Haustaugu eftir Hannes Pétursson

Ég er búinn að liggja á þessari bók nokkuð lengi eða frá því í byrjun desember. Yfirleitt les ég ljóðabækur hægt og hef lýst því hér áður. Mér finnst vont að æða í gegnum þær. Ég vil frekar fá að melta þær á löngum tíma – sérstaklega bækur eins og þessa. 

Það eru liðin tólf ár frá því síðast kom út ljóðabók eftir Hannes Pétursson, Fyrir kvölddyrum (2006). Ég skrifaði ritdóm um þá bók skömmu eftir útkomu hennar og lýsti því sem stórtíðindum að út væri komin bók eftir skáld sem hefur fært okkur höfundarverk sem er samofið þróun íslenskrar ljóðagerðar á síðari helmingi 20. aldar. Þau orð má endurtaka í samhengi við Haustaugu og raunar full ástæða til. 

Ég hef áður leyft mér að skrifa á þessum vettvangi eitthvað sem ég kalla lesskýrslu fremur en eiginlegan ritdóm. Ég ætla aftur að leyfa mér það, þótt það sem hér fer á eftir sé kannski sambland af þessu tvennu.

Hannes, mamma og ég

Öðrum þræði skrifa ég þessi orð í samstarfi við móður mína, að minnsta kosti undir sterkum áhrifum hennar. Áður en við snúum okkur að bókinni langar mig að játa dálítið. Skáldskapur Hannesar Péturssonar hefur alltaf verið hluti af mínu lífi. Ástæða þess er einföld. Hannes er eftirlætisskáld móður minnar ásamt Stephani G. en þessir Skagfirðingar deila virðingarsessinum jafnt og má vart á milli sjá. Játningin: Þrátt fyrir stöðugu návist mína við höfundarverk þessara tveggja stórskálda tókst mér ekki að tengjast þeim fyrr en á fullorðinsárum. Kannski var það ómeðvituð uppreisnargirni, einhver mótstaða í undirmeðvitundinni, gegn því sem mömmu var kærast. En það er gott að hafa náð tengslunum þótt seint sé og það er henni að þakka. 

Mamma var fimmtán ára þegar fyrsta ljóðabók Hannesar, Kvæðabók, kom út. Þessa eftirlætis bók eignaðist hún samt ekki fyrr en á gamals aldri. Þegar bókin kom út fékk hún lánað eintak móðursystur sinnar og skrifaði upp í stílabók. Þessi uppskrift hefur svo fylgt mömmu alla tíð. Fljótlega urðu samt bókstafirnir á síðunum næstum því óþarfir því kvæðin lærði hún utan að og getur enn farið með þau nær viðstöðulaust. Eintakið sem hún eignaðist svo á gamals aldri var einmitt arfur frá móðursysturinni, hið sama og hún skrifaði upp eftir hálfri öld fyrr. Það er eitthvað einstaklega fallegt við þessi tengsl við skáldskapinn. Svona gekk jú lesefni á milli fólks á Íslandi í gegnum aldirnar, uppskrift eftir uppskrift.

„Ég skildi hann, tengdi svo sterkt við ljóðin þegar Kvæðabók kom út“, sagði mamma í símann þegar við ræddum Haustaugu á dögunum. „Og nú leið mér alveg eins, ég skil hann.“ Svona tengjumst við skáldskap sem er einhvers virði. Tengslin þurfa að vera tilfinningalegs eðlis. Við þurfum að „skilja“, finna fyrir einhverju sem kannski er erfitt að orða en er samt svo auðskiljanlegt. Þetta er djúpt samband milli huga, tilfinninga og orðanna á blaðinu. Hún talaði líka um einhvern samhljóm á milli þessara tveggja verka, þótt ólík séu. Æskuverkið annarsvegar og svo þessi bók sem kemur út þegar höfundurinn er kominn fast að níræðu.

Ég hljóp til og sótti Kvæðabók um leið og símtalinu lauk. Las í gegnum hana og reyndi að finna líkindi í uppbyggingu, efnistökum og formgerð ljóðanna. Sannfærður um að eitthvað augljóst myndi blasa við – ramma sem báðar bækur féllu inn í. Þær bera auðvitað skýr höfundareinkenni Hannesar sem við víkjum lítillega að síðar hvað varðar Haustaugu. En þegar sá sem þessi orð skrifar hugðist beita sinni ryðföllnu bókmenntafræði til að sýna og sanna þessi líkindi, greip hann í tómt. Samt veit ég að lestur mömmu og þessi tilfinning sem hún lýsti um samhljóm bókanna, sem hún skynjaði, er líklega sannari lestur en nokkur bókmenntafræðileg greining getur orðið.

Eftir símtalið og veiklulega tilraun til samanburðar lagði ég Haustaugun frá mér um hríð. Þegar ég opnaði hana svo aftur blasti hún aðeins öðruvísi við mér. Ég var kannski með önnur gleraugu. 

Náttúra, samtíð og sagan

Því meira sem ég les í þessari bók, þeim mun pólitískari verður hún í huga mínum. Það segir kannski meira um lesandann en verkið? Á þessum tímapunkti finnst mér efni ljóðanna í grófum dráttum skiptast í tvo flokka. Annarsvegar náttúruljóð og hinsvegar ljóð sem ég verð að kalla pólitísk. En þegar nánar er að gáð spinnst þetta tvennt reyndar iðulega saman. Náttúran hefur alltaf verið nálæg, jafnvel ríkjandi, í skáldskap Hannesar. Hvort sem um er að ræða fræg ljóð hans um sögulegar persónur eins og „Kopernikus“ eða táknræn og heimspekileg ljóð eins og „Hjá fljótinu“ svo nefnd séu tvö ljóð úr Kvæðabók. Þetta tvennt, náttúra og eitthvað sem ég verð enn um sinn að kalla pólitík, auk hinnar sögulegu dýptar sem skáldskapur hans einkennist iðulega af, verður líklega ekki aðskilið. 

