Íslenski básinn í Bókamessunni í Gautaborg. Mynd: Íslandsstofa.

Fasistar á bókamessu

– Á annað hundrað sænskra rithöfunda sniðgengur Bókamessuna í Gautaborg

Á forsíðu sænska tímaritsins Nya Tider getur að líta (24. apríl, 2017) fréttir um sadisma og mannfyrirlitningu  á yfirlitssýningu Marinu Abramovic í Moderna Museet, um samsæri mannréttindasamtaka og „manneskjusmyglara“  um að koma flóttamönnum til Evrópu, viðtal við hægriöfgamanninn Geert Wilders með fyrirsögninni „Við höfum verið nýlenduvædd“ og frétt um að til að mæta Jarðarstundinni – Earth Hour, þar sem fólk sameinast um að slökkva ljósin til að minna á hættulegar loftslagsbreytingar af mannavöldum – verði nú (líka?) haldið upp á Afreksstund mannsins – Human Achievement Hour, þar sem fólk sameinast um að kveikja á öllum ljósum og tækjum í eina klukkustund til að minna á sigra mannkyns, önnur um uppgang og dásemdir Ásatrúar á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum, þriðja um að „stórfurðuleg“ leiksýning um Jihadista verði ekki tekin úr sýningum í Malmö „þrátt fyrir hryðjuverkaárás“ (þessa í Stokkhólmi), fjórða um „fjöldamorð“ á hvítum bændum í Suður-Afríku og svo framvegis og svo framvegis.

Það þarf sennilega ekki að segja það en ritstjórnin á Nya Tider stundar litla fagmennsku, er fjandsamleg listum og innflytjendum, sýnir sannleikanum tiltölulega takmarkaða virðingu og er afar höll undir fasískan heimsskilning. Svo mjög raunar að meira að segja hægriöfgamönnunum í Svíþjóðardemókrötunum þykir oft nóg um, og sagði aðalhugmyndafræðingur flokksins, Mattias Karlsson meðal annars, að ritstjórinn, Vávra Suk, starfi opið með yfirlýstum nasistum (Mattias veigrar sér samt sjálfur við að kalla Vávra nasista) og Svíþjóðardemókratar ættu ekki að hafa neitt saman við hann að sælda.

Nya Tider dekkar sem sagt allt spektrúm hins pólitíska fasisma – frá Breitbart til Völkische Beobeachter – og það þarf ekki sérfræðing í stjórnmálafræði öfgahægrisins til að bera á þá kennsl.

Gula spjaldið í Gautaborg

Víkur nú sögunni að bókamessunni í Gautaborg – stærstu bókamessu Norðurlanda. Nokkur hluti þessarar fornfrægu messu er tileinkaður tímaritum og í fyrra sótti tímaritið Nya Tider um að fá bás og fékk, þrátt fyrir áköf mótmæli frá ýmsu menningarfólki. Nokkur klofningur var í röðum kúltúrpótintáta og fundust þeir sem hreinlega vorkenndu nasistunum á Nya Tider að láta læsa sig inni á messugólfinu með fólki sem væri þeim fjandsamlegt, og aðrir sem vildu einfaldlega ekki beita neinum pólitískum þrýstingi um það hvaða skoðunum væri leyfilegt að halda fram á messunni – þar væri best að markaðurinn réði, einsog venjulega.

Í grunninn var þó auðvitað tekist á um málfrelsisprinsipp, en málfrelsi var einmitt þema ársins 2016. Hver má segja hvar og hvenær – hverjum tilheyrir messugólfið og svo framvegis. Þeirri spurningu er að jafnaði svarað með rökum nýfrjálshyggjunnar – það eina sem útilokar nokkurn frá þátttöku á bókamessunni er að hafa ekki efni á að borga fyrir bás (eða hafa tengslanet til þess að útvega hann sér í krafti auðmagns einhvers annars). Vegna framgöngu sinnar síðustu árin í Svíþjóð – og stuðnings frá ríkum nasistum – eiga Nya Tider og skoðanabræður þeirra nóg af peningum.

