Þýðing: Eiríkur Örn Norðdahl

Úr stafrófinu eftir Inger Christensen

1.

Apríkósutrén eru til, apríkósutrén eru til

2.

burknarnir eru til; og brómber, brómber
og bróm er til; og vetni, vetni

3.

söngtifurnar eru til; sikoríur, króm
og sítrónutrén eru til; söngtifurnar eru til;
söngtifurnar, sedrusviður, sýprus, cerebellum

4.

dúfurnar eru til; draumarnir, dúkkurnar
drápsmennirnir eru til; dúfurnar, dúfurnar,
mistrið, díoxín og dagarnir, dagarnir
eru til; dagarnir dauðinn; og ljóðin
eru til; ljóðin, dagarnir, dauðinn

5.

haustið er til; eftirkeimurinn og íhugunin
eru til; og einrúmið er til; englarnir,
ekkjurnar og elgurinn eru til; aukaatriðin
eru til, endurminningin, birta endurminningarinnar;
og eftirskinið er til, eikartréð og álmurinn
eru til, og einiberjarunninn, einveran, einmanaleikinn
eru til, og æðarfuglinn og kóngulóin eru til,
og edikið er til, og eftirheimurinn, eftirheimurinn

6.

gráhegrinn er til, með sinn grábláa íhvolfa
hnakka er hann til, með sinn svarta fjaðurskúf
og sínar ljósu stélfjaðrir er hann til; í nýlendum
er hann til; í hinum svonefnda Gamla heimi;
til eru líka fiskarnir; fiskigjóðurinn, fjallarjúpan
fálkinn; fjaðurgrasið og fjárlitirnir;
kjarnaklofningsbrotin eru til og fíkjutrén eru til;
mistökin eru til, stór, kerfisbundin og
tilfallandi; fjarstýringin er til og fuglarnir;
ávaxtatrén eru til og ávextirnir í ávaxtagarðinum þar sem
apríkósutrén eru til, apríkósutrén eru til,
í löndum þar sem hitinn framkallar einmitt þann
lit aldinkjöts sem á að vera í apríkósum

7.

grensurnar eru til, göturnar, gleymskan

og gras og gúrkur og geitur og gullsópur,
gagntekningin er til, grensurnar eru til;

greinarnar eru til, vindurinn sem bærir þær
er til, og einstök teikning greinanna

af einmitt þessu tré sem kallast eik er til
af einmitt þessu tré sem kallast askur, björk
sedrusviður er til, og teikningin endurtekin

er til, í mölinni á garðstígnum; til er líka
gráturinn, og sigurskúfur og hjólkróna eru til,
gíslarnir, grágæsin, ungar grágæsarinnar;

og skotvopnin eru til, dularfullur bakgarður,
í órækt, ófrjór, aðeins prýddur berjum,
skotvopnin eru til, í miðju upplýstu
kemísku gettóinu eru skotvopnin til,
með sinni gamaldags, friðsömu nákvæmni eru þau til

skotvopnin, og grátkonurnar eru til, mettar
einsog gráðugar uglur; vettvangur glæpsins er til,
vettvangurinn, doðalegur, venjulegur og óhlutbundinn,
baðaður í hvítkalkað, guðsvolað ljós,
þetta eitraða, hvíta, veðraða ljóð.

 

 

Inger Christensen fæddist 16. febrúar 1935, lést 2. janúar 2009. Stafrófið eftir Inger Christensen er eitt af lykilritum danskra bókmennta á 20. öld. Ljóðið er fjórtán erindi, hvert þeirra skrifað útfrá ákveðnum bókstaf og miðast lengd hvers erindi við Fibonacci-talnarununa, 1. erindið eða A er ein lína, 2. erindið eða B er tvær línur, og það sjöunda G er tuttugu og ein lína. Síðasta erindið N (sem ekki má sjá hér, við birtum bara fyrstu sjö) er 610 línur.

Eiríkur Örn Norðdahl þýddi.