Í ástinni skal teflt til sigurs

Um Ástarmeistarann eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur

Er þá ekki best að láta það eiga sig að fikta í tökkunum? spyr maður sig. Nei, ég held maður eigi að fikta en fara samt varlega. Maður verður að hreinsa út. Því sársaukinn verður eftir í heiminum þegar maður deyr, hann hverfur ekki með manni, hann situr eftir í jörðinni, hann sogast upp í himinhvolfið og honum rignir yfir saklausa.

Anna í bréfi til Fjölnis (bls. 263)

Í upphafi vil ég bara gera hreinskilnislega játningu; í Ástarmeistaranum var fiktað í tökkunum á mér – en þó helst til of varlega. Það var ýtt á þá svo það surgaði – en aldrei þó þannig að það yrði afgerandi hreinsun, ég sæi ljósið, ýfðist af innblæstri. Og því er sársaukinn hér enn. Hann verður að kalkúleraðri mynd af brotnu fólki, persónum sem þrá að reisa sig við en óttast ekkert jafn mikið og mannlega reisn. Í mannfyrirlitningunni er því ekkert hatur og í ástinni enginn rómans. Og í skákinni enginn flétta. Ég veit ekki alveg hvernig það fer í takkana á mér. Jafntefli?

Maður verður í raun alltaf að setja spurningar við tilvísanir hingað og þangað út fyrir listaverk til þess að réttlæta afstöðu sína til þess, hvort sem að sú afstaða er jákvæð eða neikvæð. Verkið verður að standa á eigin forsendum burt séð frá því hvar á höfundarferli það kemur út eða hvort hægt sé að rýna í verkið á sjálfsævisögulegum forsendum (eins og raunin er með fyrri verk Oddnýjar). Það skiptir ekki máli hvað höfundurinn hefur verið að ganga í gegnum eða sér fyrir sér að verði lesið á milli línanna. Ég ætla því ekki að bæta því sjónarhorni við rýnina hér sem kom fram í viðtölum við höfundinn í Víðsjá eða í Helgarblaði Fréttablaðsins þann 15.nóv. Þau eru aftur á móti áhugaverð fyrir þá sem vilja glöggva sig á tilurð verksins.

Flókin leikflétta

Ástarmeistarinn, nýjasta verk Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur, er fjórða verk höfundar en í raun hennar fyrsta „skáldsaga“. Síðustu verk hafa verið stórskemmtilegar tilraunir með form skáldævisögunnar, fantastískar útgáfur af brotakenndum ævisöguköflum og pælingum á mörkum skáldskapar, fræða og heimspekitexta. Oddný er grúskari og safnari, kuklari jafnvel og notast við sína eigin uppskrift í nýjasta verkinu eins og hingað til. Sökum sérstöðu fyrri verka hennar gerði undirritaður sér miklar væntingar í ljósi þess að um „hreinræktað“ skáldverk úr hennar ranni væri að ræða að þessu sinni. Í sjálfu sér má segja að þolinmæðin hafi haldist nokkuð fram eftir lestrinum á þeim forsendum en í upphafi verksins er aðalpersónan Fjölnir, kynnt til sögunnar. Hann er sérfræðingur í áfallastreituröskun og starfandi sálfræðingur, staddur í Grímsey á ráðstefnu. Tvær kvenpersónur koma við sögu í upphafi verksins – önnur þeirra hverfur algjörlega óútskýrt úr frásögninni um miðbik bókarinnar – en þær virðast vera tvær hliðar draumkonu sálfræðingsins Fjölnis – og heita Anna og Karen Nína eftir aðalsöguhetju Tolstoys. Þær búa báðar í Grímsey og fanga huga hans.

Það má gera ráð fyrir því, í verki eftir höfund eins og Oddnýju að bókmenntalegir þræðir og tengingar séu uppi á borðinu en ef til vill er það einn helsti ljóðurinn á öllum slíkum vísunum í bókinni að þær eru útskýrðar í þaula. Það vantar því heilmikið uppá ljóðrænuna og skáldskaparleikinn sem við eigum að venjast úr fyrri verkum höfundar. Miðað við fyrri verkin fær lesandinn helst til lítið rými til að leika sér með mögulegar túlkanir hugleiðinganna því skyggnst er ótæpilega inn í hugarfylgsni sögupersónanna, þó fyrst og fremst hinna analýserandi og sjálfsmeðvituðu aðalpersóna, Fjölnis og Önnu. Hugarheimur þeirra tveggja lýsir svo um leið heilmikilli tilvistarkreppu á báða bóga, kreppu sem leysist illa úr og lyftir lesandanum sjaldan á flug skáldskaparins í fyrri hluta bókarinnar.

