Afdráttarlaust: Smartlandið

Fyrst kom eldgos. Eyjafjallajökull. Í framhaldi af þeim stundarpirringi sem eldgosið hafði á flugfarþega í Evrópu ákvað íslenska ríkið að hefja allsherjarauglýsingaherferð á Íslandi og Íslendingum. Að þeir væru svo fallegir og hipp og klikkaðir og léttskapandi. Ráðist var í gerð kynningarmyndbands sem þjóðin var hvött til að dreifa á samfélagsmiðlum til útlenskra vina sinna. Sem hún gerði. Auglýsingaherferðin heppnaðist. Túrisminn hrapaði ekki heldur óx. Íslandi hafði tekist að selja spliffið og bæta sjálfsmynd sína í leiðinni.

Fjórum árum síðar er búllsjittið sem var pakkað inn í þetta vídjó til að telja útlendingum trú um að íslendingar væru æðislegir og frábærir fyrir löngu orðið að viðteknum sannindum. Að allt donkið um hippið og kúlið og sköpunina og gamanið hafi verið fótósjopp – gleymdist einhverstaðar á leiðinni.

„Raunar er leitun að því í menningarsögunni að listamenn heillar þjóðar hafi sjálfviljugir gengist við og aðlagað hugmyndir sínar og verk að tilskipun frá stjórnvaldi líkt og gerst hefur á Íslandi síðustu ár.“ Þessu bulli hefur ekki síst verið haldið á lofti af íslensku menningarlífi. Þarna hitti skrattinn ömmu sína. Hipsterismi í bland við heimatilbúnar goðsagnir um sérstöðu íslendinga sem bókmenntaþjóðar og menningarþjóðar. Rétt eins og barn sem upplifir jákvæða skilyrðingu hafa íslenskir listamenn gengist upp í þessari hugmynd um sjálfa sig. Smá saman hefur þetta læðst inn í menninguna – leikhúsið, tónlistina, bókmenntirnar og orðið ríkjandi. Íslenskur vetur í Þjóðleikhúsinu. Bókamessan í Frankfurt var t.d. byggð á þessum mýtum og skilyrðingar styrkjakerfisins ýta enn frekar undir hana svo örfá dæmi séu nefnd. Á endanum nær goðsögnin yfirburðastöðu sem er hafin yfir gagnrýni. Gagnrýni á listir hættir að vera æskileg og verður á endanum einhverskonar hjúskaparbrot. Ef slíkri gagnrýni er svarað er henni svarað með vísan í hagtölur. Raunar er leitun að því í menningarsögunni að listamenn heillar þjóðar hafi sjálfviljugir gengist við og aðlagað hugmyndir sínar og verk að tilskipun frá stjórnvaldi líkt og gerst hefur á Íslandi síðustu ár.

Íslenskri menningu er reyndar vorkunn. Hafandi almennt verið frekar óvelkominn þangað til henni tókst að sýna fram á að tilvist hennar (væri henni beint í réttar og uppbyggilegar brautir) væri í senn hagvaxtaraukandi og gjaldeyrisskapandi, er í raun skiljanlegt að hún skyldi hafa selt sig svona ódýrt.

Móteitur 1

Það er ekkert í íslenskum fjölmiðlum sem mér þykir jafn fallegt og þegar Smartland Mörtu Maríu birtir myndir. Þegar Marta María birtir myndir af kokteilboðum eða frumsýningum líður mér eins og það sé verið að segja mér frá einhverju sem sé satt. Maður getur dundað sér við að skoða myndirnar, jafnvel tímunum saman. Þarna er þessi. Og þessi. Þessi mætti líka. Heldur fólkið á glasi? Lúkkar það hamingjusamt? Er það að reyna að fela eitthvað? Í hvernig föt er þessi klæddur?

smartlandopnunEkki til að dæma, ekki heldur til að dásama. Ekki frekar en maður vill. Bara skoða. Velta fyrir sér. Öðru fólki. Þá má svosem alveg velta því fyrir sér hversu kjánaleg hegðun það sé að mæta í einhver kampavínsboð og láta taka mynd af sér. Með fínar töskur og nýju fötin úr JÖR. En það væri bara asnalegt. Að velta sér upp úr því. Það er nú einu sinni allt kjánalegt, vilji maður líta þannig á það. Alveg sama hvort fólk er að mæta á frumsýningar eða éta pylsur fyrir utan Bæjarins Bestu – þá er það yfirleitt tilgerðarlegt og flóttalegt og engin ástæða til að pinpointa það sérstaklega.

martamariaAllt er þetta bara fólk að reyna að láta sér líða einhvernveginn.

