Marina syngur fyrir Períkles. Málverk eftir Thomas Stothard (1755–1834)

Og svo …

Atburðarás
Pericles Týrosprins fer í bónorðsför til Anthiochu. Þar þarf hann að leysa gátu konungs til að fá dóttur hans, en lausnin reynist vera blóðskammarsamband Antiochusar við prinsessuna. Pericles óttast um líf sitt og flýr heim, en stígur strax aftur á skipsfjöl enda von á hefndarleiðangri Antiochusar á hverri stundu. Hann bjargar íbúum Tarsus frá hungursneyð en skip hans ferst síðan í óveðri og honum skolar á land í Pentepolis. Þar tekur hann vanbúinn þátt í burteiðum um hönd Thaisu prinsessu og vinnur hönd hennar og hjarta. Níu mánuðum síðar er fjölskyldan á heimleið og hreppir fárviðri þegar Thaisa verður léttari. Hún deyr af barnsförum og er varpað fyrir borð til að sefa storminn. Kistuna rekur á land í Efesus, þar sem hún er vakin upp og gerist hofgyðja Díönu. Pericles kemur hinni nýfæddu Marinu í fóstur í Tarsus, þar sem hún elst upp sem stallsystir konungsdótturinnar. Þegar þær vaxa úr grasi tekur Marina henni svo fram í öllum listum og yndisþokka að drottningin fær mann til að ráða henni bana. Áður en hann kemur því í verk er Marinu rænt af sjóræningjum sem selja hana í hóruhús í Mytilenu. Þar snýr hún öllum viðskiptavinum af villu vega með persónutöfrum sínum, þar á meðal Lysimachusi borgarráðsmanni, og fær loks að hverfa til annarra starfa. Pericles vitjar dóttur sinnar í Efesus og er sýnd gröf hennar. Hann fyllist algeru óyndi og skip hans siglir með hann um Miðjarðarhafið, en hann mælir ekki orð og skerðir hvorki hár né skegg í sorg sinni. Þegar þeir taka land í Mytilenu fær Lysimachus Marinu til að reyna að sefa angist Periclesar. Þau deila sögum og komast að skyldleika sínum. Díana birtist Periclesi og skipar honum að fara í hof sitt í Efesus og færa sér þar fórn. Þar finna þau Thaisu, gömlu hjónin halda til Pentepolis til að taka við ríki hennar, en Marina og Lysimachus verða konungshjón í Týros.

If I should tell my history, it would seem
Like lies disdain’d in the reporting.

Ég held ég hafi byrjað á Pericles, Prince of Tyre í Helgaþýðingu einhverntímann upp úr 1990, þegar ég tók síðast stóra Shakespeare-lestörn. En entist ekki nema nokkrar síður og hef ekki kíkt á það síðan (Höskuldur: það byrjar ekki vel).

Það er ansi margt sem greinir þetta verk frá öðrum í safninu. Það var t.d. langfyrst af leikritum sem ekki voru prentuð 1623 til að öðlast kanónuréttindi. Sem sést til dæmis á því að Pericles er eina leikritið sem Helgi Hálfdanarson þýðir sem ekki er í F. Hann lítur t.d. ekki við The Two Noble Kinsmen, sem var þó komið með dvalarleyfi um það leyti sem hann var að vinna sitt magnaða starf.

Annað er að eina útgáfa textans sem við höfum er ákaflega léleg. Langflestir fræðimenn eru sammála um að Q-útgáfan frá 1609 sé prentuð eftir handriti sem varð til við uppskrift eftir leikaraminni og/eða hraðritun á sýningu. Þar úir og grúir af óskiljanlegum línum, ógreinilegum og oft kolröngum skilum milli bundins og óbundins máls, ruglanda í persónunöfnum og leiðbeiningum. Editorum er því óvenjumikill vandi á höndum þegar koma á Periclesi á lesanlegt form fyrir almenning. Sumir hafa jafnvel freistast til að nota búta úr nóvellunni The Painful Adventures of Pericles, Prynce of Tyre, sem rekur söguþráð leikritsins nokkuð nákvæmlega og inniheldur á köflum skýrari texta og skiljanlegri samtöl. Sem er ekkert galið því The Painful Adventures kom út 1608, um svipað leyti og leikritið var frumsýnt, og höfundur bæklingsins var George nokkur Wilkins, sem almenn (en ekki alveg algjör) sátt ríkir um að hafi skrifað fyrstu tvo þættina af leikritinu eins og það var flutt og rifjað upp eða tekið niður af óprúttnum aðilum einhverntíman á árabilinu 1607–1608.

Meðal útgáfna sem styðjast við búta úr nóvellunni er t.d. sú sem BBC notaði við gerð sinnar myndar árið 1984. Í henni er samtal Marinu og Lysimachusar á hóruhúsinu, þar sem hún snýr þessum tilvonandi eiginmanni til betri vegar. Vissulega eru þau samskipti fráleit í „upphaflega“ leikritinu, en það má alveg segja að nokkrar replikkur leysi ekki þann vanda, heldur ýti þvert á móti tilfinningunna fyrir að hér sé enginn trúverðugleiki. Sennilega væri betra að sætta sig bara við „ævintýraeðli“ verksins og láta ekki svona. Myndin er alveg prýðileg sem slík, og fyrir utan þessa senu er ekki minnsta tilraun gerð til að „túlka burt“ ólíkindin.