Fjölnir og Anna á flökti

Form og stíll sögunnar olli mér nokkrum vanda, nema auðvitað málið sé einfaldara en svo og segja megi að Oddný sé að leita að nýrri rödd í verkinu. Verkið er mjög afgerandi ólíkt hinum fyrri þegar horft er til stílsins – en líka leikgleðinnar. Einnig má segja að þetta sé tilraun með „skáldskaparrödd“ sem einkennist af flökti og er bréfsöguformið ef til vill góð lausn á því, en um leið er að auki spunnið heilmikið við það form og hlaupið frá því. Það er mjög vandasamt. Vandinn sem Oddný virðist ekki hafa tæklað fullkomlega er að mínu mati falinn í notkun tíða þegar kemur að frásagnarformi þar sem beinni ræðu og endursögn er blandað saman. Þegar samtöl eiga sér stað er þeim lýst um leið í annarri tíð en þeirri sem þau eiga sér stað í og inn í þau blandast hugsanir (og lýsingar á tilfinningum) þar sem persóna ætlar mögulega að gera eitt en gerir svo annað. Þessi stíll er einfaldlega ekki nógu þjáll og gerði mér erfitt fyrir við að móta mynd af persónunum sem sjálfstæðum verum, sköpuðum af höfundarins hendi. Þær urðu ekki lifandi sem persónur heldur upplifði ég í sífellu að höfundur talaði í gegnum persónurnar – auk þess að vera söguröddin – án þess að þægileg aðgreining væri þar á milli.

Eðlilegt er að segja Fjölni standa fyrir greinandi viðhorf, fræðilega nálgun akademíunnar (efasemdir jafnt sem sjálfumgleði) á leitina að ástinni. Hann virðist vilja svala þekkingarþörf og hinu holdlega (fullnægju eros) en er um leið brotin og týnd manneskja á óræðum aldri, barnlaus – lítið er getið um fortíð hans í ástarbrasinu. Anna stendur aftur á móti fyrir alkemíska nálgun, hennar leið er svona náttúrulega leiðin; hún er heilari, fæst við orkustöðvarnar og virðist jarðbundin og hlédræg týpa, svolítið lokuð og á engin sérstök sambönd við neinn nema Daníel son sinn. Barnsfaðir hennar kemur aldrei við sögu að mig minnir – sem er furðulegt þegar kemur að því að sagan er stúdía um form og forsendur ástar og ástarævintýra; þeirra sem ganga upp sem og það hvað þurfi til þess að ástarsambönd geti gengið upp.

Bók fyrir ákveðna tegund af fólki?

Í ljósi þess að í fyrri verkum hefur Oddný verið nokkuð frjáls frá að setja hlutina línulega upp og binda sig á klafa skipulegrar frásagnar, þá truflar það mann einna mest hversu klippt er á skáldskaparvængina (sem njóta sín ekki þrátt fyrir t.d. innkomur skrautlegra persóna eins og galdramanns frá Ekvador, flugmannastóðs o.s.frv.) en þeir hafa verið aðall hennar til þessa. Við lesturinn truflaði það mig oft hvað Oddný vék lítið frá því að vera alltaf að reyna að meika sens. Misræmið á milli þess að skapa trúverðugar persónur og vera skemmtileg er þó nokkuð og þó Fjölnir og Anna standi fyrir áhugaverð sjónarhorn þá dalaði samúð mín með persónunum sem og skáldskaparhugmyndum á bak við þær eftir því sem á leið. Þau virðast ekki fólk af holdi og blóði í fyrri hlutanum og því tengir maður ekki við þau í seinni hlutanum þegar þau reyna að takast á við leitina að ástinni á eigin forsendum.

Vandinn er að mínu mati fólginn í miðbiki verksins; fyrsti hluti þess er áhugaverður og seinni hlutinn einnig en á milli þeirra einhverskonar rof sem ég fæ ekki útskýrt. Vangavelturnar og lausnirnar sem þau skoða skila engum árangri og bæði eru þau á einhverskonar endastöð í því sem þau hafa tekið sér fyrir hendur um miðja bók. Þau gerðu með sér samning, veðmál, og þau eru að leita að Ástarmeistaranum sínum; sannindum um það hvernig megi og eigi að læra að elska. Verkefnið sem þau sjálf – og höfundurinn – lögðu fyrir sig gengur ekki upp, og þau missa áhugann.

