Lér konungur og flónið í storminum eftir William Dyce (1851).

Að rata út

Atburðarás
Hin aldni konungur Lér ákveður að skipta ríki sínu milli dætra sinna þriggja. Þegar Cordelia, sú yngsta, neitar að útmála ást sína á honum við opinbera athöfn afneitar hann henni og skiptir hennar hluta milli eldri systranna, Goneril og Regan. Fljótlega skerst í odda milli konungsins og fylgdarliðs hans og dætranna tveggja, sem hann ætlaði að dvelja hjá til skiptis í ellinni, og Lér leggst út, í fylgd fíflsins síns og jarlsins af Kent, sem hann gerði reyndar útlægan um leið og Cordeliu, en hefur slegist í fylgdarliðið í dulargerfi. Í óbyggðum verður á vegi þeirra annar maður í dulargerfi, Edgar sonur jarlsins af Gloucester, en Edmund hálfbróðir hans hefur rægt hann við föður þeirra svo Edgar hefur kosið að flýja. Þegar Regan og maður hennar, jarlinn af Cornwall, komast að því að Gloucester hefur leynt þau fréttum af fyrirhugaðri innrás Cordeliu, sem er orðin drottning Frakklands, stingur Cornwall augun úr jarlinum og hrekur hann út í óbyggðirnar, en lætur sjálfur lífið fyrir hönd þjóns sem reynir að koma í veg fyrir ódæðið. Edmund tekur sæti föður síns og systurnar keppa um ástir hans, en Lér kemst í skjól Cordeliu. Gloucester og Edgar finna hvorn annan, án þess að faðirinn þekki soninn, sem fylgir honum til Dover þar sem hinn blindi öldungur hyggst svipta sig lífi. Það verður ekki, en hann deyr þó skömmu síðar, saddur lífdaga. Franski innrásarherinn lætur í minni pokann fyrir heimamönnum undir stjórn Edmunds sem færir Lé og Cordeliu í fangelsi og felur flugumanni sínum að taka þau af lífi. Goneril eitrar fyrir systur sinni og fremur sjálfsmorð sjálf. Edmund og Edgar heyja einvígi og Edmund fellur, en ljóstrar á dauðastundinni upp um aftökuskipunina. Þá hefur flugumaðurinn deytt Cordeliu. Lér syrgir hana og deyr.

When we are born, we cry that we are come
To this great stage of fools

4.6.178–179

Ahh. Gamla ofuruppáhaldið.

Frá fyrstu kynnum var mér ljóst að King Lear var sér á parti. Leikritið sjálft styrkir auðvitað þá trú, jafn magnað, kosmískt og einstakt og það nú er, en fleira kemur til. Í heildarútgáfu Almenna bókafélagsins og síðan Máls og menningar á þýðingum Helga Hálfdanarsonar eru skýringar þýðandans prentaðar í lok hverrar bókar. Þar hefur hann mál sitt um hvert verk á því að gera stuttlega grein fyrir frumútgáfum þess, en er annars fáorður um verkin eða skoðanir sínar á þeim. Á þessu er bara ein undantekning. Um Lé konung skrifar hann stutta ritgerð þar sem hann setur fram sínar hugmyndir um verkið. Það er vel þess virði að lesa þennan texta Helga:

… Atburðir verða með miklum feiknum, enda hefur leikritið Lér konungur verið kallað ofboðslegast af öllum Shakespeares-leikjum, og er þá nokkuð sagt. Svo er þó á málum haldið, að ýmsir mætir menn hafa dáð þetta leikrit jafnvel meir en nokkurt annað verk Shakespeares. Að vísu hefur því einnig verið fundið margt til foráttu, og talsvert hefur verið um það deilt. Einkum hefur mönnum þó vaxið það í augum, sem gert er af hvað mestum ólíkindum, eins og t.d. samskipti Lés konungs og dætra hans í upphafs-atriði leiksins, þar sem hann virðist úthluta þeim arfi i réttu hlutfalli við dugnað þeirra í smjaðri. Þarflaust er þó að gera skilningi sínum á þessu atriði og öðrum slíkum alltof óhægt um vik. Ræðuhöld dætranna um barna-ást eru ekki annað en formsatriði í þeim hátíðahöldum, sem fara fram við landa-afsal konungs. Skipting ríkisins hefur, einsog fram kemur, þegar verið gerð, og þess gætt af mikilli nákvæmni, að þar yrði sem allra jafnast á metunum. Óvænt hegðun Kordelíu er umfram allt veizluspjöll, sem kannski mætti kalla fráleita smámunasemi um form, líkt og brúður fyndi uppá því að svara prestinum neitandi fyrir altarinu, til þess að fara ekki að lofa uppí ermarnar einhverju, sem enginn veit hvort hægt verður að standa við, þegar á hólminn kemur, einsog dæmin kannski sanna, en ekki vegna þess að ástin á brúðgumanum sé neitt slakari en til er ætlazt. Í þessum meinlausa hátíða-leik er Lér bæði leikstjóri og aðalleikandi; og þegar Kordelía hleypur alltíeinu, vegna sinnar afdráttarlausu heilinda, útúr hlutverki sínu, þegar verst gegnir, þá kann gamli seggur engin tök á hneykslinu, og missir allt úr reipunum, bæði sjálfan leikinn og sitt eigið óstírláta skap; og rekur nú hvert endemið annað, sem erfitt er fyrir óskeikulan konung úr að bæta. En í þessu upphafs-atriði leiksins eru hinsvegar slegnir einfaldir frumtónar mikillar hljómkviðu, sem fjallar um gjafmildi og sjálfshyggju, þökk og vanþakklæti, hreinlyndi og fláttskap, hroka og auðmýkt, ofsókn og fórn, grimmd og mannúð, hatur og ást, um eilífa baráttu ills og góðs í mannheimi. Sú barátta virðist þó ekki háð milli manna, sem annaðhvort eru vondir eða góðir, heldur heyja óræð öfl, ill og góð, linnulausa styrjöld um mennina, eða öllu heldur um æðstu skepnu jarðarinnar sem efni í mann. Það sem þá varðar mestu er ekki það haldlitla hugtak, sem kallað er hamingja, heldur sá þroski skagerðar, sem er þess um kominn að taka á sig hvert það gervi, sem mannlífið kann að birtast í, hvort heldur er sæld eða kvöl, nægt eða neyð, æðsta upphaf eða dýpsta smán. Örlögin eru margslungin, og skil góðs og ills einatt ærið óglögg. Hitt er ljóst, að lífið á jörðinni megnar að skapa menn sem elska, fórna og þola allt.

Þetta er nú hvorki litlaus né leiðinlegur texti, hvort sem túlkunin er skotheld eða ekki. Helgi er stundum sakaður um íhaldsemi í viðhorfum sínum til verka Shakespeares, eða í það minnsta rómantíska hetjudýrkun gagnvart „sínum manni“. Þessi afstaða hans birtist reyndar hvað skýrast í ritdeilunni miklu sem spratt af uppfærslu Hovhannesar I. Pilikian á Lé í Þjóðleikhúsinu 1977. Hvað svo sem manni finnst um þetta allt er hitt óumdeilanlegt að enginn Íslendingur hefur nokkurntíman lifað í eins nánu samneyti í eins langan tíma við höfundaverk Shakespeares og þessi listfengi skagfirski lyfsali. Og mikið væri gaman ef hann Helgi hefði fundið hjá sér hvöt til að fylgja verkunum öllum úr hlaði með svona hugleiðingum, en ekki Lé einum.

Annar frábær inngangur að þessu margslungna og mikilfenglega verki er ritgerð R.A. Foakes í Arden 3. Þar er fléttað glæsilega saman hugleiðingum um mikilvæga þræði, þemu og persónur og ágrip af sviðsetningar- og túlkunarsögu. Foakes byrjar reyndar á að staðhæfa (eins og asni) að leikrit séu ekki endilega best skilin í ljósi sviðsmeðferðar þeirra, en reynist svo helvíti glúrinn í að sjá hvernig öllu skiptir hvernig þau koma leikhúsgestum fyrir sjónir og heyrnir.

