Langur tími í pólitík

Atburðarás
Júlíus Caesar er einráður í Róm, á borði en ekki í orði. Ekki enn. Brútus, Kassíus og nokkrir fleiri vilja koma í veg fyrir að hann verði krýndur konungur, nokkuð sem nánustu fylgismenn Júlíusar, á borð við Markús Antóníus, eru alveg til í. Lýðræðisvinirnr ráða Sesar af dögum, en Markús æsir Rómarbúa gegn þeim og þeir hrekjast úr borginni. Markús, studdur þeim Oktavíusi og Leipídusi, mætir þeim á orrustu og sigra. Brútus og Kassíus stytta sér aldur.

Eftir að seinna stóra banatilræðið við Hitler fór út um þúfur fannst á skrifborði höfuðpaursins, Von Steuffenberg, rækilega íkrotað eintak af Julius Caesar.

Á Robben-eyju í Suður-Afríku gekk dulbúið eintak af verkum Shakespeares milli pólitísku fanganna og allir merktu við sínar eftirlætislínur. Julius Caesar var mest undirstrikað og framlag Nelsons Mandela voru þessi orð titilpersónunnar:

Cowards die many times before their deaths;
The valiant never taste of death but once.

Í skissubók frá 1926 er að finna hugmynd að sviðsmynd fyrir verkið. Eigandi: Adolf Hitler.

Ég hef áður í þessari seríu rifjað upp fyrstu kynni mín af Júlíusi. Því er við að bæta að JC var fyrsta leikrit Shakespeares sem ég las á ensku. Einmitt til að búa mig undir að sjá það í Stratford. Alvöru metnaður í þá daga. Það voru allnokkur harmkvæli eins og gefur að skilja, fyrir 18 ára íslenskan strák. Þetta er ekkert létt enska og þetta er ekkert léttmeti, meira að segja miðað við ýmis önnur verk sama höfundar. Svo er það nú ekki alveg augljóslega skemmtilegt, eins og kom í ljós þegar okkur var smalað inn í sjálfa dómkirkju Shakespearedýrkunarinnar, The Royal Shakespeare Theatre á Avonbökkum, til að sofa yfir uppfærslu Terry Hands.

Hinn ágæti inngangsritari og Arden-editor David Daniell er í fyrstu svolítið að selja manni að þetta sé æsilegt snilldarverk, en fer svo að greina það og skoða með öllu hlutlausari fræðimannsgleraugum. Hann lýsir því sem svolítið þurru, köldu og hlutlægu. Svolítið rómversku, gætum við sagt. Eðlilega. Rómarborg er eiginlega aðalpersóna verksins og það er eitthvað alveg nýtt og eiginlega einstakt. Þannig er þetta t.d. ekki í fyrra „Rómarleikriti“ Shakespeares. Titus Andronicus er ekki um Rómarborg frekar en A Midsummer Night’s Dream er um Aþenu eða Hamlet um Helsingør, heldur vitleysingana sem þar búa.

En Júlíus er um Róm. Hvað hún eigi að vera, og hvað sé leyfilegt að gera til að hún geti verið þannig.

Þetta má til dæmis sjá í upphafssenunni. Ég man hvað mér fannst hún skrítin þegar ég las hana fyrst. Hvað brandararnir um skósmiðinn voru slappir, og skildi ekki hvers vegna lýðsstjórarnir Flavíus og Marúllus voru svona fúlir. Vissi náttúrulega ekkert um Pompejus og Sesar og þeirra mál, sem eru undanfari atburðanna og Shakespeare gat óhræddur gengið út frá því að þorri áhorfenda hans vissi hvað verið var að þrasa um.

Núna finnst mér þessi byrjun brilljant. Krafturinn og ólgan í henni gefur tilfinningu fyrir andrúmsloftinu sem meginatburðirnir gerast í. Tvær aðrar upphafssenur koma upp í hugann: uppþotið sem hitt stóra Rómarleikritið, Coriolanus, byrjar á, og svo náttúrulega einhver frægasta byrjun Shakespeares, sem er sennilega byrjuð að ólga í hausnum á honum þessa mánuðina: varðmennirnir á múrum Helsingjaeyrarkastala.

