Þegar við brotnum

Atburðarás
Æ, komm on!
PS: Hamlet er bara með eina hauskúpu í „To be or not to be“.

It is not nor it cannot come to good:
But break, my heart; for I must hold my tongue.

1.2.158–159

Vorið 1988 fékk ég tvo menntaskólavini mína, þá Ólaf Jóhann Sigurðsson og Sigurð Jóhannesson, með mér í pínu fráleitan leiðangur. Við/Siggi keyrðum frá Akureyri til Reykjavíkur, fórum í leikhús og keyrðum svo aftur til baka um nóttina. Ástæðan: Við/ég vildum ekki missa af Hamlet.

Þetta er þannig leikrit.

Algerlega þess virði. Þessi uppfærsla Kjartans Ragnarssonar er enn besta íslenska Hamletsýning sem ég hef séð og Þröstur Leó minn prins. Svo spunnust þessar líka hressilegu blaðadeilur um hana, sem hófust eins og gjarnan með íslenskar Shakespearedeilur, á að þýðanda verksins misbauð meðferð efnisins. Ýmsir stungu niður penna í framhaldinu og þessu lá ég yfir.

Löngu síðar sat ég master-class námskeið í leikstjórn hjá Kjartani Ragnarssyni og Sigríði Margréti Guðmundsdóttur og kaus að sjálfsögðu að vinna með Hamlet. Kjartan sagði okkur þá að leikhússtjóri hafi með tiltölulega skömmum fyrirvara beðið hann að setja eitthvað upp þarna um vorið og selt honum sjálfdæmi um hvað það skyldi vera. Kjartan var snöggur til, eins og hans er von og vísa og sagði: „Nú, þá set ég auðvitað upp besta leikrit sem skrifað hefur verið!“.

Þetta er þannig leikrit.

Svaðilförin ‘88 var auðvitað ekki fyrstu kynni mín af leikritinu, enda er það löngu orðið hluti af menningarlegu DNA-i vesturlandabúa. Ég hef áður talað um þegar ég eignaðist fyrstu bindin af heildarútgáfu Máls og menningar á Shakespeareþýðingum Helga Hálfdanarsonar og þó söguleikirnir í fyrsta bindinu heilluðu mig ekki við fyrstu kynni var annað uppi á teningnum með harmleikina í því þriðja. Hamlet og Lér voru mínir menn frá því ég lagði frá mér bókina eftir langa nótt í sumabústaðarkoju á Hellnum á Snæfellsnesi sumarið 1988.

Reyndar þótti mér gamli Kornbretakóngurinn enn magnaðri en Danaprinsinn fyrst. Skrautlegra leikrit. Skrítnara. Klikkaðra. Ég var líka með Jan Kott á kantinum og ritgerð hans um Lé er sennilega hans besta og mest sannfærandi verk. Ætli það hafi verið fyrr en ég stúderaði leikritin í háskóla svona fimm árum síðar að þeir skiptu um sæti.

Það er auðvelt og ódýrt að tala um Hamlet sem „ofmetið“ verk, og slá sig þannig til riddara sem alvöru smekkmenni sem lætur ekki plata sig og stjórnast ekki af orðspori eða snobbi. Það er lítið mál að finna í því rökleysur, óhnýtta enda og ósvaraðar spurningar. Margt af þessu er áhugavert og sumt algerlega heillandi. Ég mun eyða slatta af línum í einhverjar af þessum gátum.

Samt. Hamlet verðskuldar orðspor sitt. Og þá er nú allnokkuð sagt. Verkið á nokkuð sannfærandi kröfu á að teljast merkasti og áhrifaríkasti texti sem skrifaður hefur verið, að Biblíunni og Kóraninum undanskildum. Áhrif þess ná langt út fyrir raðir þeirra sem hafa séð það og/eða lesið. Allir geta vitnað í það. Og ég er ekki einu sinni að fara sérstaklega óvarlega með orðið „allir“.

Örlítið óvarlegra væri að segja að allir hafi skrifað ritgerð, grein eða bók um Hamlet. Engu að síður er magnið af pappír, bleki og skýjaplássi sem fer í að varðveita hugleiðingar, greiningar, túlkanir og kenningar um allt sem viðkemur þessum texta, næsta skuggalegt. Í inngangi Ardenútgáfunnar síðustu kemur fram hjá þeim Ann Thompson og Neil Taylor að um 1990 hafi útgefnir titlar (ritgerðir, greinar og bækur) um þetta eina leikrit verið komnir í fjögur hundruð á ári. Það má setja út á ýmislegt og velta fyrir sér „göllum“ á þessu leikriti en frjómagnið er óumdeilanlegt. Annað eins lyftiduft fyrir andann og ímyndunaraflið hefur ekki komið undan penna eins manns. Nokkru sinni.

Hvað er það nákvæmlega? Sennilega ekki síst það að það er nákvæmlega ekki neitt „nákvæmlega“.

Hamlet virðist strax hafa náð svona í gegn, umfram flest önnur verk Shakespeares og annarra. Tilvísanir og tilvitnanir í verkið fara að birtast á prenti fljótlega upp úr 1600. Það er líka strax komið í umferð á meginlandinu og hrærir þar í mönnum. Má þar nefna hið dularfulla þýska leikrit Der Bestrafte Brudermord, sem er sennilega stæling á Hamlet Shakespeares sem enskur leikflokkur sýndi í Þýskalandi snemma á sautjándu öld.

Orðið „sennilega“ er mikil guðsblessun fyrir Hamletfræðinga. Bæði þá sem leita hins óræða kjarna eða velta vöngum yfir heillandi mótsögnum og lausum endum sem eru hér á hverju strái, og ekki síður hina sem reyna að festa hendur á hinum eina sanna texta. Mörg leikritanna bjóða upp á gátur af því taginu, en fáar eru jafn snúnar og þessi, og svo er auðvitað extra mikið í húfi. Þetta er jú meistaraverkið. Jafnvel meistaraverk heimsbókmennatanna. Pínu vandró að það liggi ekki ljóst fyrir hvaða orð eru í því.

Þegar fyrsta heildarútgáfan (F) leit dagsins ljós árið 1623 voru Hamletgerðirnar orðnar þrjár.

