Allífið, amstur og ástand mála

Um ljóðabókina Orðsendingar. Bókin er 64 síður og kom út 2017. Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi gefur út.

I

Skáldkonan Halldóra Thoroddsen (1950) hefir verið nokkuð iðin við kolann undanfarið enda kominn á þann aldur að nú er að hrökkva eða stökkva. Hún hefir augljóslega ákveðið að stökkva.

Á síðasta ári kom út nóvellan Tvöfalt gler. Hlaut nóvellan sú ágætis viðtökur og var til dæmis sæmd Bókmenntaverðlaunum Evrópusambandsins. Í ár, í apríl, kom út ljóðabókin Orðsendingar. Bókin atarna er fjórða ljóðabók Halldóru. Halldóra hefir einnig gefið frá sér tvö smásagnasöfn.

Halldóra er sumsé ekki átakanlega afkastamikil sé horft til útgefinna verka. Leikinn hóf hún með Stofuljóðum árið 1990. Hárfínar athugasemdir komu út átta árum síðar. Í Hárfínum athugasemdum ber nokkuð á grínaktugum stuttum ljóðum. Sá skoplegi tónn gengur sumpart aftur í smásagnasafninu 90 sýni úr minni mínu. Safnið kom fyrst út 2002 hjá Máli og menningu en var síðan endurútgefið hjá Sæmundi í fyrra.

Halldóru hefir verið spyrt saman við fyndnu kynslóðina í ljóðagerð. Kynslóð sú hóf raust sína á áttunda áratugunum í framhaldi formbreytinga atómskáldanna. Nálgun þeirra var þó önnur en fyrirrennara þeirra og tók mikið mið af breyttum samfélagsháttum. Skáldin voru öðru fremur Reykjavíkurskáld undir áhrifum menningar þéttbýlisins ólíkt því sem áður hafði verið.

Skáld þessi voru þó ekki síður í uppreisnarhug en forverarnir. Sú uppreisn eða samfélagsrýni sneri ekki að formi ljóða eins og í kringum 1950 heldur að lifnaðarháttum, borgaralegu samfélaginu, hernaðarbrölti og þar fram eftir götunum. Þessi kynslóð gengur einnig undir nafngiftinni 68-kynslóðin. Kynslóð þessari tilheyra t.d. Pétur Gunnarsson (1947), Megas (1945) og Steinunn Sigurðardóttir (1950).

Halldóra er af sömu kynslóð þótt hún hafi ekki gefið út ljóð fyrr en talsvert seinna. Bróðir Halldóru, Dagur Sigurðarson (1937-1994) er ívið eldri en orti að sumu leyti á svipaðan hátt.

Alltént má segja, í þeirri viðleitni að draga í dilka, að verk Halldóru beri ofangreind atriði með sér. Yfir þeim svífur oftlega grínaktugur tónn. Það skal þó tekið fram að verk Halldóru eru langt í frá eitthvert djók.

Alltént má finna þessu stað í ljóðabókinni Gangandi vegfaranda (2005) svo og smásagnasafninu Aukaverkunum (2007).

Við skulum bara slengja því fram að Halldóra leitist oft við að draga fram hið spaugilega í tilveru mannskepnunnar, sjái margt í gagnrýnu ljósi án þess þó að vera beinlínis með puttann á lofti. Sjálf hefir hún látið frá sér fara að hún telji sig um margt í hlutverki mannfræðings sem lætur sér umhugað um að skilja tegundina. Það er ekki fjarri lagi.

Annað sem telja má til einkenna verka Halldóru eru brotakenndar myndir. Hafa má á tilfinningunni að flett sé í gegnum einskonar minninga- eða myndabækur sem varpa fram t.a.m. svipmyndum úr hvunndagslífinu eins og er gegnumgangandi í Gangandi vegfaranda. Myndirnar geta einnig verið persónulegar hvunndagsmyndir eins og er einkennandi fyrir 90 sýni úr minni mínu þaðan sem eftirfarandi tilvitnun er tekin:

Líf okkar fer að miklum hluta fram í vitundinni, hún breytist dag frá degi, við fylgjumst spennt með og viðum að okkur öllu sem kynni að koma að gagni.

