Myndir og myndband: Af Facebooksíðu Gallerí Úthverfu.

Siðmenning spýtunnar (mótefni við glundroða)

Spýtu bregður
Unndór Egill Jónsson
Sýning í Gallerí Úthverfu á Ísafirði
Opið 19. maí til 10. júní

Vél er samkvæmt alfræðiorðabókinni Wikipediu tæki sem flytur orku – til dæmis ristavél eða vogarstöng eða bílvél en sennilega ekki stígvél, sem flytja enga orku ein og sér (og er fleirtöluvél – þau x-vélin). Vél Unndórs Egils Jónssonar samanstendur af fallega pússuðum spýtum – ég hef ekki vit á viðartegundum en þetta eru tvær ólíkar tegundir, límdar (?) saman og haft var á orði á opnun að tegundirnar væru útlenskar, komnar yfir hafið frá Ameríku, alvöru timbur, en mönnum bar ekki saman um hvort þær væru kanadískar eða bandarískar. Einhvern tíma hefði það ekki skipt máli en í ljósi hins pólitíska landslags er symbolísk merking þessara landa mjög ólík, því þótt færa megi rök fyrir að þeim sé báðum stýrt af smjörkúkum er meira af smjöri í öðrum og meira af kúki í hinum. En nú er ég kominn út fyrir efnið. 

Á þessum fallegu spýtum eru nokkur haganlega smíðuð hjól og tannhjól sem snúast mishratt fyrir kraft mótors sem er aftan á verkinu. Tannhjólin, sem standa flest lóðrétt, drífa áfram tvo arma sem færast hægt í láréttan hring. Fyrri armurinn, sem er talsvert minni, drífur lítinn búnað sem bankar í rúðuna á galleríinu en seinni armurinn potar í spýtu sem snýst lítillega en færir sig svo aftur í upphaflega stellingu – strax í kjölfar rúðubanksins. Þetta ferli tekur vel að merkja talsverðan tíma. Hugmyndin er sú að seinni spýtunni „bregði“ við hljóðið þegar bankað er í rúðuna. 

Það er merkileg tilfinning að standa frammi fyrir svona vél, hlusta á hana suða, og bíða (óþolinmóður) eftir því að spýturnar hreyfist; hugurinn fer á flug og leitar víða fanga. Þá er einsog ferlið verði hraðara eftir því sem maður hefur séð það oftar – öfugt við flesta upplifun, bækur eru yfirleitt lengri þegar maður les þær í annað sinn, sama gildir um bíómyndir, enda spennan ekki til staðar lengur til að draga mann áfram. Maður veit hvað er að fara að gerast og skortir hvatann til að drífa sig. En hérna veit maður að í kjölfar lágværs smells (sem heyrist varla þegar galleríið er fullt af fólki) mun spýtunni bregða. Svo mun það gerast aftur. Og aftur. En af einhverjum orsökum gerist það sem sagt hraðar. Kannski er það íhugunartransinn – það er alþekkt að maður missi sjónar á tímanum við hugleiðslu – og kannski er það óþolinmæðin sjálf. 

Spýtan sem bregður er enn með berkinum á, óhefluð og ópússuð – og þannig í einhverjum skilningi eina spýtan í verkinu sem er ekki spýta í þeim skilningi sem ég legg í orðið heldur þvert á móti „trjágrein“ eða „hrísla“ eða enn fremur „sprek“ – börnin mín myndu kalla hana „prik“. Hún er ekki heldur fínn amerískur viður heldur bara eitthvað tré – einhver hélt því fram, sennilega í hálfkæringi, að hún væri fengin úr hinum alræmda Teigsskógi. Ef við vildum gætum við þess vegna eytt næstu fimmtán árunum í að rífast um gildi hennar – hvort ég sé hugsanlega að gera of lítið úr henni, þetta gæti verið ómetanleg hrísla, kannski þurfum við að skiptast á að flytja lögheimili okkar í þessa hríslu – en látum vera í bili að undanskilja hana bara félagslegu hírarkíunni og gangast þess í stað við því að eðli þessara viða, þessara spýtna, trjáa, spreka, hríslna, prika sé ólíkt. Seperate, but equal, kvað skáldið. 

Borgarastéttin virðir fyrir sér verkið með drykk í hendi.

Vélvirkið sem bregður spýtunni – og/eða bregður henni, í merkingunni „hreyfir snögglega“ – táknar augljóslega siðmenninguna, hina sívílíseruðu spýtu sem hefur bókstaflega fjarlægst rætur sínar, fjarlægst börk sinn, náttúrulega sveigjur, og orðið að einhverju sem er í grunninn fullkomlega fabjúlös en á sama tíma einhvern veginn þrælslundað og fyrirsjáanlegt. Hin sívílíseraða spýta þjarkar og þjarkar í eilífum sýsifosarleik og hefur ekkert til síns ágætis nema fegurðina og þokkann – hversu vel hún þjarkar, hversu fallega pússuð hún er í vinnunni, hversu taktfastar og dáleiðandi hreyfingar hennar eru. 