Q1 frá 1603: 16.000 orð
Q2 frá 1604: 30.000 orð
F frá 1623: 27.000 orð

Munurinn á Q2 og F er ekkert ógurlegur, talsverður samt. Q1 er hins vegar allt önnur ella. Stærðarmunurinn er augljóslega gríðarlegur: Q1 er einn allrastysti texti sem við höfum frá Shakespeare, Q2 sá langlengsti.

Samt er F alls ekki klár stytting á Q2. Í þeim báðum eru kaflar sem ekki er að finna í hinu, sem og mismunandi samleiðir með texta Q1. Þar er líka ýmislegt smálegt sem hvergi er annarsstaðar, önnur nöfn á sumum persónanna (Polonius heitir Corambis t.d.).

Thompson og Taylor velta þessu fyrir sér fram og til baka og rekja hinar ýmsu kenningar. Niðurstaða þeirra er að Q1 sé byggð á texta sem einhverjir (líklega leikarar í kompaníinu) hafi skrifað upp eftir minni, og að texti þeirrar sýningar hafi verið byggður á sama texta og F, en þó verið talsvert frábrugðinn þeim sem var þar prentaður. Að Q2 sé sett eftir eiginhandarriti Shakespeares og F sé sett eftir texta sem Shakespeare sjálfur hafi endurskoðað.

Að þeirra mati hafa allir textarnir þannig gildi að það sé ómaksins vert að prenta þá hvern um sig. Og það gera þau. Þessi nýjasta Ardenútgáfa Hamlets er því í tveimur bindum. Í því fyrra er inngangur og rækilega skýrð útgáfa af Q2, ásamt með yfirliti yfir hvernig Q1 og F textarnir eru frábrugðnir henni. Í því síðara eru síðan hinir textarnir tveir. Langflestar nútímaútgáfur eru hinsvegar „modified“ útgáfur af Q2 með texta úr F þar sem hann er metinn „betri“. Þannig er t.d. rómuð útgáfa Harold Jenkins (Arden 2) sem hefur verið minn standard Hamlet hingaðtil.

Ritstjórarnir kalla afstöðu sína „agnostic“. Með því að editera og gefa út allar þrjár útgáfurnar losna þau undan að láta stýrast af ólíkum varðveislutilgátum, en velta þeim hins vegar öllum fyrir sér, vega og meta.

Ég hef ekki vit eða þekkingu til að rökræða við þau Thompson og Taylor, og afstaða þeirra er þannig að það er eiginlega tilgangslaust að vera ósammála þeim. Hitt er annað mál að mér finnst það fá sérkennilega lítið vægi í vangaveltum þeirra, og reyndar allra fræðimannanna sem þau vitna í, að bæði Q2 og F eru augljóslega ekki textar ætlaðir til flutnings á leiksviði í óbreyttri mynd. Það er sérstaklega forvitnilegt hvað varðar F, sem er einhverskonar endurskoðuð gerð, talsvert styttri en þó ekki nægilega mikið styttri til að teljast líkleg til flutnings í óbreyttri mynd við aðstæður Elísabetarleikhússins.

Sú staðreynd þykir mér ýta undir að líta á F sem hinn eina sanna texta, og það sem er umfram í Q2 vera „fitu“ sem Shakespeare ákvað að skera af, ekki af illri nauðsyn heldur af listrænum ásetningi. Hitt er annað mál að við viljum auðvitað eins mikið af Hamlet og frekast er kostur. Nógu helvíti enigmatískur er hann samt.

Hamlet er eins og glimmer: því meira því hátíðlegra.

Ég ákvað að lesa bæði Q2 og Q1. Það sem hér fer á eftir eru stuttar hugleiðingar um hvora gerð. Þá taka við klausur um ýmis mis-viðamikil umhugsunarefni og ráðgátur textans og persónanna og að lokum umsagnir um nokkrar kvikmyndaðar versjónir og annað „afleitt“ efni. Það er ógnvekjandi verkefni að skrifa einhverskonar „heildarúttekt“ á Hamlet, og mun betra fyrir sálarlífið að búta það svona niður.

Q2

Í stórum dráttum er þetta auðvitað „bara“ Hamlet eins og við þekkjum hann af lestri. Langflestar sviðsuppfærslur og kvikmyndagerðir eru styttar, oft all-rækilega. Reyndar eru tveir kvikmyndaðir Hamlettar í fullri lengd auðveldlega aðgengilegir á næsta bókasafni: BBC-myndin frá 1980 með Derek Jacobi og kvikmynd Kenneths Branagh frá 1996. Hvorugur er þó ósnertur Q2-Hamlet, enda væri það mjög skrítin pæling. Eitt er nú að eitt eftirminnilegasta samtal verksins, orðaskipti sem nánast aldrei eru strikuð, væru ekki með því þau eru bara í F:

HAMLET
… what have you, my good friends, deserved at the hands of fortune, that she sends you to prison hither?

GUILDENSTERN
Prison, my lord!

HAMLET
Denmark’s a prison.

ROSENCRANTZ
Then is the world one.

HAMLET
A goodly one; in which there are many confines, wards and dungeons, Denmark being one o’ the worst.

ROSENCRANTZ
We think not so, my lord.

HAMLET
Why, then, ’tis none to you; for there is nothing either good or bad, but thinking makes it so: to me it is a prison.

ROSENCRANTZ
Why then, your ambition makes it one; ’tis too narrow for your mind.

HAMLET
O God, I could be bounded in a nutshell and count myself a king of infinite space, were it not that I have bad dreams.

2.2.239–256 (í Arden-útgáfu Harold Jenkins)

Fleiri smáatriði stinga í augun/eyrun. T.d. að fyrsta eintal Hamlets hefjist á orðunum: „O, that this too, too sallied flesh would melt… (1.2.??) en ekki „solid“ sem við höfum vanist og er augljóslega miklu flottara. Þess má geta að „sallie“ þessi er líka í Q1. Og augun ætluðu út úr hausnum á mér þegar Pólóníus er að fara með sína margívitnuðu heilræðaræðu yfir Laertesi og segir „Neither a borrower nor a lender, boy“.

WTF?!

Sjálfsagt er þetta öfugt líka, allskyns skrítilegheit í F sem stinga í stúf við viðtekinn texta. Og að langmestu leyti er þetta Hamlet eins og við þekkjum hann og elskum. Hamlet eins og hann leggur sig. Hann bara leggur sig stöku sinnum á skrítnum stöðum..