Ég finn mig knúinn til að afsaka þessa orðanotkun, pólitík, í tengslum við skáldskap Hannesar. Það hæfir einhvernveginn ekki að tala um pólitískan kveðskap þegar ljóð hans eru annarsvegar. Slíkt orðalag er einfaldlega of bundið við tímann og tíðarandann á meðan ljóðin eru nær því að vera tímalaus. Ég finn samt ekkert betra orðalag. Nema ef vera skyldi að segja að ljóðin séu spegill sem við samtímamenn lítum í, horfumst í augu við sjálfa okkur um leið og fortíðin  blasir við að baki okkur í spegilmyndinni? Til að útskýra þetta er best að taka eitt dæmi um ljóð sem verkaði sérstaklega sterkt á mig í síðustu lestrum bókarinnar. Það er reyndar af nógu að taka en þetta verður að duga. 

„Úr þulu næturgolunnar“

Þessi vefnaður Hannesar, sem ég reyndi að lýsa, með náttúru, sögulegri dýpt og beinskeyttum samtímalegum áeggjunum birtist í ljóðinu „Úr þulu næturgolunnar“ (bls. 56-57). Þar liggur ljóðmælandi fyrir innan „haustglugga“ og inn um hann berst „ryðbrún“ rödd. Ljóðmælandi lætur sem hann sofi á meðan röddin segir mannskepnunni til syndanna. Röddin rekur hroka og skeytingarleysi mannsins og spáir fyrir um óumflýjanleg endalok tegundarinnar sem kallar sig hreykin „herrar jarðarinnar.“ Og endalokin lætur náttúran sig engu varða:

En þó fer það svo
að sigraðir hnígið þið
fyrir ósýnilegum vopnum
og vist ykkar lýkur á jörðu. 

Undir þessu lætur ljóðmælandi lítið fyrir sér fara fyrir innan haustgluggann: 

Það er andað
gegnum opinn haustgluggann –
og ég læt sem ég sofi.

Þessi látlausu lokaorð eru svo táknræn fyrir afstöðu okkar til ógnarinnar sem steðjar að okkur með loftslagsbreytingum. Það hallar að hausti tilvistar mannsins, við þekkjum ógnina, við vitum hver áhrifin munu verða og við vitum hvað við þurfum að gera. En samt látum við sem við sofum. 

Mér finnst eins og Hannes hafi fullkomnað þá aðferð, sem hann notar oft, að ramma ljóð inn eins og gert er í „Úr þulu næturgolunnar.“ Fyrst er teiknuð upp mynd af aðstæðum: „Það er andað / gegnum opinn haustgluggann – / og ég nem rödd“. Síðan mælir röddin, eins og áður er lýst, og að lokum er aftur skipt yfir í upphaflegu myndina af haustglugganum sem röddin andar innum og þannig rammast þessi mikilvægu skilaboð inn. Skilaboð send af næturgolunni – rödd náttúrunnar – til okkar að nema ef við rönkum loksins við okkur og hættum að láta sem við sofum.

Að lokum

Ég er viss um að fleiri ljóð bókarinnar eiga eftir að verka sterkar á mig síðar. Mig langar reyndar að nefna eitt sem hafði svipuð áhrif, „Á sumarsólhvörfum“ (bls. 12). Þar beitir Hannes svipuðu formi. Hann teiknar upp aðstæður með náttúrufyrirbærum sem ramma inn rödd með sögulega dýpt og tengsl við náttúruna. Þessi rödd segir áheyrendum, sem mig langar að túlka sem íslensku þjóðina, til syndanna. Auðvelt er að sjá fyrir sér að þetta sé Fjallkonan sjálf sem „sté tignarleg fram / úr fjallshamri, bláklædd, faldbúin / og hóf upp rödd sína.“ Hún mælir „margt ljúfsamlegt, en fleira / hörðum orðum / og að endingu:“ Upphefst þá reiðilestur sem snýr að sambandi Íslendinga við umheiminn og meintu sakleysi okkar gagnvart illskunni í veröldinni:

Eybúar!
Hvorki eruð þið saklausir né grandvarir
[…]
Þið þekkið sverð og blóð
svikráð, náttvíg

Svo er feðrunum
hinum fornkunnu vegendum
fyrir að þakka

Hræsni þessarar saklausu þjóðar er afhjúpuð með þessari þrumuræðu hinnar faldbúnu konu. Þetta er bein áeggjan til okkar að taka ábyrgð og fela okkur ekki bakvið meint sakleysi okkar:

Leitið ekki skjóls framar
bak við fánýtan lofburð digurbarkanna.

Látið hvergi eins og geislasveigur
úr guðs hendi
skreyti nú hvirfil ykkar
hafinn upp til stjarna.
Ó hégómadýrð! Sjálfsþóttinn!

Ég er viss um að þessi bók á eftir að koma upp í hugann aftur eftir að hún fer upp í hillu. Ég veit að hún mun ekki dveja þar lengi áður en ég gríp til hennar aftur. Þetta er þannig bók. Ég vona bara að við fáum enn að njóta skáldskapar Hannesar því þessi tvö síðustu verk hans sýna að mínu viti að enn er þörf og pláss fyrir skáldskap hans.