Skáldskapur vikunnar: Eldar

– smásaga eftir Steinar Braga

I

Eldar sem rafbók:
kindleepubPDF

Þau voru að sofna þegar hann fann lyktina af reyknum. Einar lá hreyfingarlaus og þefaði út í loftið.

„Finnurðu lyktina?“ spurði hann.

„Lykt?“ Lúsía lokaði bókinni og virti hann fyrir sér.

„Lykt af reyk.“

„Ég veit það ekki . . .“ Hún lyfti nefinu og þefaði. „Já, er það ekki bara. Hvað er þetta?“

Einar dró af sér sængina, stóð upp og rak höfuðið út um þakgluggann yfir rúminu.

„Sérðu eitthvað?“ spurði hún innan úr húsinu. Nóttin var dimm og köld og svolítil gola úr suðri.

„Hún er sterkari hérna úti.“ Í vestri var Hallgrímskirkja böðuð ljósi og gnæfði yfir borgina.

Einar fór aftur inn og tíndi á sig fötin sem hann var nýbúinn að afklæðast.

„Hvað ætlarðu að gera?“ spurði Lúsía. „Heldurðu að sé kviknað í?“

„Ég ætla að athuga það.“ Hann fór inn í stofu og rak höfuðið út um annan glugga þaðan sem sást að húsunum sunnantil í götunni. Allt virtist með kyrrum kjörum.

„Ég fann líka þessa lykt um daginn. Þú varst sofnaður og ég nennti ekki að athuga hvaðan hún kæmi. Ég gleymdi að minnast á það við þig.“ Hún elti hann niður á stigapallinn við dyrnar að íbúð ömmu hennar. Þau horfðu út um gluggann. Ekkert var heldur að sjá í húsunum norðanmegin við götuna.

„Við sæjum eldinn ef það væri kviknað í einhvers staðar, er það ekki?“ spurði Lúsía, röddin í hikandi.

„Það gæti verið . . . Ég veit það ekki. En þessi lykt hlýtur að koma einhvers staðar frá. Eigum við að athuga?“

Hún hugsaði sig um. „Fara út?“

„Ég skal fara einn, ef þú vilt.“

Hún hristi höfuðið.

Þau klæddu sig í yfirhafnir og skó og gengu austur eftir götunni. Köld golan blés á móti þeim.

Klukkan var fjögur um nótt. Undanfarnar vikur höfðu þau farið seint í háttinn, og yfirleitt festu þau ekki svefn fyrr en undir morgun. Húsin voru dimm og þögul, engin umferð í hverfinu og meira að segja niðurinn frá Miklubrautinni var þagnaður.

Við enda götunnar gnæfði blokk Blindraheimilisins yfir hverfinu, ljósin kveikt á jarðhæðinni en slökkt í íbúðunum þar fyrir ofan.

Eins og eðlilegt er, hugsaði Einar. Var blint fólk yfirhöfuð með lampa heima hjá sér? – Ekki fyrir sjálft sig, að minnsta kosti. Í suðri sást Öskjuhlíðin eins og hvalsbak sem lyfti sér upp úr dimmum haffleti. Við rætur hennar, skammt vestan við Menntaskólann, voru einbýlishús í röðum. Einar tók stefnuna þangað og Lúsía elti, nokkrum skrefum fyrir aftan hann.

„Þetta er skrýtið,“ sagði hún og stakk höfðinu upp úr kraganum á úlpunni. „Eða við erum skrýtin. Hvað erum við að gera?“ Hún hló vandræðalega.

„Finnurðu ekki lyktina? Hún er sterkari núna,“ sagði Einar, skimaði í kringum sig en smeygði sér svo á milli tveggja trjáa og inn í stóran garð við einbýlishús næst götunni.

„Eigum við ekki að hringja bara í slökkviliðið?“ Lúsía hljómaði sífellt hræddari en samt elti hún hann inn í garðinn.

