Bang, bang: Byssuhasar í Breiðholti og skrímsli gengur laust

Um Nýja Breiðholt eftir Kristján Atla

Reyjavík er ekki lengur lítil saklaus borg/ með ljósum prýddar götur, hrein og falleg torg.“ Þannig söng Bubbi Morthes í laginu „Hvað er töff við það í snöru að hanga“ sem kom út á plötunni Allar áttir árið 1996. Hann á sannlega kollgátuna blessaður. Í Reykjavík þrífast sannlega glæpir. Líkast til er og auðsótt mál að verða sér út um alla þá ólyfjan sem hugurinn girnist sé maður á þeim buxunum. Vísast borgar sig ekki heldur að abbast upp á ranga aðila. Slíkt gæti leitt til fjörtjóns.

Án þess að lagst hafi verið í rannsóknarvinnu er næsta víst að glæpagengi eigi sér samastað í Reykjavík. Ekki má bara leiða líkur að því að aukning hafi orðið í glæpamannastéttinni útfrá grósku í ritun íslenskra glæpasagna heldur einnig útfrá því sem lesa má í miðlum dagsdaglega. Ofbeldi, eiturlyf, vændi, mansal, þjófnaður og þar fram eftir götunum grasserar í borg syndanna sem aldrei fyrr.

Ekki má heldur gleyma hryðjuverkaógninni sem vofir við hvert fótmál og eykst að sjálfsögðu með auknum fjölda rangra innflytjenda. Er nema von að lögreglan sjái sér einskis annars fært en að vopnast. Þó fyrr hefði verið! Enda margsannað að skotvopn tryggi öryggi vort hvað sem einhverjir vinstrivillingar segja.

Reyndar er eitt sem illilega vantar svo Reykjavík geti talist borg með borgum á alþjóðlegan mælikvarða illvirkjanna. Engan hefir borgin af sér fjöldamorðingann alið. Enn. Raunar hefir ekki verið uppi almennilegur raðmorðingi síðan Axlar-Björn var og hét. Megas færði hann að vísu til Reykjavíkur í skáldsögu sinni  Björn og Sveinn árið 1994 en betur má ef duga skal.

Vissulega hafa slíkir morðingjar verið skrifaðir inn í íslenskar skáldsögur og með þeirri sögu sem hér verður tekin til umfjöllunar bætist í þann hóp. Áður en sú umfjöllun hefst, þá að þessu:

Ill staðleysa, upplausn og óreiða

Ekki er rík hefð fyrir íslenskum staðleysubókmenntum. Því síður er hefð fyrir dystópíum eða illum staðleysubókmenntum. Fjölgaði í þeirri flóru með útgáfu tveggja skáldsagna sem komu út á síðasta ári. Skáldsögur þær eru Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur og ofannefnt Nýja Breiðholt. Sú fyrrnefnda var tekin til umfjöllunar hér.

Sögur þessar eiga sammerkt að sögusviðið er Ísland þar sem allt er í kalda kolum. Samskipti við útlönd hafa rofnað, markaðs- og fjármálakerfið er hrunið, vöruskipti eru ofan á í viðskiptum manna og öll helstu nútíma þægindi eru fyrir bí. Það er að segja þau þægindi sem við búum við. Segja má að landinu hafi verið sparkað allnokkrum árum aftur í fortíðina í óeiginlegri merkingu. Í Reykjavík er umhorfs líkt og skálmöld hafi geisað. Minna kemur fram hvernig umhorfs er á landsbyggðinni.  Í Nýja Breiðholti vill meira að segja svo til að „Bústaðavegurinn er stráður trjám, stórum steinum og ónýtum bifreiðum“. (bls. 247) Í þessum nýja veruleika ríkir lögmál hins sterka eða hins yfirgangssama. Þeir sem ekki víla fyrir sér að neyta aflsmunar hafa tögl og hagldir í samfélaginu. Á þessu er betur tæpt í umfjölluninni um Eyland.

