Úr uppsetningu Títusar Andrónikusar í Transversal leikhúsinu í Utrecht. Ljósmynd: David Backovsky.

I Hold Your Hand in Mine

Uppfærsla Royal Shakespeare Company á Titus Andronicus 1987 er eftirminnilegasta Shakespearesýning sem ég hef ekki séð.

Ég skal útskýra.

Sumarið ‘87 hélt ég með hópi ungra leikhúsvillinga í alþjóðlegar leikhúsbúðir í Stratford Upon-Avon. Þar dvöldum við í viku tíma; spunnum, djömmuðum og æfðum okkur með allrar Evrópu kvikindum sem líkt var ástatt um. Að sjálfsögðu var farið með okkur í leikhús hjá heimamönnum í RSC. Það hlýtur að hafa verið hæfilega gaman fyrir Roger Allam og félaga hans að flytja Julius Caesar fyrir fullan stóra salinn af sofandi/timbruðum unglingum, en þeim var líka nær að hafa þetta svona helvíti leiðinlegt.

Á sama tíma var einhver umtalaðasta og þaulrómaðasta sýning þessa tímabils á fjölunum í næsta húsi, hinu fagra og frumlega Swan Theatre, uppfærsla Deboruh Warner á Titus Andronicus með Brian Cox í titilhlutverkinu. Lokadag búðanna sýndum við afraksturinn á þessu sama sviði. Það eftirminnilegasta var sviðsgólfið. Hvítskúraðar gólffjalirnar með stórum rauðbleikum bletti á miðjunni þar sem blóðsúthellingar verksins fóru að mestu fram og hreinsunaraðgerðir sviðsmannanna höfðu smám saman látið í minni pokann frá því þetta blóðugasta og ofbeldisþrungnasta verk hússkáldsins var frumsýnt um vorið.

Hefði nú ekki verið nær að bjóða okkur á Títus? Þetta er það sem unga fólkið vill.

Ég hef reyndar séð verkið á sviði. Í aldeilis hræðilegri Vesturportsuppfærslu Björns Hlyns Haraldssonar í skemmu úti í Örfirisey 2002 með alltof ungum Ólafi Darra í aðalhlutverki, þar sem engum af flóknum túlkunar- og sviðsetningarspurningum verksins var svarað á neitt sem hægt er að kalla fullnægjandi hátt.

Það er margur fróðleiksmolinn í formála Jonathan Bate sem ritstýrði Títusi fyrir Arden-útgáfuna í síðustu umferð. Athygli vekur t.d. að hann ber nokkurt lof á „fegrunaraðgerðir“ sem Títus gekkst undir eftir að leikhúsin voru opnuð aftur eftir valdatíma Cromwells og félaga, nokkuð sem fæstir ritstjórar gera, og á við um fæst leikrit. Einkum þykir Bate áhugavert hvað hlutur svarta þorparans Aarons verður stærri og skýrari hjá leikskáldinu Edward Ravenscroft (1654–1707).

Hvað varðar tímasetningu þá hljómar tímalína Bates sannfærandi. Það er rökrétt að sjá fyrir sér að þegar Shakespeare sneri sér að ljóðagerð um hríð þegar leikhúsin lokuðu af heilsufarsástæðum 1593 hafi grúsk hans í Óvíd og Seneca kveikt hugmyndina að Títusi, sem virðist annars vera eitt af „heimildarlausu“ leikritunum, ekki byggt á neinni tiltekinni sögu eða fyrirmynd. Samkvæmt þessu er Títus eilítið seinni í röðinni en margir aðrir hafa talið, og ég geri ráð fyrir, en það hefur verið mjög eindregin vilji fræðimanna að reyna að þoka því sem framast í röðina til að afsaka galla þess og öfgar.

Bate er af hinum skólanum: Reynir að afneita göllunum. Meira um það hér að neðan. Hann er líka dálítið upptekinn af því að bæta við svigagreinum til að sviðsetja verkið í huga lesandans á hefðbundnu Elísabetarsviði. Það er nú óþarfi.

