Mynd: Af heimasíðu skáldsins.

Öfugsnáði

Öfugsnáði er nýjasta ljóðabók Braga Ólafssonar. Það sem hér fer á eftir er varla hægt að kalla ritdóm. Kannski fremur lestrarskýrslu eða lýsingu á lestrarupplifun. Frá því ég las bókina fyrst, skömmu eftir að hún kom út, hef ég lesið hana aftur og aftur og gripið í hana oftar en ég hef tölu á. En orðin til að lýsa verkinu, fjalla um það, hvað þá gagnrýna, hafa staðið á sér.

Það var því huggun harmi gegn þegar ég rakst á að þessi orð Eiríks Guðmundssonar í formála að Ljóðaúrvali 1986-1996 eftir Braga þar sem Eiríkur vitnar í ljóð skáldsins: „Vikum saman […] hefur mér liðið eins og að minnsta kosti tveimur skeggjuðum mönnum sem standa á horni Bayswater Road og Lækjargötu í upphafi ljóðsins Blue Hawai og finna alls ekki orðin sem hæfa tíðarandanum. Þannig hef ég dvalið eins og bókstafur í þessu súrrealíska ljóði […] og ekki fundið orð sem hæfa skáldskap Braga.“

Mér dettur í hug að leika sama leik og Eiríkur og finna viðeigandi ljóð úr nýju bókinni til að lýsa ástandinu en mér tekst það ekki almennilega. Í öllu falli valda ljóð Braga mér heilabrotum og þessi skrif bera þess líklega merki. Það er ýmislegt kunnuglegt í bókinni. Stíll Braga er auðvitað einkennandi, þessi látlausi svolítið kankvísi stíll. Ljóð sem eru formuð á þann hátt að lesturinn fer í hring, ljóð þar sem sjálfsagðir hlutir eða smávægilegir vekja upp óvænt hugsanir og ljóð með þessum hversdagslegu furðum sem fáir hafa betur á valdi sínu að planta í skáldskapinn en Bagi. En fleira er kunnuglegt því þarna bregður beinlínis fyrir efnivið sem maður þekkir úr fyrri verkum – gott ef ekki prósaljóðaútgáfa af smásögu. Prósaljóðið „Loftskeytastöðin“ gerði mig t.d. brjálaðan. Ég hafði lesið þennan texta áður. Það var ég viss um en fann hann hvergi. Að lokum komst ég þó að því að hér er á ferðinni stef sem birtist í smásögunni „Sextánda skákin“ úr bókinni Við hinir einkennisklæddu. En Öfugsnáði kemur líka á óvart og þá kannski ekki síst fyrir þær sakir að í henni er pólitískur þráður sem ég hef a.m.k. ekki komið auga á í verkum Braga fyrr.

Bókin skiptist í þrjá hluta: Upphafskafla sem ekki ber heiti; kaflann „Dvalarstaður katta“ og lokakaflann „Veggfóðrið úr bók Broyards“. Í öllum köflunum er blandað saman prósaljóðum og ljóðum þar sem unnið er markvisst með línuskiptingar og erindi. Mig langar að skjóta því hér inn að við lesturinn leiddi ég hugann einmitt að því hve vel Bragi gerir í því að láta viðfangsefni ljóðanna stjórna forminu. Forminu er ekki þröngvað upp á viðfangsefnið heldur finnur það sér eðlilegt form sem nær undantekingarlaust virkar.

Borg og pólitík

Það er freistandi að tala um borgina í ljóðum Braga og hjá því verður reyndar ekki komist þegar kemur að Öfugsnáða. Einhversstaðar sá ég talað um „bragíska“ landafræði í tengslum við skáldsögur hans. Sé sú landafræði til hlýtur hún að eiga við um ljóðagerðina líka. Bragi yrkir borgina stöðugt – hvort sem er í ljóðum eða skáldsögum. Mér telst til að rýflega helmingur ljóðanna í Öfugsnáða fjalli að minnsta kosti öðrum þræði um borgina.

