Jói og baunagrasið

Þetta er enskt ævintýri sem fyrst var fært í prent á átjándu öld en, eins og gjarnt er um ævintýri, er talið töluvert eldra. Freudísk/lacanísk greining á þessari sögu liggur svo lóðbeint við að ég er hissa á að Sigmund hafi ekki sjálfur skrifað heila bók um efnið (ef hann gerði það, vinsamlegast látið mig vita).

Sagan fjallar um ungan dreng, Jóa eða Jakob, sem býr einn með efnalítilli móður sinni. Hann á engan föður, eða það kemur sögunni ekki við. Karlmennska hans veltur því á móðurinni. Fyrst um sinn er hann aðeins drengur og er sendur til drengslegra erinda, að selja mjólkurkú sakir uppskerubrests svo þau geti framfleytt sér eitt misseri enn. Jói rekst á undarlegan eldri mann (aldrei gott) sem ginnir hann til að skipta á kúnni í stað þriggja bauna sem hann kveður göldróttar, baunagrasið muni ná alla leið til himnanna, hann skuli sko bara sjá!

Jói gengst við þessu og mætir keikur heim til móðurinnar með baunirnar (sem ég kýs, fyrir sakir groddaskaps, að líta á sem táknrænar hreðjar). Móðirin bregst ókvæða við, hafandi sent dreng í karlmannsverk, og fleygir afrakstri ferðar hans út um gluggann, þar sem baunirnar ná að festa rætur í foldinni. Hin fallíska móðir getur ekki komið í veg fyrir líkamlegan þroska sonarins, því upp af hreðjum hans vex hinn gríðarlegi reður sem er leið hins unga manns til þroska.

Jói klífur eigin reður til hans óhjákvæmilegu niðurstöðu, sem er risakona sem býr í höll uppi í skýjunum (í sumum gerðum sögunnar er engin kona, en við skulum ekki láta það skemma fyrir okkur). Stærð konunnar er táknræn, því fyrir ungan mann sem rétt svo er að komast í blóma kynferðisvitundar virðist engin hindrun svo stór eins og sú að missa sveindóminn. En konan fóðrar hann samt sem áður á þeim mat sem hún hafði áður ætlað manni sínum. Þar með kemur Jói á milli manns og konu, og þegar risinn kemur heim þá bregst risakonan þannig við að hún felur hann í tákngervingu sjálfs legsins: stórum potti sem situr við hlið hlóðanna. Jói er ekki enn maður, hann getur enn ekki tekist á við hinn táknræna föður og orðið að manni sjálfur. Því er legið hinn eini öruggi staður.

Risinn á hænu sem verpir gulleggjum og hörpu úr skíragulli sem getur sungið og spilað eftir skipun. Jói hnuplar þessum kostum, bæði menningarkapítali og auðmagni. Með þetta tvennt getur hann orðið meiri maður en hann nú er. En risinn verður þessa var og æðir á eftir Jóa. Risinn áttar sig á því að þessi patti hefur notið konu hans á sama hátt og hann sjálfur (ástin virðist búa í maganum í þessari sögu).

Jói kemst niður baunagrasið á flótta, með auðmagnið á bakinu, og hrópar til móðurinnar að færa sér karlmennskuna: öxi. Móðirin gerir það með semingi, en Jói þrífur til axarinnar og heggur niður baunagrasið, sem nú er hin einasta festa risans í heiminum, og táknrænt vanar risann – föðurímyndina. Nú er hinn táknræni faðir dauður, Jói hefur öll efnahagsleg tögl og hagldir, og móðirin hefur gefið eftir sína fallísku stjórn. Nú er Jói orðinn fullsigldur maður.

Kannski ekki sú þroskasaga sem við áttum skilið, svo vísað sé í Batman Begins, en sú þroskasaga sem við fengum.