„Og segja hvað?“ hvíslaði Einar. „Að það sé kviknað í nösunum á okkur?“

Gluggarnir á einbýlishúsinu voru dimmir, engin rauð birta eða reykur sem vall út um glugga eða þak.

Einar klifraði yfir grindverk í garðinn við hliðina á þar sem var stór hoppukastali og verönd með heitum potti. Lyktin jókst ennþá. Í glugga á efstu hæðinni logaði dauft ljós.

Hann gekk þvert yfir garðinn, tróð sér á milli runna og kom í annan garð. Frá veginum sem lá utan í Öskjuhlíðinni heyrðist niður frá bíl. Grasið var dimmgrænt, runnarnir sem umkringdu garðinn voru háir og bærðust lítillega í golunni. Þegar Einar horfði á þá útundan sér voru þeir ekki ósvipaðir reyk.

Í miðjum garðinum staðnæmdist hann, horfði á Lúsíu brjótast gegnum runnana og ganga beint til hans. Hún virtist ætla að segja eitthvað reiðilegt en hætti við. Þau horfðust í augu í svolitla stund, litu svo á húsið og sáu logann. – Hann brann í kjallara hússins, þráðbeint upp í loft en tók af og til á sig reiðilegan rauðan lit og þá sveiflaðist hann og teygði sig hærra. Frá loganum þyrlaðist svart sót, dróst yfir loftið á herberginu og út um rifu á glugganum sem vissi út í garð.

„Uss,“ hvíslaði Einar, bandaði Lúsíu frá húsinu þegar hún færði sig nær, en hún hlýddi ekki. Hann læddist á eftir henni og þau horfðu inn í kjallarann. Íbúðin var dimm að slepptum eldinum sem brann ofan í einhverju sem líktist sótugri olíutunnu í miðri stofunni. Á veggjunum voru hillur fullar af bókum og málverk en Einar gaf sér ekki tíma til að virða þau sérstaklega fyrir sér.

„Það er einhver þarna,“ hvíslaði Lúsía og um leið sá Einar hann. – Útundir vegg, hinum megin við eldinn, sat hreyfingarlaus maður; ekkert sást nema útlínur hans.

„Förum,“ sagði Einar og fann hvernig hann dofnaði af skelfingu. Honum fannst eins og hann vildi segja eitthvað meira en gat það ekki. Lúsía hélt áfram að horfa á skuggann, kjálkinn lítillega gapandi, augun fjarlæg og hvöss á sama tíma. Einar greip um hana og dró hana á eftir sér út úr garðinum.

„Ái, þú meiðir mig!“ sagði hún og reif sig lausa.

Á leið heim töluðu þau ekki saman. Einar neyddi sig til að þegja og Lúsía gekk hratt á undan honum, eins og hún gerði þegar hún var reið. Hann elti hana inn í húsið og upp stigann. Hún settist í stofunni og kveikti sér í sígarettu en sagði ekki neitt.

„Hvað var þetta?“ sagði Einar, eftir að hafa lokað gluggunum á íbúðinni. Hann fann ekki lengur reykjarlyktina en leið betur að hafa þá lokaða. „Hvað var þetta?“ endurtók hann og settist við hliðina á henni.

„Ekki gera þetta aftur.“

„Hvað?“

„Hræða mig svona.“

„Hræða þig svona! Hvað meinarðu? Það varst þú sem hræddir mig, starandi svona inn í húsið –“

„Ertu klikkaður –“

„Ert þú klikkuð!?“ Hann spratt á fætur og starði niður til hennar, fann reiðina breiðast út um allan líkamann eins og glóandi kviku og storkna í augunum. „Ef ég hefði ekki togað þig í burtu stæðirðu þarna örugglega ennþá, ég veit ekki hvað hefði gerst, ég varð hræddur þegar ég horfði á þig, ég togaði þig í burtu –“

Hann þagnaði. Lúsía var byrjuð að gráta, axlirnar titruðu og hún hallaði sér fram og grét en hélt sígarettunni logandi frá sér út í loftið. Loginn fremst á rettunni var rauðleitur, brann niður í gegnum tóbakið og hlóð upp súlu af grárri ösku. Þegar hún brotnaði af settist Einar við hlið hennar og tók utan um hana. Hún hallaði sér upp að honum og þau þögðu saman.