Sögurnar gerast í náinni framtíð. Eyland er samtímasaga á meðan atburðir Nýja Breiðholts eiga sér stað um 30 árum eftir „flóttann“ sem átti sér stað í samtímanum. Sögurnar bregðast báðar við spurningunni hvað ef. Hvað ef eitthvað gerðist sem kollsteypti íslensku samfélagi þannig að samfélagsgerðin hryndi. Hvernig þróaðist samfélagið? Það er skemmst frá því að segja að í báðum sögunum stuðlar kollsteypan að aukinni mannvonsku með tilheyrandi fólskuverkum.

Viðfangsefni dystópía eða illrar staðleysu er einatt ótti. Það er að segja ótti við hvað framtíðin kunni að bera í skauti sér. Að sjálfsögðu taka dystópíurnar mið af samtímanum og hvernig samfélagið gæti þróast. Samkvæmt texta á bakhlið er Nýja Breiðholt einmitt „SPENNANDI OG ÓVENJULEG SKÁLDSAGA SEM KANNAR HVERT ÍSLENSKT SAMFÉLAG STEFNIR.“  Og ef horft er til inngangsorða þessarar greinar þá má lýðnum ljóst þykja hvert íslenskt eða allavega reykvískt samfélag hugsanlega stefnir sé tekið mið af sögunni. Allavega er téð skáldsaga glæpasaga, framtíðarsaga og ill staðleysa. En víkjum nú að sögusviði og sögupersónum Nýja Breiðholts.

Sögusvið og persónur

Aðalsögusviðið er, líkt og titillinn gefur til kynna, Breiðholt. Vettvangurinn færist þar að auki til miðbæjar Reykjavíkur, til Kópavogs svo og til Mosfellsbæjar. Í byrjun er fylgst með Mónu sem þvælist um í Smáralind með nokkrum félögum. Hlutverk Smáralindar er annað en við eigum að venjast. Þar er staðsettur vöruskiptamarkaður og á efstu hæðinni þar sem kvikmyndahús var að finna er núna hóruhús og „aðeins dópistar og ræflar […] [fara] þangað upp. “ (bls. 9) Þegar Móna er á leiðinni, í gegnum snjó og myrkur, frá Smáralind heim í Breiðholtið, þar sem hún býr með föður sínum, Núma, er ráðist á hana og hún numin á brott. Síðar kemur í ljós að sá ábyrgi er hluti af valdamikilli glæpaklíku. Hefir hann um hríð gert það að leik sínum að ræna ungum stúlkum og misnota þær kynferðislega. Þegar hann hefir fengið nægju sína gengur hann milli bols og höfuðs á þeim. Auðvitað.

Víkur nú sögunni til Núma, föður hinnar brottnumdu. Eins og gefur að skilja verður hann einkar kvíðafullur er hann uppgötvar að Móna sé horfin. Hefur hann því leit að henni. Sú leit leiðir hann til Nikolai úr Seli.

Nikolai er harðsvíraður glæpaforingi af erlendu bergi brotinn eins og hluti gengis hans. Breiðholt er hans yfirráðasvæði og Mjóddin „verslunar- og samskiptamiðstöð Breiðholtsins […] þaðan sem aðgerðum Seljagengisins er stjórnað“.  (bls. 26) Hún „er miðstöðin, hjartað sem dælir blóði í hið nýja Breiðholt undir vökulu auga Nikolai úr Seli.“ (bls. 27) Kannski vísar uppruni glæpaforingjans til aukinnar ásælni erlendra glæpamanna á innilendum markaði.

Raunar er málum þannig farið að Reykjavík skiptist á milli gengja. Þau valdamestu eru í miðbænum. Hafa þau gert samkomulag við Nikolai, þar á undan við Mykolas föður Nikolais, um að hann megi vera valdsherra Breiðholts. Þess má svo til gamans geta að Nikolai er tvíkvænismaður en slíkt telst ekki tiltökumál í þessum breytta veruleika. Ekki er óhugsandi að það vísi til múslimavæðingarinnar sem oft er milli tannanna á fólki.

Fjórða aðalpersóna sögunnar er Britta. Hún er systir eins fórnarlamba morðingjans sem nam Mónu á brott. Á hún því harma að hefna og slæst hún í för með Núma í leit hans að Mónu. Britta hefir aukinheldur aðlagað sig að breyttri stöðu kvenpeningsins.

