Íslandi allt! Ísland über alles! 

Um skáldsöguna Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur.

I: Helvítis raunveruleikinn

Við erum bundin hvort öðru með þúsund ólíkum tengingum; orðum röddum, snertingu, texta, blóði, söng, strengjum, vegum, þráðlausum, skilaboðum. Stundum aðeins við að sjá sömu sólina skríða yfir himininn, hlusta á sama lagið í útvarpi, raula sama textann fyrir munni okkur, annars hugar, á meðan við vöskum upp diskana eftir kvöldmatinn.

Þetta er að tilheyra samfélagi. Eða þjóð, eða mannkyninu. Hvar sem maður ákveður að draga línuna.

Og stundum gerist eitthvað sem tengir okkur enn betur, færir okkur nær hvert öðru. Brúðkaup, barnsfæðingar og dauðsföll kalla fjölskyldur saman; hamfarir, stríð og íþróttaleikir sameina þjóðir, fá fólk til að ganga í takt.

(bls. 7)

Benedikt gefur út og telur skáldsagan 247 síður.Uppgangur hægri afla í heiminum er staðreynd sé lagður trúnaður við það sem fjölmiðlar, sem ekki eru á Breitbart-bylgjulengd, hafa um ástand heimsmála að segja. Hægri öfl þessi vilja margir spyrða við öfga-, kynþátta-, þjóðernis-, einangrunarhyggju og þar fram eftir götunum.  Lýðskrumarar hafa, að er virðist, ekki átt beinni leið að hjörtum kjósenda síðan á fjórða áratug síðustu aldar.

Svo eru það þær sem vilja meina að rangt sé að klína þessum hyggjum á fólk og flokka. Þær vilja meina að raunveruleikinn sé annar og að barnsleg einfeldni slævi hugarfar þeirra sem oft eru felldar undir hugtakið „góða fólkið“. Mattheus þeirra hefði því líkast til, á þessum síðustu og verstu,  lagt frelsaranum þessi orð í munn: „varnið (múslima)börnunum að koma til mín, stoppið helvítin, því þeirra er ekki himnaríki.“ og „hver sem ekki tekur á móti slíku barni í mínu nafni tekur við mér.“

Hvað sem þessu líður á sér stað barátta um raunveruleikann, barátta á milli staðreynda og öðruvísi staðreynda. Allur slagur um raunveruleikann er þó óþarfur. Andri Snær Magnason komst að því í Draumalandinu Anno Domini 2006 að raunveruleikinn eða raunveruleiki samfélags væri:

20 feta gámur/tjald

rennandi vatn

100 kg loðnumjöl

100 kg af hveiti

Tvær kindur

Svefnpoki

66°N kuldagalli

Þögn 

Auðvitað kann undangengið að virka eins og ódýrt skot helst til of góðrar manneskju með puttann á lofti, bendandi á hið vonda nöðru kyn. Er og skiljanlegt að lesandi kunni að vilja afskrifa umfjöllun þessa sem viðleitni til að útmála fullorðinslegt viðhorf til heimsmála sem speglun á Beelsebúl og árum hans. Sú er ekki raunin heldur tengjast skrifin að sjálfsögðu innihaldi þess verks sem hér er tekið til athugunnar.

Höldum aðeins áfram á sömu braut.

Ekki er hægt að kvarta undan vöntun á meintum hörmungum (á heimsmælikvarða) þrátt fyrir að góðar hagvaxtartölur og að vestrænar kannanir bendi til aukinnar hamingju og velsældar. Sannlega má segja yður að enginn skortur  virðist á allslags óhæfuverkum; nauðgunum, morðum, stríðsglæpum, hungursneyðum og jafnvel farsóttum. Fólk á öllum aldri neytir vímuefna sér til miska og borgar jafnvel fyrir þau með blíðu. Allslags ribbaldar ráða ríkjum víðsvegar um sviðnar jarðir etc, etc. En það gildir einu fyrir mörlandann, því ef við lítum til Sverris Stormskers þá er það allt (nema fíkniefnin) „fjarri Íslandsströndum […] og heimstyrjaldir verða í öðrum löndum.“

