Neonbiblían: Hin bókin hans John Kennedy Toole

Nýverið kom út bókin Neonbiblían (e. The Neon Bible) eftir John Kennedy Toole í þýðingu Ugga Jónssonar. Bókin var skrifuð árið 1954 en kom ekki út fyrr en 1989, en þá voru 20 ár liðin frá láti höfundarins. Það má færa rök fyrir því að tilverugrundvöllur Neonbiblíunnar hafi verið sá að hér var komin önnur og eldri bók eftir höfund sem hafði á þessu stigi málsins unnið til Pulitzer verðlaunanna fyrir skáldsöguna Aulabandalagið (e. A Confederacy of Dunces), sem lengst af var talin hans eina verk. Þetta hljómar kannski svolítið ruglingslega og þessvegna ráð að fara yfir söguna á bakvið bókina í stuttu máli. Í þessu tilviki er sagan á bakvið bækurnar tvær nefnilega óvenju mikilvægur hluti af verkinu og hvernig maður upplifir það. Það er eiginlega ekki hægt að fjalla um Neonbiblíuna án þess að minnast aðeins á Aulabandalagið og hina skrykkjótu útgáfusögu sem gekk hreinlega af höfundinum dauðum. Þýðandi fer í stuttu máli yfir þessa sögu í eftirmála bókarinnar en það er kannski ekki úr vegi að byrja á því að stikla á því helsta. Að sjálfsögðu mun ég svo finna tíma seinna til að fjalla um mig og mína forsögu andspænis verkinu, fordóma mína og væntingar, mína miklu menntun. „Enn eitt kryddið í kássuna!“ er ég vanur að segja þegar ég byrja að lesa nýja bók. Og sem gagnrýnandi er mikilvægt að missa ekki sjónar á því að hver ný bók sem maður les hrærist saman við allt hitt; allt sem maður hefur áður lesið, allt sem maður hefur lifað. Á ég svo að fara að lýsa því í smátriðum hvernig dill er á bragðið? Ég veit hvað fólkið vill. Fólkið vill ekki krydd—fólkið vill kássu!

John Kennedy Toole var semsagt enskukennari og fræðimaður sem bjó lengst af í Louisiana. Hann skrifaði bókina Aulabandalagið snemma á 7. áratugnum og lauk við hana árið 1964, þá 25 ára gamall. Samhliða fræðistörfum og kennslu í ýmsum háskólum þá reyndi hann fá bókina gefna út en án árangurs. Ritstjóri hjá útgáfurisanum Simon & Schuster sýndi bókinni áhuga en fannst hún „ekki vera um neitt“ og neitaði að gefa hana út án þess að ráðist væri í viðamiklar breytingar. Það má kannski skjóta því að hérna að Aulabandalagið sver sig í ætt við picaresque– eða skálkabókmenntir þar sem atburðarásin fellur sjaldnast undir einn samfelldan boga en er þess í stað kaflaskipt. Söguhetjan þvælist milli mismunandi yfirboðara, bjargar sér gjarnan með klókindum og óheiðarleika; er óforbetranleg gegnum hverja nýja reynslu, lærir ekkert, tekur engum breytingum. Bækur í þessu formi hafa verið skrifaðar frá því á 16. öld og Góði dátinn Svejk eftir Jaroslav Hasek og Hvíti Tígurinn eftir Aravind Adiga eru þekkt dæmi um bækur í þessum stíl. Það má kannski með herkjum jánka því að Aulabandalagið og aðrar skáldsögur í þessu formi séu „ekki um neitt“ að því leyti að sagan hverfist sjaldnast um eina rökmiðju að öðru leyti en því að skálkurinn vappar um og snýr öllu á hvolf. Á sama hátt mætti líka segja að níunda drullukakan hans Beethoven, eða jólin eða verslunarmannahelgin séu „ekki um neitt“. Sannleikurinn er hinsvegar sá að picaresque sögur eru oftar en ekki skrifaðar frá sjónarhorni lágstéttarfólks og eru þannig afbragðs tól til þess að afhjúpa og hæðast að ýmsum samfélagslegum valdastrúktúrum. Þannig má finna nokkuð sterka gagnrýni á stöðu svartra og samkynhneigðra í Aulabandalaginu og þó ég viti ekkert um það, þá hefur alveg læðst að manni grunur um að þar sé kannski komin hin raunverulega skýring á því hversvegna ýmsir útgefendur hugsuðu sig tvisvar um.