Hún er spýtan sem við viljum verða – og óttumst að verða – alltaf að, alveg gagnslaus, en gerir það vel. 

Hin ósívílíseraða spýta – sú óheflaða sem lætur sér bregða og er brugðið – er hins vegar löt, hyskin og þokkalaus. Hún er einsog órakaður, skítugur mannrakki sem húkir eirðar- og umkomulaus á einhverju götuhorni, í blettótum buxum með sígarettu í munnvikinu, stendur við stóran poll, vitandi að bráðum keyrir bíllinn framhjá en of uppburðarlítill eða þrjóskur eða þunglyndur til að láta sér standa á sama og færir sig því ekki fet heldur lætur bara reglubundna gusuna yfir sig ganga. Þessi spýta hefur gefist upp. Henni finnst þetta allt einskis virði og bíður þess eins að búið sé að sparka svo rækilega í sig að hún standi ekki lengur í stofninn heldur falli einsog … einsog tré í skógi. 

Hún er spýtan sem við vitum innst inni að við erum – alltaf í pásu, gagnslaus og í grunninn alveg sama um það. Hún reynir ekki einu sinni. Jordan Peterson á sitthvað ótalað við þessa spýtu.

Vélvirkið er líka magnþrungin og alltumlykjandi heimsveldastefnan – agaður og dýr mekanismi sem sparkar í lítilmagnann af fyrirsjáanlegu hugsunarleysi; myndlíking fyrir allan yfirgang, allan belging, hið fágaða stígvél fasismans. Og hin óheflaða spýta þá varnarlaus öreiginn sem má sín einskis gagnvart spörkum kapítalismans, feðraveldisins, hins alþjóðlega fjármagns sem malar einsog vel smurður mótor, drynur einsog fjallið þegar losnar um snjóhengjurnar. 

Í sýningarskrá er verkið sett í annað samhengi:

Á gresjum Afríku heyrist grunsamlegt þrusk og antilópurnar snúa allar snöggt við og sperra eyrun í átt að hljóðinu. Þeim bregður og þær verða samstundis hræddar um líf sitt og þá um leið meðvitaðari um tilvist sína sem aldrei fyrr. En er hægt að bregað meðvitund inn í gamla spýtu? Á sýningunni má sjá vél sem með ákveðnu millibili skapar andartak þar sem spýtu bregður. Með því að bregða henni ítrekað með taktföstu millibili leitast listamaðurinn við að bregða meðvitund inn í spýtuna. Spurningin er hvort það sé jafnvel orðið of seint, líkt og fyrir eina ólukkans antílópu á gresjum Afríku. 

Frammi fyrir verkinu verður þessi texti skemmtilega kómískur. Sennilega er fátt sem hefur minnt mig minna á gresjur Afríku en þessi vélbúnaður í Gallerí Úthverfu – og þótt kannski sé smá antilópa í spýtugreyinu er það antilópuhræ, í besta falli uppstoppað, og viðbrögðin meira einsog þegar maður lyftir loppu á dauðu dýri og sleppir henni til jarðar til þess að athuga hvort með henni sé nokkurt lífsmark. En nei, þessi spýta er steindauð. Bæði hérnamegin og þarnamegin.

Spýtu bregður er feykilega skemmtilegt verk og vélin gríðarfalleg smíð – samsvarar sér vel, mig langar að tala um Da Vinci en skortir alla menntun – og þótt verksins sé sennilega best notið inni í galleríinu er líka hægt að skoða það utan af götu. Meðal þess sem Gallerí Úthverfa hefur sér til ágætis er einmitt stór og mikill gluggi og er hann iðulega notaður í sýningum – og hafi ég ekki misskilið eitthvað kemur nafn gallerísins til af þeirri ætlan að maður geti séð sýningar þar sem maður stendur á gangstéttinni. Enda er galleríið sjálft iðulega lokað – þótt hægt sé að fá það opnað samkvæmt samkomulagi og starfsmenn þess (og Arts Iceland residensíunnar) séu oft á svæðinu á skrifstofutímum. 

Hins vegar bregður nú svo við að verkið bilaði fljótlega eftir opnun fyrir 11 dögum síðan og hefur enn ekki verið lagað. Þótt ég viti að fyrir þessu eru ýmsar skiljanlegar ástæður, flensur og fleira, þá er þetta auðvitað samt bagalegt gagnvart bæði listunnendum í bænum og listamanninum. Það hefði líka mátt hengja upp skilti um bilunina – ég hélt sjálfur fyrst að það hefði einfaldlega verið slökkt á því af einhverjum orsökum, til að spara rafmagn eða svo það skemmdist ekki, og fannst það súrt. Nema rétt á meðan ég ímynda mér að þetta sé fínpússað stígvél fasismans, auðvitað, þá er ég bara voða sáttur.

Hvað sem ástæðunni líður flytur þessi vél sem stendur enga orku, þessari spýtu bregður ekki og enginn reynir að koma henni úr jafnvægi, einsog það er nú dásamlega skemmtilegt. Er það einlæg von mín að þetta komist allt í samt lag við fyrsta tækifæri, bæjarbúum og öðrum gestum til yndisauka og lífsfullnægju.