Baráttan við ísinn

Um skáldsöguna Stormfuglar

Sjómannslíf, sjómannslíf, draumur hins djarfa manns, eingöngu ástir og ævintýr með sínum fræknu fiskimönnum sem við úfinn sjóinn fást í norðanbyl og stórsjó og björg að landi bera. Íslenskir sjómenn, sannir sjómenn sem láta sér ekkert fyrir brjósti brenna þótt suma langi heim til Maríu og það þrátt fyrir að vera uppspretta sæblautra drauma yngismeyja í höfnum heimsins. Sjóarar, hetjur hafsins, sem eru og verða munu sjóarar þar til þeir deyja, og lenda e.t.v. í blautri gröf. En það er bara eins og það er og engin ástæða til að sýta það enda eru það eingöngu, bara og einungis kræfir karlar, hraustir karlar, sem míga í saltan sjá.

Vissulega eru þau ófá dæmin sem tína má til þegar upphafning sjómennskunnar á í hlut, má iðulega veiða hana í troll hetjumóðsins hreystinnar, hörkunnar, háskans (samt fer allt vel) og bera á borð með soðnum kartöflum, sméri og kannski þrumara. Er það ekki helvíti íslenskt?

Já, sannlega má segja yður að örgrunnt hefir verið á því að rómantísera sjómanslífið. Klárlega má hafa skilning á því. Íslenskir sjómenn hafa, í gegnum tíðina, ekki bara dregið fisk úr sjó, svo þjóðin þurfi ekki að veslast upp í hor og vesaldómi, heldur aukinheldur glímt við óblíð náttúruöflin í meiri mæli en Árni heitinn aumingi þurfti nokkurn tímann.

Já, Jesú gekk á vatni og sjómenn eru hetjur. Að sjálfsögðu kann að vera að sá dýrðarljómi sem oftlega er varpað á téða starfsstétt kunni að einhverju leyti að vera ofhermi, stílfæring og orðum ofaukið. Ekki það að efast þurfi um að sjómenn séu allajafna harðfengnir dáðadrengir. Nei.

Það gæti þó verið að einhverjum þeirra kunni að vera laus höndin, brjóti allt og bramli í svita, slori og áfengi með fálmandi hendurnar á afturenda kvenþjóðarinnar að henni forspurðri. Hér skal þó ekki tekinn Hildur Lilliendahl Viggódóttir á dæmið og því haldið fram að sjómannsreður hafi helst til of oft tranað sér leyfislaus upp á dekk. Hvað sem því líður mætti alltént og vissulega taka til dæmi sem gera hetjur hafsins mannlegri. Er þó máske óþarfi að stíma á togara ógæfunnar beinustu leið á djúp mannvonskunnar. Nei. Milliveg má fara.

Með öðrum orðum. Að vera sjómaður getur verið erfitt starf. Sjómenn þurfa oft og tíðum að dvelja langdvölum frá fjölskyldum og ástvinum. Þeir þurfa oft að eiga við óblíð náttúruöfl, horfast í augu við hættur og erfiða um borð. Þeir eru hvað berskjaldaðastir eru fyrir veðri og vindum. Oft er ekki mikið sem skilur á milli feigs og ófeigs enda hvíla ófáir íslenskir sjómenn í votri gröf. Mannskaðaveður, frost, stormar, stórsjóir og annað hefir lagt sitt af mörkum við að stytta sjómönnum aldur í gegnum tíðina. Svo kann, í ofanálag, að koma fyrir að starfið sé vanþakklátt þegar kemur að launaumslaginu.

Í kirkjugörðum fiskiþorpa má finna legsteina sjómanna, minnisvarða um sjómenn sem fórust á sjó. Allir eiga þeir það sammerkt að minningin um þá sem dóu á aldrei að gleymast. Slíkt á auðvitað við um alla sem hvíla í kirkjugörðum enda geyma kirkjugarðar ómissandi fólk eins og alkunna er, fyrir utan kannski Steingrím Njálsson og önnur einskinsnýt óbermi (samt verður að teljast líklegt að mamma hans hafi í það minnsta elskað hann). En það er önnur saga.