George Wilkins var skrautlegur fýr. Kráareigandi, sennilega melludólgur og góðkunningi lögreglunnar. Hann átti stuttan og snarpan ritferil, hætti „á toppnum“ með Pericles og einbeitti sér síðan að óknyttum og ofbeldi, ekki síst gagnvart konum, í þessi tíu ár sem hann átti eftir ólifuð. Svo vill til að kynlífsþrælkun (eða tilraun til hennar) er lykilatriði verksins, raunar hápunktur þess. En þá er Shakespeare tekinn við pennanum, sem betur fer.  Annars væri það líklega ekki hápunkturinn.

Þetta er nú ekki gott leikrit hjá þeim félögunum, svona heilt yfir. Wilkins er afleitur penni. Maður treystir honum ekki. Meira að segja svona augljós „dónaskapur“ virkar eins og „óvart“ úr penna hans:

All viands that I eat do seem unsavoury.
Wishing him my meat.

2.3.34–35

Almennt glóruleysi ræður för framan af. Það er einhver grundvallarveikleiki í atburðakveikjunni, þessari furðulegu senu þar sem Pericles ræður auðráðanlega gátu um sifjaspell Antiochusar og dóttur hans og á að gjalda fyrir með lífinu (sem hann hefði líka þurft að gera hefði hann verið svo vitlaus að geta ekki ráðið hana). Af hverju eru þau með þennan gátuleik, feðginin? Af hverju eru þau ekki bara hamingjusöm á rúmstokknum með sína blóðskömm, sem þau virðast bæði heilshugar í?

En allavega, þetta bull kemur hreyfingu á hlutina. Atriðin eru misáhugaverð, en aðallega er mjög erfitt að upplifa þetta sem heild. Svona um það bil sem verkið er að verða bitastætt klofnar framvindan í þrennt. Pericles, eiginkonan og dóttirin barnunga verða viðskila, og ef það er eitthvað sem svona episódísk, óplottuð leikrit þola ekki er það ef áhorfandinn hefur engan samferðamann í sögunni. Sögumaðurinn kemur þar ekki í staðinn, fyrir utan að innskot hans eru heldur lágfleygur skáldskapur, t.d. ef hann er borinn saman við eina skyldmenni hans í kanónu Shakespeares: kórusinn í Henry V og snilldarræður hans.

Þrátt fyrir þessa ágalla bendir Suzanne Gossett Ardenritstjóri á að Pericles var á sinni tíð eitt alvinsælasta leikrit Shakespeares.  Um það vitna allskyns vísanir til þess í textum, ljóðum og leikritum í kringum 1610, þar á meðal gremjuleg fýluköst keppinautanna yfir velgengni þess – það er í því samhengi sem fýlustrákurinn Ben Jonson kallaði það „some mouldy tale“, þar stýrði öfund pennanum frekar en fagurfræðilegt mat. Það þekktu það allir. Pericles var líka meðal þeirra verka sem rataði fyrst á fjalirnar við enduropnun leikhúsanna 1631 og var fyrsta verk sem fór upp eftir að leiklist voru aftur leyfð eftir valdatíð Cromwells 1660. 

Það er ekki gott að skilja hvers vegna. Gossett reynir hvað hún getur að lesa meiningu og dýpt í textann, en það er voða mikið frá henni komið fremur en afrakstri Wilkins og Shakespeare.

Það er samt kannski ómaksvert að spá aðeins í formið og samhengi verksins við hálfsystkini sín sem seinna koma, rómönsurnar svokölluðu. Það má jafnvel halda því fram að Pericles sé ýktasta dæmið um þau lausatök í formi og fjarstæðu í innihaldi sem einkennir þessa grein, og leið Shakespeares um The Winter’s Tale (1609), Cymbeline (1610) og The Tempest (1611) sé þróun frá „hreinni“ rómönsu að „hefðbundinni“ kómedíu. The Winter’s Tale er til að mynda eina verkið eftir Pericles sem rýfur tímaeininguna og notast við þul. Og ólíkindin í The Tempest eru „rökvís“ innan söguþráðarins – byggjast á galdramætti persónanna en ekki beint á kenjum skáldsins eða dyntum sögunnar.

Það má líka hugleiða – en ekki kannski draga af því djúpar ályktanir – að Pericles er það eina af þessum „fjórleik“ þar sem Shakespeare er ekki einn að verki, ólíkt öðrum verkum sem hann vinnur að þessi síðustu ár sín í bransanum (Henry VIII, Cardenio, The Two Noble Kinsmen).

Það sem einkennir þessi verk er ákveðinn ævintýrablær, viss „bernska“. Persónugalleríið er í frumlitum, sálfræðileg dýpt oft fórnað á kostnað skýrleika, ólíkindi í framvindu látin óáreitt. Öll þessi atriði eru ýktust og til mestra vandræða í Pericles. 