Britta lærði snemma að vita alltaf hvað er framundan þegar hún er á ferðinni. Reynslan kenndi henni grunnatriðin; mæta fólki aldrei í undirgöngum, né á brúm, láta ekki sjá sig að óþörfu, halda sig við leiðir sem hún þekkir og treystir. Allt atriði sem stúlkur þurftu að hafa á hreinu stuttu eftir flóttann, í ringulreiðinni sem ríkti fyrstu árin. Allt atriði sem Britta hefur mótað í sína eigin lífsspeki á fullorðinsárum: alltaf vopnuð, alltaf á verði, ekkert vesen. (bls. 25)

Fleiri persónur koma við sögu í verkinu en það væri helst til of langt mál að taka þær til umfjöllunar einnig. Þær skipta og mismiklu máli.

Það sem mest er um vert eru breyttar aðstæður. Aðstæður sem skapast í kjölfar óljósra atburða sem leiða til þess að stór hluti fólks flýr land. Ekki er minnst á afdrif þessa fólks né er farið náið út í hvaða atburðir valda fólksflóttanum. Næst einhvers konar útskýringu komast eftirfarandi málsgreinar. Hér hefir Nikolai orðið í samtali við Núma:

Sko, það urðu miklir fólksflóttar frá landinu eins og þú veist. Við vöknuðum upp einn daginn, ég veit ekki hvað þú ert gamall og hvort þú mannst eftir þessu eins og ég eða ekki, en allt í einu var fólk bara farið. Og í nokkra daga á eftir flúðu þeir sem gátu forðað sér eitthvað annað líka. Þetta var áður en árásin var gerð á miðborgina, skilurðu. Einhverrra hluta vegna vissi efsta stétt landsins að eitthvað væri í vændum, einhverjir flúðu út á land og upp í sveitir en aðrir fylltu allar flugvélar og fóru bara eitthvað. Tveimur-þremur dögum síðar varð allt vitlaust. (bls. 58)

Árásin sem minnst er á er meint efnaárás (þessi atriði eru nokkuð á huldu í verkinu) sem rak „endahnútinn á fléttu sem slægði Ísland eins og fisk, reif úr landinu innyflin og skildi aðeins rotnandi hræið eftir.“ (bls. 71) Þar að auki breytist Reykjavík í eins konar Sódómu. Hér lýsir t.a.m. Númi ferð sinni í miðbæinn einhverjum árum fyrir fæðingu Mónu: „Nektin var allsráðandi, allt til sýnis og fólki virtist alveg sama.Ungur maður tottaði eldri mann og við hlið þeirra, varla metri á milli, hossaði kona sér á drjóla og beit í eigin putta af frygð.“ (bls. 71) Hér er að vísu ekki athæfi á götum úti lýst heldur á klúbbi einum. Engu að síður má leiða að því líkur að lýsingin eigi að sýna siðferðislega hnignun borgarinnar eftir árásina sem líkt er við heimsendi. Slíkt er nokkuð þekkt innan bókmenntanna og er þekktasta dæmið líkst til Tídægra Boccaccios.

Ekki er ólíklegt að árásin eigi að vísa til yfirstandandi hryðjuverkaógnar samtímans. En alltént hefir Reykjavík umhverfst í svæði sem spyrða mætti saman við Mad Max eða viðlíka dystópískar kvikmyndir og bækur. Glæpagengi ráða ríkjum í veröld án formlegs yfirvalds, framkvæmdavaldið er í höndum íbúanna þótt ekki sé ráðlegt að ganga gegn vilja gengjanna. Nikolai er valdsherra Breiðholts en er hann það þó upp á náð og miskunn aðalgengjanna. Á milli þeirra og Breiðholtsgengisins ríkir valdajafnvægi, og ekki ráðlegt að leggja í eitthvað sem gæti stuðlað að riðlun þess kerfs. Riðlun gæti haft í för með sér ófrið. Það er lykilatriði fyrir framvindu sögunnar af því að athæfi morðingjans hitta fjölskyldumeðlim Nikolai fyrir. Sakir þess að Nikolai vill ekki riðla kerfinu og valda ófriði aðhefst hann ekkert fyrr en hann dregst nauðugur viljugur inn í þá atburðarrás sem fylgir í kjölfar leitar Núma að dóttur sinni.