Athygli vekur að þetta er fyrsta verkið þar sem texti heildarútgáfunnar frá 1623 er ekki lagður til grundvallar, heldur elsta Q-útgáfan (Q1) sem kom út 1594, nokkrum vikum eftir frumsýningu verksins ef marka má tímalínu Bates. Mjög óvenjulegt, og þetta er fyrsta Q-útgáfa verks sem hér er fjallað um sem ekki ber þess merki að vera „sjóræningjaútgáfa“, þar sem leikarar og aðrir hafa sameinast um að rifja upp textann með misjöfnum árangri.

Það er til eitt eintak af Q1 í heiminum. Það fannst í Svíþjóð árið 1904. Hversu ævintýralega magnað er það?

Það er margt í frásögur færandi varðandi Títus Andróníkus. Eina samtímamynd af leikurum í hlutverkum er t.d. úr uppfærslu á verkinu. Myndin er mikilvægt sönnunargagn í hinni eilífu deilu um sokkabuxur og fleira sem lýtur að sambandi verkanna við sögulegan raunveruleika. Títus naut einna mestra vinsælda af verkum skáldsins. Og eins og frægt er er mannfallið og ofbeldið gegndarlítið. Gárungar segja að ef Títus væri sex þættir en ekki fimm væru allir á sviðinu dauðir – og áhorfendur á þremur fremstu sætaröðunum. Og eru þá helstu limlestingar, nauðganir og mannát ótalið.

En því er ekki að neita að leikritið er … skrítið. Stórundarlegt. Magnað, en líka … dálítið lélegt. Eða hvað? Á það kannski að vera svona? Eru ólíkindalegar u-beygjur atburðarásar og trylltar ýkjur persónusköpunarinnar ekki unggæðislegir gallar heldur einfaldlega til marks um hvers konar leikrit höfundur ætlaði sér að skrifa? Og tókst þá fullkomlega.

Hér eru t.d. Gotaprinsarnir Chiron og Demetríus Tamórusynir að rífast um Laviníu Títusardóttur með ástmann móður sinnar, demóninn Aaron, á hliðarlínunni:

CHIRON

I care not, I, knew she and all the world:
I love Lavinia more than all the world.

DEMETRIUS

Youngling, learn thou to make some meaner choice:
Lavinia is thine elder brother’s hope.

AARON

Why, are ye mad? or know ye not, in Rome
How furious and impatient they be,
And cannot brook competitors in love?
I tell you, lords, you do but plot your deaths
By this device.

CHIRON

Aaron, a thousand deaths
Would I propose to achieve her whom I love.

AARON

To achieve her! how?

DEMETRIUS

Why makest thou it so strange?
She is a woman, therefore may be woo’d;
She is a woman, therefore may be won;
She is Lavinia, therefore must be loved.

2.1.71–85

Hljóma eins og ástsjúkir drengir hljóma alltaf hjá hinum unga Shakespeare. Þetta hefði auðveldlega getað verið þeir Verónsborgarbræður Próteus og Valentín. Nokkrum línum síðar eru þeir svo búnir að fallast á hugmynd Aarons að þeir deili Laviníu frekar en að deila um hana. Nokkrum blaðsíðum síðar drepa þeir manninn hennar, nauðga henni og skera af henni hendurnar og úr henni tunguna svo hún kjafti ekki frá.

Rugl eða snilld?

Bláþráðótt og ágripskennt er líka ferðalag Títusar sjálfs frá kaldri stríðsvélinni í upphafi til hins brotna og brjálaða gamalmennis miðhlutans og svo aftur að demónskum hefnandanum í lokin.

Og Aaron. Hverskonar fyrirbæri er hann? Af hverju á gotadrottning svartan elskhuga, af hverju líður Satúrníus keisari nærveru hans og hvað á þetta raus í honum um illsku sína undir lokin að fyrirstilla?

Allavega þarf engum að leiðast. Og svo er glæsilegur skáldskapur innanum. Hér er Títus að biðja sonum sínum griða, en þeir eru ranglega sakaðir um að hafa drepið mág sinn:

Let my tears stanch the earth’s dry appetite;
My sons’ sweet blood will make it shame and blush.
O earth, I will befriend thee more with rain,
That shall distil from these two ancient urns,
Than youthful April shall with all his showers:
In summer’s drought I’ll drop upon thee still;
In winter with warm tears I’ll melt the snow
And keep eternal spring-time on thy face,
So thou refuse to drink my dear sons’ blood.