Nú ber svo við að „hvað ef skáldsaga“ lítur dagsins ljós (er Starafugl að vísu langt í frá fyrstur til að skrifa um téða bók). Skáldsaga þessi setur Ísland í ákveðnar kringumstæður sem leiða til þess að landið tapar „Inspired by Iceland“ sakleysinu. Vissir atburðir verða þess valdandi að að vopnlausa, friðelskandi, mannelskandi, litblinda, kristna, umburðarlynda og efnaða lýðveldið Ísland þar sem eingöngu pólitískt réttþenkjandi samfarir eru ástundaðar verður að kjörlendi þessa sem upp hefir verið talið. Allavega hluta þess. Köllum þetta hliðarveröld, hliðarveröld sem allajafna er að sjá í sjónvarpinu.

II: Hvaða kringumstæður eru það sem einhenda Íslandi í viðlíka ógnarveröld?

Áður en þeirri spurningu verður svarað skal tæpt á aðalpersónum verksins þeim Hjalta og Maríu sem „slíta ástarsambandi sínu“ (káputexti) í byrjun bókar. Hjalti er íslenskur blaðamaður sem er tilbúinn til að slá af upplýsingaskyldu fjölmiðlanna til að þjóna því sem hann telur betra fyrir íslenska þjóð; „skrifa uppbyggilegar fréttir, fréttir sem fólk getur nýtt sér og notað til góðra verka“. (bls. 48). María er útlenskur fiðluleikari og spilar með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Henni á það til „að fatast flugið“ þegar kemur að íslenskri málfræði og framburði og „kemur alltaf upp um uppruna sinn“ með því móti. (bls. 16) Hún á tvö börn með tveim mönnum. Hjalti er ekki annar þeirra. Með rentu hefði hann því átt að inna af hendi skyldur stjúpföðurs en María er á því að ekki hafi hann beinlínis haft hugann við verkið. Leiðir það til sambandsslitanna.

Í kjölfar þessara sambandsslita, sem eiga sér stað í janúar (árið er 2016 samkvæmt mannfjöldalínuriti á bls. 163), slitnar sambandið við umheiminn. Hér er líkast til ekki um tilviljun að ræða, það er að segja að það slitni upp úr ástarsambandi útlendings og Íslendings og að sambandið við fjarlæg lönd og þjóðir slitni í kjölfarið. Eins má með einbeittum brotavilja lesa ýmislegt í að Íslendingurinn Hjalti eigi erfitt með að ganga börnum erlendrar konu í föðurstað.

Hér er gripið niður í það sem Úlfhildur, ritstjóri blaðsins hvar Hjalti vinnur hefir að segja um sambandsslitin:

Það er er ekkert símasamband út úr landinu. Enginn tölvupóstur, ekkert net. Engar flugvélar hafa lent síðan í nótt, flugumferðarstjórarnir ná engu sambandi við síðustu vélarnar sem fóru. Engin skip heldur, gæslan hefur ekki séð neina umferð á ratsjánum frá því í nótt. Radíóamatörarnir ná ekki einu sinni sambandi við umheiminn og það er ekki eins og hægt sé að hakka útvarpsbylgjurnar. (bls. 30)

Allt samband við umheiminn rofnar. Engin veit hvernig á því stendur. Þeir Íslendingar sem staddir eru erlendis þegar Ísland verður eyland verða að líkindum strandaglópar þar, berast engar fréttir af þeim. Á þetta til að mynda við forsætisráðherrann sem var staddur á flóttamannaráðstefnu (auðvitað) í Berlín svo og börn Leifs bróður Hjalta. „[Þ]að er eins og kominn sé einhver veggur í kringum“ (bls. 28) eyjuna.