Ekki þekki ég sögu messunnar svo gjörla að ég geti sagt hvort fólki hafi áður verið neitað um þátttöku, en það má engu að síður ímynda sér að grensann liggi einhvers staðar – ISIS fengi t.d. seint bás fyrir kynningardeild sína – en sennilega hefur lítið reynt á slík mörk fram til þessa. Tímarit barnaníðinga, mannæta, kynþáttahatara, trúarofstækismanna og dýrapyntara hafa einfaldlega ekki reiknað með því að þeim væri þar vel tekið – eða yfir höfuð hleypt inn. Í einhverjum tilvikum – einsog þegar Ungverjar voru heiðursgestir – hefur verið tekist á um nærveru alls kyns stjórnmálafulltrúa, en aldrei svo að mjög hafi slegið í brýnu.

Nýtt ár, nýir tímar

Margir bundu vonir við það í fyrra að nærvera Nya Tider myndi fleyta einhverri umræðu upp á yfirborðið og það yrðu jafnvel átök um stefnu blaðsins – og stefnu þjóðarinnar, þar sem má sannlega segja að öfgahægristefna hafi náð talsverðum skriðþunga síðustu árin og normalíserast mjög, líkt og víða annars staðar – og að sú umræða og sú átök myndi skila betra samfélagi (með færri fasistum). Aðrir bundu jafnvel vonir við að áþreifanlegri átök myndu raungerast á sjálfu messugólfinu – að fólkið myndi einfaldlega taka afstöðu og hafna fasísku rugli, stál í stál og svo færi sem færi. Í sem stystu máli má segja að það gerðist alls ekki, heldur mættist fólk afar friðsamlega og þótti flestum andstæðingum sem sigurvegari helgarinnar hefði verið, ef ekki fasisminn sjálfur, þá í það minnsta hin borgaralega meðvirkni.

Í ár stendur til að Nya Tider athugi enn á ný hvort hin norræna borgarastétt geti ekki vanist sér, einsog hverjum öðrum gallabuxum og bítlahári – og hefur ritstjórn aftur fengið pláss á messunni. Þá bregður við að um 140 sænskir rithöfundar – þar með taldir höfundar sem ættu að vera Íslendingum kunnir, á borð við Peter Englund, sem situr í sænsku akademíunni, Athenu Farrokhzad, Oscar Rossi, Idu Linde, Idu Börjel og Önnu Axfors, allt skáld sem undirritaður hefur þýtt, Söru Stridsberg, sem hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs  2007 (og er líka í sænsku akademíunnni), palestínska skáldið Ghayath Almadoun, Jenny Tunedal, Mette Moestrup frá Danmörku og fleiri og fleiri og fleiri – hafa ákveðið að sniðganga bókamessuna verði Nya Tider leyft að predika sinn boðskap á messugólfinu.

Yfirlýsingin höfundanna var stutt og skorinorð:

Bókamessan í Gautaborg hefur á ný ákveðið að leyfa Nya Tider að taka þátt. Á meðan hægriöfgaöfl fá að vera á messunni getum við ekki verið þar. Þess í stað munum við taka þátt í öðrum viðburðum sem verið er að skipuleggja í þessum orðum töluðum og munu eiga sér stað samtímis á Heimsmenningarsafninu og Bókmenntahúsi Gautaborgar.

Enn sem komið er hefur stjórn bókamessunnar ekkert sagt nema að fólki sé að sjálfsögðu í sjálfsvald sett hvort það tekur þátt – en við svo búið hlýtur maður að spyrja sig hvort hægt sé að halda sænska bókamessu ef bróðurpartur helstu rithöfunda þjóðarinnar neita að vera með.

Í nafni tjáningarfrelsisins

Peter Englund sagðist í viðtali við Dagens Nyheter vera ósáttur við viðbrögð stjórnarinnar.