Q1

Eitt er víst: Q1 virkar ekki eins og „uppkast“, eða fyrsta atlaga ungs höfundar að efni sem hann nær seinna tökum á. Enda hafa fræðingar fyrir löngu hafnað þeirri hugmynd. Textinn sjálfur er klúðurslegur, sem yngri Shakespeare er sjaldan eða aldrei. Tilfinningin er einmitt eins og einhver sem þekki efnið vel sé að rifja það upp.

Sumt er samt öðruvísi á hátt sem gæti verið frá Shakespeare komið. T & T benda á að staðsetning „To be or not to be“ er allt önnur hér, heilum þremur atriðum fyrr. Ýmsir leikstjórar hafa kosið að fylgja Q1 hvað þetta varðar, t.d. Tony Richardson í sinni uppfærslu 1969, sem við ræðum aðeins hér neðar. Að ógleymdum Zeffirelli, sem lét Mel Gibson flytja þessa frægu ræðu á Q1-staðnum í sinni mynd.

Á hinn bóginn eigum pínu erfitt með að trúa að einhver misminni hvernig ræðan byrjar. Hér er hún „ To be or not to be – ay, there’s the point“. Eintalið eftir fundinn með leikurunum byrjar reyndar „Why, what a dunghill idiot slave am I!“ hér, en ekki „O, what a rogue and peasant slave am I!“, sem er kannski einmitt dæmigerð upprifjun, þar sem tveim skammaryrðum er skipt út fyrir næstum-samheiti.

Eitt sem er eiginlega betra er Músagildran, leikritið í leikritinu. Snarpara og skýrara. Við höfum enga þolinmæði fyrir langlokum þarna.

Hér er Hamlet klárlega yngri en í Q2 og F. Skýrustu upplýsingarnar um aldur Hamlets eru í samtalinu við grafarann í 5.1, sem hóf störf daginn sem Hamlet fæddist. Hann er þrítugur í „góðu“ textunum, en ca 18 í Q1. Sem manni finnst eiginlega réttara. Þráhyggja prinsins um kynlíf móður sinnar og dogmatísk krafan um algjör heilindi allra í kringum sig fer unglingi betur en rígfullorðnum eilífðarstúdent. Það skapar samt auðvitað hin algengu óþægindi að láta krefjandi rullur kalla á óreynda leikara. Richard Burbage, sem hlutverkið er næstum örugglega skrifað fyrir, var ríflega þrítugur um aldamótin 1600.

Uppruni

Rætur Hamlets eru, sem kunnugt er, í konungasögum danska sagnaritarans Saxó hins málspaka. Ekki er Shakespeare þó talinn hafa söguna beint úr Gesta Danorum heldur séu nokkrir ættliðir þar á milli. En sögur Saxa komust á ólíkt meiri kreik en aðrar merkar fornsögur sem ritaðar voru um svipað leyti. Hugsum okkur að íslensku sagnaritararnir hefðu farið að dæmi hans og skrifað verk sín á alþjóðamálinu. Að Íslendingasögur hefðu „komist í umferð“ meðal menntamanna endurreisnartímans. Væri þá The Tragedy of Hedin í kanónu Shakespeares? Kjartan and Gudrun? Kakali?

Byrjunin

Ég var lengi ekki í þeim fjölmenna hópi sem finnst byrjunin á Hamlet brilljant. Það hefur breyst. Hún er alger snilld. Algerlega raunsæ og blátt áfram, en setningarnar fara engu að síður á skáldlegt flug innra með okkur.

Who’s there?
Stand and unfold yourself!
‘tis bitter cold, and I am sick at heart.
Not a mouse stirring.

Hér er til dæmis alveg frábær fyrirlestur um vanda og vegsemd Shakspeare-leikstjóra með yfirskrift og útgangspunkt í setningu nr. 2.

Og svo kemur draugur. Draugur! What’s not to like?

Horatio

Eitt af því sem ég hef gefið lítinn gaum fram að þessum endurlestri er besti vinur aðal. Horatio er að sönnu ekki sérlega áhugaverð persóna í sjálfum sér, en mótsagnakennd staða hans við hirðina og gagnvart Hamlet sjálfum skapar spennandi óreiðu í huga lesandans og opnar ýmsa möguleika fyrir túlkendur hlutverksins, og verksins í heild.

Í fyrsta atriði hefur Horatio trúnað varðmannanna, ef hann er ekki hreinlega einn þeirra eins og skilja má í Q1. Hann hefur líka innsýn í málefni ríkisins sem verðirnir hafa ekki – þeir biðja hann um að segja sér hvers vegna svo mikill viðbúnaður er hafður, sem er greinilega nýtilkomið, og hann útskýrir stöðu mála varðandi Fortinbras og ásælni hans eftir krúnu Danmerkur.

Í næstu senu, þegar Hamlet og Horatio hittast í fyrsta sinn, er ljóst að þeir þekkjast frá Wittenberg. Hamlet virðist ókunnugt um að Horatio sé á staðnum en sá síðarnefndi virðist hafa verið við Danmerkurhirð í þessa 1–2 mánuði síðan Hamlet sr. var grafinn. Hann virðist líka vera útlendingur – „We’ll teach you to drink deep ere you depart.“.

Þetta kemur illa heim og saman. Annað hvort er Horatio nýkominn, hann hafi „ætlað“ að vera við jarðarförina, en komið allt of seint, eða Hamlet hefur ekki verið mönnum sinnandi, og lokað sig af í herberginu sínu og því ekki vitað að vinur hans var mættur á svæðið.

Annað sem mér datt í hug er að þeir séu EKKI gamlir vinir, heldur bara svona kollkinkandi kunningjar úr skólanum. Vináttan verði einfaldlega til og dýpki í leikritinu, þegar Hamlet kemst að því að Horatio er traustsins verður, ólíkt gömlu skólafélögunum Rosenkranz og Guildenstern.

Það er náttúrulega djúp hefð fyrir því að líta á H & H sem gamla og nána vini, en sé rýnt í textann er ekkert konkret sem styður það nema þessi orð úr ræðu Hamlets á undan leikritinu, þar sem hann biður hann liðsinnis:

Since my dear soul was mistress of her choice
And could of men distinguish, her election
Hath seal’d thee for herself;

3.2.59–61

En það er pínu gaman að gefa sér að Hamlet sé að tala um þroska sinn undanfarna daga. Eða þá ýkja nándina milli þeirra í skólanum, eins og við höfum öll gert.

