Sýnir á dánarbeði: Freyja Eilíf sýnir í Betra Veður glugga galleríi

Þann 5. desember opnaði myndlistarmaðurinn Freyja Eilíf Logadóttir sýninguna Sýnir á dánarbeði í Betra Veður galleríi. Sýnir á dánarbeði er staðbundin innsetning og hljóðverk sem er unnin út frá nærdauða reynslum og sýnum á dánarbeði. Verkið er svar listakonunnar við spurningunni um líf eftir líkamsdauða.

Sýnir á dánarbeði er heiti yfir það fyrirbæri þegar mönnum birtast sýnir á dánarbeði sínu. Þessar sýnir geta verið margvíslegar en eiga þó margt sameiginlegt. Þannig er algengt að fólk sjái liðna ástvini, upplifi sig staðsett í einhverri gátt og fyllist miklu öryggi og vellíðunartilfinningu“ segir Freyja. „Ég vildi skapa verk sem væri hugvekjandi áminning um dauðann. Feigðin á ekki að vera hættulegt eða neikvætt umhugsunarefni.“

Hvernig vannstu innsetninguna?

Sýnir á dánarbeðiÉg ákvað að sameina þær frásagnir af nærdauða reynslum og sýnum á dánarbeði sem hafa hreyft mest við mér og vinna úr þeim innsetningarverk sem væri niðurstaða á því hvað tekur á móti við líkamsdauðann. Þetta eru sýnir sem ég þekki frá fyrstu hendi við fráfall fjölskyldumeðlims sem og frásagnir sem ég fékk úr bókinni At the hour of death sem Erlendur Haraldsson gaf út árið 1997 ásamt Karlis Osis.

Sýnirnar sem eru saman komnar í innsetningunni eru eftirfarandi: Að vera staddur í geymi, loftleysi. Sjá ekkert nema sand í kring. Heyra áður óþekkt hljóð. Öðlast skilning á einhverju, fá lykil að vitneskju. Sjá tölvur, verur með tölvur. Vera staddur í gátt, fara í gegnum göng.

 

Hvaðan koma tölvurnar?

Það var hún langamma mín sem talaði um tölvur og mann með tölvu á sínum síðustu ævidögum. Sú sýn er mjög sérstæð og hún var mér mikil hugvekja þegar ég var táningur.  Ég fór að velta því fyrir mér hvort heiminum væri stjórnað með tölvukerfi. Hvort við mannsálirnar værum bara örfá „megabyte“ í þessu gímaldi. Tölvur urðu því helsti útgangspunktur verksins þar sem sú frásögn stendur mér næst. En með þeim hef ég myndað gáttir og göng með lyklaborðum og speglum og þannig sameinað sýn langömmu minnar öðrum sem ég hef lesið um.

 

Verkið Sýnir á dánarbeði er staðsett í Betra Veður glugga galleríi á Laugavegi 41 og verður uppi til 29. desember.