Verk það fæst þó ekki við vitundina heldur nákvæmlega það sem titillinn felur í sér; minningar eða minningarbrot úr lífi skáldkonunnar. Er bókin því eftir því persónuleg eða hefir alltént yfir sér það yfirbragð. Aldrei er víst hægt að vera 100% viss um hvað er satt og hvað er logið.

Það verk sem hér er til umfjöllunnar er innihaldslega fjarri 90 sýnum úr minni mínu. Í Orðsendingum er ekki svo mjög fyrir persónulegum tóni að fara í því samhengi að ekki virðist opnað beint inn líf og tilfinningar höfundar. Er fremur horft á utanfrá heldur en innanfrá. Auðvitað er þversögnin í þessum orðum ljós. Flest öll skrif hljóta jú að vera persónuleg.

Nú, titill bókar, Orðsendingar, felur í sér að lesanda séu send stutt skilaboð. Það stendur undir nafni því ekki er langlokum fyrir að fara í Orðsendingum. Aðalspurningin er vitanlega hvaða skilaboð orðsendingarnar fela í sér. Hverju skáldið vill koma á framfæri við lesandann.

II

Verkið skiptist í þrjá hluta. Sá fyrsti inniheldur níu ljóð, annar sextán og sá þriðji ellefu. Hver hluti hefst á stuttri setningu sem sjá má fyrir sér sem yfirskrift þess hluta. Sá fyrsti byrjar á „og vitundin andar“ (bls. 7), annar á „við er besta orðið mitt“. Er þar vitnað í ljóð Dags Sigurðarsonar „Besta orðið mitt“. Þriðji hlutinn vitnar til orða lambagrassins: „vekið mig þegar þetta er búið“. Setningar þessar eru lýsandi fyrir innihald hvers hluta.

í upphafi féll þungt orð
oní ómælið
með hvelli
og voldugum bylgjum
sem enn flæða fram

Þannig hefst fyrsti hluti verksins á ljóðinu „Barnagæla“. Er þar vísað til Jóhannesarguðspjalls (1:1-5) þar sem „[Í] upphafi var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð.“ Innihaldslega tekur þessi hluti í víðri merkingu á samlífi guðs eða náttúrunnar og manna (allífinu). Því eins og alkunna er býr Guð í gaddavírnum, gjaldheimtunni, gúmmíinu, garðslöngunni og glötuninni. Líkt og rauninn er með þetta samlífi kann oft að reynast þrautin þyngri að fatta hvað verið er að fara með þessu „geimi“.

eins og álfur í steini
er innsti kjarni efnisins
hulinn skynfærum okkar
þaðan berast ekki bréf

(„Segir fátt af einum“ bls. 13)

Slíkt hið sama má segja um þennan fyrsta hluta. Torrætt getur verið að ráða í hann enda eru einkunnarorðin „vitundin andar“ og einatt er strembið að ráða í hana.

Sjálf hefir Halldóra látið frá sér fara að hún líti á ljóðagerð sem baráttu milli undirmeðvitundar og skynsemi. Í þessum hluta hefir hið fyrrnefnda fremur yfirhöndina þótt myndmálið sé ekki endilega snúið. Það hverfist að mestu leyti um náttúruna: vatn þar sem „straumurinn streymir / vaðallinn vellur“, („Barnagæla“ bls. 9) „mannhafið bylgjast í bárum og boðaföllum („Þú“ bls. 16), fuglalíf: „kríugargið úr mýrinni / rennur saman við tif prjóna / rofið af stöku krúnki / og einmana veiðibjölluskræk“ („Texti dagsins“ bls. 11), sól þar sem „bleik morgunsól sáldrar glergeislum / kveikir á ystu daggardropum krónanna“ (“Rótahjal í haustskógi” bls. 12).