Formgerð sögunnar

Sagan er að mestu leyti sögð í sögulegri nútíð, 3. persónu, sem er vel til fundið þar sem leitast er við að skapa spennu og umgjörð um hasar. Þau skipti sem notast er við þátíð er þegar litið er til baka hvernig hlutum var háttað fyrir flóttann eða skömmu eftir hann. Það virkar einnig ágætlega. Reynt er að hafa söguhöfund ekki svo áberandi og er það einnig vel þar sem ekki passar að hafa of virka rödd söguhöfundar í hasarsögu. Engu að síður er vart hægt að fara varhluta af rödd sem augljóslega ber saman nútíð og fyrri tíð; fyrir flóttann.

Hér var einu sinni fólk. Út um allt, fólk. Búið í hverju húsi, bílar í hverri götu, fólk stóð í biðröðum, tróð sér jafnvel þúsundum saman eitthvert til að horfa á tónleika eða íþróttir. Samvera var það dýrmætasta sem hægt var að njóta en það áttaði sig enginn á því fyrr en fólkið var farið. Nú söknum við bara, það eina sem við gerum við söknum.“ (bls. 23)

Þessar málsgreinar svo og fleiri í þessum dúr bera keim af Jóni Kalman Stefánssyni og þríleik hans Himnaríki og helvíti, Harmi englanna og Hjarta mannsins þar sem söguhöfundur er einhvers konar „kollektív“ 1. persóna fleirtala. Að vísu eru beinar hugsanir persóna einnig skáletraðar þótt að það vanti nokkuð upp á samræmi í þeim efnum (t.d. bls. 44).

Sögumaður er alvitur og getur litið miskunnarlaust í höfuð miðlægu persóna sögunnar. Það er oft ansi mikið sem fer í gegnum höfuð þeirra, meira að segja þegar persónur verða fyrir árás eins og Móna í byrjun sögunnar:

Móna hlustar á vindinn og hugsar til pabba síns, ákallar hann. Hún vonar að hún sjáist ekki, að hún finnist ekki, að hún geti sloppið. Hún blótar Jönu og Laufeyju fyrir að hafa stungið hana af til að stela kjólum, blótar strákunum [stelpurnar og strákarnir voru með henni í Smáralind] fyrir að vera hálfvitar sem hafa slæm áhrif á vinkonur hennar, blótar pabba sínum fyrir að vera ekki hérna. Blótar sjálfri sér fyrir að hafa farið af stað ein. Ungar konur sem taka sénsinn í Breiðholtinu eiga ekki von á góðu, það veit hún en gerði það svo samt. Hún sér sig fyrir sér heima, drekkandi te við logann með hlýja og þurra fætur undir teppi. Örugg með bók í hendi, gáfuð stelpa sem veit betur en að halda ein heim fyrir myrkur. Þá finnur hún rifið í öxlina á sér, og svo sér hún hnífinn aftur. (bls. 17)

Hálf bagalegt verður að teljast hve mörgum hugsunum persóna er lýst í hasarsögu. Þetta dæmi er ekki einsdæmi og dregur það hasarinn talsvert niður. Spyrja má hvort ekki hefði farið betur á því að sleppa innliti í hugsanir persóna eða allavega skera það umtalsvert niður.