Óhjákvæmilega þarf samt að tala dálítið um hinar tvær gerðir verksins sem við höfum. Eins og með Hamlet þá er talsverður munur á Q og F, en þar skilur á milli að Q er ekki talin neitt lakari eða augljóslega skrifuð upp af óprúttnum leikhúsgestum eða þjófóttum aukaleikurum eins og Hamlet Q1. Hin síðari ár er mikið rifist um hvort beri að líta á Q- og F-gerð Lés sem tvær jafngildar versjónir, eða jafnvel tvö leikrit um sama efni. Foakes fer ekki alveg þangað, enda er hans versjón í grunnin „fullur“ texti, þar sem öllu tiltæku efni er steypt saman en munar á Q og F getið í neðanmáli og með merkingum. 

Muninn á Q og F súmmerar Foakes ágætlega í lok inngangsins:

The differences in the parts of the principal characters … generally enhance in F the social commentary in the play, as in the part of the Fool, diminish the moral commentary in the roles of Edgar, Albany and Kent, and make it less clear who is right and who wrong in the relations between Lear and his daughters.

Þetta síðasta er mikilvægt. Engin sýning í skrautlegri uppfærslusögu King Lear dregur annan eins slóða og uppfærsla Peters Brook fyrir Royal Shakespeare Company 1962. Eitt var nú hvað Paul Scofield var magnaður og sviðsetningin nýstárleg (eiginlega engin leikmynd, Brechtískir effektar etc. En aðallega markar hún þáttaskil fyrir það að Brook neitaði að fylgja hefðinni um að Goneril og Regan væru „vondu systurnar“ sem tryggðu sér konungsríkið með fölsku smjaðri og fleygðu síðan gömlum og örvasa föður sínum út á guð og gaddinn.

Hér eru glefsur úr frægum leikdómi Kenneths Tynan um sýningu Brooks:

… he has dared to direct King Lear … from a standpoint of moral neutrality.

The results are revolutionary. Instead of assuming that Lear is right, and therefore pitiable, we are forced to make judgments … Lear insists on retaining authority; he wants to exercise power without responsibility, … He is wilfully arrogant, and deserves much of what he gets.

Conversely, his daughters are not fiends. Goneril is genuinely upset by her father’s irrational behaviour … After all, what use has a self-deposed monarch for 100 armed men? Wouldn’t 25 be enough? We begin to understand Regan’s weary inquiry: “What need one?”

Við þennan endurlestur kom mjög sterkt til mín hvað það sé furðulegt að þetta hafi verið byltingarkennd túlkun. Þangað til Lér hverfur trylltur/vitfirrtur út í óveðrið er ekkert í tali eða framferði systranna og manna þeirra – í textanum sjálfum – sem bendir til að ævintýrareglurnar um vonda og góða fólkið gildi hér. Fram að því hefur nákvæmlega einn maður afhjúpað sig sem illmenni (Edmund Gloucestersonur) og tveir tekið furðulegar og vanstilltar ákvarðanir: Lér (nánast allt sem hann gerir fram að stormræðunni í 3.2.) og Kent, sem ræðst ómaklega á Oswald, sem bara er að vinna sína vinnu. Afhjúpun vonda fólksins gerist stig af stigi og er frábærlega útfærð:

Cornwall lætur setja Kent í gapastokk og þau hjónin virðast beinlínis njóta þess. 

CORNWALL
Fetch forth the stocks!
You stubborn ancient knave, you reverend braggart,
We’ll teach you–

KENT
Sir, I am too old to learn:
Call not your stocks for me: I serve the king;
On whose employment I was sent to you:
You shall do small respect, show too bold malice
Against the grace and person of my master,
Stocking his messenger.

CORNWALL
Fetch forth the stocks! As I have life and honour,
There shall he sit till noon.