Þegar talað er um náttúruna í þessu samhengi fer betur á því að segja þennan hluta spila á samspil hennar og mannsins. Ljóðmælanda má sjá fyrir sér einhvers konar samvitund, samvitund sem er hvað best greinanleg í þeim ljóðum þar sem notast er við 1. persónu fleirtölu.

Frá annálsritara (bls. 19)

ekki gátum við unað því
að æða á eftir vörumerkjum
með leikjaforrit í höfði
lifandi jarðarleirinn

það tókst ekki að skafa af okkur skítinn
skera á strenginn
þó reynt hafi verið frá árdögum

undum ekki ógrátandi
ampúteruð úr samhenginu
þrátt fyrir sútvörn og kvíðastillingu
svona sólgin í fegurð
bláþráðinn beint í kviku

í þessu fjöltengda faðmlagi deilum við álögum
andardrætti, unaði og angri
með öllu í senn
hrein og mjúk í eðjunni

 

Við (bls. 17)

tannburstar okkar
faðmast í glæru glasi
á baðhillunni

 

Eins og sjá má af dæmum þá er um óbundin ljóð að ræða þótt augljóslega sé leitast við að skapa vissa hrynjandi með stuðlun á stöku stað. Á það og við um hina hlutana tvo.

Annar hluti er öllu jarðbundnari og kallast á við Gangandi vegfaranda svo og Tvöfalt gler. Dregnar eru upp svipmyndir hins daglega lífs. Ljóðmælandi fylgist með og lýsir því sem fyrir augu ber, það sem mannskepnan (við) er að fást við

Ópið (bls. 23)

reiði karlinn á bekknum
öskrar að höfuðskepnunum
það sem sogar einn mann að öðrum
hefur misfarist í meðförum hans
honum tekst ekki að tengja
hann er hamslaus
úrillur og reittur
á höttunum eftir ást

 

Götumynd (bls. 24)

[…]

enginn egypskur faraó á Laugaveginum í dag
né þrælar í prófíl, berir að ofan vopnaðir sigð
ekki silkiklæddur Kínverji með fóthöggna eiginkonu í eftirdragi
hvorki hvítpúðruð gesja né hnarreistur samúræi
baða sig í vímu augnaráða

gestir frá umheimi klæðast staðleysunni:
skræpóttum útivistarjakka, derhúfu, mittisbuddu
með misvísandi vegakort fyrir vitum
þetta eru samantekin ráð um hliðstæðan aukaheim

fáeinir borgarklæddir heimamenn skera sig úr
þeir ráfa ekki heldur skunda
á þessum árstíma eru þeir reyndar flestir farnir í ferðalag
með derhúfur og mittisbuddur
heim til gestanna (sem eru heldur ekki heima)

[…]

 

Stór hluti tilverunnar fer fram í netheimum þar sem er „hvorki hold né mold / lyktarlaus samstaðan rist á vegg // þar látum við orðið ganga / í hring eftir hring“ („Veruleikir“ bls. 26) „í stafrænni Paradís“ („Í storknuðu stuði“ bls. 31) eru „forvitnir ilfetar fullir af grimmd“ („Samhugur“ bls. 38). Hluti ljóðanna tekur einnig á þessum veruleika þar sem við „frystum andránna við hvert fótmál / vopnuð síma“ („Í storknuðu stuði“ bls. 31) en jafnframt er komið inn á hvernig „mömmu jörð hefur þegar verið skipt / með krókódílasíkjum og vindubrúm / til að verjast flækingi / á flakki um frátekinn heim“ („Vergangur“ bls. 33) og hvernig „úr augnlindum / lestu sjálfsmynd þína / endurvarp speglanna / dansar um hugartjaldið“ („Hjarðlífi“ bls. 34).

Tilvitnanirnar ættu að skýra sig sjálfar en hjarðlífi er eitthvað sem áður hefir verið skáldinu hugleikið og má finna dæmi um svipaða nálgun í Gangandi vegfaranda. Aukinheldur má setja sum ljóðin í kvenfrelsispottinn þar sem „aldrei [var] ætlunin að efna í stríð / á milli fóta okkar er hvorki / spennt ör né stjórnlaus garðslanga“ („Skyldan kallar“ bls. 27) og „hönd hylur sköp á satínbeði […] liljan hreina strýkur stráknum sínum / kappklædd mæða / mild og skær“ („Draumadísir meistaranna“ bls. 29) og „hún styður við hallandi heiminn með handafli“ („Af dugnaðarbelti“ bls. 36).