Næstu daga minntust þau ekki á það sem gerðist, og ekki heldur af hverju þau höfðu gluggana lokaða eftir að kvöldaði. Eftir því sem á leið fór Einar að hafa á tilfinningunni að Lúsíu liði illa, eða að eitthvað angraði hana sem hún hafði ekki sagt honum frá. Hún var þögulli en hún átti að sér að vera, stökk upp á nef sér af engu tilefni og gnísti tönnum í svefni, svo hátt að eina nóttina vaknaði hann við ískrið sem líktist því að pínkulítil, illa smurð vél rifi sig í sundur. Hann ákvað að tala við hana.

„Er það þetta sem við sáum?“ spurði hann eitt síðdegið. Þau sátu á kaffihúsi í miðbænum og voru nýbúin að fá kaffið til sín á borðið. „Þú verður að tala við mig, ástin mín. Segðu mér hvað það er . . . Við erum saman í liði, manstu.“ Hún sýndi engin viðbrögð, hann var ekki einu sinni viss um að hún hefði heyrt í honum. „Þú verður að segja eitthvað, Lúsía mín –“

Hún muldraði eitthvað án þess að líta upp. Hann hváði. „Þú ert svo fjarlægur,“ sagði hún. „Ég get þetta ekki … Ég get þetta ekki lengur.“

„Getur þú þetta ekki?“ Vonleysið kom aftur, tilfinningin fyrir því að allt væri á hvolfi, og svo reiðin sem vildi brjótast upp úr honum: „Ég! Er ég? Getur þú ekki!“ Hann hélt aftur af þessu öllu sem braust um í honum, fannst eins og kæmu litlar sprungur í eitthvað í miðju hans – kvísluðust og rynnu saman í myrkrinu þangað til hann flökraði.

Hann þagði í svolitla stund í viðbót, horfði á hana mæna ofan í borðið en stóð svo upp og kveikti sér í sígarettu fyrir utan staðinn. Að lokinni rettunni hafði hann ákveðið að gefast ekki upp og reyna að hressa hana við og sjálfan sig, og sjá hvort þau gætu ekki þokast eitthvað upp úr pyttinum. – Verið saman í liði. Hann nennti ekki að eyða kvöldinu í þögn, hvort ofan í sinni skotgröfinni.

Inni á kaffihúsinu fann hann dagblað og skoðaði hvað var verið að sýna í Bíó Paradís. Eftir hálftíma byrjaði myndin The Innocents, svarthvít mynd eftir handriti Truman Capote byggt á The Turn of the Screw. Lúsía samþykkti að fara með honum, hvarf inn á klósett í kortér og kom brosandi út. Þau leiddust framhjá 10-11, yfir Lækjargötu og upp Hverfisgötuna. Við gatnamótin á Klapparstíg byrjaði að hellirigna og þau hlupu hlæjandi síðasta spölinn. Framan við bíóið kysstust þau og Einar sagði:

„Það verður allt gott, ástin mín.“

Lúsía hjúfraði sig upp að honum og kinkaði kolli.