Það er gömul saga og ný að þeim sem látist hafa af slysförum eða á harmrænni hátt heldur en Jón Jónsson er ætlað meira rými í minningunni. Auðvitað fennir þó í minningar og allar verða þær einhvern tímann gleymskunni og forgengileikanum að bráð. Þeir sem í háska lenda eru og frásagnarverðari en hinn nútímalegi tölvuleikjamömmudrengur sem þó þarf að glíma við ómannlegar þrautir á lyklaborðinu með orkudrykk í hönd. Það er líka önnur saga.

Önnur minnisvarðaleið, en legsteinn, er að reisa einn slíkan í gegnum skáldskap, bókmenntir. Sumir gera það til að halda nafni sínu á lofti, til að falla síður í gleymskunnar dáð, aðrir til að reisa öðrum minnisvarða (sennlega er þetta þó einatt beggjablands). Í því samhengi, er ekki úr vegi að minnast á Bubba okkar Morthens sem sannlega hefir lagt sitt af mörkum í lögum sínum og ljóðum. Mætti minnast á „Synetu“ (lagið er að vísu ekki eftir hann heldur Martin Hoffman), „Stúlkuna sem starir á hafið“ og að einhverju leyti ljóðabókina Hreistur. Jón Kalman Stefánsson og Himnaríki og helvíti ætti að dúkka upp leiti menn og kvinnur að verkum til að tengja. Þar glímir Jón sumpart við smæð mannskepnunnar gagnvart náttúrunni og spilar þar veður vs. maður rullu. Sú er einnig raunin þegar kemur að því verki sem hér um ræðir. Skip Stefáns Mána og Djúp Baltasars Kormáks vippa sér hér einnig yfir lunninguna og mætti e.t.v. þröngva þeim öllum í sjóstakkinn forgengileiki, maðurinn og Guð/náttúran og þar fram eftir götunum.

Alltént eru þau ófá verkin sem fjalla á einn eða annan hátt um sjómennsku. Lang flest þeirra eru á jákvæðum nótum, jafnvel rómantískum. Það er sjaldnar að fjallað sé um sjómennskuna frá öðrum hliðum þótt það komi auðvitað fyrir.  Það verk sem hérna stendur til að tæpa á er blandað.

Hvað sem tengingum líður þá gaf einn okkar reyndasti rithöfundur, Einar Kárason, sem vafalítið hefir marga fjöruna sopið í lífsins ólgusjó, út bók fyrr á þessu ári sem, viti menn, fjallar um sjómenn. Bókin atarna heitir Stormfuglar. Forlagið gefur út og bókin telur 124 síður.

Til að lýsa innihaldi bókar nánar er ráð að snara þessari tilvitnun, sem finna má á fimmtu síðu bókar, upp á dekk:

Í febrúar 1959 lentu nokkrir íslenskir togarar í fárviðri á Nýfundnalandsmiðum. Það sem þar gerðist er kveikjan að þessari sögu, en frásögn og persónusköpun lúta eingöngu lögmálum skáldskapar.

Verkið hefst með látum þar sem togarinn Máfurinn RE er staddur á hinum svokallaða Ritubanka, 200 sjómílum frá Nýfundnalandi á karfaveiðum. Hann er í aftakaveðri og ísingin þyngir skipið hægt og bítandi:

Ísinn lítur ekki bara út eins og gler heldur er hann líka glerharður, og þegar svona er komið eins og á okkar [leturbreyting höfundar] skipi þá er þetta ekkert líkt þunnu glerskæni sem krakki getur mölvað með grjótkasti heldur er þetta eins og risavaxinn kristalsskúlptúr sem bylgjast og bungast í allskyns formum (bls. 7).

Mannskapur skipsins má hafa sig allan við að berja ísinn af skipinu svo hann dragi það ekki niður í djúpið. Baráttan við ísinn á sér stað í veðurofsa og mannskaða veðri (togarar í kring um þá fara niður) og tekur hartnær þrjá sólarhringa. Áhöfnin þarf að taka á öllu sem hún á, andlega og líkamlega, til að halda sér á lífi.

