Laurence Olivier í hlutverki Óþellós.

Ást í Þistilfirði

Atburðarás
Herforingi Feneyinga, Márinn Othello, giftist á laun ungri aðalskonu, Desdemonu. Einn af mönnum hans, merkisberinn Iago, leggur fæð á Márann af ýmsum ástæðum, m.a. vegna þess að annar hermaður, Cassio, hefur verið tekin fram fyrir hann í stöðuhækkunarröðinni en kannski ekki síst af því hann telur Márann hafa sængað hjá Emilíu, konu sinni. Honum tekst að fá föður Desdemonu til að kæra Othello fyrir hertoganum, en bæði tekst þeim hjónum að sannfæra viðstadda um einlæga ást sína og svo þarf ríkið sárlega á þjónustu Márans að halda. Honum og mönnum hans er skipað til Kýpur að verja eyjuna fyrir yfirvofandi innrás Tyrkja. Þegar þangað er komið hefur tyrkneski flotinn tvístrast og sokkið í óveðri. Othello tekur þar völdin áreynslulaust og kemur sér fyrir ásamt eiginkonu sinni en Iago setur í gang áætlun sína um að rústa trausti Othellos á eiginkonu sinni. Hann fær skósvein sinn Roderigo til að espa drukkinn Cassio upp og ryskingarnar sem af hljótast duga til að Othello setur hann af. Cassio leitar, að ráði Iagos, til Desdemonu um að tala máli sínu við bónda sinn. Um leið sáir Iago þeirri hugmynd í huga Márans að Desdemona eigi vingott við Cassio og nærir hana síðan með ísmeygilegum hætti og ýmsum meðulum. Meðal annars með því að fela í fórum Cassios vasaklút sem Desdemona hefur týnt og var tilhugalífsgjöf frá Othello og koma því til leiðar að Othello sér klútinn í höndum Cassios. Að lokum hefur öll skynsemi og sálarró horfið Othello og hann felur Iago að drepa Cassio en afræður sjálfur að myrða eiginkonu sína. Iago fær Roderigo til verksins, en þarf jafnframt að tryggja að Roderigo lifi ekki, enda hótar hann að ljósta upp um ýmis óþokkabrögð Iagos. Roderigo fellur en Cassio lifir af. Othello kæfir Desdemonu en þegar Emilía heyrir hann lýsa „sönnun“ framhjáhaldsins – vasaklútsfundinum – raknar lygavefurinn upp. Iago myrðir konu sína til að þagga niður í henni, er tekinn höndum en Othello nær að svipta sig lífi.

Excellent wretch! Perdition catch my soul,
But I do love thee! and when I love thee not,
Chaos is come again.

Framan af Shakespeareáhuga mínum hafði ég einna minnstan áhuga á Othello af harmleikjunum. Lér var minn maður lengi vel, með Hamlet að narta í hælana. Svo snerist það við. Macbeth öruggur í þriðja sæti en Othello komst ekki í meistaradeildina. Hvers vegna? Veit það ekki alveg. Ekki nógu „kosmískur“ eða „pólitískur“ kannski. Mögulega truflaði fágunin – Othello er áberandi best plottaði harmleikur skáldsins, hreinræktaðastur. Ég hafði engan sérstakan áhuga á að sjá Shakespeare reyna að vera Ibsen. Ég vildi óreiðu. Ómstreitu. Kosmískar furður. Ekki Mala Domestica.

Vorið 2016 breyttist þetta. Þá las ég verkið í fyrsta sinn á frummálinu, til undirbúnings fyrir leikhúsferð mikla til Berlínar, þar sem márinn var á dagskrá. „Stórkostlegt leikrit; þétt plott og dýrðlegur skáldskapur“ skrifaði ég í lesskýrslu nokkrum dögum fyrir brottför. Hefði í sjálfu sér getað sparað mér lesturinn, því sýningin hafði ekki nema lausleg tengsl við texta Shakespeares, og var auk þess algerlega skelfileg, eins og lesa má um hér.

Þá um jólin var márinn síðan í Þjóðleikhúsinu í umdeildri uppfærslu Gísla Arnar Garðarssonar. Ég skrifaði ekki um hana dóm og hélt mig til hlés í fjaðrafokinu og læt held ég duga að segja hér að mér þótti hún að flestu leyti mislukkuð. Sem þýðir að enn er uppfærsla Guðjóns Pedersen í Nemendaleikhúsinu 1990 besti Óþelló sem ég hef séð á sviði. Reyndar veitir færeysk unglingasýning sem ég sá 2006 henni harða keppni, svo undarlega sem það kann að hljóma. Verulega kröftug sýning með frábæru konsepti.

