrir faðir hennar. Hann hefur yndi af tónlist sem skreppur út fyrir rammann.

 

Um er að ræða nýja plötu frá flautuleikaranum og tónskáldinu Berglindi Maríu Tómasdóttur. Á henni eru þrjú verk, Lofthelgi, Herberging og Ö. Þau eru að lengd frá tæpum sex mínútum til tæpra 23 mínútna. Verkin eru eftir Berglindi sjálfa en meðhöfundur að Ö er Ólafur Björn Ólafsson, en hann sá einnig um upptökur og hljóðblöndum. Meðflytjandi í verkinu Ö er Marta Guðrún Halldórsdóttir. Tónjöfnun var svo í höndum Valgeirs Sigurðssonar. Umslag var hannað af Kjartani Hreinssyni.

 

Eins og kemur fram í upphafi greinar þá er þessi tónlist hávaði, skruðningar, ískur en fer þó aldrei yfir í læti. Þetta er tónlist sem fær mann til þess að hugsa. Hugsa um hvað er gildi tónlistar? Hvað er tónlist yfir höfuð? Hefur tónlist sem þessi gildi? Hefur konan mín rétt fyrir sér, er þetta ekki bara hávaði? Er hægt að hafa gaman af þessu? Á maður að hafa gaman af þessu? Þetta eru spurningar sem hver hlustandi verður auðvitað að svara fyrir sjálfan sig.

 

Það er freistandi að setja Herbergingu í flokk með óhljóðaverkum eins og Metal Machine Music eftir Lou Reed og Zero Tolerance For Silence eftir Pat Metheny. Verk sem getur verið að ekki sé hlustandi á en eru um leið ómissandi. Ómissandi vegna þess, einmitt, að þau gera óheyrilegar kröfur til hlustandans. Sá sem hlustar á verk sem þessi verður að skilja eigin væntingar, til þess sem hann eða hún telur vera tónlist eftir fyrir utan hljómflutningstækin.

 

Það má vera að setja Herbergingu í þennan flokk sé ekki alveg sanngjarnt samt. Mér virðist vera eilítið meiri hugsun á bak við hana. T.a.m. flögrar Ö í kringum lækkað A eins og sinfóníuhljómsveit sem nær aldrei að stilla sig saman. Og þannig á tónlistin kannski að vera, að ná aldrei marki sínu. Það er ekki svo mikil hugsun á bak við hinar tvær skífurnar. Eins fellur tónlistin á þessari plötu mjög vel að ljóði Sigurbjargar Þrastardóttur sem er birt í bæklingnum. Þ.e. hér er unnið með þema. En eftir stendur að um er að ræða erfiða tónlist þar sem engar málamiðlanir hafa verið gerðar og hlustandinn þarf að vera virkur við áheyrn sína og taka afstöðu.

 

Umbúðir disksins eru sérlega vel úr garði gerðar. Stílhreinar, fallegar og eins og tónlistin þá þarf að hafa aðeins fyrir þeim. Þó ekki sé um mikinn texta að ræða þá er honum ekki stillt upp eins og maður á að venjast. Því koma upplýsingarnar til manns í bunum þegar maður finnur þær.

 

Herberging er mikilvægt verk og launar endurteknar hlustanir ríkulega. Ég hlakka til að gefa tengdapabba þetta í afmælisgjöf.

 

Ö