Krummi Björgvinsson og einhverjir smáborgarar kepptust svo við að lýsa yfir vandlætingu sinni þegar Marta María klæddi sig upp sem róni og fór niður í bæ. Ég skil þetta ekki alveg. Ég skil ekki af hverju Marta María og Smartlandið má ekki grínast aðeins með rónana án þess að einhverjir plebbar taki hysteríukast.

bogiogorvarBogi og Örvar. Okkur þykir vænt um þá. Heimilislegir. Tveir örlítið þvöglumæltir miðaldra menn sem finnst brennivínið svoldið gott. Lalli Johns. Það var búinn til bíómynd um hann. Loftur róni var líka alltaf hress. Rosalega góðleg augu. Mikill spekingur. Alltaf hressir þessir rónar.

Auddi og Sveppi gerðu heilan þátt með falinni myndavél þar sem þeir þóttust vera rónar.

Allt í góðu. Flottur þáttur. Mannlegur. Sýnir vel hve fólk mætir útigangsmönnum yfirleitt af annaðhvort hræðslu eða fullkomnu virðingarleysi.

Hér má sjá myndir af rónum
.

Þeir virka hressir. Allavegana.

„Smartland er sumardvalarstaður”

Marta María Jónasdóttir

Í samfélagi sem megnaði ekki annað en að endurreisa sjálft sig eftir hrun með sama kerfinu og hafði molnað að innan fyrir hrun er eini raunhæfi kosturinn, á meðan enginn stemmning er fyrir því að breyta neinu, að reyna að koma í veg fyrir að við drepumst ekki úr vonleysi á básnum okkar.

Að bjóða upp á eitthvað fyndið og skemmtilegt. Eins og til dæmis heita súpu. Smartland er ekki lækning. Ekki orsök. Ekki meðferð. Ekki einu sinni afvötnun. Sumardvalarstaður? Kannski. Meira samt kannski svona gistiskýli.

Án innihalds. Rétt. Eins og flestir sumardvalarstaðir. En það er ekki þar með sagt að Smartland hafi ekki merkingu. Ef Smartland væri vefur um samfélagsmál og þjóðfélagsbreytingar þá væri miðillinn merkingarlaus. Því hugmyndafræðin er löngu búin. Allavegana rotuð. Í dvala. Hugmyndafræðin dó þegar vonin dó. Í samfélagi sem hefur ekki siðferðissþrek til breytinga hefur hugmyndafræði ekkert gildi annað en skiptagildið.

Ég held einhvernveginn að óvildin í garð Mörtu Maríu sé ekkert að fara að minnka á næstunni. Kannski af því að á Smartlandi birtist okkur spegilmynd sem rústar ímyndinni um okkur sjálf sem hipp og kúl menningarþjóð. Smartland vílar ekki fyrir sér að vera ósmart og hallærislegt. Merkjavara og gervibros. Sjálfsmyndarkomplexar. Fólk að reyna að brosa framan í myndavélina ánægt með sitt í nýju úlpunni sinni. Gagnvart lopapeysu-inspired by iceland kjaftæðinu er Smartland Mörtu Maríu fullkomið móteitur. Á Smartlandi sjáum við myndir af einhvernveginn fólki – ekki fólkinu í túristabæklingunum sem okkur er talin trú um að sé raunverulegt. Venjulegu fólki með feik tan og gervibros. Fólki að reyna að láta sér líða einhvernveginn.

DV er dautt. Fréttablaðið var löngu dautt. Ef það væri ekki fyrir staðfasta eigendur Morgunblaðsins sem gæti ekki verið meira drullusama um óvild pöpulsins þá myndi ég óttast að Smartland yrði næsta fórnarlamb. Að Smartland væri einu rónavídjói eða ögrandi fyrirsögn frá því að vera lagt niður. Og ég myndi sakna þess. Innilega.

Ég er samt engu nær af hverju Smartland mátti ekki mála sig upp eins og Bogi og Örvar.

Hvað íslenska menningu varðar mun ekkert gott gerast fyrr en við horfumst í augu við Smartland og byrjum að sjá okkur sjálf en ekki hina.

Afdráttarlaust er nýr liður á Starafugli – undir almenna og afdráttarlausa krítík á íslenskt menningarlíf – og verður reglulega á dagskrá í vetur.

   [ + ]

1. http://www.ruv.is/gunnar/541725