Þetta er í grunninn sagan. Það er greint frá þessum erfiða slag og eftir því sem líður á verður slagurinn erfiðari og erfiðari. Mennirnir lýjast og andlegri geðheilsu hrakar samhliða þeirri trú að þeir geti þá og þegar farið niður í votan faðm Ránarmeyja.

Einn hásetinn hafði setið óratíma í messanum og þulið einhverja óskiljanlega vitleysu um urðarkletti og marbendla, keðjureykt sígarettur og drukkið kaffi í tvo klukkutíma eða meira; Hann er orðinn vitlaus, sagði einhver. (bls. 101)

Verkið er fremur fljótlesið og einhvern veginn flýtur lesandinn ósjálfrátt með veðurlýsingunum, dettur inn í veðurhaminn, hefir vart annað val en að halda áfram líkt og sjómenn sögunnar sem verða að berja á ísingunni sem, jafnskjótt og hún er barinn af með spanna skrúftólum, skiptilyklum, útsláttarjárni og ísöxum (bls. 8-9), tekur að myndast á ný og engin teikn eru á lofti um að veðrið róist. Lesandinn verður að varpa björgunarbátunum fyrir borð sakir klaka, fær „tveggja stunda hvíld á dag.“ (bls. 27) og finnur fyrir nálægð dauðans þegar ölduhæðin er „svona fimmtán, tuttugu metrar.“ (bls. 62) Veðrið er „eins og heimstyrjöld í útlöndum“. (bls. 67-68)

Verkið er öldudalur þar sem flakkað er í tíma. Sagan er svo að segja á tveim tímaplönum. Hún á sér stað í veðurofsanum þar sem „allir fundu hvað hreyfingar togarans voru óeðlilegar miðað við það sem þeir áttu að venjast“. (bls. 23) og „flestir lögðust útaf alklæddir til að vera við öllu búnir og þeir heppnu sofnuðu strax, hinir hlustuðu á höggin í ísbareflum þeirra sem voru úti í sortanum að slást við klakann.“ (bls. 24) og „það hvarflaði ekki annað að neinum manni um borð en að þeirra hinsta stund væri runnin upp.“ (bls. 96)

En svo er greint frá rólegu útstíminu, unga hásetanum Lárusi, sem er eina nafngreinda persóna verksins, og hrausta bátsmanninum sem

var hraustmenni og harðjaxl og óttaðist ekkert, hafði verið borin dauðadrukkinn og öskureiður um borð næstum viku fyrr, og þurfti þrjá eða fjóra sjómenn til að bifa þessum mikla skrokki (bls. 21).

Bátsmaðurinn er máske sá karakter sögunnar sem mest sver sig í ætt við söguhetjur annarra verka Einars. Hann er drykkfelldur harmrænn harðjaxl. Eimir þó klárlega af karlmannlegum myndum í verki:

Þá fóru alvöru sjómenn með aðra höndina alveg undir stakkinn og alla leið í brjóstvasann þar sem kamelpakkinn var og einni hvítri var slegið út og hún gripin á milli varanna, og svo kveikt í, logi af eldspýtu falinn á milli lófanna, og blásið frá sér, sígarettunni snúið inn í lófann og glóðin hulin þar“. (bls. 18-19)

Hvað sem því líður er sagan fremur óvenjuleg fyrir Einar vegna þess að hér er persónugalleríið ekki svo fjölskrúðugt eins og hingað til hefir verið hans þorskur og ýsa. Önnur atriði eru fremur í forgrunni. Augljóst má þykja af undangengnum setningum hvaða atriði það eru.

Greint er frá hrausta bátsmanninum og Lárusi í þriðju persónu og er einnig komið inn á fjölskyldu Lárusar og hví hann vill verða sjómaður.