Túlkunarvíddirnar fyrir þessa litlu senu eru miklar. Hvernig er statusinn hjá þessum almúgamönnum miðað við lýðstjórana? Eru þeir fullir? Eru þetta fasistar? Eru lýðstjórarnir hrokagikkir? Hvernig verður pakkinu við þegar stjórarnir rifja upp að fyrir ekki svo löngu síðan var liðið slefandi á samskonar samkomu fyrir Pompejusi, sem Sesar er núna að halda upp á að hafa sigrað?

Við erum allavega stödd í því skrítna og hættulega ástandi að leiðtogi þjóðarinnar er elskaður af almenningi en fulltrúar yfirvalda eru mótfallnir dýrkuninni. Það hlýtur eitthvað að gerast.

Og skömmu síðar fréttum við að þetta hafi gerst:

I could tell you more news too: Marullus and Flavius, for pulling scarfs off Caesar’s images, are put to silence. 

1.2.283–284

Þetta eru viðsjárverðir tímar. Og ekki að ástæðulausu að einhverjir telji Róm best borgið án Sesars.

Í innganginum eru mjög skemmtilegar pælingar um tungutak helstu karaktera. Það er nánast svekkjandi að lesa um muninn á Brútusi og Kassíusi hvað þetta varðar. Kassíus notar víst áberandi fleiri ný orð en félagi hans, orð sem talin eru hafa nýlega bæst við enskan orðaforða um aldamótin 1600. Svo áberandi er þessi munur að hann er sennilega bæði meintur og mikilvægur. Sami munur er víst á orðaforða Óþellós (gamall) og Jagós (nýr). En þetta heyrum við auðvitað ekki í dag. Og missum af mikilvægum skilaboðum. hver sem þau svo eru.

Og svo Markús Antoníus, sem tönnlast á því að hann skorti mælsku hinna, sem er auðvitað kjaftæði. Hann greinir sig frá andstæðingum sínum með því að tala ekki um sjálfan sig. Það er mikilvægt að átta sig á því að hann á eintal um sorg sína við dauða Sesars. Ekki bara hina frægu opinberu ræðu. Meira um hana síðar. En tengsl hans við Sesar eru einlæg. Meira um einlægnina síðar.

Greiningar Daniells á tjáningarmáta persónanna eru brilljant, og óhætt að hvetja allt áhugafólk um Shakespearegrúsk til að lesa þennan formála þeirra vegna. Skýrt og skarpt og dæmin sem tekin eru öllum ljós. Það er ekki alltaf þannig.

Og hvað þá með Sesar sjálfan? Það þarf eiginlega engan málsniðssérfræðing til að greina þann gaur:

CALPURNIA
We’ll send Mark Antony to the senate-house:
And he shall say you are not well to-day:
Let me, upon my knee, prevail in this.

CAESAR
Mark Antony shall say I am not well,
And, for thy humour, I will stay at home.

Enter DECIUS BRUTUS

Here’s Decius Brutus, he shall tell them so.

DECIUS BRUTUS
Caesar, all hail! good morrow, worthy Caesar:
I come to fetch you to the senate-house.

CAESAR
And you are come in very happy time,
To bear my greeting to the senators
And tell them that I will not come to-day:
Cannot, is false, and that I dare not, falser:
I will not come to-day: tell them so, Decius.

CALPURNIA
Say he is sick.

CAESAR
Shall Caesar send a lie?
Have I in conquest stretch’d mine arm so far,
To be afraid to tell graybeards the truth?
Decius, go tell them Caesar will not come.

DECIUS BRUTUS
Most mighty Caesar, let me know some cause,
Lest I be laugh’d at when I tell them so.

CAESAR
The cause is in my will: I will not come;
That is enough to satisfy the senate.

2.2.52–72

Talar um sjálfan sig í þriðju persónu. Getur ekki sagst ekki geta farið, ekki að hann sé lasinn, auðvitað ekki að hann sé hræddur. Sesar mætir ekki af því hann vill ekki mæta. Hrokagrís.

Tökum annað dæmi um hvernig Sesar talar. Hér horfa þeir Antoníus á Kassíus:

CAESAR
Yond Cassius has a lean and hungry look;
He thinks too much: such men are dangerous.

ANTONY
Fear him not, Caesar; he’s not dangerous;
He is a noble Roman and well given.