Dans Hamlets og Kládíusar

„I know not ´seems´“ er eitt það fyrsta sem Hamlet segir í verkinu. „I have that within that passes show“. Þessi seinni staðhæfing er sönn, hin er það svo sannarlega ekki. Hamlet þykist, þess vegna er hann. Og hann er ekki einn um það.

Eitt það sem heillar við Hamlet, bæði á blaði og sviði, er að kortleggja afstöðu konungs og ríkisarfa. Hver veit hvað? Hver veit hvað um hvað hinn veit? Hvað gerist ef þú sýnir á spilin þín? Hvað ef þú gerir eitthvað sem sýnir að þú hefur séð spil andstæðingsins? Og – annað grundvallaratriði – hverjir aðrir eru viðstaddir þetta pókerspil? Hverjir liggja á hleri? Hvað vita þeir, hvað er óhætt að þeir viti, hvaða hætta stafar af þeim?

Móðurharðindin

Hvað veit Gertrude? Er hún meðsek Kládíusi? Er hún Lafði Macbeth? Er samband hennar við Kládíus valda- eða lostadrifið? Eða pólitísk nauðung? Þetta er opið til túlkunar.

Í stóru senunni þeirra sakar Hamlet móður sína um að hafa drepið kónginn sjálf:

A bloody deed! almost as bad, good mother,
As kill a king, and marry with his brother.

3.4.26–27

Svo er mest lítið meira um það. Líka mest lítið um þá staðreynd að þessi „bloody deed“ sem Hamlet ber saman við glæpi móður sinnar er hans eigið dráp á Pólóníusi. Restin af senunni fjallar um það sem kveikir í og kyndir undir óhamingju Hamlets frá upphafi: samband móður hans við Kládíus. Þar hrærist saman tilhugsunin um móðurina sem kynveru, virðingarleysið við föðurinn og þráhyggjan um falskt yfirborð – sem bendir til að hann gruni að sambandið sé eldra en fráfallið.

Þessi þráhyggja – Um að ekkert sé sem sýnist, um hræsni og undirferli, og andlitsfarða – fær svo staðfestingu í uppljóstrunum draugsins um konungsmorðið. En það er viðurstyggðin á framferði mömmunnar sem heldur áfram að vera aflstöðin í ástandinu, það sem vellur upp á yfirborðið þegar Hamlet opnar munninn og hjartað. Það er því ekki að ástæðulausu sem draugurinn tekur sérstaklega fram að verkefni sonarins snúist ekki um syndir drottningar.

Eintöl

Sérstakur ljómi leikur um fjögur af sjö eintölum Hamlets í verkinu. Enda eru þau mögnuð. Hér nær fullum blóma allt sem Shakespeare hafði prófað í Henry IV og V. Ríkarður þriðji var alltaf að reyna að sannfæra okkur um eitthvað, selja okkur sig. Hamlet lætur sér nægja að hugsa upphátt. Í þeim fyrri tveimur (O that this too, too solid flesh would melt og To be or not to be) er hann hreinlega í sjálfsmorðshugleiðingum þó hugleiðingarnar fari víða, konkret í því fyrra, heimspekilegar í því síðara. Hin seinni tvö eru fyrst og fremst sjálfsgagnrýni. Fyrst fyrir að finna tilfinningum sínum ekki sambærilega útrás og leikarinn, þrátt fyrir mun stærri og nærtækari harma (O, what a rogue and peasant slave am I) og síðan þegar glórulaus hetjuskapur Fortinbrasar gerir honum skömm til (How all occasions do inform against me). Ekkert sætir annarri eins sjálfsgagnrýni hjá prinsinum og þessi eilífa sjálfsgagnrýni.

 

Fyrir utan þessi, og önnur rof Hamlets á fjórða veggnum, á Kládíus eitt prívatsamtal við okkur og Pólóníus er óspar á „asides“, stakar setningar ætlaðar okkur einum.

Ljóminn leikur samt fyrst og fremst um 3.1.55–88:

To be, or not to be: that is the question:
Whether ’tis nobler in the mind to suffer
The slings and arrows of outrageous fortune,
Or to take arms against a sea of troubles,
And by opposing end them? To die: to sleep;
No more; and by a sleep to say we end
The heart-ache and the thousand natural shocks
That flesh is heir to, ’tis a consummation
Devoutly to be wish’d. To die, to sleep;
To sleep: perchance to dream: ay, there’s the rub;
For in that sleep of death what dreams may come
When we have shuffled off this mortal coil,
Must give us pause: there’s the respect
That makes calamity of so long life;
For who would bear the whips and scorns of time,
The oppressor’s wrong, the proud man’s contumely,
The pangs of despised love, the law’s delay,
The insolence of office and the spurns
That patient merit of the unworthy takes,
When he himself might his quietus make
With a bare bodkin? who would fardels bear,
To grunt and sweat under a weary life,
But that the dread of something after death,
The undiscover’d country from whose bourn
No traveller returns, puzzles the will
And makes us rather bear those ills we have
Than fly to others that we know not of?
Thus conscience does make cowards of us all;
And thus the native hue of resolution
Is sicklied o’er with the pale cast of thought,
And enterprises of great pith and moment
With this regard their currents turn awry,
And lose the name of action.

Það er kannski ekki svo mikið um þetta meistaraverk að segja. Eða jújú, það eru til ófáir hillumetrar um það. Auðvitað. Merkilegar finnast mér tilraunir túlkenda til að láta eins og þetta sé EKKI um sjálfsmorð. Blasir það ekki við? Hvað heldur aftur af okkur? Óttinn við hið óþekkta. Og einn af mörgum „kristilegum“ stöðum í leikritinu. Hin kaþólska hugmynd um hreinsunareldinn og hin samkirkjulega trú á makleg málagjöld.

Það merkilega er að þessir þankar kvikni í huga Hamlets á þessari stundu. Hann veit jú hvað bíður hinna látnu, hann er nýbúinn að hitta einn slíkan, ferðalang úr „the undiscovered country“. Og hvað er hann að spá í að flýta fyrir sér? Þegar þarna er komið sögu er hann ungur maður með markmið.