Vitanlega berst enginn varningur til landsins þar sem hvorki flugvélar né skip ná til Íslandsstranda. Er það einkar bagalegt fyrir land sem er jafn háð innfluttningi og Ísland er. Verður Ísland því alfarið upp á sig komið og vakna upp spurningar hvernig þjóðinni má auðnast að brauðfæða sig. Ein lausnin í þeim efnum er afturhvarf til gamalla tíma þegar bróðurpartur þjóðarinnar bjó til sveita.

Til að gera langa sögu stutta þá breytist íslenskt samfélag til muna á skömmum tíma, alið er á þjóðernishyggju sem enduspeglast í kjörorðunum „Áfram Ísland“ og þeir sem ekki eru með yfirvaldinu eru taldir stuðla að sundrungu, jafnvel landráðum, enda er brýnt fyrir lýðnum að standa saman Íslandi til heilla á þessum erfiðu tímum. Lögregla og björgunarsveitir (björgunarsveitirnar fá nýja merkingu í verkinu) eru óragar við að beita kylfum og piparúðum á þá sem taldir eru valda óróa í samfélaginu. (bls. 39) Auk þess úreldast peningar fljót og kaup fara aðallega fram með vöruskiptum.

Önnur persóna rullu spilar er Elín. Hún er metnaðarfull stjórnmálakona, upptendruð af íslenskri þjóðernisást og vill Íslendingum allt til heilla. Í byrjun sögunnar er hún innanríkisráðherra en kemst svo til frekari metorða í fjarveru forsætisráðherrans og tekur við stöðu hans. Hún er ágætlega kunnung Hjalta og telur honum trú um, í ljósi ástandsins, að forðast beri fréttir sem gætu leitt til sundrungar og kaupir Hjalti það. Raunar gerist hann síðar starfsmaður ráðuneytisins þegar á líður og sinnir þar nokkurs konar áróðri.

Síðan eru það börn Maríu, Margrét og Elías. Margrét er við það að verða táningur og Elías yngri. Þau eru auðvitað hálf útlensk og er Elías í ofan á lag svartur á hörund.

Fleiri persónur koma fyrir en þetta eru þær sem mest pláss taka. Hjalti er þó miðlægasta persónan og hverfist sjónarhornið mestmegnis um hann í köflum sem bera nafn hans.

Sumar hinna persónanna fá einnig kafla, til að mynda Leifur sem er læknir sem skyndilega þarf að glíma við lyfjaleysi og hríðversnandi aðstæður á spítalanum. Margrét, eða Mara, fær og kafla. Breytir hún nafni sínu í Möru eftir að komast í kynni við táningagengi sem yfirtekið hefir Korputorg og lifir þar frjálst undan yfirráðum hinna fullorðnu (kannski má hér tengja við skáldsöguna Höfuðpaurinn eða Lord of the Flies eins og sagan heitir á frummálinu). Táningagengið ræður yfir mat og vímugjöfum. Verður hún ástfanginn af Hrafni sem er í forsvari fyrir hópinn. Það reynist Margréti einkar afdrifaríkt að binda trúss sitt við gengið þegar það ákveður að eiga í samskiptum við björgunarsveitirnar alræmdu. Minna björgunarsveitirnar nefnilega um margt á óaldaflokka Afríku.

María fær og talsvert rými. Hennar saga snýst fyrst og síðast um að eiga í sig og á, barátta um brauðið. Síðar þarf hún að berjast fyrir tilverurétti sínum á Íslandi, þrátt fyrir að vera íslenskur ríkisborgari. Lendir hún einnig í því að verða eini eftirlifandi hryðjuverkaárásar á Sinfóníuhljómsveit Íslands, enda hefir hugarfar gagnvart listum breyst til muna og enduspeglast í nokkuð í þessum orðum Elínar: „Við erum ekki sjálfbær eins og er, við þurfum að tvöfalda matvælaframleiðslu þjóðarinnar. Það verður ekki gert með því að forrita tölvuleiki og snyrta neglur, skrifa bókmenntagagnrýni. Við þurfum að rækta. Hirða skepnur og veiða fisk.“ (bls. 69) Á því tæpa ári sem sögutími bókarinnar spannar verður viðlíka prjál gert óþarft og vinna áður mikilsvirtir listamenn fyrir sér við landbúnaðarstörf.  Fluttar eru af því jákvæðar fréttir enda er ritað „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði.“ Í raun, eins og komist er að orði á blaðsíðu 69, er tekinn upp „miðstýrður áætlunarbúskapur“ í anda Stalíns. Og þessi orð:

