Má bjóða barninu þínu nammi? – um fantasíur; ævintýri og þvaður

Rýnirinn Arnaldur Máni Finnsson fjallar um handahafa Íslensku Barnabókaverðlaunanna, Leitina að Blóðey og Síðasta Galdrameistarann, sem tilnefnd er til íslensku Bókmenntaverðlaunanna í flokki barnabóka.

Stimpillinn segir lítið til um gæðin

 Það vill nú þannig til að við erum svag fyrir stimplum og dómum, stjörnum og gífuryrðum – þó sér í lagi um gæði bóka – og oftar en ekki; hvort sem er í Bónus, Nettó eða Ríkinu, þá föllum við fyrir glansmiðanum sem prýðir vöruna og virðist auka gæði hennar verulega. Það er og, það er vel – oft bragðast Gyllta glasið bara ágætlega – og bækur sem tilnefndar hafa verið til Íslensku Bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunanna, Tómasar Guðmundsonar-verðlaunanna, já, allt frá Menningarverðlaunum DV til Rauðu Hrafnsfjaðrarinnar og hvað þetta nú heitir allt saman, þær eru nú í flestum tilvikum læsilegar hver sem efnistökin eru.

Nokkur þessara verðlauna eru þó þannig að um þau keppa aðeins óútgefin handrit og því nokkuð tæpt að þau hafi mjög víðtækt heiti, eða þannig líður mér að minnsta kosti eftir að hafa lesið verkið sem hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin í ár, Leitina að Blóðey eftir Guðna Líndal Benediktsson. Vissulega er mikið gagn að þessum verðlaunum sem lengi vel voru ein helsta hvatning til skrifa á metnaðarfullum barnabókum, en þau eru veitt af Verðlaunasjóði íslenskra barnabóka sem fjölskylda hins vinsæla barnabókahöfundar Ármanns Kr. Einarssonar stendur m.a. að. Í ljósi þess að nú hefur bæst við undirflokkur barnabókmennta á vegum Íslensku bókmenntaverðlaunanna er hætt við að þegar fram líða stundir geti grunlausir foreldrar ruglað þessum tveimur saman. Þessi verðlaun eru sérstök fyrir eitt, að fulltrúar lesenda hafa tvo fulltrúa í dómnefnd þeirri sem velur úr handritum og er það bara ágætt, en eftir lestur bókarinnar velti ég því fyrir mér hverjir það hafi verið í dómnefndinni sem börðust fyrir því að þessi vægast sagt sérstaka saga hlaut verðlaunin. Ég vil vera sanngjarn og skal taka til þess að þetta gæti verið „frábær saga fyrir börn með athyglisbrest“ – og jafnvel halda því fram að Leitin að Blóðey „geti aukið áhuga ungra drengja (sem annars spila bara tölvuleiki) á að lesa bækur“ … En ég verð eiginlega að segja að mér leið á köflum hræðilega yfir því að vera lesa þennan texta, rekja þennan söguþráð, fyrir syni mínum sem brátt verður átta ára. (Án þess að það skipti miklu máli þá þykir hann hafa góðan lesskilning smkv. mælingum í skólanum svo að hann ætti að geta staðið fyrir lesanda á aldrinum 7-10 ára.) Og mig óar við því að framhaldið sem boðað er af þessari bók komist í gegnum útgáfuferli forlagsins án markvissrar ritstýringar svo að á endanum þessi höfundur (sem meinar augljóslega vel) geti staðið undir því að stuðlað sé „að auknu framboði úrvalslesefnis fyrir æsku landsins“ (einkunnarorð verðlaunanna).

 

Fantasían sem frelsið til að bulla – eða vígi ímyndunaraflsins

Ævintýri hafa ekki þann eina eiginleika að vera skemmtisögur úr undraheimi þar sem dýr haga sér eins og menn eða að álfar og tröll sprangi um. Ævintýralegar sögur eru ekki alltaf einfaldar sögur af baráttu góðs og ills – og áður en Disney útvatnaði öll ævintýrin þá var hryllingurinn eitt af því æsilegasta sem gott ævintýri fól í sér. Eftir því sem árin líða, sjónrænt áreiti eykst, teiknimyndir og tölvuleikir fylla rýmið sem óheft ímyndunarafl áður hafði í hugum barna, þá minnkar hinn skapandi einkaheimur sem barn getur búið til í höfðinu (hjálparlaust) með lestri bóka. Lestrarupplifunin af því að lesa Harry Potter lifir miklu lengur með barni heldur en að horfa á myndina. Og ætli því sé saman að líkja að hafa ímyndað sér aðstæður samanborið við að bera aðstæður úr einni sögu saman við teiknimynd eða ævintýrabíó um sambærilegt efni?

