Geðveikt fólk til forna

Um Ofsa í Þjóðleikhúsinu

Ofsi
Aldrei óstelandi í samstarfi við Þjóðleikhúsið
Leikgerð Jóns Atla Jónassonar, Mörtu Nordal og leikhópsins upp úr bók Einars Kárasonar.
Leikur: Edda Björg Eyjólfsdóttir, Friðrik Friðriksson, Oddur Júlíusson og Stefán Hallur Stefánsson
Leikmynd: Stígur Steinþórsson
Búningar: Helga I. Stefánsdóttir
Hljóðhönnun: Kristján Einarsson
Tónlistarútsetning: Eggert Pálsson
Lýsing: Lárus Björnson
Sýnt í Kassanum – Þjóðleikhúsinu
Í fjölmörg ár hefur það tíðkast að sviðsetja bækur. Fyrst og fremst hafa stofnanaleikhúsin verið dugleg við þetta. Líklega vegna þess að slíkar sýningar eiga það til að verða vinsælar. Yfirleitt verður þetta hálf vandræðalegt alltsaman . Til verða einhverskonar copy/paste handrit þar sem leitast er við að fylgja atburðarásinni út í ystu æsar. En það er sama hversu mikið reynt er, bókin verður alltaf betri. Ofsi í í uppsetningu Aldrei óstelandi er vissulega upp úr bók. Samnefndri bók Einars Kárasonar sem hann fékk íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir. En í þessari uppfærslu er bókin ekki aðalatriðið. Þetta er ekki sviðsetning – heldur sjálfstætt verk.

Á tímum íslenska þjóðveldisins – víkingatímanum – þótti það hin ágætasta karlmennska að leggjast í þunglyndi. Sérstaklega ef maður varð fyrir harmi. Svo gerði Hávarður Ísfirðingur og einnig Egill Skallagrímsson. Hávarður lá lengi í bælinu og rétt nennti framúr til að beiðast bóta fyrir son sinn. En þegar engar komu þá lagðist hann aftur fyrir þar til hann stóð að lokum upp og drap mann og annan. Egill ætlaði hinsvegar að svelta sig í hel en var vélaður af Þorgerði dóttur sinni til semja „Sonatorrek“ í staðinn. Það var hinsvegar engin karlmennska að væla og barma sér eða leggjast í kör án ástæðu. Hvað þá að liggja fyrir fótum manna og geta ekkert af viti. Slíkt var leti og ómennska og illt afspurnar. Í verkinu Ofsa er Eyjólfur ofsi einmitt þannig manngerð. Aumingi og mannleysa sem þorir ekki að taka af skarið og hefna tengdaföðurs síns þrátt fyrir áeggjan konu sinnar heldur situr heima og barmar sér.

Verkið er sett upp sem útvarpsverk á sviði. Hljóðmyndin verður hluti af sviðsmyndinni og við fáum að sjá hljóðmyndina verða til. Þetta er sniðug hugmynd og ljáir verkinu skemmtilegan blæ. Hins vegar er spurning hvort útvarpshugmyndin hefði átt að ganga svona langt því þetta er vitaskuld ekki útvarpsverk heldur sviðsverk. Þegar skammt er liðið á verkið hættir hljóðmyndin að heilla. Eftir standa leikarararnir, eða öllu heldur persónur verksins. Þær fara með sinn texta. Standa og mæla hann út í salinn, stundum með hljóðnema. Fyrst og fremst eru þetta eintöl. Samtölin eru teljandi á fingrum annarrar handar. Og áður en varir verður þessi uppsetning hálf þreytt. Því það gerist ekkert. Þarna er fólk að fara með texta. Því fylgja engar leikrænar athafnir. Þetta verða því talandi höfuð, talandi fólk með hljóðeffektum.

Inni á milli eru samtöl sem breyta tempóinu. Þá hefst verkið upp, verður skyndilega spennandi. En svo tekur það sama við aftur.

Verkið kemst hinsvegar hjá því að deyja út á mónótónískan hátt. Því það er vissulega stígandi í því. Það fer að hitna undir Eyjólfi, andstæðingur hans, Gissur jarl, kaupir hann burt af jörðinni og hrekur í aðrar sveitir. Eftir það sjáum við hina hliðina á Eyjólfi – ofsann og oflætið. Hann ákveður að fara að Gissuri á Flugumýri og brenna hann inni ef allt annað bregst.

Síðasti hluti verksins er feikilega vel leystur. Svo vel að maður fer út af sýningunni mjög sáttur. Brennan sjálf er meistaralega sett upp, á mjög einfaldan en um leið áhrifaríkan hátt.

Vissulega má vera að þessi eintóna framsetning framan af sé með ráðum gerð – að með þessu rólega yfirbragði sýningarinnar sé verið að ramma sérstaklega inn lokaatriðið. Gera það sterkara og áhrifaríkara. Að það nái að verða að hápunkti sýningarinnar.
Hvort sem það er ætlunin eða ekki þá setur það punktinn yfir i-ið svo maður fer nokkuð sáttur út.