REGAN
Till noon! till night, my lord; and all night too.

KENT
Why, madam, if I were your father’s dog,
You should not use me so.

REGAN
Sir, being his knave, I will.

2.2.135–150

Svo sem ekki hægt að láta framferði Kents alveg átölu- eða refsilaust en það er alveg ljóst af viðbrögðum allra að þarna fer Cornwallhjónin offari. Zero tolerance. Þarna byrja viðvörunarbjöllur að hringja.

Svo eru það systurnar sem setja Lé sífellt strangari mörk með mannskap. Allur sá kafli er firnaflottur og lengi vel er varla hægt annað en að skilja og hafa samúð (eins og Tynan) með áformum húsfreyja í Cornwall og Albany. Og þegar Lér missir sig og æðir út í óveðrið finnst þeim rétt að hann læri lexíu:

GONERIL
‘Tis his own blame; hath put himself from rest,
And must needs taste his folly.

2.4.331–332

og

REGAN
O, sir, to wilful men,
The injuries that they themselves procure
Must be their schoolmasters.

2.4.346–248

Jafnvel hér – og áfram, þegar Gloucester reynist vera með bréf um franska innrás Cordeliu, eru viðbrögð Cornwalls yfirgengileg illska, en mótívasjónin að baki sadismans er ekki djöfulleg. Jarlinn er landráðamaður, ef Cornwall og Albany eru „réttkjörnir“ þjóðhöfðingjar, sem þeir jú eru.

Annað sem mér finnst erfitt að skilja við lestur Lés nú er að þetta sé talið „óleikanlegt“ leikrit. Aftur má vitna í frægan Shakespeareista, Charles Lamb, og hans fleygu orð frá 1811:

To see Lear acted, to see an old man tottering about the stage with a walking stick, turned out of doors by his daughters in a rainy night, has nothing in it but what is painful and disgusting. We want to take him into shelter and relieve him. That is all the feeling which the acting of Lear ever produced in me. But the Lear of Shakespeare cannot be acted. 

Kannski hjálpar að vera nýlega búinn að lesa þrjú leikrit þar sem Shakespeare reynir að samþætta ólíkar hefðir, efni og afstöðu í stöðuga blöndu, einhverskonar leiksviðs-mæjónes. Ævintýraminni, harmleik, söguleikjapólitík, fjölskyldudrama, bitra samfélagsádeilu, trúar- og heimspekilegar vangaveltur, krassandi krádplísing sex and violence. Í Troilus and Cressida, Measure for Measure, All’s Well that Ends Well og Timon of Athens tekst þetta misvel en hér flæða hráefnin glæsilega hvert inn í annað, en halda samt áfram að lifa sínu lífi hvert um sig, leggja eitthvað til hins endanlega bragðs. 

Þau eru vissulega missterk eftir köflum, skiptast á að vera í forgrunni. Í upphafi erum við á lendum ævintýrisins. Fyrir vikið verðum við bara að sætta okkur við órökvísina í smjaðurkeppninni og skiptingu ríkisins sem við þurfum að trúa að sé löngu ákveðin og frábærlega sanngjörn, en á sama tíma breytingum undirorpin eftir útkomu í kjánalegum samkvæmisleik. Það er héðan sem hugmyndin um „vondu systurnar“ flæðir, og fékk að drottna yfir túlkun verksins um aldir. Auðvitað er falskur tónn í ástarjátningum Goneril og Regan. Það er ekki (sjálfkrafa) af því þær séu útsmogin flögð, heldur vegna þess hvernig verkefnið er lagt upp fyrir þeim. Auðvitað hefðu þær allar átt að segja eins og Cordelia: „Vandró. Láttu ekki svona pabbi.“ Gott að þær gerðu það ekki samt.

Ég væri til í að sjá upphafssenuna leikna þannig að Cordelia ÆTLI að vera með í leiknum, en ofbjóði skrum systra sinna, sérstaklega yfirboð Regan, rétt áður en henni sjálfri er réttur mækurinn:

REGAN
Sir, I am made
Of the self-same metal that my sister is,
And prize me at her worth. In my true heart
I find she names my very deed of love;
Only she comes too short: that I profess
Myself an enemy to all other joys,
Which the most precious square of sense possesses;
And find I am alone felicitate
In your dear highness’ love.