Leikhúsið

Svo margt hér lítur að leikhúsinu sjálfu. Hamlet er með heilindi á heilanum, hið innra ómengað af sýndinni, hatursmaður undirferlis og andlitsfarða. En sjálfur er hann líka stöðugt að „performera“. Að láta sem hann sé vitskertur. Eða í það minnsta meira klikk en hann í raun er. Er það ekki annars?

Og svo eru það ummæli hans um, og ráðleggingar til, farandleikhópsins. Það er mjög oft farið með þær eins og e-k manifestó Shakespeares sjálfs um list leikarans. Það í sjálfu sér alveg óhætt, því þetta eru nú mest „selvfølgeligheder“.

Speak the speech, I pray you, as I pronounced it to you, trippingly on the tongue: but if you mouth it, as many of your players do, I had as lief the town-crier spoke my lines. Nor do not saw the air too much with your hand, thus, but use all gently;

[…]

Be not too tame neither, but let your own discretion be your tutor: suit the action to the word, the

word to the action; with this special o’erstep not the modesty of nature: 

[…] 

O, there be players that I have seen play, and heard others praise, and that highly, not to speak it profanely, that, neither having the accent of Christians nor the gait of Christian, pagan, nor man, have so strutted and bellowed that I have thought some of nature’s journeymen had made men and not made them well, they imitated humanity so abominably.

[…]

And let those that play your clowns speak no more than is set down for them…

3.2.1–37

Getum við ekki öll verið sammála um þetta? Hitt virðist alltaf gleymast að Hamlet er jafnvel enn betri blokkflautukennari en leiklistargagnrýnandi:

‘Tis as easy as lying: govern these ventages with your fingers and thumb, give it breath with your mouth, and it will discourse most eloquent music. Look you, these are the stops.

3.2.349–352

Ófelía

Hvert var samband Ófelíu og Hamlets? Við fáum ansi hreint misvísandi skilaboð um það. Hún sjálf líka, ef út í það er farið. Laertes og Pólóníus telja henni (eða meydómi hennar) stafa hætta af prinsinum, og alveg ljóst að hjúskapur þeirra í millum kemur ekki til greina. Sem er trúlegt miðað við giftingastrategíu kóngafólks fyrrum. Ætli við verðum ekki að skoða orð drottningar við gröf hennar frekar sem týpísk minningargreinaróheilindi (og effektíva línu í leikriti) en raunhæfa ósk:

I hoped thou shouldst have been my Hamlet’s wife;
I thought thy bride-bed to have deck’d, sweet maid,
And not have strew’d thy grave.

5.1.232–234

Það sló mig í þessum lestri að eftir hina dramatísku senu 3.1, þar sem Hamlet veitist að henni, ræðst á hana og formælir á alla kanta, er merkilega gott á milli þeirra og létt yfir Ófelíu í „Músagildrusenunni“. Eða það er allavega alveg hægt að leika hana þannig. Eða láta Ófelíu vera skíthrædda og léttleikan falskan. Það er meira og minna allt hægt, og flest verið prófað.

Pólóníus

„…in my youth, I suffered much extremity for love“.

2.2.206

Er það virkilega, Pólóníus minn? Þetta er nú með fyndnari setningum í þessu lúmskt kómíska leikriti. Hversu mikill kjáni er ráðherrann? Það er svolítið misjafnt eftir atriðum, og krefst talsverðar jafnvægiskúnstar af leikurum að láta þetta ganga upp allt saman. Þetta er n.b. ekki beinlínis galli, enda erum við öll margt fólk. „Hitler loved dogs“ eins og Spenser einkaspæjari sagði gjarnan þegar þurfti að útskýra þennan sammannlega sannleika fyrir fólki.

Pólóníus er ástríkur faðir sem heldur uppi ströngum aga. En hann er líka tilbúinn til að láta njósna (og bera út hneykslissögur) um son sinn og nota dóttur sína sem tálbeitu í þágu öryggis ríkisins.

En af hverju er hann svona glórulaus (og fyndinn) í samtalinu við kóng og drottningu þegar hann kynnir fyrir þeim uppgötvun sína um ástir Hamlets og Ófelíu:

POLONIUS
My liege, and madam, to expostulate
What majesty should be, what duty is,
Why day is day, night night, and time is time,
Were nothing but to waste night, day and time.
Therefore, since brevity is the soul of wit,
And tediousness the limbs and outward flourishes,
I will be brief: your noble son is mad:
Mad call I it; for, to define true madness,
What is’t but to be nothing else but mad?
But let that go.

QUEEN
More matter, with less art.

POLONIUS
Madam, I swear I use no art at all.
That he is mad, ’tis true: ’tis true ’tis pity;
And pity ’tis ’tis true: a foolish figure;
But farewell it, for I will use no art.
Mad let us grant him, then: and now remains
That we find out the cause of this effect,
Or rather say, the cause of this defect,
For this effect defective comes by cause:
Thus it remains, and the remainder thus. Perpend.
I have a daughter–have while she is mine–
Who, in her duty and obedience, mark,
Hath given me this: now gather, and surmise.

2.2.86–107

Þessi sena er yfirleitt látin stýra þvi hvernig Pólóníus er túlkaður. Samt er það eiginlega bara þarna sem hann lætur svona. Hvað er að? Er hann ekki bara stressaður? Og hvað segir það okkur um stemminguna við hirðina, karakter kóngsins og status Pólóníusar. Ég minnist þess ekki að hafa séð unnið með þetta af einhverju viti. Ef ég væri að vinna með Hamlet myndi ég biðja minn Pólóníus að ákveða fyrst af öllu hvaða stöðu hann hafði við hirðina hjá fyrri kóngi, og hvernig samband hans og Hamlets eldri hafi verið. Og ekki endilega segja neinum frá niðurstöðum sínum.

Heilræðin sem Pólóníus sendir Laertes að heiman með eru stundum sögð til marks um hræsni og yfirborðssiðferði. Ég hallast að þvi að þau séu bæði einlæg og bara frekar skynsamleg. Meira að segja það Pólóníusarlegasta þeirra er í fullu gildi en verður auðvitað dálítið krípí úr munni læðupokans og erkihlerarans:

Give every man your ear, but few your voice.

1.3.67

Hann ætti að vita það.

