Þakkarorð til Kára Páls Óskarssonar

Fyrst af öllu vil ég þakka Kára Páli fyrir fjörugan og skemmtilegan pistil og fyrir falleg orð hans um bók mína 4 skáld. Hann hefur einkar glöggt auga fyrir því sem ég lagði sjálfur einna mest upp úr: fyrir eðli þess nýstárlega skáldskapar sem skáldin fjögur færðu okkkur og fyrir tilraunum mínum til að skoða hann og rekja til erlendra skáldskaparnýjunga. En Kári Páll er ekki fyllilega sáttur við afstöðu mína til teoríu svokallaðrar. Þeim dómi verð ég að sjálfsögðu að hlíta en held þó að hann sé á nokkrum misskilningi byggður.

Jeremy Hawthorn, breskur háskólakennari í Noregi tók saman afar gagnlegt uppsláttarrit um fagorð í bókmenntafræði, teoríu þar á meðal. Hann kemst svo að orði í formála (rituðum 1999) að eitthvað hljóti að hafa farið úrskeiðis þegar svo er komið að gáfaðir nemendur í framhaldsnámi líti á það sem helsta vandamál sitt hvaða teoríu þeir eigi nú að velja fyrir lokaritgerðina, eins og örlög ritgerðarinnar séu undir því komin. Teoríutrú af því tagi er varla gott vegarnesti fyrir verðandi bókmenntafræðinga.

Kári Páll gerir því skóna að ég sé lítt hrifinn af bókmenntakenningum yfirleitt („að Þorsteini sé ef til vill eitthvað í nöp við þeoríu“), og víkur alloft að því efni. Það held ég sé talsvert orðum aukið. Á móti teoríum? Hvernig í ósköpunum er það hægt? Teoríur eru bara hugmyndir – þær hafa ekki sanngildi – og það er ekki hægt að vera almennt á móti hugmyndum. En hitt er rétt að ég vil gjarna ráða því sjálfur hvernig ég hugsa og skrifa, enda er ég ekki að segja öðrum fyrir verkum. Og því fer fjarri að ég hafi eitthvert ofnæmi fyrir teoríu, ég hef að minnsta kosti aldrei fengið óstöðvandi hnerra eða útbrot í návist teoría, svo notuð séu orð Hillis Millers um suma kollega sína. Öðru nær: ég hef fylgst býsna vel og af ánægju með skrifum af því tagi allt frá því að ég var prófdómari í almennri bókmenntafræði við HÍ. Enda er nauðsynlegt fyrir ritskýranda að kynnast hugmyndum annarra. Reyndar er ég alveg mótfallinn því að setja alla teoríu undir einn hatt; ég met suma kenningasmiði mun meira en aðra.

Hitt er rétt að ég tel að teoríur hafi leiðan galla, þann sumsé að svipta bókmenntaverk sérkennum sínum og fjölbreytileika. Einkum er áberandi hvernig afbyggjendur í hópi gagnrýnenda komast að áþekkum niðurstöðum um ólík verk. Teoríur eru almenns eðlis en gefa síður gaum að hinu sérstaka sem ritskýrandi er þó að fást við hverju sinni. Og ég tel að empírismi eigi erindi í bókmenntaumfjöllun og bókmenntasögu. Hvenær kynntist Laxness súrrealisma? Hvenær orti Sigfús Daðason Bjartsýnisljóðin?

Þá er hollt að minnast þeirra orða Virginiu Woolf að rithöfundar megi aldrei lúta kennivaldi, og kallaði það „að leggjast niður eins og rollur í skugganum af garðsvegg“. (Í ritgerðinni „How should one read a book“ frá 1926, í The Common Reader, 2nd Series). Hið sama gildir vitanlega um gagnrýnendur og bókmenntakönnuði. Sjálfsagt er að kynna sér sem flestar hugmyndir um bókmenntalestur og aðferðafræði bókmenntakönnunar, en auðvitað er misjafnlega mikið í þær spunnið og misjafnt hversu vel þær henta því viðfangsefni sem unnið er að í það og það skiptið.

Frank Lentricchia heitir bandarískur bókmenntafræðingur og gagnrýnandi af ítölskum ættum sem kenndi lengi á Duke University. Árið 1980 skrifaði hann kveðjubók til nýrýni og formalisma (After the New Criticism) en um aldamótin síðustu lét hann hinsvegar svo ummælt að nú hefði hann ákveðið að fara að lesa bókmenntir sem bókmenntir en ekki sem skeiðvöll fyrir teoríu. – Árið 2003 var hann svo aðalritstjóri bókar – Close Reading – sem sett var saman með það að markmiði að bræða saman það besta úr nýrýni og félagslegri og pólitískri gagnrýni, eða ritum höfunda sem hann kallar Formalists og Non-Formalists. Það sem sameini bestu verk hópanna beggja sé vandaður lestur.

Gerald Graff heitir annar kennari sem hefur lengi beitt sér fyrir sáttum milli stríðandi fylkinga háskólakennara í Bandaríkjunum – ekki síst nemendanna vegna sem ekki skilji hið heilaga stríð kennaranna. Hann hefur kallað stefnu sína „To teach the Conflicts“. Það er sumsé stefnt að sögulegum sáttum!!

Þorsteinn Þorsteinsson