Mörgu er ábótavant

Umrætt verk verðskuldar ekki hávær húrrahróp. Til þess er of mörgu ábótavant. Verða hér nokkur atriði talinn upp: Það er skrýtið að Ísland sem misst hefir samband við umheiminn (raunar er ekki vitað hvernig málum er háttað ytra) státi af grænmeti og ávöxtum (sjá t.d. bls. 12). Hvaðan koma grænmetið og ávextirnir? Varla er það flutt inn í land sem misst hefir samband við umheiminn? Ekki virkar sannfærandi að að allt innra kerfið sé í molum, að fólk notist við kertaljós en samt sé rafmagn við lýði. Röng beyging nafnsins Símon er bagaleg. Eignarfall orðsins er Símonar ekki Símons (sjá t.d. bls. 111). Laugarvegur er gata á Siglufirði ekki aðalgata miðbæjar Reykjavíkur (sjá t.d. bls. 155). Það er kynlegt að vöruskipti gefi vel í aðra hönd (bls. 32). Skringilegt er að jarðbundnar persónur og lítt háfleygar í orðanotkun verði einstaklega háfleygar í beinum hugsunum (t.d. bls. 43). Ekki er ekki trúverðugt að harðsvíraður og skapstór glæpaforingi guggni á því að taka mál í eigin hendur og láti Núma um málið (verður enn ótrúverðugra er líður á söguna). Menn eru ekki af „litháenskum“ ættum heldur litháskum eða litháískum. Það er ósennilegt að persóna sem þekkir ekki til í miðbænum viti hvaða bygging sé gamli Landspítalinn  (reyndar skrifað Landsspítalinn í verkinu). Hvernig er hægt að hafa almennt ekki komið til útlanda þegar enginn hefir gert það? (bls.79) Hvernig getur maður sem fór í miðbæinn fyrir sautján árum (bls. 77) endurnýjað kynni sín af honum eftir áratugi (bls. 83). Ósennilegt er að Britta geti ákveðið að elta Núma niður í bæ þegar hún getur ekki vitað að hann hafi farið þangað (bls.100). Fótskref sem skrjáfa hljómar einkar undarlega (bls. 101). Hvernig á persóna sem aldrei hefir farið í miðbæinn að vita hvar Hverfisgata er (bls 117). Hér er gengið út frá því að götukort séu ekki almenn sérstaklega þar sem fólk úr Breiðholti og Kópavogi fer almennt ekki í miðbæinn. Áfram mætti finna til dæmi, enda eru þau mörg, en hér skal staðar numið.

Hvað skal segja?

Verkið ber klárlega ekki vott um vönduð vinnubrögð og ber þess ekki merki að hafa verið endurskrifað oft. Ef svo prófarkarlesari var fenginn til starfans er ekki hægt að segja annað en að hann hafi staðið sig illa.

Hugmyndin að Nýja Breiðholti er ekkert verri en aðrar hugmyndir. Fyrst hægt er að gera magnaðar bókmenntir um bændur sem fljúgast á er vel mögulegt að setja saman frambærilega framtíðarsögu, sem á sér stað á Íslandi, fjallar um fjöldamorðingja, glæpagengi og leit föðurs að dóttur.

Skemmst er frá því að segja að slíkt auðnast ekki sem skyldi. Innan verksins fyrirfinnast of margar villur, bæði málfræðilegar svo og innri rökvillur. Þar að auki er textinn oft og tíðum höktandi, setningar hefðu oft mátt vera styttri og hnitmiðaðri. Samtölin eru eftir því stirðbusaleg, gervileg og klén. Ekki hefði til dæmis sakað að skera niður notkun sagnasambanda svo og að notast við viðtengingarháttinn þegar hann á við. Það vottar ekki heldur fyrir mikilli stílvitund og margt er undar- og kauðslega orðað.

Svo eru það lykilspurningarnar: Hvernig tekur þessi saga á samtímanum? Hvað er hún að leitast við að segja okkur um hann? Svona sögur eiga það oft sammerkt að gagnrýna samtímann á einhvern hátt eða endurspegla ótta gagnvart framtíðinni. Hvernig gerir þessi saga það? Á hvaða vegferð er Reykjavík eða Ísland? Er allt á leið til andskotans með bófahasar og bang, bang í Breiðholtinu? Er það boðskapur sögunnar? Ekki verður ráðið í þessar spurningar meira en gert hefir verið en klingja má út með slengja því fram að ef bók þessi væri kvikmynd væri um b eða c mynd að ræða. Spurningin er svo hvort lesanda kunni að finnist það heillandi eður ei.

Nýja Breiðholt er gefin út af Draumsýn bókaforlagi og er 270 blaðsíður að lengd.