Þó ég skrifaði ekkert um Þjóðleikhússýninguna sem slíka varð hún samt til þess að ég sökkti mér dýpra í Óþelló en flest önnur leikrit hin síðari ár. Mér datt nefnilega í hug að bjóða Tímariti Máls og Menningar að bera saman þýðingarnar þrjár sem til eru á verkinu: Matthíasar Jochumssonar frá 1885, Helgaþýðingu sem var leikin í Þjóðleikhúsinu 1972 og þýðingu Hallgríms Helgasonar fyrir uppfærslu Gísla. Útkoman á þeirri rannsókn birtist í 3. hefti 2017 og er held ég ágætlega fróðleg og sæmileg skemmtun. Sjálfur varð ég auðvitað margs vísari.

Og enn las ég Othello, nú með þessa ritgerð í huga. Alltaf verður skýrara og skýrara hvílíkt tímamótaafrek þetta leikrit er. Meðal annars einmitt vegna þess hve þröngur sjóndeildarhringur þess er, hve fókuserað það er. Hve atburðarásin er snyrtileg og drifkraftarnir einfaldir. Ekki alltaf skiljanlegir eða rökréttir. En einfaldir. Shakespeare átti aldrei eftir að skrifa annað eins.

Textinn er líka í öðrum gír en leikritin í kring. Knosið í Measure for Measure og Troilus and Cressida er hér víðs fjarri. Allt er skýrt, jafnvel þar sem feiknarlegri mælsku er beitt fyrir vagna persónanna. Meira að segja óráðshjal márans í seinni hlutanum er skiljanlegur skáldskapur.

En það er ekki bara „flugið“ í textanum sem heillar. Það er hinn dramatíski skriðþungi sem greinir Othello frá tilraunakenndum og mis-lukkuðum leikritunum í kring. Þar ber hæst tvær senur sem eru vel mögulega áhrifaríkasti LEIKskáldskapur Shakespeares, þar sem framvinda og orðkynngi haldast hvað fastast í hendur.

Í 3.3. hefst aðför Iagos að sálarró Othellos. Það sem gerir hana svo glæsilega er hvað Iago gerir lítið, hvernig honum tekst að stýra hugsunum Othellos án þess að virðast ýta nokkuð við honum sem heitið getur:

Ha! I like not that.

3.3.37

segir hann þegar Cassio kveður Desdemonu, og segist svo alls ekki vita hvort það var Cassio sem var á tali við hana, og það geti varla verið, svo laumulega sem hann læddist burt. Um leið kemur hún blaðskellandi og byrjar að tala máli Cassios, og við erum komin af stað.

Næsta stig, þegar Othello hefur hrist Desdemonu af sér, örlítið ringlaður er líka einfalt og sakleysislegt:

IAGO
Did Michael Cassio, when you woo’d my lady,
Know of your love?

OTHELLO
He did, from first to last: why dost thou ask?

IAGO
But for a satisfaction of my thought;
No further harm.

3.3.105–109

Og svo áfram og áfram. Það er unaður að verða vitni af fimi þeirra félaganna, Iago og Shakespeare að byggja upp traust Othellos á merkisberanum, jafnhliða og hann hleður semtexinu að stoðum hjónabandsins.

OTHELLO
I do not think but Desdemona’s honest.

IAGO
Long live she so! and long live you to think so!

3.3.265–266

Og í leiðinni falla tilvitnuðustu orð leikritsins:

O, beware, my lord, of jealousy;
It is the green-eyed monster which doth mock
The meat it feeds on; 

3.3.195–197

Eigum við að segja að þetta sé allnokkuð „chutzpah“ hjá Iago? Samt ekki. Skaðinn er skeður. Afbrýðisemi er nefnilega ekki bara græneygt skrímsl, heldur tannkrem sem enginn mannlegur máttur getur troðið aftur í túbuna eftir hún hefur verið kreist.

Jagó er ekki stórkostlegur og óskeikull manipúlator. Hann hefur hinsvegar hæfni flinks fótboltamanns sem getur breytt um hernaðaráætlun á sekúndubroti þegar eitthvað ófyrirséð truflar fyrri plön.

Hin toppsenan er síðan 4.3. þar sem Desdemona býr sig til hvílu með hjálp Emilíu og veltir fyrir sér óráði og ásökunum eiginmannsins. Sem hún er einstaklega vanbúin til að takast á við af einhverju raunsæi því hugmyndir hennar um ást og tryggð eru 100% ídealískar:

Dost thou in conscience think,–tell me, Emilia,–
That there be women do abuse their husbands
In such gross kind?