Toole tók því mjög illa að bókin hans fengist ekki gefin út og eftir aðra höfnun frá minna forlagi tók að fjara undan geðheilsu hans. Hann varð þuglyndur, drakk mikið, þjáðist af ofsóknaræði og tók að lokum sitt eigið líf árið 1969, fimm árum eftir að hann lauk við Aulabandalagið. Móðir Toole hélt þá áfram að leita að útgefanda og tíu árum eftir lát Tooles tókst henni að kjafta bókina inná rithöfundinn Walker Percy sem varð afar heillaður og fékk það að endingu í gegn að bókin var gefin út árið 1980 og vann svo til Pulitzer verlaunanna ári síðar. Inní þessa sögu fléttast svo ýmsir lagakrókar. Samkvæmt erfðalögum í Louisiana var það öll fjölskyldan sem erfði handritið og útgáfuréttinn frá Toole en móðir hans náði með klækjum að fá þau til þess að afsala sér þeim rétti. Þetta gerði hún í krafti þess að fyrsta upplag Aulabandalagsins var aðeins 2500 eintök og bókin ekki líkleg til stórræða þó annað kæmi svo á daginn. Það voru svo þessir sviknu fjölskyldumeðlimir sem fengu það í gegn árið 1989 að Neonbiblían kom fyrst út á ensku, þrátt fyrir mótmæli móður Toole (hún lést 1984) og þrátt fyrir að Toole sjálfum hafi fundist bókin vond.

Inn í þessa sögu vefjast svo ýmsir þræðir. Toole er sjálfum lýst sem manni sem var bæði ofboðslega fyndinn og skemmtilegur en á sama tíma ofboðslega kvalinn. Hann þráði samtímis einveru og frægð og saga hans vekur upp ýmsar spurningar varðandi samband útgefenda og höfunda sem aftur leiðir okkur svo að hinu þversagnakennda samspili bókmennta og bóka. Bókmenntir eru eins og allir vita efsta stig mannlegs metnaðar og allra mannlegra verka (ásamt með rússíbönum og vélrænum örmum sem snúa fólki í hringi á milljón) og hið besta mögulega tæki til að tjá, greina og skilja hvernig það er að vera manneskja í veröldinni. Bækur eru á hinn bóginn bara ómerkilegar vörur sem þurfa að lúta dyntum markaðarins, vera nógu söluvænlegar til að borga sig og svoleiðis. Ég ætla ekki að láta plata mig lengra út á þetta svell í bili. Það sem ég vildi sagt hafa, hin brösulega útgáfusaga Toole bókanna tveggja leiðir okkur að annari spurningu sem er bæði erfið og áhugaverð. Hvernig stendur á því yfirhöfuð að sumar bækur eru gefnar út en aðrar ekki? Er einhver lógík þarna á bakvið? Getur það ráðið úrslitum ef að sagan á bakvið söguna er nógu krassandi? Ég hef reyndar stúderað þessa spurningu talsvert í samhengi við hinn Chíleanska Roberto Bolaño, sem var í lifenda lífi frekar óáhugaverður fjölskyldufaðir, en eftir að hann dó var hann svo markaðssettur sem heróínsjúk rokkstjarna og skæruliði, Kurt Cobain Latnesku Ameríku. Í samhengi við Neonbiblíuna er það líka áhugavert að eftir langdreginn forleik að umfjöllun, og hin eiginlega umfjöllun enn ekki hafin, þá er maður þegar orðinn leiksoppur í höndunum á gráðugum erfingjum og meðsekur í að dansa á gröfum höfundarins og móður hans, svona í yfirfærðri merkingu.

Er svo hægt að treysta bara á að rjóminn fljóti sjálfkrafa uppá yfirborðið þegar fólk er almennt ekki sammála um hvað rjómi er? Í því samhengi langar mig að nefna einn kennarann í gamla skólanum mínum. Hann kennir meistaranemum í ensku skapandi skrif og ritstjórn, og gerir ár hvert sömu tilraun. Nemendurnir fá sex smásögur sem þeir eiga að raða eftir gæðum. Þarna á meðal eru smásögur eftir George Saunders og Nóbelsverðlaunahafann Alice Munro, svo eru líka „verri“ sögur þarna, eitthvað slátur sem skólablaðið hafnaði og svoleiðis. Á hverju ári er niðurstaðan sú sama og á hverju ári magnast niðurstaðan að sama skapi: Það er ekkert munstur. Sumir nemendur vilja hafna Alice Munro því sagan hennar sé alltof hæg og endirinn algjört antíklímax. Öðrum finnst George Saunders vera heimskur auli og sagan hans drasl, en þessi þarna um bílslysið, þessi sem skólablaðið vildi ekki, hún var helvíti góð. Svo eru alltaf einhverjir líka sem raða sögunum alveg í „rétta“ röð.