CORDELIA
[Aside] Then poor Cordelia!
And yet not so; since, I am sure, my love’s
More richer than my tongue.

1.1.76–87

Líka þannig að þetta sé allt létt og meiningarlaust þangað til Cordelia lætur falla fyrsta af nokkrum lykilorðum verksins:

Nothing

Hliðarplottið er líka ævintýragrunnað: Faðir og tveir synir, annar góður en hinn (svo sannarlega) illur sem tekst að rægja þann góða svo hann þarf að flýja. En hér erum við annars á gömlum heimavelli Shakespeares. Það er stutt síðan Othello varð til og samskipti Edmunds við föður sinn, bróður, og síðar við Regan og Cornwall, eru snýtt úr sömu nös og fléttuverk Iagos. Mótívasjónin samt mun skýrari og skyldari hinu stóra illmenninu, sem einnig var Gloucesterjarl þegar hans leikrit hófst. Edmund bætir kannski engum skrautfjöðrum i hatt skúrkasmiðsins, en stendur algerlega fyrir sínu. For Those About to Rock í kjölfar Back in Black.

Eitt samt ólíkt: Edmund fær endurlausn í lokin. Fær að iðrast, og játa sinn ljótasta glæp, dauða Cordeliu.

Meðan machíavellísk pólitíska hringekjan snýst í senum systranna, eiginmannanna og Edmunds færist fókus verksins til hins heimspekilega – absúrda – í atriðunum á heiðinni, þar sem Lér tapar glórunni en endurheimtir viskuna. Viskuna sem einungis er að finna á endimörkunum, eins og Óðinn komst að þar sem hann hékk í trénu. Visku sem blandast vitskerðingu og sérkennilegri sátt í einstakri blöndu í huga og máli Lés undir lokin, í endurfundum hans og Gloucester og síðan Cordeliu, og rofnar síðan endanlega við grimman dauða hennar.

Það er hægt að líta á afarkosti Regan um fylgdarlið konungs,  „What need one?“ og svar Lés: „Reason not the need.“ sem upptaktinn að þessari leit. Leit að því hver sé hin endanlega „need“. Hvað þarf til að lifa? Hvað þarf til að vera manneskja? Leitin að kjarnanum leiðir hér á aðrar slóðir en samskonar eftirgrennslan nokkrum árum fyrr:

What is a man,
If his chief good and market of his time
Be but to sleep and feed? a beast, no more.

Hamlet 4.4.35–37

Grunnþarfamaðurinn er dýr, samkvæmt hinum Wittenbergmenntaða danaprinsi. Breski fornkonungurinn sér þetta öðruvísi:

Is man no more than this? Consider him well. Thou owest the worm no silk, the beast no hide, the sheep no wool, the cat no perfume. Ha! here’s three on ‘s are sophisticated! Thou art the thing itself: unaccommodated man is no more but such a poor bare, forked animal as thou art. Off, off, you lendings! come unbutton here.

Eða: Sama niðurstaða, en Hamlet ólmast gegn henni meðan gamli gengst fúslega inn á hana í óráði sínu. Hér er svo dæmi um mann sem er á Hamlet-línunni, vill meina að við séum, eða eigum að vera, annað og meira en dýr:

I cannot draw a cart, nor eat dried oats;
If it be man’s work, I’ll do ‘t.

5.3.44–45

Þetta er semsagt hermaðurinn sem Edmund skipar að fylgja Lé og Cordeliu í fangelsið og drepa þau þar. Það er það sem hann er að taka að sér, enda ólíkt mannalegra verkefni en að draga vagn eða éta hafra. Það sjá nú allir. Hann er semsagt talsvert meiri skepna en Lér

King Lear er um glímu við náttúruöflin, innan okkar sem utan. Lé finnst sjálfum það vera um vanþakklæti, en kannski er það öllu heldur um miskunnsemi. Þess vegna er svo magnað að auðvitað hefur Lér rangt fyrir sér, sekur um allt sem hann er sakaður um. Ekki í húsum hæfur. En jafnvel þeir sem eru ekki í húsum hæfir þurfa að eiga í hús að venda.