Í anddyrinu sátu fáeinar manneskjur og spjölluðu saman. Meðan Einar beið eftir afgreiðslu í miðasölunni skimaði hann yfir kaffihúsið í anddyrinu en sá engan sem hann þekkti. Lúsía kastaði kveðju á stelpu sem hún þekkti úr vinnunni, tók svo nokkur skref út á flísalagt gólfið og um leið vissi Einar að líf hans, eins og hann þekkti það, var í þann mund að enda. – Hann sneri höfðinu til hliðar og horfði inn í rýmið þar sem minni sýningarsalirnir voru; vinstri hönd hans hvíldi á afgreiðsluborðinu, þyngdin var á vinstri fætinum þar sem hann var í þann mund að snúa sér að miðasölustelpunni sem sagði eitthvað í líkingu við Get ég aðstoðað; hann sá Lúsíu útundan sér nálægt miðjum salnum, heyrði vinkonu hennar segja eitthvað, sá poppsölustrákinn skafa gult popp upp í poka, skynjaði dimman glampa í glerinu milli hans og miðasölustelpunnar eins og eitthvað þyti í gegnum loftið í anddyrinu. Um leið heyrðist hvellt bofs, ekki ósvipað því þegar kviknar í gasi og ljósin í bíóinu slokknuðu. Gólfið liðaðist í sundur undir fótum Einars eða hann tókst á loft og sveif gegnum loftið þar til hann skall á einhverju hörðu. Andlitið dofnaði, svo hendurnar og fæturnir og hann heyrði brothljóð. Öskur bárust héðan og þaðan utan úr myrkrinu, einhver hrópaði á hjálp skammt frá honum í gólfinu og grét, en þrátt fyrir allt leið honum ekki sem verst. Líkaminn var þykkt, lungamjúkt frauð utan á einhverju sem var algerlega kyrrt og friðsælt. Hann hugsaði að líklega hefði hann legið í roti í einhvern tíma, og næsta hugsun kippti honum aftur inn í sársaukann: Lúsía, hvar var Lúsía? Hann velti sér yfir á magann, skimaði ráðleysislega í kringum sig og reyndi að standa upp en gat það ekki. Eldar loguðu hér og þar um anddyrið, rauðir og gulir og flöktandi, og einhvers staðar hljómaði sírena. Skuggarnir sem byltu sér á gólfinu voru fólk og án þess að sjá nokkuð vissi hann um leið að Lúsía var ekki ein af þeim.

II

„Af hverju eru þau ennþá hérna?“ Eiríkur hristi höfuðið. Hann stóð við innganginn á Sal 1 í Bíó Paradís og virti fyrir sér hjúkrunarfólkið, þá særðu, nokkra meðlimi víkingasveitarinnar sem vöktuðu dyr salarins og nokkra borgara sem höfðu annað hvort ekki særst eða höfðu lokið við að láta hlynna að sér. – Þeir sátu í sætunum hér og þar um salinn og gláptu fram fyrir sig eða á autt tjaldið.

„Við erum að bíða eftir fleiri sjúkrabílum. Starfsmaður bíósins opnaði hingað inn,“ sagði Ingunn. „Hann sagðist hafa hjálpað fólki hingað í skjól frá reyknum og glerbrotunum. Eftir sprenginguna dró hann fólk hingað inn en sumir komu gangandi sjálfir. Þegar víkingasveitin kom á staðinn var ákveðið að tryggja salinn . . . Ég held þeir hafi ruglast í höfðinu. Þetta er fleira fólk en þeir eru vanir og þeir vissu svo sem ekkert hvað við var að eiga, býst ég við.“

Allt við þetta er meira en við erum vön, hugsaði Eiríkur með sjálfum sér. Hann skildi ekki ennþá hvað hann var að horfa á. – Sprengingu sem var kannski engin sprenging; margir særðir en enginn dáinn, og sárin flest af óvenjulegra taginu. Nokkur fórnarlambanna höfðu verið yfirheyrð en Ingunn sagði að lítið hefði komið í ljós nema að „allt varð dimmt“, einhver talaði um „konuna sem hvarf“ – og raunar virtist ein manneskja vera horfin.

Í upphafi hafði Eiríkur gengið út frá kenningunni um að einhver hefði sprengt sig í loft upp – hversu ólíklega sem það hljómaði, en engar líkamsleifar höfðu ennþá fundist; og til að flækja málin enn frekar bar öllum viðstöddum saman um að enginn hvellur hefði heyrst. „Ekki sprenging,“ sagði eitt vitnanna, og sprengjusérfræðingurinn í anddyrinu hafði sagt að ummerkin væru ólík öllum sprengingum sem hann hefði séð eða lesið um. Fjórar manneskjur höfðu verið fluttar á spítala: með blóðhlaupin augu, og blóðspýja gekk upp úr þeim, líklega vegna sára á lungum.