Að skilgreina sig útí horn – án rómantíkurinnar

Tengingar mínar við persónurnar einkenndust af því að ég upplifði ekki í þeim konflikta eða þrár eða lausnir þó að höfundurinn taki fram að í þeim séu konfliktar og þrár – og lausnir – og þar kenni ég því um að höfundurinn gefur lesandanum afskaplega lítið pláss til að fylla inn í myndina sjálfur. (Ég verð að viðurkenna að ég lét mér margoft detta í hug fyrir hverja svona bók væri skrifuð – konur á ákveðnum aldri sérstaklega – og hvernig hún myndi tala til ákveðinna hópa frekar en annarra.) Það ætti að styrkja lestur undirritaðs að vera á meðal þeirra sem „kannast við sig“ í textanum (hafa áhuga á einhverskonar sjálfsrækt og úrvinnslu úr sorg eða áföllum, vera áhugamaður um eðli ástarinnar, mörk hinnar kærleiksfylltu og þeirrar kynorkudrifnu). En sú úrvinnsla sem stefnt er meðvitað að í upphafi verksins næst ekki á flug í bréfakaflanum (öðrum hluta bókarinnar) þannig að þegar persónurnar mætast aftur verður verkið stefnulaust eins og áður sagði. Ég týndi að minnsta kosti þræðinum og fannst óþarft og vitlaust að halda „skákþræði“ verksins inni þar sem hann bætti engu við og flækti aðeins sögulínu sem var nógu reikandi fyrir. Einhvernveginn báru ofskilgreiningar persónanna ástríðu skáldskaparins ofurliði.

Grái fiðringurinn eða rómantísk leit að kynorkunni?

Aðalpersónur Oddnýjar langar sitt í hvora áttina þegar þær hittast um miðbik bókarinnar, að loknum bréfasögukaflanum og halda áfram að fara í nýjar áttir í stað þess að einhverskonar uppgjör eða gegnumbrot verði sem brjóti upp þá einföldu grunnmynd sem höfundurinn leggur sjálfur á borðið. Á þessum tímapunkti sögunnar hefur verkið svarið sig í ætt við fyrri verk – og fjallað á margslunginn hátt um meginefnið sem skiptir Oddnýju mestu máli, ástina sjálfa. Það væri ósanngjarnt að ljóstra því upp hvernig sagan fer en þó verð ég að vera heiðarlegur með að það eru kynlífslýsingar og – órar á þeim nótum sem draga framvindu sögunnar inn í textaheim sem talar ekki til mín. Kannski munu aðdáendur E.L James finna einhverjar blaðsíður fyrir sig og þó erum við vísast nær kven-gráum fiðringi Steinunnar Sigurðardóttur, þar sem leitin að kynorkunni er leiðarljósið. Þetta eru mest megnis gamaldags og fjörlegar lýsingar og kostur að þær virðast vera svona kvennaklám – vona ég – því ef þær áttu að koma mér til þá lenda þær bara í Murakami-deildinni (pun intended). Ég veit ekki hvort ég hefði komist í gegnum lýsingar Fjölnis á eigin karlmennsku ef út í það hefði farið. Og þetta finnst mér allt saman orkueyðslu (og texta) þegar maður er að bíða eftir a) alvöru sögu eða b) djúsí þekkingarfræðilegu/sálfræðilegu innsæi.

Kjötið í varnarleiknum

Oddný hefur viðað að sér fullt af spekúleringum og vinnur því miður ekki nægilega skýrt með að miðla þeim með skáldfáknum sem hún áður reið svo frjálslega – þegar hún fjallaði leynt og ljóst um eigin ævi. Ef við tökum dæmi um pælingar/staðhæfingar um ástarsambönd og/eða meðvirkni sem er slengt fram og hefði verið áhugavert að sjá meiri úrvinnslu úr er t.d. eftirfarandi brot:

… en mundu bara að þegar maður er að reyna að lækna gömul sár sækir maður í svipaðar aðstæður og þær sem orsökuðu meinin. Og sársaukinn eykst þar til maður byrjar að skilja að aðstæðurnar eru ekki maður sjálfur. Sumir vilja vera í algjörri nálægð við aðstæðurnar, og við persónur sem geta örugglega kallað fram þessar aðstæður og snúið hnífi í sárunum. Aðrir vilja forðast aðstæðurnar og eru á flótta undan nánd sem hugsanlega getur kallað fram aðstæðurnar. En í báðum tilvikum láta menn aðstæðurnar stjórna sér.