Ræða Lés í óveðrinu er maklega fræg. Þessi kynning hennar er líka svolítið flott. Kent spyr ónefndan mann, líklega einn af þessum hundrað ótrúu fylgdarmönnum, hvar kallinn sé og fær þetta svar:

Contending with the fretful element:
Bids the winds blow the earth into the sea,
Or swell the curled water ‘bove the main,
That things might change or cease; tears his white hair,
Which the impetuous blasts, with eyeless rage,
Catch in their fury, and make nothing of;
Strives in his little world of man to out-scorn
The to-and-fro-conflicting wind and rain.
This night, wherein the cub-drawn bear would couch,
The lion and the belly-pinched wolf
Keep their fur dry, unbonneted he runs,
And bids what will take all.

3.1.4–17

Almennt er King Lear auðvitað útatað í einstaklega mögnuðum setningum, ræðum, spakmælum, skáldskap, jafnvel umfram flest verka skáldsins. Margt er þar kunnuglegt, og við hverja yfirferð bætist í sjóðinn. Hér er Lér, glórulaus, á tali við blindan Gloucester:

Get thee glass eyes;
And like a scurvy politician, seem
To see the things thou dost not.

4.6.187–189

En „see“ er eitt helsta leiðarstef verksins. Og „seem“ grundvallarviðfangsefni Shakespeares lengstaf.

Eða þessi orðaskipti föður og sonar í dulargervi, sem tilheyra þemanu um muninum á hinum háu og þeim lágu, og hvað sá munur er óréttlátur og, á endanum, villandi:

GLOUCESTER
What, hath your grace no better company?

EDGAR
The prince of darkness is a gentleman:

3.4.150–151

Og svo þessi orð Cordeliu um innihaldslausa mælsku:

If for I want that glib and oily art,
To speak and purpose not

1.1.258–259

En þar sem Lear skorar sérstaklega hátt, og umfram flest ef ekki öll önnur verka skáldsins, er á mælikvarða eftirminnilegra atvika og magnaðra mynda:

  • Skipting landsins
  • Kent í gapastokknum
  • Réttarhöldin í óveðrinu
  • Augnstungan
  • Sjálfsmorð Gloucesters
  • Lér ber lík Cordeliu á svið

Ég er vissulega undir sterkum Jan Kott áhrifum eftir að hafa lesið þann gúrú á viðkvæmu aldursskeiði, en ég kemst ekkert undan þeim og finnst fyrir vikið atriðið þar sem Edgar (dulbúinn sem hinn vitfirrti Poor Tom) leiðir föður sinn, hinn blindaða jarl af Gloucester, að ímyndaðri klettabrún þar sem faðir hann hyggst enda líf sitt. Klettabrúnin er vitaskuld engin á auðu sviðinu, og ætlun Edgars er að leiða föður sinn aftur til lífsins í krafti þess að hann hafi lifað „fallið“ af. Þetta er margslungin sviðsskáldskapur sem er ekki á hverju strái í verkum Shakespeares, enda getur hann treyst á óviðjafnanlega orðsnilld sína, alls ekki síst þarna, á hátindi ferilsins. 

Þess magnaðra verður þegar svona áþreifanlegur skáldskapur bætist við.