Í þriðja hluta má finna ljóð sem stimpla má með heimsósómanum. Taka þau á vorum válegu tímum þar sem sagt er við „Jónas“ á bls. 47: „það er gott að þú ert dáinn / gott að þér var þyrmt við okkar tíma / sem hefði fráleitt tengt sig við þig // sigur villurnar svo endanlegur / að hún er álitin rétt“. Enda er

Vorið góða, grænt og hlýtt
græðir fjör um dalinn
allt er nú sem orðið nýtt
ærnar, kýr og smalinn 1

EKKI!

Heldur:

Allt er nú sem orðið nýtt (bls. 51)

miskunnarlaus taktur lífsins
lemst á skjáinn
áfram áfram
í fylgd foringjans

traðkað grasið
útbreiddur óminnisdúkur
ofinn töfrum

vornálin
(ung eins og þau)
nýgróið yfir gleymt
og grafið stríð

kjúka brýst
uppúr sverðinum
veifar

Í þessum hluta endurspeglast brjálæðið „í rófulausum manni með hendur og málstöðvar / sem af lítillæti kallaði sig / hinn vitiborna / en sigurverkið sveik / gekk af göflunum og kveikti í kjörlendi sínu / enn má sjá dvergvaxið afbrigði skjótast úr holum“ („Kóróna sköpunarverksins“ bls. 55)

Veröld ný og góð (bls. 58)

og við gefum Guði orðið:

„Vei ó vei, þér dramblátir
sjáið þá um þetta sjálfir úr því sem komið er
ég er uppgefinn

og eitthvað að lokum, örstutt?

„Heyrði raust mína
það er fullljóst orðið
þið eruð farnir að fikta í einfrumungum
í uppröðun og eiginleikum ykkar minnsta bróður
ábyrgðin er þung
viljinn frjáls sem forðum
hjálpið honum þá að skapa nýjan mann
og plííís ekki aftur eftir minni mynd“

Hér ætti að skiljast fyrr en skellur í tönnum.

Tvö ljóð skera sig úr þessum hluta. Það eru prósaljóðin „Fyrsta bréf Hafdísar til Lísu“ (bls. 49-50) og „Annað bréf Hafdísar til Lísu“ (bls. 53-54). Þar skrifar skáldsagnapersónan Hafdís sem er „aðalpersóna í unglingasögunni Hafdís fer í fóstureyðingu“ annarri skáldsagnapersónu, Lísu í Undraland. Er þar róið á svipuð mið, svo haldið sé tryggð við sjótengt myndmál sem er algengt í verkinu, enda segir Hafdís:

Héðan úr þessari nútímasögu get ég sagt þér að siglingin
er enn göfguð á sama hátt en flestir hafa núna fattað að
fleyið er hriplekt með brjálaða kapteina í botnlokunum.

(bls. 50)

 

III

Ef við tökum þetta saman þá samanstendur verkið af allífi, amstri og ástandi mála. Ekki beinlínis frumleg viðfangsefni en það skiptir ekki öllu máli enda hlýtur samtíminn eða þau málefni samtímans sem í brennidepli eru á hverjum tíma að standa fólki og skáldum nær. Þar að auki er allífið sígilt umfjöllunarefni. Er því alger óþarfi að agnúast út í val á viðfangsefnum. Raunar verður tekinn sá póll í hæðina hér að agnúast ekki út í hvorki eitt né neitt. Þeim lesanda sem nennir að böðlast í gegnum þessa umfjöllun skal látið eftir að dæma hvort textinn lýsi góðu eða eða ekki svo góðu verki.

   [ + ]

1. Ljóðið er  eftir Heinrich Heine en var þýtt af Jónasi Hallgrímssyni.