Bjarni gamli sat og punktaði hjá sér eitthvað upp úr einu af vitnunum. Skammt frá þeim sat maður og raðaði upp í sig poppi, drakk kók og starði fram fyrir sig á autt tjaldið. Við hlið hans sat kona sem var líklega eiginkona hans. Þegar hún sá að Eiríkur horfði á þau hnippti hún í manninn og hann lagði frá sér poppið.

Nokkrum sætaröðum fyrir aftan þau sat strákur sem rak af og til upp móðursýkislegan hlátur yfir engu sérstöku.

„Hver er þetta?“ spurði Eiríkur og nikkaði yfir að stráknum.

„Kærasti stelpunnar sem er horfin,“ sagði Ingunn, fletti í pappír af spjaldinu fyrir framan sig. „Einar Einarsson. Hann segist hafa staðið nokkra metra frá henni þegar allt varð dimmt og hún hvarf.“

„Allt varð dimmt, geri ég ráð fyrir – og svo hvarf hún. Sem sagt. Við þurfum ljósmynd af henni, ef hún skilar sér ekki bráðum. Líklega hefur hún ráfað út á götu eftir það sem gerðist. Fáðu mynd hjá foreldrum hennar og sendu á stöðina. Hún hefur varla farið langt … Og komdu þessu fólki upp á spítala,“ bætti hann við og um leið opnaðist salurinn bakatil. Fólkinu í salnum var sagt að standa upp og ganga að dyrunum, fremstu raðirnar fyrst, þar sem sjúkrabílar myndu flytja þau á spítala í ítarlegri skoðun og viðtöl. Fyrir utan hafði víkingasveitin tekið sér stöðu í kringum bílana og beindi rifflunum að húsunum í kring.

Eiríkur fór fram í anddyri þar sem sprengjusveitin var enn að störfum. Flísarnar á gólfinu og sumir veggjanna voru sótugir, en eldarnir sem kviknuðu höfðu fljótlega slokknað af sjálfu sér eða af öðrum starfsmannanna sem kom hlaupandi úr innri sölunum skömmu eftir það sem gerðist. Eiríkur þekkti Finn, sprengjusérfræðing lögreglunnar, frá því þeir voru saman í lögregluskólanum. Þeir höfðu stundum drukkið saman en nýlega fór hann í meðferð eftir skilnað við leiðinlega kerlingu sem drakk líka og hafði stundum barið hann. Það síðasta sem Eiríkur frétti af honum var að hann hefði næstum því drukknað á þyrluæfingu úti á Flóanum og að hann var nýkominn úr meðferð, var byrjaður með ungri stelpu í háskólanum og fór í ljós á Grensásveginum.

Eiríkur kveikti sér í sígarettu og Ingunn kom til hans með fleiri punkta úr fyrstu yfirheyrslunum. Það var mikilvægt að hafa hraðar hendur, ef sá sem stóð á bak við þetta hygðist vinda sér í meiri hasar í bænum. Bæði Laugavegi og Hverfisgötu hafði verið lokað. Ef minnsti grunur léki á sprengingu – sem hann vonaðist til að fá staðfest, eða ekki, þegar hann kæmi aftur fram í anddyri – yrðu settir upp tálmar við allar götur í vestur og austur frá miðbænum, skráð bílnúmer og gefið út leyfi til að leita í bílum og á fólki.

Engin tilkynning hafði verið ennþá gefin út til fjölmiðla. Hryðjuverk var orðið sem lá í loftinu en það valt aftur á því hvort um sprengju væri að ræða. Alls staðar annars staðar í heiminum hefði ekki verið gert ráð fyrir öðru en lélegum leiðslum og gassprengingu; til öryggis hafði Eiríkur beðið Ingunni að hafa samband við borgina og þá sem ráku bíóið – svo mætti útiloka það – en fyrsta spjall hans við Finn hafði líka útilokað gassprengingu, eða svo gott sem.