Borgin fær sinn sérstaka blæ í verkum Braga. Oft er þetta einhver hversdagsleg en þó furðuleg útgáfa af Reykjavík, svolítið dapurleg en einnig svolítið fyndin. Bragísk? Ljóðið úr Dragsúgi, þar sem skeggjuðu mennirnir tveir koma fyrir og minnst er á hér að framan, er dæmi um borgarljóð Braga sem nær að fanga Reykjavík og erlenda stórborg en um leið fjalla um eitthvað allt annað. Í Öfugsnáða rekumst við á slík í ljóðinu „Höfuðborgir“. Það hefst á vísun í ljóð eftir Max Jacob um mann sem ferðast frá París vegna þess að þar voru ekki nógu margir læknar fyrir alla þá sjúkdóma sem hrjáðu hann. Síðan rennur ljóðið áreynslulaust til Reykjavíkur með smá millispili um borgir og manneskjur, því: „Borgir þjást ekki síður. Höfuð þeirra hafa enga stjórn á því sem búkurinn aðhefst.“ Og skyndilega er titillinn farinn að kallast á við þessa línu um höfuð borga og þá sprettur Reykjavík fram: „Það sem hrjáir hina ungu borg Reykjavík er til dæmis svo margt – og svo flókið – að til þess eins að sjúkdómsgreina hana þurfa skáld hennar og rithöfundar utanaðkomandi aðstoð.“ Þar með er ljóðið komið í hring, eða hlýtur aðstoðin í þessu tilviki ekki að vera frá Max Jacob? Og um hvað er þetta ljóð? Þekkt myndlíking um borgina sem líkama eða manneskju er þarna á ferli, listilega vel útfærð með vísun í skáldskap og leik að orðinu „höfuð“. Um leið er þetta ljóð merkilega pólitískt. Á sinn hátt fjallar það um skipulagsmál í Reykjavík, vöxt borgarinnar. Sjúkdóminn sem hrjári hana?

Það er kannski glannalegt að segja það án þess að leggjast í ítarlegan lestur eldri verka Braga en ég hygg að þessi pólitíski þráður sé sterkari en í fyrri ljóðabókum hans. Upphafsljóð bókarinnar má nefna í þessu samhengi. Það ber titil með gæsalöppum og þrípunktum í efnisyfirliti „… og sólin skín …“ Þetta eru upphafsorð ljóðsins. Fyrri þrípunktinn má finna í sjálfum textanum og lesandinn fær þannig að vita að eitthvað tilheyrir þessum texta sem ekki rataði í bókina: „… og sólin skín á ferðamennina frá London og Boston.“ Þetta gæti verið brot úr lengri texta en fyrst og fremst er þetta aðferð til að þenja ljóðið út fyrir textann sjáflan. Þetta er reyndar eitthvað sem Bragi er afar fær í og nægir að nefna lok tveggja skáldsagna hans í því sambandi, Hvíldardaga og Gæludýrin. Í ljóðinu er er dregin upp skemmtilega furðuleg mynd af ferðamönnum við Sólfarið í Reykjavík. Ljóðið er gott dæmi um hvernig hversdagslegar athafnir, aðstæður og atburðir fá aukna merkingu með einhverri smávægilegri furðu. Eitt lítið atriði í textanum opnar hann og skapar vísun í eitthvað stærra, jafnvel rammpólitísk viðfangsefni samtímanns. Í þessu ljóð má sjá eitthvað þessu líkt þar sem ferðamannastraumurinn á Íslandi er látinn speglast í furðulegri mynd af trillu sem dregur Rauðarárvík á eftir sér. Trillan er eitthvað þvottekta íslenskt sem ferðamennirnir geta dáðst að en um leið er trillusjómönnunum líkt við apa í búrum í dýragörðum stórborga. Má ekki þarna greina einhverja sögn um ástandið á Íslandi einmitt nú um stundir?