Ég hef séð Lé tvisvar á sviði. Uppfærsla Guðjóns Pedersen 2000 þótti mér alveg afleit, sá ferskleiki sem hann hóf sína Shakespeare-vegferð með löngu horfin og orðin klisjubundin í leit sinni að frumleika, og – að manni fannst stundum – þrákelknislegum og barnalegum tilraunum til að ögra aðdáendum skáldsins og Helga Hálfdanarsyni sérstaklega. Öllu meira fannst mér varið í sýningu Benedict Andrews í Þjóðleikhúsinu 2011, sérstaklega síðari hlutinn. Vantaði alveg einhverja vitræna túlkun í upphafssenurnar, skýra sýn á hverskyns heimur þetta er, hvernig hírarkían virkar, hvort hún væri rótgróin eða kannski meira bundin persónuleika kóngsins. En styrkleiki Andrews er skilningur á frásagnarmætti leiksviðsins og nýttist vel í síðari hlutanum, sem aftur var pínlegur hjá Gíó.

King Lear er ágætlega aðgengilegur á uppteknu formi, eins og reyndar allir stóru harmleikirnir. Þar eru bæði „hreinræktaðar“ bíómyndir eins og mynd Brooks frá 1971 sem byggir að einhverju leyti á straumhvarfauppfærslu hans fyrir RSC en er auðvitað gerð níu árum eftir sviðsetninguna. Sama ár kom svo Король Лир, kvikmynd Grigori Kozintsevs, ágæt mynd og kemur væntanlega engum á óvart að þjáningar almennings og vitundarvakning Lés um það ástand og ábyrgð hans sjálfs á því er í forgrunni. Sjónvarpsmyndir eru nokkrar, þar á meðal með Laurence Olivier og James Earl Jones. Einnig nokkrar sem byggjast á vel heppnuðum sviðsuppfærslum. Tvær þeirra horfði ég á að þessu sinni. 

Samvinna Trevors Nunn og Ian McKellen við uppfærslur Shakespeareharmleikja á litlum sviðum hafði áður skilað stórkostlegum kvikmynduðum sýningum í Macbeth og Othello þegar þeir tókust á við árið 2009. Hún er kannski ekki jafnfætis hinum fyrri, en firnasterk engu að síður. Sennilega var ég samt aðeins of fljótur að afskrifa „vondusystrahefðina“, því þær Frances Barber og Monica Dolan eru falsið uppmálað frá fyrstu stundu. Á móti kemur að þær eru frábærar sem slíkar. Eitt sterkasta augnablik sýningarinnar eru viðbrögð þeirrar fyrrnefndu þegar faðir hennar gusar á hana einni frægustu ræðu verksins:

Hear, nature, hear; dear goddess, hear!
Suspend thy purpose, if thou didst intend
To make this creature fruitful!
Into her womb convey sterility!
Dry up in her the organs of increase;
And from her derogate body never spring
A babe to honour her! If she must teem,
Create her child of spleen; that it may live,
And be a thwart disnatured torment to her!
Let it stamp wrinkles in her brow of youth;
With cadent tears fret channels in her cheeks;
Turn all her mother’s pains and benefits
To laughter and contempt; that she may feel
How sharper than a serpent’s tooth it is
To have a thankless child! 

1.4.289–303

McKellen er frábær og sýningin yfirstígur hina ofurrómantísku búningahönnun og er kröftug og skýr frá upphafi til enda.

Það sama má segja um nýlega NT-Live sjóræningjaútgáfu þar sem annað þaulslípað leikstjóra/leikarapar ræðst á hinn ókleifa Lé-tind. Sam Mendes nýtir rými og tækni stóra sviðs breska Þjóðleikhússins frábærlega og verkið nýtur sín harmleikja best í svona stórri pródúksjón. Einkum atburðadrifinn og epískur síðasti þriðjungurinn, sem á það til að reyna á þolrifin. Annað sem hér skilar sér af alefli er hinn ekki-í-húsum-hæfi einkaher Lés. Engin furða a Goneril gefist upp. Þær systur eru reyndar líka hér helvíti tæfulegar frá upphafi. Og aftur frábærlega gerðar – sennilega er bara meira gaman að leika þær svona. Cordelia er líka flott, greinilega gengið út frá því að það sé skiljanlegt að hún leiði franska herinn í síðari hlutanum, þetta er engin postulínsdúkka.