Leikararnir stóðu sig með ágætum og þá sérstaklega Stefán Hallur, sem nær að hrífa mann með í hvert það hugarástand sem persónan gengur í gegnum. Hann er vissulega einn af betri sviðsleikurum okkar. Edda Björg og Oddur komast nokkuð vel frá sínu, en það er einna helst að Friðrik komi heldur veikur út úr hlutverki sínu sem Gissur. Kannski er hann að reyna að ljá honum höfðinglegt yfirbragð með því að vera nokkuð yfirvegaður í framsetningu sinni. En það er samt eins og hann sé ekki á sama tilfinningastigi og aðrir í verkinu. Sérstaklega framan af, en það bráir af honum þegar líður á verkið.

Hljóðmyndin er skemmtileg og hæfir vel verkinu. Nokkur sönglög koma fyrir sem ná ágætum hæðum þegar þau eru sungin í kór, enda skemmtilega útsett. En hinsvegar er spurning hvort raul einstakra persóna hefði ekki mátt missa sín, enda gera þau lítið fyrir verkið.

Búningarnir eru samkvæmisklæðnaður – sem er vel heppnað. Þeir undirstrika að við erum að horfa á sviðsverk í nútímanum. Það er ekki verið að reyna að líkja eftir fornöldinni. Við erum stödd hér og nú. Þeir smellpassa inn í verkið sem heild.

Lýsingin er hinsvegar einn veikasti hluti sýningarinnar. Það er skellibjart í upphafi og helst nokkuð lengi svo manni líður lítið eitt eins og inni í flúorlýstri stofnun. Ljósabreytingar eru fáar (eða að minnsta kosti það litlar að maður tekur ekki eftir því). Lýsingin styður ekki verkið eins og hún ætti að gera, nema undir það síðasta.

Persónulega hefði ég kosið að fá fleiri samtöl í verkinu. Textinn er ágætlega unninn af Jóni Atla og stendur svosem fyrir sínu. Vissulega er það texti bókarinnar sem er undirstaðan en Jón Atli nær að tína til það helsta úr bókinni og setja upp í þokkalega heilsteypt form.

Það sem eftir stendur þegar sýningunni er lokið er spurningin „af hverju?“

Af hverju þetta verk? Hvað hefur þetta verk að segja við okkur í dag?

Verkið sem slíkt bætir ekki nokkru við það sem kemur fram í bókinni sjálfri. Glímir kannski við form en kemur ekki fram með nýjar spurningar.

Bókin kom út árið 2008, örstuttu eftir hrunið þar sem nútímahöfðingjarnir höfðu glutrað niður efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar og við vorum komin í sömu stöðu og á öld Sturlunga – það var kannski best fyrir alla að við hættum þessari vitleysu.

Sjálfstæði þjóðarinnar er kannski bara tóm vitleysa. Ísland sagði sig undir konung Noregs í kjölfar Sturlungaaldarinnar og haustið 2008 vildi stór hluti þjóðarinnar leggja sjálfstæðinu. Við kynnum hvort sem er ekki að fara með það.

Svo Einar datt inn á ólgutíma í íslensku þjóðlífi þegar bókin kom út.

Síðan eru liðin einhver ár. Við erum ekki lengur með hrunið á heilanum. Sviðsverkinu var alveg sama um hrunið. Við erum farin að tala um annað – loksins.

Það sem kannski á erindi við okkur eru veikindin. Geðveiki Eyjólfs. Í verkinu er hann með tvískauta oflætis- og þunglyndissjúkdóm.

Hugrenningarnar falla í þá átt. Að það hafi verið til geðveikt fólk í fornöld. Eins og Egill. Eins og Grettir. Eins og Eyjólfur ofsi Þorsteinsson.

Sem slíkt er verkið innlegg í umræðu dagsins í dag.

En verkið er ekki áleitið. Það setur ekki fram spurningar. Þetta er fyrst og fremst söguskoðun.

Minn persónulegi mælikvarði á gæði sýninga eru sætin. Þegar sýningin er góð heldur hún athygli manns. Maður tekur ekki eftir sætunum. Hinsvegar þegar sýningin er slæm fer maður að fá í bakið. Að verkja í útlimi. Sætin verða óþægileg, sama hversu vel bólstruð þau eru.

Ég hugsaði ekkert út í sætin á Ofsa. Svo sýningin hélt athygli minni. En meðan á sýningunni stóð hljómaði lag Talking Heads – Burning Down the House – í höfðinu á mér af einhverjum ástæðum. Sýningin var skemmtileg svona á heildina litið. Ég mæli hiklaust með henni.

Ef maður á að tala um stjörnur – þá gef ég henni fjórar af fimm.