CAESAR
Would he were fatter! But I fear him not:
Yet if my name were liable to fear,
I do not know the man I should avoid
So soon as that spare Cassius. He reads much;
He is a great observer and he looks
Quite through the deeds of men …

1.2.193–202

Þessi umtalaða ameríska uppfærsla með Sesar sem Trump er ekki sérlega langsótt. Og í raun ekkert meiðandi, hvorki fyrir leikritið né forsetann. Því hvort sem við trúum Brútusi og Cassíusi um nauðsyn þess að ráða Sesar af dögum þá er jafn ljóst að afleiðingarnar eru fyrst blóðugt kaos, og svo nákvæmlega þesskonar einræði og ætlunin var að afstýra (og svo reyndar nokkurra alda stöðugleiki, en það er önnur saga).

Reyndar hvarflaði að mér að íslenska nálgunin gæti verið að gera Brútus og Cassíus að einhverjum kunnuglegum allaböllum, svona í ljósi þess að í fyrsta skipti sem þeir hittast eftir fundinn á Kaítólhæð þar sem Antoníus rænir byltingunni þá klofnar fylking þeirra umsvifalaust og að ástæðulausu, enda hafa þeir engan áhuga á að stjórna neinu, öðru nær raunar. Rifrildissenan 4.3. er stórkostlega súr og alveg eins og maður ímyndar sér íslenskan vinstrimannaklofning í sinni mest gordjöss mynd.

Fundurinn og eftirmál hans eru einhver geðveikasti kafli leikritanna hingað til. Þessar tvær ræður Brútusar og Antoníusar þar sem þeir leggja vígið í dóm almennings. Brútus er alveg sannfærður um málstað sinn, og það sem meira er: sannfærður um að þó að skömmu áður hafi lýðurinn fagnað því að Sesari var boðin konungskrúna muni hann líka fagna nýfengnu „frelsi“ undan einræðinu.

Og honum er vissulega fagnað:

ALL
Live, Brutus! live, live!

FIRST CITIZEN
Bring him with triumph home unto his house.

SECOND CITIZEN
Give him a statue with his ancestors.

THIRD CITIZEN
Let him be Caesar.

3.2.48–51

Það merkilega er að Brútus andmælir þessu tilboði ekki. Það er opið til túlkunar hvað veldur. Í það minnsta ætti þessi kjánagangur pupulsins að valda honum áhyggjum. En hann dregur sig kurteislega í hlé og skilur sviðið eftir fyrir Antóníus og eina frægustu ræðu Shakespeares:

Friends, Romans, countrymen, lend me your ears;
I come to bury Caesar, not to praise him.
The evil that men do lives after them;
The good is oft interred with their bones;
So let it be with Caesar. The noble Brutus
Hath told you Caesar was ambitious:
If it were so, it was a grievous fault,
And grievously hath Caesar answer’d it.
Here, under leave of Brutus and the rest–
For Brutus is an honourable man;
So are they all, all honourable men–
Come I to speak in Caesar’s funeral.
He was my friend, faithful and just to me:
But Brutus says he was ambitious;
And Brutus is an honourable man.
He hath brought many captives home to Rome
Whose ransoms did the general coffers fill:
Did this in Caesar seem ambitious?
When that the poor have cried, Caesar hath wept:
Ambition should be made of sterner stuff:
Yet Brutus says he was ambitious;
And Brutus is an honourable man.
You all did see that on the Lupercal
I thrice presented him a kingly crown,
Which he did thrice refuse: was this ambition?
Yet Brutus says he was ambitious;
And, sure, he is an honourable man.

3.2.74–100

Þetta er magnað og þetta er bara byrjunin. Þess má geta að Julius Caesar er  útatað í frægum frösum: The evil that men do … It was Greek to me … bestride the world like a colossus …  a coward dies a thousand deaths … the dogs of war … made of sterner stuff … the fault is not in us but in the stars, … there is a tide in the affairs of men …

En ræðan já og samskipti Antoníusar við lýðinn. Hún er glæsileg og samskiptin eru útsmogin.

Í lokakafla hennar, sem ekki er vitnað mikið til, er Anthony augljóslega að æsa lýðinn upp með mjög kalkúleruðum hætti.