Þetta eru semsagt allt atriði sem ég hef gegnum tíðina haft heiðarlegan áhuga á. Ég skrifaði BA ritgerð á sínum tíma um Aulabandalagið og hef auk þess eytt talsverðum tíma í að rannsaka hvaða atriði utan við sjálfan textann geta skipt máli þegar kemur að útgáfu, þýðingum, dreifingu og almennri velgengni bóka og höfunda. Það má þannig, eins og áður sagði, færa rök fyrir því að tilvera Neonbiblíunnar grundvallist á bakgrunni hennar, hún hafi verið þýdd og gefin út einmitt vegna þess að þetta er „hin“ bókin eftir John Kennedy Toole og það má spyrða henni saman við hina harmrænu velgengni Aulabandalagsins. Að minnsta kosti finnst mér þessi saga varla verða aðskilin frá hinni stærri frásögn sem umfaðmar líf höfundar, baráttu móður hans og hinni grátlegu niðurstöðu, eins og Walker Percy kom inná í enskum formála að Confederacy, að með ótímabærum dauða Tooles var okkur neitað um ævistarf ótrúlega hæfileikaríks höfundar. Alltaf er það ég sem tapa.

Það sem að slær mann í fyrstu, og nú erum við enn að ræða hinar ýmsu byrðar sem ég mæti með til leiks, er að höfundurinn var sextán ára þegar hann skrifaði bókina. Mér svona hálf-hraus hugur við að opna bók sem gæti allt eins samanstaðið af tilgerðarlegum órum einhvers vankaðs unglings. Ekki myndi ég þora að lesa neitt sem ég skrifaði sextán ára, ef ég hefði á annaðborð haft eirð og nennu til þess að skrifa eitthvað á þeim árum. Maður ætti nú kannski heldur ekki að staldra of lengi við þetta atriði. Fólk fullorðnaðist fyrr á árunum þegar ég var unglingur og líklega enn fyrr þegar John Kennedy Toole var unglingur og unglingshugtakið sjálft enn ekki orðið til. Toole varð svo í ofanálag yngsti prófessor sögunnar við Hunter háskólann í New York, en hann tók við því starfi 22 ára.  Manni er svo óhætt að taka það með í reikninginn líka að Toole var á þrítugsaldri þegar hann skrifaði hina skáldsöguna sína, meistaraverkið A Confederacy of Dunces, og manni ætti því líklega að vera alveg óhætt að aftengja þetta atriði bara alveg og snúa sér að bókinni sjálfri.

Sögunni er lýst á kápu sem „uppvaxtars[ögu] í angurværum dúr“ og það er nokkuð nærri lagi. Þetta er semsagt lágstemmd og tregafull saga sem gerist á kreppuárunum í smábæ í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Fjölskyldufaðirinn missir vinnuna og fjölskyldan upplifir sig jaðarsetta og hálf-útskúfaða af þeim sökum. Í bænum er nokkuð virkt trúarlíf og farandpredikarinn og presturinn kljást um sálir bæjarbúa. Eins og titillinn gefur til kynna er sagan mjög gagnrýnin á þá holu tegund kristni sem bæjarbúar ástunda. Presturinn og hinir trúuðu eru þannig rasískir, dómharðir og fordómafullir afturhaldsseggir og hið kristna hjálpræði víðsfjarri þegar áföll dynja á fjölskyldu Davids. Frelsunin sem presturinn og farandpredikarinn bjóða uppá er þannig fullkomlega eigingjarn verknaður; menn frelsast sjálfs sín vegna og skítt með alla hina. Presturinn hefur engan áhuga á David og fjölskyldu fyrr en kemur að því að veita heimilinu náðarhöggið. Undir lokin skiptir sagan svolítið um gír, yfir í Southern Gothic stíl, en eins og þýðandi kemur inná í eftirmála var höfundurinn víst undir miklum áhrifum frá Flannery O‘Connor á þessum tíma. En það er líklega best að ég segi ekki of mikið.

En hvað sem ég reyndi þá gekk mér illa að bægja þeirri hugsun frá mér að ég væri að lesa bók eftir 16 ára manneskju. Ekki vegna þess að stíll eða efnistök væru sífellt að minna á þetta atriði heldur hitt að mér þykir það alveg makalaust að unglingur hafi skrifað þessa bók. Bókin lýsir nokkuð góðum skilningi á litlu samfélagi og núningi milli persóna af ólíkum stéttum og í ólíkum valdastöðum, táknrænum eða raunverulegum. Mér þótti sérstaklega áhugavert hversu kvenlæg bókin er í samhengi sögusviðs og ritunartíma. Aðalpersónan, David, er viðkvæmur og tilfinningaríkur drengur sem semur illa við aðra drengi en þeim mun betur við miðaldra frænku sína Mae. Hér eru karlmenn meira í aukahlutverkum (fyrir utan náttúrulega aðalsöguhetjuna) og hinir stóru leikendurnir í lífi Davids eru móðir hans, áðurnefnd frænka hans hún Mae, prestsfrúin og svo kennslukonurnar í skólanum.