Yfirleitt er annar aðilinn í ástarsambandi í sókn og hinn á flótta, svo getur það snúist við. En það er ekki fyrr en báðir fara óhræddir inn í nándina og skora óttann á hólm að sárin byrja að gróa.

(Úr bréfi Fjölnis til Önnu, bls.265)

Það eru þessir hlutar bókarinnar sem eru mest gefandi, þeir eru kjötið á beinunum og gefa bæði fyrri hluta verksins og þeim síðari vægi. Aftur á móti er eins og það sé oft aðeins verið að skapa aðstæður í söguframvindunni þar sem hægt sé að slá fram „gáfulegri speki“ um eðli og dýnamík ástarsambanda. Karlarnir í kringum Önnu, indjáninn, súfistinn og ungi elskhuginn virðast ekki vera eiginlegar persónur heldur tákngervingar sjónarmiða og eins er með hinn mikla áhrifavald í lífi Fjölnis, holdgervingu samruna andlegrar ástar og líkamlegrar frygðar, hina sextugu Teresu. Þessvegna má í raun segja að þó fjöldinn allur af persónum „stígi fram“ í bókinni séu aðeins aðalpersónurnar Anna og Fjölnir dregnar slíkum dráttum að tala megi um að við verðum vitni að „andlegu ferðalagi þeirra“. Að mínum dómi hefði mátt segja söguna af því ferðalagi í verki sem væri a.m.k. 100 síðum styttra, og þar hefðum við haft nóg af nöglum í súpunni! Sögulínunni sjálfri lýkur síðan skyndilega, mest megnis „til þess að henni ljúki“ og í miðjum klíðum (loksins eitthvað spennandi að fara gerast) svo að ef maður túlkar endann sem niðurstöðu pælinga bókarinnar (ef svo má kalla) þá hefði verið hægt að „bjóða jafntefli“ miklu fyrr!

Hin klassísku mörk ástar og geðveiki

Að einhverju leyti má segja að Ástarmeistarinn gefi fyrirheit framanaf um að takast á við mörk ástar og geðveiki, sjálfsrækt og uppbyggingu; opin hjörtu og lokuð hjörtu, virðingu og vonir, þörf fyrir viðurkenningu og hvatningu til að endurskapa hugmyndir sínar þegar einstaklingurinn mætir mörkum, siglir í strand eða týnir sjálfum sér. En sögunni fatast flugið og heldur ekki þræðinum um miðbikið sem leiðir af sér að seinni hlutinn, andhverfa fyrri hlutans, er ekki nægilega undirbyggð til þess að fela í sér lausnir á heildarsögunni. Annar og þriðji kafli bókarinnar, Bréfskák og Blindskák hafa engar afleiðingar í seinni hlutanum og skákin sem er tefld í fyrri hluta bókarinnar klárast aldrei! Það er alltaf á mörkunum hvernig „bréfaformið“ í skáldsögu getur gengið upp – þó það sé í sjálfu sér klassískt form – nú á tímum tölvupósta og símsambands (sér í lagi þegar persónurnar í sögunni geta vel hittst og gera það). Það vantar því einhverskonar innbyggða spennu í bréfin, t.d. að um elskendur sem ekki geta mæst sé að ræða, því það þarf alltaf einhverja slíka spennu í bréfasamskipti í sögu. (Annars eru það bara bréf með upplýsingum og pælingum sem gætu allt eins verið dagbókaform hvorrar persónunnar fyrir sig.) Vissulega hefði og getað verið áhugavert að flétta fleiri þræði inn í „leikinn“ sem veðmál Fjölnis og Önnu fjallar um; t.a.m. með því að flétta inn sagnfræði sem varðar ástir, elskendur og bréfaskipti (t.d. Abelards og Helíósu) frekar en einhverja óljósa þræði um sögu skáklistarinnar.

Enginn rómans í að tefla ekki til sigurs!

Að einhverju leyti finnst mér Oddný ekki hafa teflt til sigurs í þessu verki, líkt og áður. E.t.v. er meginástæðan sú að nú fótar hún sig á öðru sviði en áður. Hún virðist hafa misst taflið niður eftir snarpa byrjun og samið um jafntefli til þess að koma verkinu frá sér. Það eru alltaf vonbrigði fyrir lesandann þegar hann óskar þess að persónurnar – nú eða höfundurinn – sigri. Og fyrir rýninn hefði verið æsilegra að velta fyrir sér kjánalegu patti heldur en varfærinni skák þar sem aldrei var teflt til sigurs.