Að taka þátt í bókamessunni felur alls ekki í sér að maður „taki umræðuna“ við þessa illviljuðu öfgahægrimenn, sem koma bara á staðinn til þess að ögra; þvert á móti gefur maður þeim bara nýjan ræðupall. Ég vil ekki eiga neinn þátt í því. Það er heldur ekkert sem bendir til þess að þessu ljúki við Nya Tider; gangi maður út frá ferköntuðum hugsunarhætti stjórnarinnar er ekkert sem kemur í veg fyrir að á næsta ári fyllist messugólfið af alls konar öfgafólki.

Þessu svaraði að minnsta kosti einn höfundur sem einnig er Íslendingum kunnugur – Lena Anderson, höfundur bókarinnar Í leyfisleysi – og bað kollega sína að leyfa ekki ritstjórn Nya Tider að sveipa sig píslarvætti ritskoðunarinnar.

Þau ár sem ég hef tekið þátt í bókamessunni hef ég oft orðið vitni að skoðanaflutningi sem ég vinn gegn og vil alls ekki að nái frekari áhrifum í samfélaginu. Svo verður einnig í ár. Í frjálsu lýðræðisríki eru einfaldlega alltaf á sveimi hugmyndir sem maður samþykkir ekki, en maður þarf samt að þola þær. Gildi manna smitast ekki í lofti.

Því hafa svo aðrir, svo sem Göran Rosenberg – sem er rithöfundur og blaðamaður, frægur meðal annars fyrir bókina Stutt stopp á leiðinni frá Auschwitz, um ævi föður síns sem lifði af útrýmingarbúðir nasista – svarað með því að sjálf „blaðamennska“ Nya Tider grafi undan tjáningarfrelsinu með afstöðu sinni til sannleikans. Hann sagði að ekkert brot hefði verið framið gegn tjáningarfrelsi tímaritsins og skrifaði:

Þetta er tímarit sem fær tugi milljóna í fjölmiðlastyrk og hefur enn frelsi til þess að skrifa alla sína andstyggð, sem daðrar við mörk hins löglega. Það þýðir hins vegar ekki að þau megi gera það, í nafni tjáningarfrelsisins, í stofunni heima hjá mér eða í skólastofu barnabarna minna eða einu sinni á einkarekinni bókamessu.

Að fyrirgera ræðutíma sínum

Það er sennilega til lítils að láta einsog þetta sé einföld spurning eða að við henni sé eitthvert eitt einhlítt svar. Sjálfur hef ég fengið boð um að mæta en veigra mér við að þá það á meðan þetta er óleyst. Eitt er að halda bókamessu og hleypa Nya Tider inn á gólf – annað er að halda bókamessu án allra helstu rithöfunda þjóðarinnar. Það er óljóst til hvers slík bókamessa er, annars en að styðja við bakið á fasísku tímariti – því ekki gerir hún mikið fyrir bókmenntirnar. Ég skil hins vegar bæði þá kollega mína á norðurlöndunum sem kjósa að taka þátt, hvort sem það er af hugsjónaástæðum eða vegna þess að þeim finnst þeir einfaldlega ekki hafa burði til þess að taka þátt í umræðu af þessu tagi án þess að þekkja sjálf betur til (ég sem hef verið með annan fótinn í Svíþjóð árum saman hef ekki þann munað), sem og forleggjarana sem eiga miklu meiri fjárhagslega hagsmuni af því að mæta – sérstaklega minni forlaganna hverra nærvera hefur ekkert að segja fyrir framgang messunnar (stóru forlögin gætu sennilega stýrt þessu alveg eftir eigin höfði ef þau vildu). Það er ekki hægt að ætlast til þess að lítil fyrirtæki setji sig á hausinn og steypi margra áratuga vinnu í glötun. Rithöfundarnir hafa hins vegar ekki svo miklu að tapa að þeir geti ekki fórnað því – og satt best að segja er hliðardagskrá við Bókamessuna löngu, löngu tímabær af ótal ástæðum sem verða ekki tíundaðar hér.