Varðandi sjálfa þýðinguna þá er hún mjög fín. Bókin er mjög látlaus í málfari og öllum lýsingum stillt mjög í hóf og þær meira notaðar til að undirstrika vægi persóna í huga sögumanns. Til dæmis fær maður gjarnan útlistun á klæðaburði og sköpulagi Mae frænku á meðan faðir drengsins fær varla eitt einastal lýsingarorð. Þýðandinn nær að fanga tíðarandann ágætlega með því að nota svolítið gamaldags orð hér og þar, eins og „daufdumbur“ og „uns“ í staðinn fyrir „þangað til“ og þetta fer sögunni vel. Yngsta orðið í bókinni er líklega „fattaði“ en það er alveg innan marka. Eins langar mig að hrósa forleggjara fyrir smekklega kápu og umbrot. Þetta er semsagt ein af þessum litlu og nettu bókum sem maður dröslar ósjálfkrafa með sér útum allt meðan maður er að lesa hana. Talandi um þýðingar þá ég hef aldrei þorað að skoða Aulabandalagið á Íslensku. Mér var einhverntímann sagt að New Orleans mállýskan sem höfundur hefur fengið mikið lof fyrir hefði verið breytt í flámælsku í íslensku útgáfunni. Ég hef bara ekki taugar í að kanna hvort þetta sé rétt.

Eftir að hafa skoðað skýringarnar á því hversvegna bókin kom út upphaflega, en gæði sjálfrar bókarinnar voru þar, eins og áður sagði, í algjöru aukahlutverki, þá stendur eftir spurningin um hversvegna bókin er að koma út núna íslenskri þýðingu. Í dag eru 28 ár frá því að Neonbiblían kom fyrst út á ensku, 48 ár frá því að höfundur hennar lést og 63 ár frá því að bókin var skrifuð, sögusviðið um nírætt. Er von að maður spyrji sig, hversvegna núna? Ég veit ekki hvort ég sé að teygja mig of langt hérna en hugsanleg skýring er sú að tíðarandi samtímans vekur með manni ákveðna forvitni um menningu og hugsunarhátt bókstafskristna bandaríska smábæjarins sem myndar ákveðinn kjarna í nokkrum fyrirferðamiklum nútímafyrirbærum, s.s. valdatöku Donalds Trump, hugmyndum okkar um Vestrið og vestræna menningu; og svo þeirri Ameríkaníseringu sem stökkbreyttist síðar í hnattvæðingu og heimskapítalisma og við vitum ekki alveg hvar á eftir að enda. Eins hefur umræða um fátækt verið að aukast og breytast, almennt séð vona ég að það sé að farið að hitna verulega undir rómantíkinni um Ameríska drauminn sem tengir velgengni við vinnusemi en tengir á sama tíma fátækt við óráðsíu og aumingjaskap. Að þessu sögðu þá hef ég reyndar nýlokið við hlaðvarpsþættina S-Town (Starafugl hefur birt umfjöllun um þá hér) sem mér fannst spila á sömu forvitni gagnvart svipuðum mótífum: fátækt, rasisma og hinni djúpstæðu gremju sem fátækir hafa lært að beina innávið, og þeirri tilfinningu að hin furðulega menning þessara bandarísku smábæja myndi einskonar hugmyndafræðilegt epísenter nútímans og síðustu 100 ára á stórum hluta jarðar.

Við lesturinn fannst mér bókin stöðugt benda eitthvert annað, eitthvert frá sér. Ég gat ekki, sama hvað ég reyndi, hætt að hugsa um að þetta væri skrifað af táningi og að þetta væri skrifað af höfundi Aulabandalagsins. Maður stóð sig að því að vera stöðugt að leita að einhverjum unglingalegum töktum; að reyna að hanka bókina á einhverju sem væri barnalegt og einfeldningslegt, eða bara hallærislegt. Þess á milli var ég að svipast um eftir einhverju flúruðu orðalagi, einhverjum húmor, einhverjum af þessum misgröfnu bókmenntatilvísunum sem hin bókin er full af en ég fann aldrei neitt. Bókin bendir stöðugt einhvert út í tómið og maður spyr sig, fyrst þessi náungi skrifaði svona bók 16 ára, Aulabandalagið uppúr tvítugu, hvern andskotann hefði hann gert hefði hann náð að lafa eitthvað framyfir þrítugt, fertugt eða fimmtugt? Það er þetta sem er svo grátlegt. Ég var ánægður með þessa bók því hún fékk mig til að hugsa um ýmislegt. Ég reyni að vera ánægður með sem flest því ég er ekki einn af þessum gagnrýnendum sem má ekkert aumt sjá án þess að sparka í það. Ég er heldur ekki einn af þessum gagnrýnendum sem bregst illa við þegar hann fattar að hann er kominn með „Eitt lag enn“ á heilann, heldur klappa ég saman lófunum og segi „þetta verður fínn dagur!“