4.3.67–69

Emilía reynir af háttvísi að benda húsmóður sinni á staðreyndir þeirra mála, en allt kemur fyrir ekki. Og Desdemona syngur hálfgleymt lag um ástarharma.

Feikilega vel smíðaðar senur, og það má segja um verkið allt. Það hriktir aðeins í plottvélinni, finnst mér, þegar Iago veiðir einhver óviðurkvæmileg orð upp úr Cassio sem Othello heldur að séu um Desdemonu, og allt farganið með vasaklútinn er dálítið „teatralskt“, þó samtal Othellos og Desdemonu um gripinn sé aldeilis magnað. En frægasta dæmið um tæknibrellur Shakespeares í Othello er „tvöfalda tímabítið“, hvernig tíminn líður ýmist hratt/samfellt, nánast í rauntíma eða hægt, með svigrúm fyrir sálarástand og kringumstæður til að breytast og þróast. Ágætis dæmi er í öðrum þætti, þegar Roderigo kemur til Iagos og segir:

I do follow here in the chase, not like a hound that hunts, but one that fills up the cry. My money is almost spent; I have been to-night exceedingly well cudgelled; and I think the issue will be, I shall have so much experience for my pains, and so, with no money at all and a little more wit, return again to Venice.

2.3.384–390

Þetta hljómar eins og einhver tími hafi liðið, nægur til að Roderigo, sem selur lönd sín og allar eigur (sem virðast vera allnokkrar) í lok fyrsta þáttar til að fylla pyngju sína fyrir Kýpurferðina, sé að verða blankur. Engu að síður „er“ þetta fyrsta nóttin eftir að Feneyingarnir lenda á Kýpur, fyrsta nóttin eftir að máttarvöldin færðu þeim sigur á Tyrkjum, fyrsta nótt Othellos og Desdemonu í hjónasæng.

Mörg fleiri dæmi má nefna um að tíminn líði á tvöföldum hraða í verkinu. Grunnupplifun áhorfandans er að hann líði hratt, en öðru hverju sér Shakespeare sér hag í því að hlutir hafi þroskast á lengri tíma og hann hikar ekki við að fella það inn í textann. Enda truflar það engan áhorfanda. Frekar vel gert bara.

Í þessari Shakespeareyfirferð hef ég ekki lagt mig mikið eftir grúski í heimildum og efnivið skáldsins, utan að endursegja stundum það sem ritstjórar hafa um það mál að segja. Nú ákvað ég að bregða út af þeim vana og lesa smásögu Cinthios sem líta má á Othello sem leikgerð uppúr. Mikilvægasta frávikið, fyrir utan einstök atvik, er það að hér liggur mótív Iagos alveg fyrir:

Now the wicked Ensign, regardless of the faith that he had pledged his wife, no less than of the friendship, fidelity, and obligation which he owed the Moor, fell passionately in love with Disdemona, and bent all his thoughts to achieve his conquest

Og svo vekur þessi brútal áætlun athygli, og lesandinn er bæði frekar feginn og örlítið vonsvikinn að Shakespeare skyldi ekki nýta sér þetta:

“A plan comes to my mind, which will give you satisfaction, and raise cause for no suspicion,—it is this: the house in which you live is very old, and the ceiling of your chamber has many cracks; I propose we take a stocking filled with sand, and beat Disdemona with it till she dies; thus will her body bear no signs of violence. When she is dead, we can pull down a portion of the ceiling, and thus make it seem as if a rafter falling on her head had killed the lady. Suspicion can not rest on you, since all men will impute her death to accident.”

This cruel counsel pleased the Moor, and he only waited for a fitting time to execute the plot.

Það vekur líka athygli að húðlitur og kynþáttur Márans er mun mikilvægari hjá Chinthio en Shakespeare:

Nay, but you Moors are of so hot a nature, that every little trifle moves you to anger and revenge. (Disdemona)

… the Italian ladies may learn from me not to wed a man whom nature and habitude of life estrange from us. (Ensign/Iago)

she has taken an aversion to your blackness. 