En mestu munar um Simon Russell Beale, sem er stórkostlegur Lér. Bæði í harðstjórahlutverkinu í upphafinu, sturluninni á heiðinni, þar sem hann er látinn berja fíflið sitt til bana með stálröri í blindu æðiskasti, og svo hinni mildari vitskerðingu síðari hlutans. Firnasterk sýning. Þar kemur til fulls hagnaðar sú pæling Beales að gefa Lé sjúkdómseinkenni þekktrar tegundar elliglapa; Lewy Body Dementia. Á massívri Youtube-rás þjóðleikhússins eru brot úr sýningunni og fullt af ítarefni til að grúska í.

Sjónvarpsmynd Michael Elliot með Sir Laurence Olivier frá 1983 ber þess nokkuð merki að tilgangur hennar er fyrst og fremst að festa Larry á filmu í rullunni. Steingeld túlkun á verkinu og aðalleikarinn orðinn nokkuð þrotinn að kröftum. Flottur auðvitað sem það sem hann er. En það er ekki hægt að mæla með þessari mynd.

Fyrrnefnd rússnesk kvikmyndaaðlögun er hins vegar aldeilis stórglæsileg, með endalausum straumi af eftirminnilegum svipmyndum og senum. Það tekst mjög vel að færa hlutskipti almúgans í forgrunn að marxlenínískum hætti og gera vaknandi meðvitun Lés um ástandið að lykilatriði í „endurfæðingu hans. Jüri Järvet er flott „týpa“ í kallinn, veit samt ekki hvort túlkunin er frábær. Valentína Shendrikova er einstaklega fögur Cordelia, en nær jafnframt að vera trúverðugur leiðtogi og herstjóri undir lokin. Þrusumynd.

Slatti er líka til af „afleiddum“ kvikmyndum, þar sem stuðst er við, eða vísað í Lé. Þar má nefna A Thousand Acres frá1997. Þar er t.d. Jennifer Jason Leigh í Cordelíuhlutverkinu, sem hún er líka í í The King is Alive, Dogmamynd Kristians Levring frá 2000. Það er skrítin og ekki sérlega vel lukkuð mynd, þó premisan sé lofandi: Hópur ferðamanna verður strandaglópur í yfirgefnum námubæ í namibískri eyðimörk og setur upp Lé konung í leiðindum sínum meðan hjálpar er beðið. Mikið drama á köflum en samhljómurinn og/eða spennan milli aðstæðna og leikverks verður aldrei að nothæfu eldsneyti því miður.

Frægasta afleiðan er samt Ran, síðasta söguepík Kurosawas, frumsýnd 1985. Hún sækir varla nema nokkur grunnelement söguþráðar í leikritið, konung og þrjú börn (syni hér) og ríki sem leysist upp þegar konungur skiptir því milli tveggja en hrekur það þriðja frá sér. Svakaflott mynd samt, og ætli túlkun Mieko Harada á metnaðargjarnri refsinorn sé ekki minn eftirlætisperformans í Kurosawamynd, allavega ef Mifune er tekinn út fyrir sviga (hann er ekki með hér).

Þessi magnaða seinþroskasaga er ótrúlegt snilldarverk sem varla rúmast innan formsins sem Shakespeare setur því. Ævintýraminnið um vondu börnin og það góða, og glámskyggni á mannkostina er þarna. Sérkennilega raunsæ og miskunnarlaus skoðun á fjölskyldudýnamík einnig. Machíavellískt pólitískt drama meðfram. Og svo tryllingur yfir súrrealískri vonsku heimsins og þögn guðanna. 

They flattered me like a dog; and told me I had white hairs in my beard ere the black ones were there. To say ‘ay’ and ‘no’ to every thing that I said!–‘Ay’ and ‘no’ too was no good divinity. When the rain came to wet me once, and the wind to make me chatter; when the thunder would not peace at my bidding; there I found ’em, there I smelt ’em out. Go to, they are not men o’ their words: they told me I was every thing; ’tis a lie, I am not ague-proof.

4.6.115–124

Allt gott.

Textinn.

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnveginn í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.