Njótið þess að fá frí frá öllum þessum stríðum og hryðjuverkum og pyntingum og villimennsku, öllum þessum hamförum og hungursneyðum og alþjóðareglugerðum og kvikmyndastjörnuslúðri, hvað kemur það okkur við hér úti á ballarhafi, einum með okkar friðsælu býli, ljós og ljóð í janúarmyrkrinu, á sextugustu og fimmtu breiddargráðu norður, átjandu lengdargráðu vestur?“ (bls. 30)

eiga sumpart við en samt ekki þar sem slíkir hlutir eiga sér stað í bakgarðinum. Það er bara ekki fjallað um þá á nýja

Ekki má svo gleyma einu persónunni sem talar í 1. persónu eintölu. Það er persóna sem býr alein í hrörlegum húsakynnum, er Svangi kallast, í afskekktum firði fjarri mannabyggðum. Hún er þangað komin einhverjum tíma eftir sambandsslitin og býr í felum fyrir yfirvaldinu svo að segja. Skapar persónan hugrenningatengsl við Gísla á Uppsölum með þeirri undantekningu að persónan þar talar um

[m]inningarnar sem leita á mig á daginn á meðan ég sting upp garðinn, ræ til fiskjar, gef á garðann [þær] eru alltaf um eitthvað hlýtt og ilmandi, eplaköku, heitt kaffi, ertandi ilmvatnsský, spagettí bolognese, raksápu, kanil, myntu, appelsínur.“ (bls. 36)

Sjónarhorn sögunnar flakkar á milli persóna og tveir hlutar sögunar eru í 1. Persónu fleirtölu: „Ágrip af sögu heimsendis I“ og „Ágrip af sögu heimsendis II“. Er þar útlistuð staða mála; hvernig málum er háttað í dystópíunni.

III: Samtíma-dystópía

Þegar litið er til dystópía má, með einföldun, tala um tvær gerðir þeirra. Þá fyrri er hægt að spyrða við sögur eins og 1984 eftir Orwell, og Veröld, nýja og góða eftir Huxley. Slíkar sögur eru allajafna framtíðarsögur sem tengja má við kenniorð þeirrar veraldar sem Huxley skapaði: SAMFÉLAG-SAMRÆMI-STÖÐUGLEIKI. Í slíkum sögum leitast yfirvald af einhverjum toga einatt við að steypa alla í sama mót með það augnamið að halda stöðugleika í samfélaginu. Yfirvaldið heldur uppi ströngu eftirliti með valdboði til að gæta þess að enginn stígi út fyrir rammann. Oftast nær eru það svo elskendur rísa upp gegn samfélagsgerðinni. Lovestar Andra Snæs Magnasonar er dæmi um íslenska útgáfu.

Seinni gerðin á sér oftast nær stað í samtímanum eða nálægt honum. Þar hefir samfélagsgerðin oftlega hrunið og þarf fólk að takst á við nýjan og fjandsamlegan veruleika. Er ósjaldan tekið á heim sem orðið hefur fyrir hamförum af einhverju tagi; einhverju sem færir nútímasamfélag aftur í tímann tæknilega séð og stuðlar að hver-er-sjálfum-sér-næstur-hugarfari þar sem hinir hæfustu, frekustu, sterkustu, ósvífnustu lifa af eða eru efst í fæðukeðjunni. Þeir hinir sömu víla ekki fyrir sér að kasta öllu siðferði út á hafsauga og hafa sínu fram með ofbeldi og kúgun. Skáldsaga Paul Auster In the Country of Last Things fellur í þennan flokk. Þar er meira að segja stundað mannát.