Eitt af því sem er hvað skringilegast við Leitina að Blóðey er að manni líður eins og að áhrifavaldarnir séu í alla staði hlutverkaspil, tölvuleikir og teiknimyndir, þó aðstæðurnar í sögubyrjun séu þær að Afi gamli setjist við rúmstokkinn hjá barnabarninu Kristjáni til að segja honum sögu, til að ná úr honum fýlunni. Öll hin æsilega saga sem á eftir fylgir þeirri forsendu þar með að afinn getur verið að skálda upp og ljúga barnið uppfullt sér til skemmtunar og er þeim þræði viðhaldið reglulega í upphafi hvers kafla til að minna lesandann á (sér í lagi ef verið er að lesa söguna fyrir svefninn) hverjar aðstæður sögunnar eru. Hún er frásögn. En ég verð að leyfa mér að segja að hún sé „fáránleg frásögn“ – því svona segir fólk ekki frá, tja, jú nema vera megalómanískt, með athyglisbrest eða (eins og ætlast er til af lesandanum að trúa) að einstaklingurinn hafi bara lent í svona svakalegum ævintýrum. Og hvaða fantasíuheimur býr að baki í þessu „ótrúlega ævintýri afa“ ? (Yfirskrift bókarinnar, eins og bókaflokkur sé boðaður.) Ég væri fyllilega sáttur við vondan stíl bókarinnar, ósamkvæmni í því hvað eða hvernig hlutir gerast ef verið væri að gera markverða tilraun til að smíða heim á bakvið okkar sem örvi ímyndunarafl barnanna okkar.

 

Synkretísk samsteypa af allskonar

Ég viðurkenni fúslega að þegar ég opnaði bókina fyrst og rakst á ninjur í íslensku samhengi þá varð ég spenntur fyrir því hvað þarna gæti verið í gangi (sonur minn spilar ævintýraspil á frístundaheimili þar sem hann er einmitt ninja!) því það væri ný fantasíuvídd í íslenskar barnabókmenntir. Og hugmyndin um ískyggilegan heim Pósa Donn (afbókun á undirheima/sjávarguðinum Poseidon) undir Reykjavík var ágæt í upphafi bókar; síðan kemur við sögu undrahesturinn Sleipnir – og byrjað er að blanda út í deigið eftir smekk töfrasteinum, tröllum og öðrum hráefnum sem þykja henta í sögu af þessu tagi. Seiðskrattinn Azrakan er svo fulltrúi hins illa. Vissulega gerði ég ráð fyrir, við skimun á bókinni, að svona fjölskrúðugt safn vísana í verðlaunasögu myndi byggja upp heildstæða mynd af áhugaverðum heimi fyrir ungan dreng sem væri að hefja vegferð sína í hlutverkaspilum – með öllum sínum drýslamorðum og misþyrmingum! Og ég fullyrði að ef ekki væri fyrir viðkynningu sonar míns á þeim ævintýraheimi hefði áhuginn á sögunni aldrei kviknað. En það sem er átakanlegt er að raunsæistilfinning spilameistarans sem leiðir okkur um söguna er meira að segja svo úr takti að allt sem þarf að gerast til að „markmið sögunnar“ (að finna ömmuna / Blóðey) gerist algjörlega uppúr þurru, af því bara, ekkert er sjálfsagðara en að aldrei séu svo tiltakanleg vandræði en svo að fyrir einhverja ótrúlega tilviljun muni einhver birtast upp úr þurru og drepa þá sem ógna öryggi aðalsöguhetjunnar (afa á ævintýraför). Þetta verður svo fyrirsjáanlegt og leiðinlegt… að þegar Marbendillinn (eina kvenpersóna bókarinnar) og Drekinn eru komin við sögu þá veit maður allan tímann að þetta mun bara fara nákvæmlega svona: Afi drepur allt sem á vegi hans verður. Og það er eiginlega bara hryllilegur boðskapur. Þó að maður geti vissulega fengið uppúr barninu sínu viðbrögð eins og „bara fín“ þegar maður spyr um það hvernig honum hafi líkað bókin, þá segir mér meira að hann spurði fjölmargra spurninga á meðan lesið var um ósamkvæmni í textanum. Dæmin eru mýmörg en verst þykir mér þegar sagnir sem lýsa því sem er að gerast, passa ekki saman í flæði textans (svo tekið sé dæmi af handahófi þá kremur Azrakan hönd sem splundrast í þúsund mola (bls.176) þ.e.a.s. það sem kremst er mjúkt og fellur saman og ætti ekki að splundrast eins og harðir hlutir). Annað tölvuleikja-eliment sem fór ósegjanlega í taugarnar á mér er þegar að mörgum setningum er spanderað í að aðalpersónana sé að vandræðast eitthvað – það taki m.a.s. tiltekin tíma – en svo fari jafn margar setningar í að lýsa ferðalagi um hóla og hæðir í eltingaleik sem verður svo óraunverulegur að lesandinn getur aldrei lifað sig inn í spennuna, heldur aðeins skynjað að það sé verið að segja frá einhverju ótrúlegu sem eigi að hafa gerst. Þetta er tvennt mjög ólíkt!

