Þýðing: Eiríkur Örn Norðdahl

Erótíski tvífarinn minn

Hann segist ekki nenna að vinna í dag.

Skiptir engu. Hér í skugganum

bakvið húsið, í vari frá götulátunum,

er hægt að taka til athugunar alls kyns gamlar tilfinningar,

kasta sumum, geyma aðrar.

                                                          Orðaleikirnir

á milli okkar verða mjög ákafir þegar það eru

færri tilfinningar sem rugla okkur í ríminu.

Aðra umferð? Nei, en það síðasta sem þú segir

er alltaf heillandi, og bjargar mér

áður en nóttin gerir það. Við fljótum

á draumum okkar einsog ísprömmum,

þrungnum spurningum og glufum úr stjörnuskini

sem halda fyrir okkur vöku, hugsum um draumana

á meðan þeir eiga sér stað. Þvílíkur viðburður. Heldur betur, sagðir þú.

 

Sagði ég en ég get leynt því. En ég vel að gera það ekki.

Takk. Þú ert svo almennileg manneskja.

Takk. Það ert þú líka.


Bandaríska ljóðskáldið John Ashbery fæddist árið 1927 og lést í gær, níræður. Hann gaf út ríflega 20 bækur á ferlinum og vann svo til öll verðlaun sem honum stóðu til boða, þar á meðal Pulitzerverðlaunin fyrir Self-Portrait in a Convex Mirror. Hann lengi lifi.