Finnur lauk við að rannsaka eitthvað frammi við dyrnar en kom svo gangandi til Eiríks, tók af sér hárnet, hanska og andlitsgrímu og kveikti sér í sígarettu.

„Má reykja hérna inni?“ spurði Eiríkur. Finnur glotti en varð svo alvarlegur, horfði út um gluggann á blikkandi ljósin á Hverfisgötunni. Hann var fölur í framan og tekinn í kringum augun. – Of ung fyrir hann nýja konan, hugsaði Eiríkur með sér. En svo lengi sem hún barði hann ekki –

„Þetta er flókið,“ byrjaði Finnur. „Ég geri ráð fyrir að stjórinn sé að bíða eftir símtali? Ég veit ekki hvað ég á að segja þér, ekkert sem þú vilt heyra að minnsta kosti … Það eru engin ummerki um sprengiefni, eins og ég sagði þér áðan. Við tökum sýni til að senda í greiningu en ekkert af því sem ég hef séð bendir til sprengju. Rafmagnið fór af byggingunni um leið og eldarnir kviknuðu en engin af leiðslunum í anddyrinu rofnaði, perurnar hérna sprungu ekki einu sinni. Okkur sýnist rafmagnið hafa farið vegna kröftugs segulsviðs – sem bendir til alveg ákveðinnar gerðar sprengju; en með hliðsjón af öðrum vísbendingum er það útilokað. Auk þess eru ekki nema nokkrar herdeildir í heiminum sem hafa aðgang að sprengju af þessu tagi.“

„Segulsvið?“

„Eins og þegar þú sprengir kjarnorkusprengju. Fyrst sérðu ljósið frá henni, svo fer rafmagnið – þegar segulhöggið kemur. Síðast af öllu kemur hljóðið. Og ég get fullvissað þig um að þetta var ekki kjarnorkusprengja.“ Eiríkur vissi ekki hvort Finnur var að grínast, að minnsta kosti brosti hann ekki. „En við höfum sterkar vísbendingar í einu – sárunum á þeim sem voru hérna þegar þetta gerðist. Konan og maðurinn sem voru flutt fyrst upp á spítala voru með sár við augun, sprungnar eða rifnar hljóðhimnur, og hóstuðu blóði. Ég hringdi upp á spítala, þau gátu ekki staðfest það strax en allt bendir til að þau séu með sár á lungunum. Mörg af hinum sem voru hérna fengu blóðnasir, sveið í augun eða tala um suð í eyrum – en ekkert þeirra talar um að hafa heyrt hvell eða mikinn hávaða áður en þetta gerðist.“

„Einn talaði um púff eða bofs-hljóð,“ skaut Ingunn inn í. „Eins og þegar kviknar í gasgrilli.“

„En enginn talar um lykt, er það? Það er útilokað að þetta hafi verið gas, við sæjum þá bruna í loftinu og sótið væri dreift jafnt yfir loftið og veggina. Nei, sárin benda til þess að hérna hafi myndast undirþrýstingur, lofttóm, og það snöggt. Sem myndi raunar gera þetta fyrirbæri andstætt sprengingu, sem gefur frá sér höggbylgju og hrindir fólki í burt frá staðnum þar sem hún springur.“

„Hvað gerist þegar myndast lofttóm?“ spurði Eiríkur.