Ef ég væri fyrir hauskúpur fengi þessi barnasaga tvær af þremur en ég leyfi mér bara að dvelja við að það sé frábært hversu mikið framboð sé af frambærilegum fantasíubókmenntum fyrir börn samt sem áður og hætta þessu neikvæða rausi!

 

Síðasti Galdrameistarinn – dæmi um vandað ævintýri…

Mig langar til að tiltaka aðra sögu, fantasíu eftir Ármann Jakobsson, sem ég er að lesa með drengnum í þessu samhengi (óþarft er að fullyrða nokkuð um trúverðugleika framvindunnar þar sem við erum ekki búnir með hana) en þar er svo áþreifanlegur munur á þroska og heildarsýn höfundarins yfir verk sitt. Í fyrsta lagi verða persónur ljóslifandi í textanum af því að tala sínu máli – ég vil ekki blanda vanköntum áður nefndrar bókar um of inn í umsögn um þessa bók – en maður finnur áþreifanlega muninn á frásögn sem er drifin áfram af samtölum og atburðum miðað við ævintýralega einræðu og þeim tengslum sem verða hjá lesandanum við persónurnar. Heildstæður heimur sem byggir á klassískum minnum um dreka, dverga, álfa og galdrameistara birtir lesandanum einnig þekkingu á eiginleikum þessara furðuvera og bætir þannig við þann gagnabanka sem börn og unglingar vilja eiga að í samræðum um hlutverkaspil eða ástundun þeirra. Sagan er full af vísunum og Ármann vissulega lærður höfundur, en það er fróðlegt að sjá hvort að þau börn sem dreypi á þessum miðaldabrunni (eins og vísað er til á kápu bókarinnar – „óþrjótandi sagnabrunn norrænna miðaldabókmennta“ ) fái í kjölfarið áhuga á þeim ævintýraþráðum öllum.

 

Í Síðasta galdrameistaranum er virkilegt tækifæri til að lifa sig inn í ævintýralegan heim og verða hluttakandi í framvindu snjallrar sögu. Það orðfæri og þær áherslur sem Ármann Jakobsson notar er ekki of upphafið (en ævintýra-hátíðlegt á köflum) og fyrir minn smekk er framvindan eðlileg og spennandi. Framvindan er ekki ofhlaðin útúrdúrum en þeir sem eru svona húmorsins vegna eru skemmtilega íslenskir (t.a.m. að venja börn við forn nöfn eða málfar) og/eða fróðlegir. Ég kann að meta að það tali hvorki allar persónur eins né tegundir ævintýravera og liggur því við að vilji ausa hana lofi fyrir það hversu vönduð barnabókmennt hún sé. En þá er ég kannski að miða við of lágan samnefnara. Kannski er þetta eins og að ætla miða gulrót við kandífloss?

Það sem væri einna helst hægt að kalla eftir er því að í bókinni væru fleiri myndir en myndir Bergrúnar Íris Sævarsdóttir gerir skemmtilegar tréristur sem hæfa ævintýri !

Gulrót!

Svo fólk komi ekki algjörlega af fjöllum vil ég vitna til eigin orða Ármanns um bókina sem hann hefur birt opinberlega. „Sagan gerist á óskilgreindum Norðurlöndum, Danmörku og Svíþjóð kannski en það er ekkert lykilatriði að lesandinn viti það. Hún gerist líka á óskilgreindum tíma fyrir iðnbyltingu í frumstæðu samfélagi sem þó er óðum að siðmenntast. Galdrar eiga þar sinn sess en eru misvinsælir. Aðalpersónan er strákur sem lendir í þeirri stöðu að þykjast þurfa að galdra. Segja má að hann sé fulltrúi nútímamannsins í sögunni, engin hetja en á köflum útsjónarsamur. Sagan hefði þó orðið stutt nema vegna þess að hann fær aðstoð frá völvu einni sem segja má að gegni hinu sígilda „kennarahlutverki“. Svipað og Harry Potter á hann líka eftir að kynnast strák og stelpu sem verða eins konar vinir hans þó að sú vinátta sé kannski svolítið flókin og margt ósagt eins og gengur og gerist í vináttu barna og ungmenna.“ – Svo mörg voru þau orð og gæti ekki hafa lýst þessu betur. Nema náttúrulega ef við horfum til gulrótarlíkingarinnar áðan.

Gulrætur – sem eins og allir vita er hollt og gott nammi sem öll börn vilja graðka í sig – sætar og lífrænar eru tákn um staðgóða næringu, hressandi og stemmandi, í samanburði við sykursull sem veldur iðraólgu og niðurgangi. Ég mæli hiklaust með Síðasta galdrameistara Ármanns Jakobssonar og finnst það prýðilegt dæmi um vandaða fantasíubókmennt sem bjóða má börnum á ýmsum aldri. Lifi fantasían!

 

Arnaldur Máni Finnsson