Ég er fagnaðarsöngur

HÁKONA, EKKI HÁKARL

Ég sæki bassann ofan í magann
þegar ég vil láta taka mig alvarlega

Lága E-ið

Stroka hikorðin og spurningarmerkin út
með tungunni

[Setningar með punktum]
[Setningar með upphrópunarmerkjum]

Ef ég fæ ekki hljómgrunn sæki ég hákarlahaminn
ofan í neðstu skrifborðsskúffuna, klæði mig
hljóðlega inni á kvennaklósettinu

Hann er gráðugur og tannbeittur
og gefur ekkert eftir

[Setningar í germynd]
[Setningar í boðhætti]

Á kvöldin klæði ég
mig úr staðfestunni

Leggst ofan á rúmteppið
í blóðbrenndum bómullarnærbuxum,
slitnum brjóstahaldara

Sækir að mér efi
Sækir að mér eilífur efi

Er ekki styrkur
í spurningarmerkinu líka?

Gæti ekki mögulega leynst styrkur
í að vera ekki alveg viss?

Fríða Ísberg

Persefóna

Ég skola nærfötin mín
upp úr hlýju hafinu

þvæ burt útferðina
blóðið og myrkar rákirnar

ligg nakin á ljósri klöpp
sólin skín á gömlu örin
og loðnuhjúpurinn glitrar

á meðan blakta brækurnar
á snúru sem ég strengdi sjálf

eins og skínandi fánar
hins langþráða fríríkis

Þóra Hjörleifsdóttir

Bogi

Krosslegðu ekki fótleggi
segir amma
þú færð æðahnúta
en ég var í skátunum
ég hnýti mína eigin hnúta
ríð mín eigin net

tálga örvar
yfir sakamálaþáttum vetrarins
ein ör fyrir hverja
myrta konu

réttu úr bakinu
segi ég systur minni
sittu gleið

spenntu lífbeinið mót þeim
eins og boga

Sunna Dís Másdóttir

Bergflétta

Stundum er ég draugahús
þéttofin bergfléttu
íbúar mínir frjósemisgyðjur
framstignar úr ryki feðranna
góðhjartaðar skessur allra kynja
kattardýr og draumdýr

stundum er ég draugahús
þar sem myrkur markar nýjan dag
kveiki elda í stássstofum
vek forvitni vegfarenda
tæli þá til tilfinningasemi

ég kyssi þá í hársvörðinn
munúðarmánaskini

þá hefst gleðskapurinn
og þeir vita ekki lengur
hvað er rétt

Melkorka Ólafsdóttir

Saffran

Það er strengur á milli okkar
sem skerpist við tog
glóir við samveru

hann þræðist upp meðfram gómnum
í gegnum augntóftirnar og með hárlínunni

þegar við förum héðan losna strengirnir

þeir fjúka með vindum
flækjast við borgarmörkin eða sjávarsíður

fiskur sem veiðist í neti úr strengjunum
hefur sterkt saffran eftirbragð

munnurinn fyllist minningum
af fjarlægum, stöðugum slætti

Ragnheiður Harpa