„Ef lofttóm myndast nokkra metra frá þér, nægilega kröftugt og snöggt, myndirðu dragast í áttina að því, takast á loft og fljúga inn í það ef það væri nógu kröftugt. – Geimurinn er lofttóm, svo dæmi sé tekið; ef þú stekkur út úr geimskipi byrjar blóðið í þér að sjóða, og öll líffærin þangað til þú springur og togast í sundur – jafnt í allar áttir af því að lofftómið er allt í kringum þig. Og fremst í snjóflóði myndast lofftóm, þess vegna dragast lungun út um munninn á fólki sem lendir í nógu stóru snjóflóði og augun springa jafnvel.“

„Eða sár koma á lungun og hljóðhimnurnar springa?“ sagði Eiríkur. „Ef lofftómið er í minna lagi?“

Finnur kinkaði kolli. „Það sem Ingunn hérna sagði mér af lýsingu vitnanna gæti stutt þetta: sum segjast hafa runnið eftir gólfinu. Og hvert heldurðu að þau hafi dregist?“

„Inn í lofftómið?“

„Nákvæmlega.“ Finnur brosti. „Ímyndaðu þér dúkað borð. Í miðju þess er hola. Einhver teygir sig upp í gegnum holuna og kippir dúknum niður um hana, allt sem er á borðinu veltur um koll og dregst að holunni. Og vitið þið hvar holan er?“ Þau sögðu ekki neitt. „Ég skal sýna ykkur það. Hann teygði sig í kókdollu og lét sígarettuna detta ofan í. Eiríkur heyrði slokkna í henni með lágu hvæsi. Þau eltu Finn að miðju anddyrisins þar sem hann benti niður í gólfið. Fínlegt svart sót þakti gólfið, en á einum stað var sótið þykkara og hafði raðast í einsog tíu sentimetra háan píramíða. Það sló Eirík að grunnflötur píramíðans virtist fullkomlega og algerlega samhverfur. „Hérna … Mæling á hringnum sýnir að hann er samhverfur, ef þið voruð að velta því fyrir ykkur. Og til að flækja málin enn frekar vill svo til að staðsetning hrúgunnar er sú sama og stelpunnar sem hefur ekki fundist.“ Hann leit á Ingunni sem kinkaði kolli. „Sótið þarna er ekki líkamsleifar, ég held við getum útilokað það. Við tókum sýni og sendum til Svíþjóðar á eftir.“ Þau þögðu í svolitla stund og horfðu niður á hringinn.

„Hvað ef einhver sló út rafmagninu?“ sagði Eiríkur, hugsaði um mannrán, en vissi um leið að hann var bara að klóra í bakkann. „Til að kippa burt stelpunni?“

„Það útskýrir ekki áverkana á hinum,“ sagði Finnur og tók ekki augun af hringnum.

Ingunn fletti í pappírunum á möppunni sinni. „Eitt vitnið talaði um „stelpu með sítt svart hár“ og „blik í kringum hana, eitthvað sem dró augun að henni“; og stelpan í nammisölunni sagðist ekki skilja hvað hefði gerst en að „loftið hefði orðið eins og skál í kringum stelpuna“ – þessa sömu stelpu – um leið og allt varð dimmt.“

„Lofttóm, sem sagt.“ sagði Eiríkur og gat ekki leynt pirringnum. Hann færi ekki að hringja í stjórann og tala um lofftóm, miðbænum yrði ekkert lokað vegna lofftóms, og honum vitanlega hafði hann aldrei heyrt um árás með lofttómi. „Hvernig myndirðu annars búa til lofftóm þegar þú skellir þér í bíó?“

„Þú hitar kókdollu með kveikjara,“ svaraði Finnur, „lokar henni, leyfir henni að kólna og opnar hana aftur. Ef þú getur. Það verður alla vega ekki til af slysni. Ekki hérna í miðbænum.“

Eiríkur tók upp símann, sló inn númerið á stöðinni og sagði Ingunni að fletta upp kærastanum og athuga hvort hann væri á skrá. Svo fór hann út, tiplaði yfir glerbrotin og hafði ekki hugmynd um hvað hann ætlaði að segja þegar stjórinn svaraði.