Allar dystópíur, gildir þá einu í hvað dilk þær má draga, eiga eitt sameiginlegt, fengist er við ótta; hvað ef allt færi til andskotans. Og í þessu tilfelli hvað ef hörmungar, flóttamannaflóð, ribbaldaflokkar væru ekki fjarri Íslandsströndum.

Eyland fellur augljóslega fremur í seinni hóp dystópíanna en þann fyrri. Sagan glímir við afleiðingar þess að detta úr sambandi við umheiminn . Engu að síður er vísir að fyrri gerðinni í sögunni. Vísir sem greina má í þeirri samfélagsgerð sem leitast er við að koma á koppinn og enduspeglast til dæmis í orðum Elínar.

Þótt allur almenningur í landinu hafi snúið bökum saman og stutt okkur, þá eru þeir til sem hafa unnið gegn okkur og gegn þjóðinni.Þið vitið hverjir þeir eru. Þeir hafa hvatt til óeirða og upplausnar. Þeir hafa reynt að kynda undir ótta og reiði, hvatt til einstaklingshyggju í stað samstöðu.“ (bls. 44)

Hlutverk stýrihópsins er að gera tillögur að breytingum á íslensku þjóðfélagi til að tryggja að við getum lifað góðu sjálfbæru lífi í landinu okkar, án utanaðkomandi afskipta. Það er skemmtilegt og krefjandi verkefni, og kann að þýða ákveðið afturhverf til góðra og gamalla gilda. (bls. 45)

Svo endurspegla þessi orð persónunnar Sindra Snæs, sem er í forsvari fyrir björgunarsveitirnar og eins konar skósveinn Elínar þá samfélagsgerð sem stefnt er að dável:

Við höfum búið hér í nærri tólfhundruð ár og verið sjálfum okkur nóg. Það hefur stundum verið erfitt, það hefur stundum verið kalt, en við lifðum af. Og við erum hér enn, með okkar fagra, forna tungumál, með sögurnar okkar og ljóðin, með sveitirnar okkar grænu, sjóinn fullan af fiski, árnar fullar af orku. Við eigum sterkustu mennina og fegurstu konurnar, þær fæða hraustustu börn í heimi. Við deyjum allra karla og kerlinga elst. Við stöndum saman, við göngum í þau verk sem þarf að vinna, við gerum það sem gera þarf. Áfram Ísland.  (bls. 42)

Bersýnilega er hér róið að því að viðhalda stöðugleika og sínkt og heilagt er hamrað á því af yfirvaldinu að allt sé á réttri leið þótt raunveruleikinn sé annar með sínum yfirgangsseggjum og ofbeldi og horft er framhjá „rytjulegum skaranum á götum borgarinnar, eigrandi um í leit að atvinnu, mat, einhverju sem einhverjum gæti þótt verðmætt.“ (bls. 147) Yfirvaldið lætur og handtaka hluta stjórnarandstöðunnar, er þeim borið á brýn að ógna öryggishagsmunum þjóðarinnar. Valdi er einnig  þjappað valdi saman, það lendir mikið til hjá Elínu. Færist hennar hlutverk  jafnt og þétt í áttina að „der Führer-hlutskipti“.

Yfirvaldið er og duglegt við að sá þeirri hugsun að almenningi beri að færa fórnir í ljósi vöruskorts á meðan ráðamenn og þeirra fólk (elítan) nærir sig svo að segja á kampavíni og kavíar. Sumir eru greinilega jafnari en aðrir.

Kallast upptalið auðvitað á við þekkt alræðissamfélög í sögulegu samhengi en endurspeglar líka samfélagsumræðu nútímans og ótta við uppgang öfga, sama í hvaða formi þeir birtast. Alltént ætti lesanda að reynast auðvelt að koma auga á hliðstæður þeirra vandamála sem allajafna finnast fjarri Fróni þótt sagan varpi einnig ljósi á íslenska samfélagsumræðu. Umræðu sem við drögum saman í slagorðum eins og „Ísland fyrir Íslendinga“, „Við þurfum að sjá um okkar fólk fyrst“, „Þetta fólk“ og þar fram eftir götunum. Auk þess enduspeglar hún og orðræðu sumra íslenskra stjórnmálamanna sem hafa kveinkað sér undan gagnrýni og svokölluðum niðurrifsöflum.