Það er nefnilega merkilegt við Othello að verkið er EKKI um kynþáttamál. Auðvitað gegnir kynþáttur Márans hlutverki í að einangra hann, það er meiri (og skiljanlegri) hiti í viðbrögðum Brabantios, föður Desdemonu, yfir ráðahagnum en væri ef vandamálið væri t.d. bara að hann hefði ekki verið spurður, eða Othello of gamall, eða hefði einhvern annan meinbug. Auðvitað „litar“ kynþáttur Othellos verkið, en ef Shakespeare væri rasisti og Othello rasískt leikrit væri þetta tragedía Brabantios, sem sést í tveimur senum snemma verks og við fréttum andlát hans undir lokin. Það er t.d. lítið af rasisma í eintalsröntum Iagos – ef kynþáttur Othellos er kveikja hatursins þá er það greinilega eitthvað sem hann skammast sín fyrir. Willard White, sem lék Othello fyrir Trevor Nunn 1989 segir „And one thing you have to remember is that he’s not a jealous black man, he’s a jealous man

Kveikja hatursins er náttúrulega helsta ráðgáta verksins. Iago er margsaga um málið. Samt leynist þarna nokkuð sterkur rauður þráður. Fyrst er hann trylltur yfir að hafa verið sniðgenginn við stöðuhækkun. Það næsta sem kemur upp er þetta:

I hate the Moor:
And it is thought abroad, that ‘twixt my sheets
He has done my office: I know not if’t be true;
But I, for mere suspicion in that kind,
Will do as if for surety. 

1.3.429–433

Mér, og mörgum fleiri grúskurum, hefur lengi þótt þetta vera með miklum fádæmum og varla til að taka mikið mark á. Það var eiginlega ekki fyrr en núna í þessum síðasta lestri sem ég festi athyglina við seinna skiptið þar sem þessi skýring kemur upp:

For that I do suspect the lusty Moor
Hath leap’d into my seat; the thought whereof
Doth, like a poisonous mineral, gnaw my inwards;

2.1.317–319

Þetta eru eintöl. Iago trúir þessu. Allt í einu verður hin djarfa viðvörun Iagos um græneygða skrímslið ekki bara ósvífin djörfung í sálfræðistríði, heldur leynist í henni sönn innsýn í sálarlífs hins sálarlausa. Og þurfum við frekari vitnanna við þá minnir Emilía á þessa þráhyggju bónda síns þegar hún veltir því fyrir sér hver geti eiginlega verið að rægja Desdemonu:

O, fie upon them! Some such squire he was
That turn’d your wit the seamy side without,
And made you to suspect me with the Moor.

4.2.171–173

Við tökum líka eftir að Emilía virðist tala af reynslu hér:

DESDEMONA
Alas the day! I never gave him cause.

EMILIA
But jealous souls will not be answer’d so;
They are not ever jealous for the cause,
But jealous for they are jealous: ’tis a monster
Begot upon itself, born on itself.

3.4.179–183

Þetta leysir samt ekki ráðgátuna:  En það að sjá verkið sem rannsókn á tveimur ólíkum viðbrögðum við trylltri og sjúklegri afbrýðisemi er semsagt vel möguleg túlkun.

Þjóðfélagsstaða Iagos er líka faktor. Í formála Arden-útgáfunnar bendir ritstjórinn, E.A.J Honigmann m.a. á þráhyggjukennda notkun verksins á orðinu „honest“, sem næstum eingöngu er haft um Jagó. Kaldæðni, já, en svo hangir líka á spýtunni að á ritunartímanum hafði orðið mjög sterkan undirtexta „skammhróss“, lítillækkandi einkunnar sem gefin er undirtyllum. Með það í huga er auðvelt að finna fyrir kláðanum í sál Jagós í hvert skipti sem orðið er hengt á hann af yfrboðurum – og konum þeirra.

Ég hef alltaf gaman af vangaveltum um ritunartíma, handritageymd og þess háttar. Honigmann bendir á hvernig leikhópurinn sem lék Othello fyrst hafi verið nákvæmlega eins skipaður og sá sem frumflutti Twelfth Night – mjög skemmtilegar og jafnvel pínu óvæntar hliðstæður (Jagó/Sir Toby – WTF?!). Þessar vangaveltur ganga svolítið langt, verða svolítið barnalegar, Honigman virðist telja að leikarar „sérhæfi“ sig í tilteknum tilfinningum og svipbrigðum.

Öllu safaríkari eru pælingar um Ófelíu, Víólu og Desdemonu, stóru kvenhlutverkin í Othello, Hamlet og Twelfth Night. Þrjú krefjandi hlutverk fyrir stráka sem geta bæði leikið og sungið. Það eru nefnilega vísbendingar um að upphaflega hafi Víóla hafi átt að syngja „Come Away, Death“, en lagið fært yfir á Feste síðar. Það, og sú staðreynd að söngur Desdemónu (The Willow Song) er ekki með í Q-útgáfu Óþellós, segir Honigman og fleiri fræðingum að þessi ungi ofurleikari hafi hrokkið í mútur einhverntíman á tímabilinu 1601–04, og seinni verkin tvö, sem enn voru á dagskrá, hafi verið tvíkuð með tilliti til þess.

