Í borg varga og sorgar

„Trúður spúði eldi annar keyrði sverð…“

Á ferli hvers höfundar verða vörður og óhætt er að segja að með Blóðhófni (2010) hafi Gerður Kristný slegið nýjan tón í höfundarverk sitt með rammgerðri, háskalegri og rorrandi fornri ljóðsögu – sem að auki naut gríðarlegra vinsælda. Tveimur árum seinna kom út Strandir sem var í ætt við fyrri bækur hennar en Drápa Gerðar Kristnýjar sem nú er komin út fylgir í kjölfar Blóðhófnis með höfundaeinkennum sem nú mega teljast hennar skuldlaust og er vel; hér er mögnuð ljóðsaga á ferðinni og stirnir á nokkrar af sterkustu myndunum í henni. Skírskotanir hennar til samtímans eru eins skýrar og táknmál hinnar dystopisku sýnar leyfir en fjarlægðin sem hinn knappi og myndræni stíll gerir verkið tímalaust og glæpinn sem er framinn að allegóríu fyrir myrkraverk hins illa almennt – á öllum tímum. Lesandinn þarf jú nokkuð að leggja á sig til að „láta glepjast“ af þessari knöppu sögu þar sem textinn getur virst dramatískur og nokkuð upphafinn, en sterkar myndir og skarpir orðaleikir ættu þó að halda honum við efnið, enda brauðmolunum vandlega sáldrað um myrkviðinn. Hvort sem vikið er að lýsingum á „persónum sögunnar“ (t.d. gylltum hnöppum á búningi trúðs sem kiprast eins og kattaraugu) eða atburðum, þá er sterkt myndmál allsráðandi. Margar þessara mynda sóma sér sem sjálfstæð myndverk.

Í Reykjavík
fellur nóttin
með hvini

eins og öxi

Það var um vetur
kuldinn lagði
lófa yfir heiminn

(bls.7-9)

Drápa er vetrarsaga og borgarsaga í senn, draumkennd og karnivalísk í anda súrrealistanna (Smekkleysu-skáldin koma upp í hugann) en kallast á við hið forna ljóðform (mikið um innrím, hálfrím og hljóðstafi) um leið. Þó myrkur texti og efnistök sem segja sögu fremur en að miðla heimspeki leiði hugann að skáldum eins og Sigfúsi Bjartmarssyni og Snorra Hjartarsyni verður að minnast á nístandi svart drama um leið. Ég gæti séð verkið fyrir mér á sviði – jafnvel óhefðbundnu sviði Sirkuss Íslands – þar sem dramað á milli söguhundsins, loftfimleikastúlkunnar og Boxarans er nægur efniviður, fyrir utan innkomu aukapersónanna Trúðanna og Myrkusstjórans sjálfs; nokkurskonar hreyfiafls sögunnar. Drápa er sagan af því þegar Myrkusinn kemur í bæinn – en það er löng nótt, löng löng nótt… og djúsí og fögur… „ Mín er borgin / myrk sem blý“

Borgin
slegin nóttu
hvarf í kóf

Þessi magnaða mynd er eitt af stefjum bókarinnar – en borgin er borg hundsins sem er auga sögumannsins. „Mín er borgin / myrk sem blý“ segir hann en ávarpar um leið þig loftfimleikastúlkuna, sem er fórnarlamb sögunnar. En um leið þarf ekki að líta á söguna sem kalda en ljóðræna lýsingu á glæp, dauðsfalli ógæfustúlku og síðan kvalara hennar, heldur sem allegóríska lýsingu á sakleysingja sem hið illa blekkir sig inná (og uppá). Það er ekki laust við að maður fái í hausinn af spádómslegum tóni bókarinnar (ættuðum úr Opinberunarbókinni?) og sjái fyrir Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötuna þegar segir um kvalarann:

Í þrílyftu timburhúsi
átti hann sér

afdrep

Þangað mætir Myrkusstjórinn með augu sem eru dimmir gígar…

Hann villti þig
með rúnum
rændi brauðmolunum
úr lófa þínum
svo þú rataðir ekki
um borgarskóginn

Hafi hann sjálfur
gengið heill til skógar
var engum vogandi
inn í þann myrkvið

Þú veittir því
ekki athygli
fyrr en of seint
að húsið sökk
(bls.37-38)

Það er auðvitað sárast að hundurinn segir í þessu samhengi sem er – um loftfimleikastúlkuna sem lét til leiðast – að „þú lærðir að streitast ekki á móti“ (bls.39)

Heimsslit í anda Opinberunarbókarinnar

Nokkurskonar heimsslit verða í ljóðsögunni Drápu þegar Sólfarið (við Sæbrautina) skríður út á næturhafið og söguhetjan – sá sem söguhundurinn ávarpar – gengur í myrkusinn og samlagast borg/nótt sem er sokkin í glötun. Hér virðist um guðlausan heim að ræða sem þó býr yfir eigin innri goðafræði. Svartvængjaður hundurinn minnir á Anúbis (guð hinna dauðu sem vegur sálir/hjörtu mannanna í egypskri goðafræði) þar sem hann veit „hvað höfuð þitt vó“ og vegur lungu sakleysingjans áður en hann kveður upp úr um að „fyrir þitt litla líf / fæst ekkert lengur“ (bls.63). Anúbis þessi er og með augun á dómsdegi hvar kirkjuturnarnir hverfa í myrkur og meðvitaður um þann „sem er / á himnum“ og „horfir tungleygur / til okkar“ en „aðhefst ekkert“ (bls.64). Í raun verð ég að segja að klukkugerðar-guðsmynd Upplýsingarinnar sé þarna snilldarlega lýst – Guði sem megnar ekki annað inngrip í líf mannsins en fylgjast með og gráta. Hundurinn lýkur samleið sinni með sakleysingjanum svona:

Ég færi þig
eineygða guðinum
þeim sem skapaði
manninn í sinni mynd
og engist nú af eftirsjá

Hann sér um sína
kemur þér fyrir
í fallegu leiði

stráir föl yfir

Nafnið þitt
skrifað með
gylltu letri
á lágan stein

(bls.68-69)

Að segja ekki of mikið en segja nóg

Að þessu öllu saman sögðu væri ósanngjarnt að ljóstra meiru upp um verkið en óhætt er að mæla sterklega með því. Verkið birtir heildstæða sýn á heim sem er á vonarvöl, útgáfu af okkar eigin, heim sem velkist um í höndum trúða og sjónhverfingamanna hinnar pólítísku síbylju sem fyllir rými og tíma af einhverskonar miðaldamyrkri. Eina leiðin til að njóta er að gefa sig að galdri skáldskaparins (eins og Gerður í gervi Urðar, Verðandi og Skuldar þessa verks) eins og örlaganorn og hverfa með hundinum í kófið, hefja sig til flugs í átt að ljósi og verða ljós. Ljós af ljósi, með blóðrisa þófa. Stjörnum prýtt verk.

Vonandi var
einhver hjá þér
þegar þú vaknaðir

Vonandi
fékkstu allt
sem þú áttir
skilið

(bls.81)