Tveir hlægilegir tindar, umskipti og lágur látlaus skellur

Klukkutíma fyrir sýningu er skrúðklætt fólk þegar farið að flykkjast inn um dyrnar og fá afhenta miða. Dökkbláir frakkar, jakkar og dökklitir kjólar í bland við fínan skófatnað. Ég sit afsíðis, glugga í bók um japanska ömurð og fylgist með.

„Erum við nokkuð fyrst?“ spyr vantrúuð miðaldra kona, sem ég ímynda mér að sé móðir einhvers sem stendur að sýningunni. Ég hef ekki fyrir því að líta upp úr bókinni og sjá hvernig hún er klædd heldur læt mér nægja að taka eftir svörtum háhæluðum skóm þegar ég fletti.

Sýningin er Lovestar, færð á svið eftir bók Andra Snæs af nemendum Menntaskólans á Akureyri. Sem fyrrverandi MA-ingur er það viss nostalgía að vera staddur á leiksýningu á vegum skólans. Sjá þar gamla kennara og skynja sama andann og maður skildi treglega við sig við útskrift.

Eftir að hafa heilsað Andra Snæ stuttlega í miðasöluröðinni kom ég mér fyrir í sæti mínu. Það kom því skemmtilega á óvart að sjá höfund bókarinnar koma trítlandi með fjölskylduna niður sætaröðina og hlamma sér niður við hliðina á mér. Öll reynslan af því að gagnrýna verkið, frá því, varð súrrealísk og spennuþrungin.

Sýningin hefst með skell, lágum og látlausum en afar vel til fundnum. Með því er áhorfendum gert ljóst, strax í upphafi, að hér verði ekki þurr endursögn á orðum bókarinnar; sýningin ætli sér að standa á eigin fótum þó undir þeim sé motta gerð úr blaðsíðum bókarinnar. Fleiri hrókeringar eiga sér stað, ég tek eftir því í leikskrá verksins að vissum persónum hefur verið umbreytt. Karlmenn eru nú kvenmenn og eiga breytingarnar ekki bara við um aukapersónur. Í sömu mund og Andri spyr mig hvort það sé nokkuð óþægilegt að hafa hann við hlið mér stelur hann leikskránni minni. Í framhaldi segir hann kumpánlega að hann sjái að þeir hafi breytt ýmsu og hann sé spenntur að sjá hvernig útkoman verði.

Sú staðreynd að sýningin væri söngleikur kom skemmtilega á óvart. Setning sem mig grunaði aldrei að ég myndi láta út úr mér. Oftast eru söngleikir eins og sáttagerð tveggja ósamstæðra afla; ef leikurinn líður ekki svo söngurinn blómstri er því öfugt farið. Í þetta sinn er það ekki svo. Söngurinn er vissulega ekki á pari við leikinn, það væri þó fráleitt að ætlast til þess að fólk sem skilar jafn vel af sér leiklistarlega og raun ber vitni í þessari sýningu fari að skila alveg sama krafti í söng. Annað verður einfaldlega að vera betra og leikurinn hefur þann slag tvímælalaust. Þegar sönghluti sýningarinnar er ræddur verður að nefna að allir textar eru frumsamdir, á að giska, og sýningin inniheldur hljómsveit sem stendur sig með eindæmum vel. Það kemur kannski á óvart eftir það sem á undan er sagt að eitt áhrifamesta atriði sýningarinnar að mati undirritaðs sé söngatriði mjög snemma í sýningunni. Kraftur þess er hinsvegar slíkur að þó restin af söngatriðum sýningarinnar væru spangólandi hundar með geimhljóðaundirspili væri sönghluti sýningarinnar enn réttlættur. Með þessu eina atriði er áhorfendum sýnt, svo allur efi sé útrekinn, hvaða tilfinningar aðalpersónurnar bera hvert til annars og þá ekki síst réttmæti þeirra tilfinninga.

Sagan er þeirra, Indriða og Sigríðar. Þó Lovestar sé vissulega nafnberi sýningarinnar er samband og atburðarás þeirra Indriða og Sigríðar það sem veitir sýningunni afl sitt. Þar sem bókin, með hugmynda- og hugsjónablæti Andra Snæs sem aðaldrifkraft, fylgir Lovestar eftir og kynnir inLove, LoveDeath og margar fleiri pælingar af mikilli nákvæmni og natni er sýningin uppteknari af mannlegum þáttum þessara sömu hluta. Hún er öll krúttlegri og kómískari en bókin, leyfir rökhyggju hins ritaða orðs að liggja milli hluta og einbeitir sér að empirískri nálgun þessara sömu pælinga — eins og vænta mátti af leiksýningu.

Um leið og sýningin verður kómískari eru þeir hlutir sem hægt er að gera góð skil sjónrænt og passa betur á sviði settir í forgrunn. Dauðinn situr á hakanum, allt sem vó upp á móti húmornum í bókinni er daufara og sterílla á sviðinu. Það kemur hinsvegar ekki að sök.

Sýningunni tekst það undursamlega verk að vera gífurlega post-modern í allri nálgun sinni en halda í módernískan boðskap. Þetta er að sumu leyti hið sama og segja mætti um frumverkið en þó eru andstæðurnar skýrari og því ánægjan fyrir hönd þeirra sem standa að sýningunni meiri en ella.