Reyndar finnst mér eitt algerlega skýrt við endurkynni af JC: Markús Antóníus er „vondi kallinn“ í verkinu. Það kom mér gríðarlega á óvart, en fer hreinlega ekkert á milli mála. Framferði hans í þessari senu, og þeirri næstu þar sem hann kemur við sögu, minnir einna helst á Ríkarð III, satt að segja. Hann æsir upp múginn með retórík sem hann segist ekki búa yfir, segir frá auðæfunum sem Sesar hafi ánafnað lýðnum í erfðaskrá sinni (á því lýkur samskiptum hans við skrílinn) og svo, um leið og þeir eru farnir til að hefna:

Now let it work. Mischief, thou art afoot,
Take thou what course thou wilt!

3.2.251–252

Hljómar eins og nokkuð hreinræktaður þorpari af Jagóætt, ekki satt? Ekki skánar það þegar hann hittir bandamenn sína nokkru síðar:

But, Lepidus, go you to Caesar’s house;
Fetch the will hither, and we shall determine
How to cut off some charge in legacies.

4.1.7–9

Munum líka að kornið sem fyllir mæli Brútusar, ein helsta ástæða þess að hann lætur til skarar skríða er kórónan sem Sesari er boðin. En Sesar hafnar henni. Þrisvar. Horfum frekar á hver bíður hana: Rétt, Antoníus. Sem vafalaust telur sig næstan í röðinni. Not a very nice man at all. Skil ekkert hvað Kleópatra sá í honum. En það er reyndar annað leikrit, annar tími. Og annar Anthony, þannig séð.

Múgurinn er hér magnaðri en áður hefur sést hjá Shakespeare og notaður á mun djarfari og „nútímalegri“ hátt en nokkursstaðar annarsstaðar. Sérstaklega í 3.3., fyrstu senu eftir að Antoníus æsir hann upp, og þau drepa skáldið Cinna, sem er svo óheppinn að vera nafni eins tilræðismannanna.

FIRST CITIZEN
Tear him to pieces; he’s a conspirator.

CINNA
I am Cinna the poet, I am Cinna the poet.

FORTH CITIZEN
Tear him for his bad verses, tear him for his bad verses.

3.3.28–31

Annað sem hér er frekar nýtt er ofgnótt dramatískra fyrirboða. Það gengur á með þrumum, eldingum og þvíumlíku, fyrir utan helstu spámenn, illan grun helstu eiginkvenna og auðvitað Ides of March. Það er samt eiginlega bara þessi sem hristir mann:

They would not have you to stir forth to-day.
Plucking the entrails of an offering forth,
They could not find a heart within the beast.

2.2.38–40

Mögnuð mynd. Á pari við Fróðárundur.

Sýningarsaga Júlíusar í nútímanum einkennist annarsvegar af leitinni að áhugaverðri sagnfræðilegri hliðstæðu (Mússólíní-sýning Orsons Welles, fyrrnefnd Trump-túlkun) og svo glímunni við helvítis tógóið. Svo skemmtilega vill til að Royal Shakespeare Company hefur á undanförnum árum sent út – og gefið út – tvær JC-uppfærslur sem endurspegla þessa póla.

Uppfærsla Angusar Jackson er ekki nema nokkurra mánaða gömul og heldur sig stranglega í fornöldinni með útlitið. Það býr óneitanlega til dálitla fjarlægð, það er smá áreynsla að komast að mönnunum í lökunum, sem aukinheldur eru öll nákvæmlega eins, brydduð með sama litnum. En þetta er firnasterk uppfærsla samt. Kröftug og kýrskýr á öllum póstum. Draugasenan, þar sem hinn stungni Sesar birtist Brútusi, er samt pínlega illa sviðsett og greinilegt að hvorugur leikarinn hefur hugmynd um hvað hann er að gera þar. Andrew Woodall er annars magnaður og einstaklega hrokafullur Sesar, og James Corrigan gefur honum lítið eftir í hlutverki Antoníusar. Brútus og Cassíus eilítið minna þrívíðir, en sá fyrrnefndi á engu að síður æðislega senu með konu sinni sem Hannah Morrish túlkar. Lýðskrumssena Antóníusar er brilljant upp byggð. Hversu hrollvekjandi þegar hann lætur falla trúarjátningu demagóga allra tíma:

I only speak right on;
I tell you that which you yourselves do know;

3.2.216–217

Gæsahúð.

Gæsagangur.

Trump.