Um þetta fáum við samt aldrei að vita neitt, frekar en hvað nákvæmlega knýr Iago til verka sinna.

Í uppfærslu Trevors Nunn fyrir Royal Shakespeare Company 1989 var Ian McKellen reyndar alveg með það á hreinu að sjúkleg kynferðisleg afbrýðisemi Iagos vegna ímyndaðs sambands Othellos og Emilíu væri drifkrafturinn. Þess sér alveg merki í túlkuninni. Það er t.d. greinilega þetta sem hann á við með sínum kryptísku lokaorðum við Márann:

What you know, you know.

5.2.355

Allt um það gefur McKellen engan afslátt af demónsku og óskilgreinanlegu eðli Iagos. Hann er stórkostlegur. Hermannlegur í fasi, „honest Iago“ fram í fingurgóma, en lætur persónuleikann hverfa á einhvern undarlegan hátt um leið og hann er í beinu sambandi við áhorfendur, í eintölum og „asides“. Þá er ekkert þarna nema hulstur síkópatans. Verulega óhugnanlegt. Upptakan af sýningunni er nánast fullkominn, heimurinn sem leikmynd, leikmunir og búningar skapa skotheldur og smáatriði jafnt sem heildartúlkun varla til að gera athugasemdir við. Þó þetta sé fyrst og síðast Iagodrifin túlkun kemst óperusöngvarinn Willard White vel frá Máranum, Imogen Stubbs teflir á tæpasta vað með „frekjustelputúlkun“ Desdemónu, en kemst upp með það og Zoe Wanamaker er mergjuð Emilía.

Uppfærsla Nickolas Hytner í breska þjóðleikhúsinu 2013 sem var send út og hægt er að finna á flæmska Internethattinum, er strang-nútímaleg, natúralísk í umgjörð, bæði búningum og leikmynd. Niðurdrepandi herbúðir og einingaskúrar í austurlöndum nær. Samleikur Adrian Lester og Rory Kinnear í aðalhlutverkunum er til fyrirmyndar en ég varð fyrir smá vonbrigðum með minn mann í titilhlutverkinu. Lester er flottur framan af en náði ekki til mín með skelfingu síðari hlutans. Of jarðbundin túlkun, mögulega of heft af natúralismanum og hið vandmeðfarna stóra svið National Theatre kallar á leikstíl sem hentar ekki þessu kammerverki.

Ég get alveg séð að ópera Verdis sé eitt af meistaraverkum þeirrar listgreinar. Tónlistin er einkar glæsileg og hápunktar háir. En bókstaflega ekkert af því sem er snilld í leikritinu skilar sér. Satanísk trúarjátning Iagos er kannski mögnuð óperulist en sem túlkun á gangverki skúrksins er hún hlægilega barnaleg. Og jafnvel meistari eins og Verdi getur ekki tónsett, 3.3., þar sem Iago plantar eitrinu í sál Othellos, án þess að gera hana fyrst og fremst kjánalega.

Kvikmynd Orsons Welles frá 1951 kallar á að á hana sé horft með budgetið í huga. Hún er kaótísk og ekki alltaf í innbyrðis samhljómi, auk þess sem lykilatriði hennar eru gjarnan filmuð í suðrænu glaðasólskini þó þau krefjist næturmyrkurs til að virka. Heilt yfir er hún mislukkuð. Dramatúrgískt innsæi Orsons ekki alveg upp á sitt besta hér. Eintöl Iagos horfin. Hlutverk Emilíu skorið alveg inn að beini, sem er algert óráð. Sjálfur er Orson síðan helvíti flottur og það sama gildir um hans gamla mentor og vin, Michéal Mac Liaimmóir, sem Iago. Ég hef vitað af þessum merkilega írska leiklistarfrömuði og eldibrandi lengi og sótti mér af þessu tilefni dagbók hans frá tökutíma Othellos, Put Money in Thy Purse, sem kom út 1952. Þar er þessi mjög svo skrykkjótta saga rakin í ágætu jafnvægi örvæntingar, sköpunarhamingju og írónískrar fjarlægðar. Þar er t.d að finna þessa greinargerð fyrir túlkun þeirra Welles á Iago:

… no single trace of the Mephistophelean Iago is to be used: no conscious villainy; a common man, clever as a waggonload of monkeys, his thought never on the present moment but always on the move after the move after next: a business man dealing in destruction with neatness, method, and a proper pleasure in his work: the honest honest Iago reputation is accepted because it has become almost the truth.

Og hananú!

Textinn

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.