Tíu Hamlettar

Í umfangsmiklu Shakespearemyndasafni mínu eru fjórtán útgáfur af Hamlet. Bæði bíómyndir og kvikmyndaðar sviðsuppfærslur. Yfir fimmtíu myndir eru til, fyrir utan allt ógrynnið af myndum með vísanír í og/eða vinnu með verkið sem útgangspunkt. Ég ákvað að horfa á einhvern slatta.

Doran/Tennant

Ég hef tvisvar séð David Tennant á sviði (The Herbal Bed í Stratford 1996 og The Pillowman í London 2003) og þykir fyrir vikið pínu gaman hvað hann er mikil stjarna orðinn. Báðar þessar sýningar, og þá ekki síður leikritin, voru stórfínar en mér finnst Tennant sjálfur samt ekkert æðislegur leikari. Flinkur og fær, en ég veit ekki um kjarnann. Engu að síður er kvikmynduð uppfærsla Gregory Dorans og RSC frá 2009 fjári flott, og Tennant yfirstígur efasemdir mínar, eða ýtir þeim allavega til hliðar um stund. Útötuð í snjöllum smáatriðum eins og sýningar Dorans eru alltaf. Hvernig Kládíus langar ekkert að ræða fýluna við Hamlet í 1.2., er næstum byrjaður á því þegar hann gugnar og fer frekar að tala við Laertes um hans framtíð. Í sömu senu, að Kládíus veit ekki hvar Hamlet er í skóla og þarf „hvísl“ frá mömmu hans. Að kóngur spyrji Pólóníus en ekki Hamlet í miðri Músagildru: „Have you heard the argument? Is there no offence in’t?“. Og að drottningin VEIT að vínið sem hún drekkur í lokin er eitrað.

Ég er aðeins efins um (of)notkun eftirlitsmyndavélanna, sem við horfum í gegnum alltaf öðru hvoru. Jújú, þetta er vissulega leikrit um líf undir ósýnilegu augnaráði valdakalla, en það gengur ekki lógískt upp að „valdið“ verði vitni að ÖLLU sem sagt er og gert á sviðinu. Þá væri Hamlet dauður fyrir lok fyrsta þáttar. Góð en pínu afvegaleiðandi hugmynd. Og má RSC strika Fortinbras-endinn? Hélt menn væru hættir því í svona virðulegum húsum.

H/G hlutfall: +17

ATH: Hlutverk Hamlets er á veiðilendum stórleikara og menn leika það fram eftir öllum aldri. Stundum talsvert fram yfir síðasta raunsæjan söludag. Einn mælikvarðinn sem bregða má á þetta er það sem ég kýs að kalla H/G hlutfall, sem er aldursmunur leikarans sem leikur prinsinn og leikkonunnar sem leikur móður hans.

Richardson/Williamson

Samkvæmt minningargrein var Nicol Williamson álitinn besti Hamlet síðan John Gielgud stóð í blóma, þegar hann fór höndum um hauskúpuna í The Roundhouse í uppfærslu Tony Richardson 1969. Kvikmyndaaðlögun sýningarinnar var filmuð seinna sama ár og Wiliamson er fjári flottur, þó hann sé svolítið að flýta sér í fyrsta hlutanum. Myndin líður líka fyrir að vera filmuð við harðan fjárhagskost, öll í nærmyndum svo ekki þurfi að splæsa í leikmynd (klippan hér að ofan er úr sviðsuppfærslunni). Líkt og í uppfærslu Kjartans eru kóngur og drottning mjög dekadent. Anthony Hopkins er glæsilegur Kládíus og velski hreimurinn gersamlega óhaminn. Sem reyndar er ekki alveg víðsfjarri dönsku hljóðfalli. Svona nettur Lars Ulrich í Kládíusi hér. Marianne Faithful er ekki leikkona, en klikksöngvar Ófelíu eru æði. Svo er gaman fyrir okkur sem munum eftir Upstairs, Downstairs að sjá Gordon Jackson skapa fínan Horatio.

H/G hlutfall: +1

Almereyda/Hawke

Danmörk er ekki bara dýflissa í mynd Michael Almereyda frá 2000 með Ethan Hawke í titilhlutverkinu, heldur stórfyrirtæki með höfuðstöðvar í Stóra Eplinu. Textinn er Shakespeares og sumir leikaranna eru í stökustu vandræðum með hann. Verstir eru Karl Geary (Horatio) og Sam heitinn Shepard (draugurinn), sem kemur leiðinlega á óvart. Bill Murray fær gula spjaldið. Sem betur fer er Hawke meððetta, sem og Julia Stiles (Ophelia) og Kyle MacLachlan (Claudius). Margt er líka bráðsnjallt í handritsgerðinni, mjög oft sem finnast glæsilegar leiðir til að bíógera formið. Snilld t.d. að láta seinni hluta stóru senu Hamlets og Ófelíu fara fram í gegnum talhólf. Og láta hinn bíósjúka Hamlet fara með ræðuna um leikarana yfir glefsum af Brando og Dean. Lokasenan er hinsvegar alveg glórulaus, því miður.

H/G hlutfall: 18

Kozintsev/Smoktunovsky

Gamlet (Rússar eiga ekki „H“) frá 1964 er fjári flott. Svo mikið bíó. Geggjaðar sviðsetningar og stemmingin stórkostlega rússnesk, t.d. á heimili Pólóníusar þar sem Ófelía æfir dans. Margt fleira fangar augað og skapar andrúmsloftið: Hestarnir sem stara trylltir út í loftir rétt áður en draugurinn birtist. Og mómentið þegar leikararnir sýna eitursenuna. Kóngur rís á fætur, öll hirðin á eftir. Og svo klappar hann. Svo hleypur hann út. Aldrei séð þetta gert svona. Magnað. Og hvernig Hamlet finnur mynd af kóngi í hálsnisti hins dauða Pólóníusar til að bera saman við föður sinn í eigin nisti og predika kynferðislegt hóglífi yfir móður sinni.

Hér er líka besta geðveiksiferli Ófelíu sem ég hef séð. Allt frá því gömlu konurnar skríða hana sorgarklæðum vegna jarðarfarar föðurins þar til hún tínir sprek úr eldstæðinu og gefur varðmönnum konungs og ribböldum Laertesar sem blóm. Smoktunovsky er glæsilegur. Og svo er Sjostakóvitsj. Allt gott.