Fimm árum fyrr var enginn Trump (þannig séð). En þá var arabíska vorið, og þó verið væri að steypa misgæfulegum skúrkum hér og þar, var spurning dagsins alltaf  „hvað svo?“ 2012 fór Gregory Doran nútímavæðingarleiðina að Júlíusi og setti hann niður í Afríku nútímans, þar sem jafnvægispunktur lýð- og einræðis er ansi oft á sjeikspírskum slóðum.

Til hliðar við sviðsuppfærsluna vann hann sjónvarpsgerð með sama konsepti. Stóru hópsenurnar vou reyndar teknar í leikhúsinu (Swan í Stratford eins og sýning Jacksons), allar aðrar „úti í bæ“, nánar tiltekið í yfirgefinni verslunarmiðstöð. Útkoman er einhver snjallasta kvikmyndun Shakespeareleikrits sem ég man eftir. Stór orð, en ég stend við þau. Sjáið þessa.

Jafnvel í svona retórísku og „public“ verki, þar sem, eins og Daniell bendir á, jafnvel hjónin Portia og Brútus, Sesar og Kalpúrnía, tala eins og þau séu í fyrirspurnartíma á Alþingi, er sannleikur í orðum eins leikarans í making-of aukaefninu á DVDinum:

Shakespeare is great roared. Shakespeare is sublime when it is just spoken

Afríska konseptið virkar stórkostlega vel, og kastið er geggjað – Adjoa Andoh (Portia), Ray Fearon ( Antoníus), Paterson Joseph (Brútus), Jeffery Kissoon (Sesar), Samantha Lawson (Kalpúrnía) og Cyril Nri (Kassíus) hvert öðru betra. Doran er staðráðinn í að standa ekki með neinum, eða standa með öllum. Að því leyti er þetta miklu minna afgerandi „túlkun“ en Jacksons, þar sem fasisminn og lýðskrumið tekst á við persónulega veikleika og flumbrugang þeirra sem veita því mótspyrnu.

Eitt brilljant smáatriði gerir svo miklu auðveldara að fylgja Brútusi og Kassíusi, og muninum á þeim. Að láta fyrrívitnað samtal Sesars og Antóníusar um holdafar og lesvenjur Kassíusar fara fram að Kassíusi áheyrandi. Það verður þá alveg kýrskýrt að Kassíus VERÐUR að drepa Sesar – hann er augljóslega á dauðalista einvaldsins.

Ég er ekkert hissa á að Nestor breskra leikhúsgagnrýnenda, Michael Billington, telur sviðsgerðina af þessari túlkun þá bestu á Julius Caesar sem hann hefur séð. Sem eru allnokkrar. Hann hefur t.d. örugglega séð Terry Hands sýninguna sem svæfði mig ‘87. Hún er ekki á sjortlistanum.

Ég er búinn að taka Sesar í sátt. Miklu betra, safaríkara og „skemmtilegra“ leikrit en ég hélt. Langt í frá fullkomið samt. Stærsti galli JC finnst mér vera ferðalag Brútusar. Þar ætti miðjan að vera, og er ætlað að vera sýnist mér. En það vantar einhverja fyllingu, einhverja stiklusteina, til að gera ákvarðanir hans skiljanlegri. Ekki endilega rökvísari, heldur að þykkja persónuna þannig að við sjáum hvers vegna einmitt þessi maður gerir einmitt þetta. Verkið er varðað augnablikum þar sem Brútus vill eitt og Kassíus annað. Í öll skiptin er farið að ráðum Bútusar, og þau eru alltaf óráð. Þetta er forvitnilegt, en svo vantar eitthvað meira.

Það verður líka að segjast eins og er að síðari hluti verksins, svona síðasti fjórðungur þess, er talsvert slappari en allt sem á undan fer, og er á köflum alveg stórkostlegt. Skriðþunginn hverfur, persónur óskýrast, skáldskapurinn dofnar. Þarna á hlut að máli að sú djarfa pæling að skrifa tragedíu án tragískrar hetju, sem reynist – auðvitað – vera byrjandamistök. Svo má deila um hversu mikill byrjandi Shakespeare er í harmleikjasmíði á þessum tíma. Títus, Ríkarðsleikritin bæði og Rómeó og Júlía geta öll gert kröfu til heitisins, missterka þó. Element í Feneyjakaupmanninum og saga Falstaffs í Hinriki fjórða eru á rófinu líka. Hér er samt ásetningurinn tærari en áður. Og það tekst ekki alveg.

Neglir það næst.

Textinn

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.