Þessi pólitíski þráður í bókinni, sem ég tel mig hafa komið auga á, er kannski ekki síst merkilegur fyrir þær sakir hve látlaus hann er en á sama tíma kröftugur. Í ljóðinu „Við Suðurgötu“ er dregin upp dæmigerð lágstemmd hversdagsleg mynd að hætti Braga. Maður situr út í garði og les dagblað sem golan hrifsar með sér. Golan er persónugerð og „… grípur það með sér til að lesa.“ Hann horfir á eftir henni fara með það í burtu en nær að lesa nokkur orð „áður en himinninn hverfur / bakvið þéttskrifaðar síðurnar.“ Orðin sem maðurinn les lýsa samdrætti í ferðaþjónustu á Vesturlandi og hann dauðlangar að lesa meira. Í síðasta erindi ljóðsins stækkar það síðan svo um munar:

Fréttina um endalok heimsins
(aðeins innar í blaðinu)
átti ég eftir að kíkja á: en ég veit
um hvað hún fjallaði:

Hún fjallaði um endalok heimsins.

Ashbery og gleraugun á nefi lesanda

Skáldskapur hittir mann misjafnlega fyrir. Skömmu áður en ég hóf lestur Öfugsnáða hafði ég um skeið lesið bandaríska skáldið John Ashbery æði mikið. Tilefnið var andlát Ashbery í september síðastliðnum en eins og gengur varð það til þess að ég endurnýjaði kynni mín af skáldinu. Ég kom því að Öfugsnáða með Ashbery gleraugun á nefinu. Það hefur haft sitt að segja því þegar ég hafði lesið fáein ljóð í bókinni fannst mér ég strax greina skyldleika milli ljóða Braga og ljóðagerðar Ashbery. Ég verð að taka áhættuna á að hljóma eins og „besserwisser“ því mér finnst þetta skipta máli. Bragi fer sjaldan í grafgötur um áhrifavalda sína og nefnir þá iðulega í verkunum, eins og Max Jacob sem áður er nefndur ber merki um. Enda var grunur minn um skyldleikann við John Ashbery staðfestur á blaðsíðu 41 þar sem Bragi birtir brot úr ljóði hans, „.And Ut Pictura Poesis Is her Name“, í þýðingu Magnúsar Sigurðssonar. Á einhverjum öðrum tíma í lífi mínu sem lesandi hefði nafn Ashbery sjálfsagt ekki haft mikil áhrif. Ég hefði lesið textann og vafalaust tekið eftir nafninu en síðan haldið ótrauður áfram lestrinum án þess að hugsa. En einmitt þarna, á þessum tímapunkti, stökk ég upp úr stólnum og hrópaði: „Já var það ekki!“ – og „besserwisserinn“ fékk útrás. Trúlega má skrifa þetta á fyrrnefnd Ashbery gleraugu sem enn eru föst á nefinu á mér. En þarna opnuðustu nýjar víddir inn í skáldskap, fagurfræði og ekki síst aðferð Braga við ljóðagerðina.

Í skáldskap Ashbery er oft einhver spenna á milli hversdagslegra atvika og aðstæðna um leið og hann hefur að geyma einhverjar furður jafnvel súrrealisma. Tíminn gengur einnig oft undarlega í þessum ljóðheimi og í honum má gjarnan greina andstöðu við venjubundin rök. Allt þetta á við um ýmis ljóð Öfugsnáða. Ég vek sérstaka athygli á ljóðinu „minjagripur“ í bók Braga í þessu sambandi en í fleiri ljóðum má greina þessi tengsl við fagurfræði Ashbery, t.d. „gærkvöld“ og „Í stað þess að tala um Guð“, svo fáein séu nefnd. Það er samt hættulegt að lesa of stíft með ákveðin gleraugu á nefinu og ég hlakka til að koma að þessari bók aftur með önnur gleraugu á nefinu.

Að lokum

Þessum pistli er eiginlega ekki lokið. Hann er rétt að byrja, ég er ekkert búinn að segja og er enn að lesa bókina. Ég veit ekki hvenær ég hætti því. Hættir maður nokkurntíman að lesa ljóðabækur sem valda manni heilabrotum? Ég læt ykkur vita ef ég klára þessa nokkurntímann.