III

Einar sat og keðjureykti og reyndi að hafa augun af símanum. Hann var nýkominn heim í Hlíðarnar, hafði afþakkað spítalagistingu, áfallahjálp og neitaði að láta hringja í ættingja sína. Á nokkurra mínútna fresti var hann gripinn nær yfirþyrmandi tilfinningu um að nú kæmi hringingin – tengslin á milli þeirra voru sterk og hann skynjaði ætlun hennar, hvernig hún slægi inn númerið hans – einhvers staðar úti í bæ, hvar sem hún var – til að láta vita af sér. Hún hefði ekki getað það fyrr en nú væri hún búin að greiða úr öllu, hún væri á leið heim.

Hann kveikti á sjónvarpinu þar sem byssukúla boraði sér leið í gegnum innri líffæri einhvers fórnarlambs í lögguþætti. Hann flýtti sér að standa upp og ganga um gólf, lotinn í herðum. Íbúðin var full af reyk, hann sveið í augun en hélt samt áfram að reykja. Á endanum fleygði hann sér upp í rúm, skoðaði nafnspjald sem ein af löggunum hafði rétt honum – ef honum snerist hugur hvað varðaði hjálpina.

Í loftinu fyrir ofan rúmið var lokaður þakglugginn. Líklega hafði hann ekki verið opnaður lengi. Einar fékk nóg af reyknum og stóð upp til að teygja sig í gluggann; kannski stöfuðu þyngslin bara af loftinu þarna inni. Hann opnaði gluggann upp á gátt, slökkti ljósin í herberginu og lagðist í rúmið, horfði út um þakið á dimman himinninn. Myrkrið var á hreyfingu en hann sá ekki móta fyrir skýjum. Hann krosslagði hendur yfir maganum, lokaði augunum og fann tært loftið fylla lungun, líða um fæturnar, handleggina og upp í höfuðið.

Hann vissi ekki hversu lengi hann dottaði en þegar hann rankaði aftur við sér var ennþá dimmt. Það fyrsta sem hann gerði var að fálma eftir símanum. Enginn hafði hringt. Fyrir utan gluggann var myrkrið ennþá á hreyfingu. Hann var rennblautur af svita, stóð upp, sléttaði hárið frá enninu og um leið fann hann lyktina. Líkt og fyrr barst hún inn um gluggann: dauf en súr reykjarlykt. Hann tók aftur upp símann og sá að klukkan var að nálgast fjögur.

Einar fór inn í stofu, opnaði gluggann upp á gátt og líka þann sem var inni á baðinu. Óþægileg hugsun leitaði á hann – tilhæfulaus og kjánaleg en kannski var það líka ástæðan fyrir sterku aðdráttaraflinu.

Hann klæddi sig í jakka og skó, fór niður stigann og steig út í nóttina sem var lygn og köld. Hann gekk út Blönduhlíðina og beygði til suðurs hjá Blindraheimilinu þar sem allt var slökkt nema pínkulítið, rautt ljós sem blikkaði á neðstu hæðinni. Yfir götunum var héla og í nokkur skipti skrikaði honum fótur. Hann hélt sömu leið og fyrr, kom í garðinn hjá einbýlishúsinu, braust gegnum runnana og inn í garðinn við hliðina á þar sem reykjarlyktin var sterkari.

Rétt eins og áður var húsið dimmt og þögult, nema í kjallaranum þar sem logaði eldur. Handan við eldinn, eins og Einar grunaði, þekkti hann aftur útlínur hennar: Lúsíu. Hún sat við hlið mannsins; bæði voru þau hreyfingarlaus en eldurinn flökti fyrir framan þau og á milli þeirra. Einari fannst eins og hann dytti niður á hnén, gripi um höfuðið og gæfi frá sér væl en það var ímyndun.

Hann sneri sér undan og gekk sömu leið til baka, lagðist aftur upp í rúmið og krosslagði hendurnar yfir magann. Orð sem hann hafði lesið í bók rifjuðust upp fyrir honum – að ekkert hefði sjálfstæða tilvist, allt væri tómt að innan. Hann langaði til að geta tekið undir það. Þegar morgnaði var hann horfinn.