Lárus, sem er fyrst nefndur á nafn á blaðsíðu tuttugu og níu, er meginpersóna verksins. Og þar sem hann telur sig nafna skipsins og máfsins segir hann: „Mér fannst rétt, úr því ég er nafni skipsins, að rifja upp þessa daga.“ (bls. 122) þegar „[m]eira en tvöhundruð manns fórust þarna á sömu slóðum og við vorum í þessum túr […] Og þeir eru núna á hafsbotni hjá fólkinu á Titanic, og munu aldrei framar sjá nokkurn mann, og enginn þá.“ (bls. 124)

Að vísu eru persónufornöfn mjög á reiki í verki, ekki er samræmi í notkun þeirra eins og sjá má á sumum þeirra dæma sem hér eru tínd til. Flakkað er á milli fyrstu persónu fleirtölu,  þriðju persónu fleirtölu og eintölu og fyrstu persónu eintölu. Einnig eru bornar upp spurningar í verki í fyrstu persónu fleirtölu.

Og þannig gekk þeim [leturbreyting höfundar] furðu vel fyrst um sinn að kalla fram formin á skipinu eins og þau áttu að vera. (bls. 10)

Lárus barðist við grátinn þegar hann sá innsiglingarljósin, en tókst að kyngja honum. (bls. 120)

Þetta er þó ekki endilega eitthvað sem lesandi veitir strax eftirtekt og skemmir ekki endilega fyrir. Sé verk lesið nánar og hægar yfir má þó óneitanlega staldra við og spyrja sig hví svo sé í pottinn búið, hví frásagnarmátinn sé mismunandi, og hvernig standi á því að, sé Lárus sögumaður, eins og áætla má af lokum verks, að hann sjái í hug annarra persóna:

stýrimaðurinn sá alla ævi sína renna hjá, þetta gerist í alvöru hugsaði hann; svo sá hann fyrir sér konuna og börnin“. ( bls. 97)

Einnig er notkun tíða sumpart í ósamræmi þar sem verk byrjar í nútíð en skiptir fljótlega yfir í þátíð. Þetta kemur nokkuð spánskt fyrir sjónir. Kannski má sjá þetta fyrir sér sem eins konar fjölröddun, einhvers konar „kollektífa“ sögurödd?

Fleiri persónur en Lárus og bátsmaðurinn fá einnig rými þótt það sé minna. Næst í röðinni er skipstjórinn sem víkur ekki af brúnni allan þann tíma sem óveðrið á sér stað. Hörkutól og ósérhlífinn í meira lagi.

Já, bókin er hraðlesin og býður því upp á annan lestur þar sem hægja má á sér. Til að mynda er full ástæða til að veita orðaforða, sem landkröbbum eru ekki kunnugur, gaum og hvernig vísað er til  raunverulegra atburða þessa tímabils eins og þegar eins og þegar flugvélin Geysir brotlenti árið 1950 á Vatnajökli, og þegar danska skipið Hans Hedtoft (75) lenti á ísjaka við Grænland 1959 í jómfrúarferð sinni og sökk með manni og mús. Bækurnar Brim og boðar og Um sollinn sæ eru raunverulegar bækur sem fjalla um sjávarháska (72). Lárus minnist á bækurnar. Þetta er því sjávarháski í sjávarháska

Af undangengnum setningum og málsgreinum kann lesanda ljóst að þykja að verki þessu er ekki alls varnað. Raunar er það frekar forvitnilegt. Spyrða má verk við marga þá þanka sem hent var saman hér á undan: sjómanna rómantík

Þaðan leit svo Lárus til norðurs, til Eyjanna sem sátu á glampandi sjónum, það var bátafloti þar í nánd en inn til landsins mátti sjá svarta sanda,grænar sveitir og jökultinda, og þá ákvað Lárus að hann myndi verða sjómaður alla tíð. (bls. 78)

Svo og hamagangi og brjálæði verðurofsans þar sem „[ö]llum var ljóst að næsta hreyfing myndi skera úr um líf þeirra; á hvorn veginn fer hann?“ (bls. 98) og þar sem „[m]enn horfðu á ljósið, eins og þeir hefðu séð hönd guðs að verki, kannski var það eins og þegar lærisveinarnir sáu Frelsarann koma gangandi til sín yfir vatnið“ (bls. 116). Það er af mörgu að taka og hefir verkið alla burði til að framkalla allslags hughrif lesanda.