Tjáningarfrelsisspurningunni finnst mér í sjálfu sér auðsvarað. Fasisma er stefnt gegn lýðræði, upplýsingu og tjáningarfrelsi – að útiloka hann og málsvara hans er ekki meira brot gegn tjáningarfrelsinu en að útiloka sköpunarkenninguna úr kennslubókum í vísindum. Það er einfaldlega spurning um fagmennsku annars vegar og manngildi hins vegar. Sá sem lýgur ítrekað til þess að geta haldið fram þeirri „skoðun“ sinni að útlendingar séu hottintottar fyrirgerir á einhverjum tímapunkti ræðutíma sínum í púlti.

Beri maður – t.d. sem yfirmaður bókamessu, ritstjóri á fjölmiðli eða sambærilegur valdsmaður – virðingu fyrir sannleikanum og réttlætinu þá starfar maður ekki gegn sannleikanum og réttlætinu. En – og það eru mörg en í þessu – einsog allir vita eru grá svæði. Við þurfum í alvöru að umbera margt, þola samneyti við alls konar fífl og skringilegar skoðanir. Og einsog Lena Andersson benti á þá eru það heldur engin tíðindi fyrir bókamessugesti eða neitt sem þeir hafa sett fyrir sig fram til þessa. En – og það er strax komið annað en – fasistar eru fasistar. Það er önnur tegund en fífl, jaðarhugsuðir, brandarakarlar eða ögrandi listamenn – og um tilverurétt allra þeirra hópa þarf augljóslega að standa vörð. En – aftur en – uppgang fasista verður að stöðva. Í Skandinavíu allri hafa sósíaldemókratar allra flokka sýnt uppgangi fasismans dæmalausa þolinmæði og kurteisi, þeim er ítrekað „hleypt að borðinu“ og það hefur hingað til ekki haft neinar góðar afleiðingar fyrir neinn. Sennilega er það einmitt þeirrar veiklunduðu afstöðu vegna sem sænskir rithöfundar hafa fengið sig fullsadda.

Hinum sterka til dýrðar

Sem – og þetta sem er líka eins konar en – þýðir aftur á móti ekki að maður vilji bjóða einhverjum stjórnlausum réttlætisriddurum upp í dans og gefa hinum síhneyksluðu frítt spil til þess að velja ásættanlega pólítík fyrir höfunda og tímarit. Ef við gerum það er ekkert lýðræði eftir til að verja. Línan þarf að vera skýr. Hér er um að ræða fasísk öfl og ekkert annað. Ekki tilraun til þess að hreinsa óþægindin úr heiminum, ekki tilraun til þess að breyta dýnamískum átakaheimi í leikskóla eða safe space, heldur tilraun til þess að stöðva framgang raunverulegs fasisma. Og nei, það er ekki einfalt mál, og ekki sjálfgefið að þetta sé rétta svarið. En þetta er líklega ekki bara að yppta öxlum og er líklegast betra en að gera ekki neitt (sem var niðurstaðan í fyrra).

Það er ekkert nýtt að í heiminum séu bæði pólitísk og siðferðisleg mörk. Tilraun Nya Tider er sama og tilraun Svíþjóðardemókratana, Le Pen, Trump, Breitbart og allra hinna – að færa til þessi mörk hins ásættanlega, að færa til mörk sannleikans og fá okkur til þess að byrja að yppta öxlum og láta einsog það sem er ekki eðlilegt sé jafn gilt því sem er eðlilegt, það sem er ekki satt sé jafn gilt því sem er satt, við þessu sé ekkert að gera. Fasistarnir vilja færa til línuna þar til fasisminn virðist bara einsog hver önnur pólitík. Það er hann ekki. Fasisminn stefnir ævinlega að útskúfun stórra hópa og leiðir – ítrekað, ekki bara í Þriðja ríkinu, heldur ítrekað alls staðar þar sem hann festir rætur, um gervalla veröldina – til hrottalegra fjöldamorða, einræðis og sundurtætingar allra þeirra stofnana samfélagsins sem annars standa vörð um hina veikustu, hinum sterka til dýrðar. Við – Norðurlandabúar, Evrópubúar, Íslendingar, heimsbyggðin – höfum ekki efni á að leyfa honum að þramma áfram ótálmuðum.