Aðalvandinn er tvíþættur: hið episódíska form er í eðli sínu and-dramatískt, og atriðin hvert um sig standa fæst undir því að vera áhrifaríkt og spennandi mínídrama, sem þau þurfa eiginlega að gera vegna epísódómismans. Upphafssenan er glórulaus, Pentepolis-atriðin eru orkulaus, og þó það hýrni yfir skáldskapnum þegar Shakespeare tekur við pennanum þá er lífgunaratriði Thaisu með öllu óspennandi sem leikhús, og vondustjúpusenan þar sem Marinu eru brugguð launráð snýst öll um að drífa atburðarásina áfram á kostnað þess eina áhugaverða: sálarástands stjúpunnar, sem Shakespeare hefði auðvitað getað útmálað af sinni þaulfáguðu snilld, en kýs að gera ekki.

Það er ekki fyrr en við kynnumst kynlífsiðnaðinum í Mytilenu sem eitthvað fjör fer að færast í verkið. Vissulega fer raunsæið aldrei upp fyrir – eða dýptin niður fyrir – barnaleikritalevelinn, en á móti kemur að barnaleikritið sem hóruhússenurnar minna mest á er hinn gjörfrábæri Kardimommubær Thorbjörns Egner. Já, ég meina það. Að breyttu breytanda auðvitað. En svona er þetta: 

Fyrst verður fyrir okkur fávís þrenning (!) melludólgs, hórumömmu og sendisveins þeirra að barma sér yfir að viðskiptin gangi tregt og staffið sé meira og minna orðið karlægt af atvinnusjúkdómum. 

The stuff we have, a strong wind will blow it to pieces, they are so pitifully sodden.

4.2.18–20

Hefbundið Shakespearskt kynsjúkdómagrín, hvorki betra né verra en það var í Draumnum, í Falstaff-leikritunum Measure for Measure, Troilus and Cressida eða Timon of Athens. Ekki kannski tóntegundin sem tíðkast að tala í um kynlífsþrælkun nútildags, en við því er ekkert að gera. Þríeykið þykist svo hafa gripið Guð í fótinn þegar sjóræningjarnir koma með söluvarning sinn, hina íðilfögru og óspjölluðu Marinu. En það fer nú dálítið eins og þegar Soffía var fengin í húsverkin. Hugmyndir Marinu um hvernig lífið í hórukassanum á að ganga fyrir sig eru eilítið á skjön við hið viðtekna. Og hún er með náðarvaldið sem öllu breytir. Viðskiptavinirnir sjá að sér í hrönnum:

SCENE V

Mytilene. A street before the brothel. Enter, from the brothel, two Gentlemen

First Gentleman
Did you ever hear the like?

Second Gentleman
No, nor never shall do in such a place as this, she being once gone.

First Gentleman
But to have divinity preached there! did you ever dream of such a thing?

Second Gentleman
No, no. Come, I am for no more bawdy-houses: shall’s go hear the vestals sing?

First Gentleman
I’ll do any thing now that is virtuous; but I am out of the road of rutting for ever.

Exeunt

4.5.1–9

Besta sena verksins er klárlega þegar útgerðarmenn vændishússins barma sér yfir vangæftunum:

Pandar
Well, I had rather than twice the worth of her she had ne’er come here.

Bawd
Fie, fie upon her! she’s able to freeze the god Priapus, and undo a whole generation. We must either get her ravished, or be rid of her. When she should do for clients her fitment, and do me the kindness of our profession, she has me her quirks, her reasons, her master reasons, her prayers, her knees; that she would make a puritan of the devil, if he should cheapen a kiss of her.

4.6.1–10

Við heyrum nú alveg Jónataninn í fyrri replikkunni. Gott ef ekki hreinlega Bessa B. Við sjáum eitt dæmi um Marinu að störfum, þar sem hún með nokkrum orðum fær fastakúnnann, Lysimachus bæjarfógeta (!), til að taka til í hugskoti sínu og haga sér eftir því. Það er kornið sem fyllir mælinn og lægst setta þrælahaldaranum er falið að nauðga úr henni þessum tepruskap. En að sjálfsögðu virka Marinutöfrarnir líka á Boult og hún fær leyfi til að yfirgefa húsið og afla fjár fyrir húsbændur sína með saumaskap og danskennslu. Nokkrum árum síðar hittir hún svo pabba sinn og mömmu. Og giftist bæjarfógetanum. Allt fer vel.

Þessar senur eru skýrasta lífsmark leikritsins. Þær eru fjári óþægilegar aflestrar samt. Það er yfir þeim léttleiki sem okkur nútímamönnum finnst varla viðeigandi þegar söguhetjur okkar lenda í martröð eins og þeirri sem Marina lifir í. Þá viljum við Neeson, ekki Egner.

En þetta er jú ævintýri. Þar er dauðinn alltaf nálægur, dauðarefsingar og pyntingar daglegt brauð. Línur skýrar. Þannig er það hér. Þetta hangir bara ekki alveg nógu vel saman. Hér er sleginn nýr tónn en Shakespeare ekki alveg búinn að læra á þessa hörpu. Framfarirnar verða hraðar.

Textinn

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnveginn hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.