úr ljóðabókinni Gangverk


árið 2007 stendur tíminn í stað í þrjátíu og þrjár mínútur og þrjár sekúndur stendur tíminn í stað og ég hugsa ekki því í þrjátíu og þrjár mínútur og þrjár sekúndur er ég ekki til hugsa ekki um enskutímann sem ég er að missa af hugsa ekki um krumpað samlokubréfið við hliðina á mér hugsa ekki um bjölluna sem hringir inn í tíma hugsa ekki um pískrandi nemendurna hugsa ekki um sjúkrabílinn fyrir utan hugsa ekki um rauða bolinn með arabíska munstrinu klipptan í sundur hugsa ekki um mömmu og pabba sem fá símtal í vinnuna hugsa ekki um bróður minn og systur mína grátandi hugsa ekki um bekkjarsystkini mín orðlaus hugsa ekki um stelpuna sem ég datt á sem hélt ég væri að reyna við sig hugsa ekki um stelpurnar í fjórða bekk sem hringdu í neyðarlínuna hugsa ekki um söguprófið á föstudaginn hugsa ekki um busunina í næstu viku hugsa ekki um stelpuna sem ég er skotinn í hugsa ekki um sveindóminn hugsa ekki um hjartað hugsa ekki um sláttinn hann er ekki til og í þrjátíu og þrjár mínútur og þrjár sekúndur er ég ekki til ligg hreyfingarlaus á köldu gólfi yfir mér standa sjúkraflutningamenn og stuða mig tólf sinnum með þúsund voltum en ég hreyfist ekki því ég er ekki til ég er dáinn ég er dáinn ég er dáinn ég er dáinn ég er dáinn ég er dáinn ég er dáinn ég er dáinn ég er dáinn ég er dáinn ég er dáinn

ég er dáinn