H/G hlufall: +8

Saville/Plummer

Hamlet at Elsinore heitir þessi mynd frá 1964, eftir sínum helsta sölupunkti; að vera tekin upp á heimavelli Hamlets, sjálfum Krónborgarkastala. Helsti sölupunkturinn ætti reyndar að vera Christopher Plummer, sem er alveg frábær og á köflum hreinlega besti Hamlet sem ég hef séð. Til dæmis í blábyrjun þar sem hann þegir undir stefnuræðu kóngs, og hvernig hann gerir (misheppnaða) tilraun til að tjá tilfinningar sínar leikrænt í lokin á „Oh, What a Rogue…“. Og hvað hann heldur vel utan um þá túlkun að Hamlet sé 100% að gera sér upp geðveikina.

Myndin er þrír tímar þó slatti sé skorinn niður af textanum. Þar kemur til tendens leikhópsins (og þar með leikstjórans) til að „leika“ alla meiningu í botn. Pólóníus, Kládíus og Ófelía eiga móment af alveg hroðalegum leik, sem leikstjórinn verður að fá skömm í hattinn fyrir að hleypa í dósirnar. Sturlunarsenur Ófelíu eru nánast óáhorfanlegar Óvæntir og sjáldséðir í Shakespeareverkum eru svo Michael Caine (Horatio) og Donald Sutherland (Fortinbras) og verður hvorugur sér til skammar.

H/G hlutfall: +3

Brook/Lester

Árið 2000 gerði Peter Brook sjónvarpsmynd upp úr Hamletuppfærslu sinni í Bouffes du Nord, vígi sínu í norðurhluta Parísar. Þetta er búið að vera minn uppáhaldshamlet síðan ég sá hann og það staðfestist við þessa upprifjun. Þar munar mest um Adrian Lester sem er stórfenglegur í titilhlutverkinu, en reyndar er leikhópurinn allur skotheldur og Natasha Parry langbesta Geirþrúður sem ég hef séð. Uppfærslan ber öll einkenni síðari hluta ferils leikhúsjógans mikla. Verkið er skorið inn að beini. Engir varðmenn í upphafi, enginn Yorick, engin afskipti af leikhópnum, enginn Laertes fyrr en hann snýr heim í hefndarhug, enginn Fortinbras. Einfaldleikinn ríkir í sviðsetningunni, fágun í útliti og hreyfingum. Allt er skýrt og gegnsætt.

Mig langar að nefna tvær styttingar sem hafa mikilvægar dramatúrgískar afleiðingar:

Í fyrsta lagi strikar Brook beiðni Hamlets til leikarans um að sýna „moddað“ Morðið á Gonzago fyrir hirðina. Það opnar fyrir þann möguleika að hugmyndin að því plotti kvikni ekki fyrr en í lokin á „Oh, what a rogue …“.  Þegar hann segir:

About, my brains!—Hum, I have heard
That guilty creatures sitting at a play
Have, by the very cunning of the scene,
Been struck so to the soul that presently
They have proclaimed their malefactions;
For murder, though it have no tongue, will speak
With most miraculous organ. I’ll have these players
Play something like the murder of my father
Before mine uncle.

2.2.617–625

Miklu dýnamískara svona. Hin er að strika orð Laertesar sem falla um leið og Ófelía birtist honum vitskert. Hann fær því tíma til að átta sig á ástandi hennar, og hún þarf ekki að vera jafn-augljóslega klikk.

Geggjuð mynd.

H/G hlutfall: +38

Godwin/Essiedu

Nýjasti Hamlet Royal Shakespeare Company er Paapa Essiedu og sýningin rataði strax á disk. Afrískur heimur með drynjandi trommuslætti og svörtum leikurum í flestum hlutverkum (sniðugt að hafa Roz og Guild hvíta samt). Þetta er orkuþrungin sýning sem fer stundum framúr sér í tilfinningahita – og gríni – sem drekkir pólitík og heimspeki. En eiginlega líka tilfinningalegri nánd okkar við prinsinn, þó Paapa sé í sjálfu sér ágætur í samhengi konseptsins. Nálgunin leiðir stundum fram áhugaverða hluti. Eins og ofsafengin viðbrögð Pólóníusar eftir að þeir Claudius hafa hlustað á Hamlet veitast að Ófelíu. Þau undirstrika heita ást hans til dóttur sinnar, nokkuð sem sjaldan er unnið með. Svo hef ég aldrei séð jafn kalda og grimma Geirþrúði og hjá Tönyu Moodie. Sniðugt framan af, en svo er hún bara afleit og þau Hamlet vekja hlátur í svefnherbergissenunni, sem drepur dramað. Heilt yfir frekar óeftirminnilegt.

H/G hlutfall: +18

Kline/Kline

Sjónvarpsmynd Kevins Kline frá 1990 er svolítið eins og hann hafi bara fengið hálft memóið frá Tomma Tomm. Snyrtimennskan er í algjöru fyrirrúmi, ekkert væld. Sem er synd. Það verður að vera væld. Merkilegt hvað þessi steríla, mínímalíska og dálítið andlausa mynd er þó áhugaverð. Aðallega samt Kevin sjálfur, sem er alveg prýðisprins, og eiginlega bara meira gaman þegar maður heyrir enduróm af hálfvitanum úr A Fish Called Wanda, sem gerist stundum. Diane Venora er líka þrusuflott Ófelía, setur fullan amerískan raunsæisþunga í geggjunina og það snarvirkar. Hún er síðan Gertrude í Ethan Hawke myndinni.

Áhugavert smáatriði: Í þessari mynd ákveður Laertes um mitt einvígið að drepa Hamlet ekki. Lætur þó verða af því þegar prinsinn gerir sig líklegan til að drekka af eiturbikarnum – vill greinilega vera banamaður hans úr því hann er bráðfeigur hvort eð er. Vissulega mjög í anda óþarfrar „snyrtimennsku“ en gleður fyrir það hvað þetta er óvenjulegt og vel útfært.

H/G hlutfall: +6

Kurosawa/Mifune

The bad sleep well, spillingardrama Kurosawas frá 1960 er sagt vera byggt á Hamlet, en það er nánast engin leið að tengja það verkinu, fyrir utan að sonur reynir þar að hefna föður síns. Lengra nær það nú ekki. Fínn tryllir framan af, ef japanskur leikstíll ofbýður manni ekki í svona raunsæissamhengi. Svakalega flottar senur hér og þar, en talsvert bjánaleg undir lokin.

