Taumhald á þegnum: Um Lengist í taumnum eftir Snorra Pál

Lengist í taumnum er fyrsta ljóðabók Snorra Páls en hann hefur áður kveðið sér hljóðs sem greina og pistlahöfundur, ástundað aðgerðir ýmiskonar, framið gjörninga meðal annars með Steinunni Gunnlaugsdóttur myndlistamanni. Útgáfan er að mér skilst síðasti hlekkurinn (enn að minnsta kosti) í halarófu verka þeirra tveggja undir titlinum Ef til vill sek.

Snorri gefur bókina út sjálfur undir merkjum Wheel of Work hvers logo er svartur ferningur.

Titill bókarinnar Lengist í taumnum vísar til þess hvernig valdið hefur ávallt taumhald á þegnunum. Þó að á stundum virðist sem slakni á taumnum þá nær frelsið samt ekki lengra en það að fá velja sér „lit á hálsólina“. Og hvernig við „hin fánýta fleirtala“ flökkum á milli innilokunarkenndar og víðáttubrjálæðis eftir því hver það er sem heldur á valdinu. En eitt meginstef bókarinnar er það hvernig valdastrúkturum er viðhaldið. Hvort sem um er að ræða kennisetningar kristninnar, hugmyndafræði markaðshyggjunnar, patríarkí, matríarki o.s.frv. Þar sem hver tilraun til þess að brjótast út úr valdakerfinu virðist vera eins og búmerang. Dæmd til að ganga tilbaka inn í það og stækka mengið.

mengun mengar hundur býr til holu mígur næsti maður þefar
og svo koll af kolli karl af körlum- vald af völdum körlum
oddhvöss rekur sprettunálin upp þeirra ísaumaða orðspor
ekki vera staður -vertu stöð

Höfundur teflir fram rússneska byltingamanninum og níhilistanum Nechayev í upphafsljóði bókarinnar. Kannski til að ítreka fyrir lesandanum að tilgangurinn helgi ekki meðalið? Ef til vill hugleiðing um radíkalíseringu? Níhílisk afstaða?

safnast undir dúkalögðum þökum funda
neðripartar flestum mætum gerðum undan
hefðbundnum störfum snemma mættir stilltir hlýða
á nýlega ljóðagerð nechayevs
……………………………………….&
………………………………………….hans meintu vina

……………….„FÆDDUR ER FRELSARI BLENDINGUR APA OG ENGILS“

Myndmál biblíunnar notar Snorri Páll á áhugaverðan hátt bæði til að skapa epíska frásögn (sem streymir fram eins og syndaflóð) og túlka hina mórölsku ögun þegnana. Forsíða bókarinnar sem er verk Steinunnar Gunnlaugsdóttur vísar í verk Andres Serrano Piss Christ frá 1987. Serrano notar oft trúarlegt tákn og líkamsvessa í ljósmyndaverkum sínum og í Piss Christ blandar hann saman krossjesú og pissi en ljósmyndin þótti í senn ægifögur og hneykslanleg. Á bókarkápunni flýtur nagli um í pissinu uppljómaða og í bakgrunni sést móta fyrir eins og röntgen mynd af rifjarhylki. Syndin, sektin, refsingin og upprisan koma fyrir í bókinni. Hið túlkaða vald kristninnar er svo inngróið í menninguna að menn ganga bókstaflega um með krossfestinguna í maganum. Vonina um frelsara mannkyns hvort sem það er kristsmynd af einhverju tagi, pólítísk hugmyndafræði eða hlutverk lista sem einhverskonar frelsun og þá lengist í taumnum. Og þá finnst mér við hæfi að minnast orða spænska listamannsins Santiago Sierra.

I can’t change anything. There is no possibility that we can change anything with our artistic work. We do our work because we are making art, and because we believe art should be something, something that follows reality. But I don’t believe in the possibility of change.

Lengist í taumnum er frumlegt verk, margslungið og djúpt. Það er stórstreymi í textanum sem er fullur af skringilega samansettum orðum sem vekja og næra.

biðja
megi hrakföllnum unglingunum fordæmalaust vel vegna
er málvilltir og haltir feta votan steypuskóginn
röksemdunum skynseminni marseringaþráhyggjunni gegn-
svo drekkja megi fótum þeirra fíkjusafinn saurugur og blautur
meðfram glórutæmdum landtökubyggðina skríða
yfir beinaber taflborð skítugra langana skrokksins
gegnum skrauthvarfakornakra umhverfða draugspennahöllum
brynvarðir reisi babelsturna-vopnaðir uppfærðum nýyrðabókum

þyrstir teygi villitrúarbikar hvern til botns
humlasöfum falskenninga hugartóm sín fylli
á ögurstundum andlit sín ávallt! hylji
glorsoltnir seðjist afskornum skorpum
kornmeti ruddu úr bókanna þrýstnustu bók
eimuðum anda úr vefleikans vanhelgasta appi
svo lyndiseinkunn þeirra megi hrynja

en skilji ei eftir sig brauðmolaslóða
mávunum til átu –markvörðum stundanna til áttunar
þiggi ekki innsigluð boðskort á frumsjótæm framsækniherma
né sundurtæti skynfærin á sérískornum vínilrispum
við eilífa hlustun á þynnkunnar ljúfsára þrástef
sömu dropum allt! er undirorpið
allt! ferðast sömu ræsin til sjávar