Sviðsmyndin er mínímalísk, mig er farið að gruna að slíkt sé orðið viðtekin venja í leikhúsbransanum þó ég fái það ekki af mér að samþykkja þann grun alveg strax. Leikararnir nýta rýmið vel, þá er það ekki bara sviðið sem nýtist sýningunni vel heldur geng ég svo langt að segja að húsnæðið allt sé nýtt.

Í hléi tjáir Andri mér að hann sé mjög sáttur með sýninguna. Hann ræðir Lovedeath og það að hann hafi reiknað hve marga búka þyrfti til að framkvæma vissa hluta bókarinnar sem og sýningarinnar. Hann gerist mjög klínískur í frásögn sinni, minnir á vísindamann að lýsa kenningu sem hann hefur sett fram. Hann útskýrir fyrir mér útreikninga sína og þær niðurstöður sem hann komst að, áhuginn sést tindra í augum hans og ég þykist sjá líkindi milli höfundar og Lovestar á þessu augnabliki. Það líður þó hjá og hann snýr sér aftur að fjölskyldu sinni. Salurinn tæmist og ég velti fyrir mér sess menntaskólaleiksýninga í leikhússenu landsins. Samanborið við atvinnuleikhús er fjármagnið dropi við hlið brimfullrar vatnskönnu. Sýningar á Lovestar eru fjórar talsins og hún er í sýningu í tæpar tvær vikur. Samanborið við atvinnuleiksýningu sem hefur að telja sjö sýningar og rúmar þrjár vikur, sem fyrrnefndar sjö sýningar dreifast á, ímynda margir sér eflaust að menntaskólasýningar standist atvinnuleikhúsunum ekki snúning; þær séu stökkpallur 17 ára unglinga sem vilji reyna fyrir sér sem leikarar, búningahönnuðir eða nokkuð annað tengt leiksýningum. Raunin er sú að Lovestar stenst atvinnuleikhúsunum alfarið snúning og gott betur.

Ásamt hljómsveitinni eiga ljósamenn, hljóðmenn og allir leikararnir gott kvöld. Vitaskuld leiðir það til þess að allir í salnum eiga gott kvöld að undanskilinni stúlkunni sem situr fyrir framan mig og snappar einhverja vinkonu sína — sprenghlægileg staðreynd þegar ég hugsa til byrjunaratriðisins og hve vel þessar aðstæður ríma við ádeiluna í því.

Vert er að nefna nokkrar persónur sem eiga svokallaðan leiksigur: Indriði, því einlægnin og samkenndin sem myndast með raunum persónunnar fyrir tilstilli leikarans eru með eindæmum. Sigríður, sem þarft mótvægi í tilfinningaþrungnum senum milli Indriða og Sigríðar — það sem gerir sýninguna að því sem hún er — sérstaklega þegar líður á sýninguna og hlutskipti persónanna breytast svo að áhorfendur fylgjast með raunum hennar og falla valdalausir í sömu samkennd og með Indriða áður. Ragna, einn tveggja kómískra póla sýningarinnar. Hláturrokurnar voru samfelldar frá því Ragna sagði sína fyrstu setningu í senu þar til senunni lauk. Það var um stund sem leikkonan á sviðinu væri andsetin af engum öðrum en Kramer úr Seinfeld. Leikurinn var á tímum svo farsakenndur að óvíst var hvort um satíríska eftirhermu væri að ræða. Það gengur þó upp og af viðtökum að dæma er persónan, ásamt hinum öllu lágstemmdari Per Møller, líklega í miklu uppáhaldi.

Í síðari hluta sýningarinnar mætir persónan Per Møller með pompi og prakt, líklega ein fyndnasta persóna sýningarinnar. Húmorískt hengiflug sýningarinnar fær sterkan meðbyr og nær algjörlega nýjum hæðum. Í framhaldi á sér stað einhver best heppnaða umbreyting í leiksýningu, kvikmynd eða nokkrum öðrum miðli sem ég hef orðið vitni að. Sýningin er augljóslega farin að nálgast einhverskonar uppgjör og atriðið — sem allir sem hafa séð sýninguna vita hvert er — kallar fram nákvæmlega þau viðbrögð sem mig grunar að leikstjórinn hafi viljað sjá. Með því eru komnir tveir toppar í sýninguna, einn söngrænn snemma sem fær áhorfendur til að kokgleypa spúninn og annar leikrænn í lokin sem sker þá á háls. Þessir tveir toppar ríma síðan hver við annan og með því er sigurinn unninn.

Einhversstaðar heyrði ég sagt að þetta væri ein metnaðarfyllsta sýning sem LMA — Leikfélag Menntaskólans á Akureyri — hefur sett upp á áttatíu og tveggja ára sýningarferli. Því get ég vel trúað. Hún skipar MA, sem og öðrum menntaskólum á landinu, sess sem leiklistarafl sem taka skal alvarlega. Til hamingju menntskælingar með einstaklega vel heppnaða sýningu, þið fáið þakkir mínar fyrir tárin sem ég felldi heima þegar ég heyrði Mr. Blue Sky daginn eftir sýninguna.