Saga þessi er því fyrst og síðast samfélagssaga þar sem vestrænn lúxustími, eins og þessi hér fyrir neðan, hefir dáið Drottni sínum:

Hann blandar drykki, gin með dýru tónik og agúrkusneið. Þau skála í stofunni, horfast í augu yfir brúnir kristalsglasanna, það er nauðsynlegt að hitta vini sína og gleðjast með þeim yfir myrkustu  mánuði ársins, tala um vinnuna, fjölmiðlana, stjórnmálin, markaðina, taka hópmynd, finna flottan filter og setja á Instagram. Skál fyrir okkur.“ (bls. 14)

Og grímulaus kynþáttahyggja sprettur upp skjótar en segja má „Arbeit macht frei.“ Hér er viðhorfsbreytingu til ferðafólks lýst:

Og við hin, heimamenn lítum þetta fólk hornauga, einu sinni voruð þið gjaldeyristekjur en nú eruð þið byrði, þið étið frá okkur matinn og takið frá okkur störfin, þessi hræddi túristastraumur í skærlitum útivistarfatnaði ykkur verður að minnsta kosti ekki kalt, farðu aftur heim á hótelið þitt, túristadjöfull“. (bls. 137-138)

Já, ef sambandið slitnar við útlönd verður að líkindum allt í megafokki og fólk verður að gera sér að góðu raunveruleikann eins og hann birtist hjá Sigríði Hagalín Björnsdóttur eða þá hjá Andra Snæ Magnasyni.

IV: Á bálið eða ekki á bálið?

Verður að teljast líklegt að bók sem þessi væri dystópíu-samfélagi ekki þóknanleg, að því gefnu að slík bók fengist útgefin. Það eitt og sér telst góðs viti því bækur eiga eða ættu að hreyfa við einhverju, kalla fram viðbrögð. Hér þarf þó vart að taka fram að ekki er hvatt til bókabrennu.

Greinlegt er að téð bók hefir kallað fram viðbrögð. Hefir og verkið fengið alljákvæða umfjöllun. Verkið er enda nokkuð snjallt og sannlega áhugavert. Og líkt og má sjá af þeim dæmum sem tekin hafa verið úr bókinni er textinn þokkalegur og rennur vel í gegn. Hugmyndin er í íslenska samhenginu sæmilega nýstárleg en þar sem fengist er við dystópíuformið sem er í eðli sínu íhaldssamt er ekki verið að finna upp neitt nýtt.

Sagan er ágætlega spennandi og forvitnilegt að lesa áfram upp á hvað gerist næst. Sem spennusaga er verkið frumlegra en margir þeir krimmar og spennusögur sem drepa tíma landans. Þetta er þó ekki endilega bók sem maður les tvisvar eða þarf að lesa tvisvar. Hún sver sig þannig dálítið í ætt við þær fréttir sem hún tekur mið af; flestar fréttir eru einnota.

Á þetta við um margar bækur af þessu sauðahúsi, til að mynda  bækur Arnaldar Indriðasonar. Helsta vandamál sögunnar, máski er það þó samfélagslegt vandamál, er að þó að stíllinn sé ekki líkur fréttatexta (nema sá texti sem er beinlínis frétt, en uppdiktuðum fréttagreinum er skeytt inn í söguna) hefir textinn áþekk áhrif og allar þær hörmungarfréttir sem herja á fréttaneytendur dags daglega.

Sumsé:

Þetta er vissulega áhugaverð skáldsaga en ekki sláandi vel skrifuð né frábærlega vel gerð, á hún þó fjarri því heima á bálinu nema þá kannski í þeim heimi sem hún lýsir.

Heimildir:

Andri Snær Magnason. 2006. Draumalandið: Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð. Mál og menning, Reykjavík.