3.1.14–22

Tár, vatn, hafið og salt eru ljóðræn leiðarstef verksins. Ásamt höndum, sem eru notaðar jöfnum höndum (pun intended) á skáldlegan hátt og sem efni í hina hroðalegustu fimmaurabrandara. Sem aftur minnir á hvað verkið skeiðar glatt milli þess að vera frum- og glæsilegt og svo glórulaust og kjánalegt.

Hér eru t.d. fræg orðaskipti gotaprinsanna eftir ódæði sitt:

DEMETRIUS

So, now go tell, an if thy tongue can speak,
Who ’twas that cut thy tongue and ravish’d thee.

CHIRON

Write down thy mind, bewray thy meaning so,
An if thy stumps will let thee play the scribe.

DEMETRIUS

See, how with signs and tokens she can scrowl.

CHIRON

Go home, call for sweet water, wash thy hands.

DEMETRIUS

She hath no tongue to call, nor hands to wash;
And so let’s leave her to her silent walks.

CHIRON

An ’twere my case, I should go hang myself.

DEMETRIUS

If thou hadst hands to help thee knit the cord.

2.4.1–10

Búmmtiss!

Verkið er líka óspart á sjónrænan skáldskap, eða kannski frekar tilþrif. Fyrir utan helstu dráp, handhögg, mannát og kviksetningar þá er hér hin fagra mynd af geggjuðum Títusi og hans fólki að skjóta örvum til himins með bænaskrám til guðanna.

Það er örugglega skítlétt að klúðra Títusi í leikhúsinu. Svo virðist sem ýmsar leiðir séu líka færar til að láta þetta ganga upp. Stílfæring og upphafin ritúalisering Peters Brook í uppfærslu með Laurence Olivier 1955 og mun jarðbundnari og beinskeyttari nálgun Deboruh Warner skiluðu báðar leikhússigrum. Athygli vekur að Warner stytti verkið ekki um eitt orð, en niðurskurðarhnífurinn er nú oftast fyrsti og besti vinur leikstjóra gallaðra handrita, og Brook veifaði honum hressilega, að sagt er.

Til er ágæt bók um forvitnilega Suður-afríska uppfærslu Gregs Doran með Anthony Sher í titilrullunni. Sú sýning virðist hafa lukkast bærilega allavega að þeirra eigin sögn. BBC-mynd Jane Howell er alveg solid, en Títusinn hennar, Trevor Peacock, finnst mér ekki þægilegur leikari að horfa og hlusta á í svona miklu magni. Alveg smá gaman að búningar erkiskúrkanna Tamórusona skuli innblásnir af KISS-gervum, en verra að fram hefur komið að búningahönnuðurinn Colin Lawers hélt að hann væri með því að vísa í pönk-menninguna. Valli í Fræbbblunum grætur í nóttinni.

Ég ákvað hins vegar að horfa í fyrsta sinn á mynd July Taymor og fannst hún firnaflott. Heimurinn sem hún skapar fyrir atburðina er æði og vísanir bæði til Rómaveldis og fasísks dekadens hitta í mark og kemur að einhverju leyti í stað hinnar tragísku dýptar sem ekki er víst að sé að finna í efniviðnum. Fyrsti hluti myndarinnar er skólabókardæmi um hvernig bíónálgun getur breitt yfir dramatúrgíska vankanta. Túlkun Anthony Hopkins fannst mér reyndar aðeins of hófstillt og jafnvel vanmótuð á köflum, en á öðrum stöðum brilljant og bestur í síðari hlutanum. Harry Lennix var glæsilegur Aaron og tókst að gera þetta furðulega hlutverk sannfærandi, en við lestur leikritsins verður márinn fyrst og fremst eins og fyrsta atlaga að siðblindum utanveltumönnum síðari verka en fær tæpast eigin fókus.

Títus Andróníkus er ekki meistaraverk. Það eru glæsilegir glampar og mikið „teater“ í boði þrátt fyrir það, og verkið „gengur upp“ ef kenjum þess og innri rökvísi er gengið á hönd. Leit að djúpri merkingu verður hins vegar að fara fram við bjarmann af merkari verkum Shakespeares.

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast. 

Textinn