H/G hlutfall: ∞ (engin Gertrude)

Olivier/Olivier

Ég hafði þegar á heildina er litið meira gaman af mynd Oliviers frá 1948 en ég átti von á. Textinn er gróflega niðurskorinn og ekki alltaf skynsamlega, og túlkun prinsins ekkert rosalega áhugaverð þó auðvitað sé þetta mikið til óaðfinnanlega framkvæmt hjá Laurence. Verst er hvað er gengið langt í að gera þetta að bíói. Ég ÞOLI ekki þegar eintölum er breytt í voiceover! Eins þótti mér meira kjánalegt en áhrifaríkt að sjá dauða konungs í endurliti og bara bjánalegt að sjá Olivier túlka framferði Hamlets sem Ophelia lýsir fyrir föður sínum, meðan hún segir frá því. Sviðsmyndin, þessi Escheríski ævintýrakastali, stelur iðulega senunni.

H/G hlutfall: -11 (!)

Kaurismäki/Petelius

„Ham! Let me…“ Eru fyrstu orð erfðaprinsins í Hamlet liikemaailmassa (Hamlet goes Business) eftir Kaurismäki. Eða allavega þýðing á þeim, við verðum að vona að finnskan sé jafnt-traustur aulabrandari. Nokkuð skemmileg skopstæling, dásamlega nöturleg og deadpan. Og þessi íðilsvala dauðasena.

H/G hlutfall: +17

Gielgud/Burton

Vá hvað þessi er skrítin! Tekin upp á á frumstæðasta hátt á sýningu á Broadway 1964. Sett upp eins og æfing, óstudd af leikmynd eða búningum, væntanlega til að láta textann tala sínu máli, sem virkar einfaldlega truflandi. Svo hjálpar ekki hvað Richard Burton er óþolandi sérviskulegur í flutningi sínum. Glórulausar styrkleikabreytingar og áherslur. Áhorfendur fá plús fyrir að finnast ALLT fyndið sem á að vera fyndið og EKKERT annað. Óskiljanleg túlkun. Forðist.

H/G hlutfall: +7

Leveaux/Radcliffe/McGuire

Í frábærri palladómabók sinni um (aðallega) ensk leikskáld kallar Dominic Dromgoole Rosenkrantz and Guildenstern are dead „ótótlegt bíslag utan í hinni tignarlegu glæsihöll Waiting for Godot“. Sem er fyndið og satt, fyrir utan þetta með „ótótlegt“ og utan á hvaða höll bíslagið er. R&G er algerlega brilljant á eigin forsendum. Gersamlega að springa af orðsnilld og konseptfimi hins unga Stoppards, og samt með kjarna: dauðageigur, tilgangsleit og -leysi, leikeðlisfræði. Old Vic uppfærsla Davids Levaux, sem endurómar í netheimum eftir að hafa verið send út á vegum NT Live, er frábær, Daniel Radcliffe og Joshua McGuire geggjað dúó og David Haig fer langt með að stela sýningunni í hlutverki aðalleikarans, en Haig þekkir fólk kannski best sem brúðgumann í þessu dásamlega atriði.

Let Me Tell You

I know there are some that think his father’s death made a difference to him, that he was alright before that. But believe me, he was not.

Oulipískar bókmenntir eru þær kallaðar sem leita listrænna fjörefna í sjálfskipuðum hindrunum af ýmsu tagi. Oulipo-hreyfingin er frönsk að uppruna og George Perec mögulega frægastur Oulipista, einkum fyrir skáldsöguna La Disparition, þar sem engin orð með bókstafnum „e“ koma fyrir.

Let Me Tell You eftir velska tónlistarfræðinginn og rithöfundinn Paul Griffiths er Oulipísk skáldsaga um Ófelíu. Orðaforði hennar er bundinn við orðaforða aðalpersónunnar, einungis orð sem koma fyrir í texta hinnar ógæfusömu ráðgjafadóttur standa Griffiths til boða til að segja sögu hennar, sem sjálf er í hans meðförum mikið til óbundin af atburðum leikritsins. „Some of it is cleverer than it is revealing, and the book would be no less amazing were it half the length“ segir gagnrýnandi The Telegraph, og hefur ekki rangt fyrir sér. Ekki auðlesin bók, en á köflum ansi hreint brilljant:

 Each morning what my brother and I have to say to each other, him and then me, is what’s come to us in the night. A king with a withered arm. Another king with one good daughter and two that are not. The tables turned on an ungartered steward.

Það er náttúrulega extra gaman fyrir okkur Shakespearelúðana þegar orð sem við könnumst við birtast í nýju samhengi. „Ungartered“ er úr lýsingu Ófelíu á Hamlet brjáluðum. Og takið eftir orðalaginu „what’s come to us in the night“. Orðið „dream“ er ekki Ófelíuorð, og þá þarf að hugsa upp á nýtt. Til þess er leikurinn gerður.

Sumt er síðan bara frístandandi snilld. Til dæmis þessi blautlega sonnetta, sem dularfull ástkona Laertesar sendir honum:

What’s mine is yours, and what is yours is mine,
But should I give you what was mine before?
The sweet rememberance of a libertine
Becomes, if one would tell it, quite a bore.
Let me not say, then, how some soldier’s hand
Would find each night a touching way to please,
How this could make it last all morning, and
That rediliver keen upon his knees.
One, I remember, comes to me in bed
And comes again twiche more before he goes.
There was a scholar: how I held his head!
And how he sucked the perfume from my rose!
You now, and then I’ll take another he,
For difference means more than length to me.

Að lokum

Í leikskrá Hamletsýningarinnar í Iðnó 1987 var ritgerð Elísabetar Jökulsdóttur, en hún hafði fengið að fylgjast með æfingum. Sennilega það fyrsta sem ég las eftir Elísabetu. Leikskráin er löngu týnd eða hent, en þessi orð skáldkonunnar hafa ekki haggast úr minninu (nema að svo miklu leyti sem einstök orð hafa skolast til):

Shakespeare er að segja okkur svo marga hluti í Hamlet … hvað gerist þegar við brotnum og erum ekki í okkur sjálfum.

Satt.

Textinn

Texti Q1

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnveginn í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnveginn hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.