Baksíða Morgunblaðsins 15. nóvember, 1985 (á þessum tíma birtust bara heimsfréttir á forsíðu – sigur Hófíar taldist ekki þar með).

Sviðsframkoma hversdagsins

um fegurðarsamkeppnir og ofurraunveruleikann

Núna þegar vertíð fegurðarsamkeppna á Íslandi er lokið, allavega í bili, og sigurvegarar hafa verið krýndir, sumir nýir – aðrir gamlir, þá sprettur ávallt upp sú spurning hvernig stendur á því að við í þessu samfélagi sífelldra framfara skulum ennþá halda slíkar keppnir sem stilla upp einstaklingum eftir ákveðinni formgerð. Tilgangur slíkra keppna er umdeildur og einnig tilgangur og verkefni sigurvegaranna en samt virðast allir vera að fylgjast með af forvitni. Dómar falla um keppendur, fyrirkomulag og skipuleggjendur, en samt sem áður eru allir að horfa, og jafnvel að taka þátt á sinn eigin hátt.

Fegurðarsamkeppnir eins og Ungfrú Ísland og Miss Universe Iceland eru dæmi um líkneski samkvæmt kenningum Jean Baudrillard sem koma fram í greininni „Framrás líkneskjanna“ í bókinni Simulacres et Simulation eða Líkneski og eftirlíking í íslenskri þýðingu. Í greininni leggst Baudrillard í greiningu á samtímamenningunni og tengir þær við póstmódernisma, hann talar um hugtök sem hann nefnir líkneski og ofurraunveruleika en hann vill meina að þau lýsi hinum ýkta veruleika. Oft er erfitt að greina á milli raunveruleikans og eftirmynda hans  í samtímamenningunni þar sem eftirmyndirnar eru orðnar ákjósanlegri heldur en raunveruleikinn og þar með verða þær raunverulegri, ofurraunveran er þá ánægjulegri og gefur meiri fylli heldur en raunveruleikinn.  Baudrillard  tekur dæmi sér til stuðnings táknsögu um kortagerð landmælingamanna keisaradæmisins og að þær séu nú liðin tíð þar sem að nú á tímum sé sértekningin ekki lengur bundin við landsvæði, hlutstæða veru eða efni heldur miðli hún einungis annarrar gráðu líkneskis. Kortið er nú orðið forsenda landsvæðisins eða með öðrum orðum þá er eftirlíkingin orðin forsenda raunveruleikans 1

.  Þá talar hann ennfremur um að eftirlíkingin sé farin að grafa undan muninum á því hvað sé falsað og hvað sé ósvikið eða á því sem er ímyndað og því sem er raunverulegt. Annað dæmi sem hann tekur er um helgimyndir trúarbragða og hvernig þær reyna að myndgera Guð og að með því hafi þær yfirtekið frumgerðina Guð. Helgimyndirnar eru þá eftirlíkingar  eða líkneski sem hafa líkt eftir frummynd og tekið einskonar vald á henni 2.

Hann skiptir helgimyndinni eða eftirlíkingunni í fjögur þróunarstig:

  1. Hún speglar djúpstæðan veruleika
  2. Hún dylur og umbreytir eðli djúpstæðs veruleika
  3. Hún felur fjarvist hins djúpstæða veruleika
  4. Hún hefur alls engin veruleikatengsl: hún er sitt eigið líkneski og ekkert annað.

Ef við skoðum þessar hugmyndir Baudrillard um helgimyndir og yfirfærum þær á fegurðarsamkeppnina Ungfrú Ísland, þá getum við hugsað okkur sem svo að fegurðarsamkeppnin sé líkneski fegurðar í samfélaginu. Það sem fegurðarsamkeppni á borð við Ungfrú Ísland gerir er að stilla upp þeim konum sem taldar eru fegurstar hverju sinni og þær sýndar almenningi líkt og gínur eða ákveðin táknmynd af upplögðum fegurðarstöðlum sem eru samþykktir. Ungfrú Ísland speglar þá vissulega djúpstæðan veruleika, þar sem fegurðarsamkeppnir eru eins og eftirlíking af raunheiminum. Það er að segja, fegurðarsamkeppnin er ekki einungis til innan veggja Ungfrú ísland og undir framkvæmdastjórn og vökulu auga skipaðra dómara hennar heldur er keppnin einnig háð í raunveruleikanum dag hvern í hinum vestræna heimi.  Við erum öll í fegurðarsamkeppni á hverjum degi. Dómararnir í þeirri keppni eru þá til dæmis feðraveldið, samfélagsleg pressa og markaðssetningar stórfyrirtækja. Einstaklingar í samfélaginu, og þá sérstaklega konur, eru settir undir jafn mikla smásjá í raunheiminum eins og í hinum líkneskjulega heimi sem er fegurðarsamkeppnin. Fegurð, og hvað það þýðir að vera fallegur, er fyrirfram ákveðið og vinna fegurðarsamkeppnin og raunheimurinn saman í að skapa þá staðalmynd sem ríkir hverju sinni. Grannur líkami í hlutfallslegu samræmi auk fallegrar og hreinnar húðar og glansandi hárs eru einungis lítill hluti af þeim kröfum sem eru gerðar til kvenna til að teljast fallegar í vestrænum heimi. Samfélagið er þá mótunarafl slíkra keppna og því mætti segja að samfélagið hafi búið til líkneski úr fegurðardrottningum sem eiga að endurspegla einhvern djúpstæðan veruleika. Lífið er sífelld keppni og útlitskröfur eru settar á okkur hvert sem við förum, en keppnin endurspeglar þá raunveruleikann á ótvíræðan máta á meðan það getur verið hálf dulið í hversdagslífinu. Síðan verður ákveðin víxlverkun þar sem Ungfrú Ísland ýtir undir þessa pressu samfélagsins í fegurð. Margir líta keppnina hornauga og  telja hana vera tímaskekkju sem sýni ekki neinn raunverulegan sannleika. Þrátt fyrir að þau rök séu ekki alvitlaus þá getum við samt séð að ef Ungfrú Ísland er í raun bara eftirlíking af raunheiminum þá er það ekki keppnin sem er vandamálið heldur einungis einn lítill hluti af risastóru samhengi og er þá keppnin í raun svo mikil tímaskekkja eins og margir vilja meina? Keppnin er afsprengi af frummyndinni sinni sem er raunheimurinn, okkar daglega líf, orðræða í samfélaginu og áfastar staðalímyndir sem hafa jafn mikið vald í dag og þær gerðu við upphaf fegurðarsamkeppna.

Fegurðarsamkeppnin felur sig þó á bak við það að vera eitthvað annað en hún er, og til að mynda er algengt að fegurðardrottningar og aðstandendur Ungfrú Ísland afsaki keppnina með þeim fullyrðingum að hún sé til þess gerð að móta frambærilegar ungar konur til að verða traustir fulltrúar Íslendinga úti í hinum stóra heimi. Keppnin snúist því meira  um góðgerarstörf heldur en útlitið. Þar er keppnin á villigötum, en hún reynir að blekkja sig og blekkja aðra og hún gæti jafnvel hafa náð að takast að blekkja sjálfan sig og keppendur sína til að trúa á þetta æðra markmið en þar sem yfirborðsmennskan er mjög ríkjandi alla keppnina og einnig í eftirmála keppninnar að þá er erfitt fyrir hana að halda þeim blekkingarleik uppi. Eins og Baudrillard segir sjálfur að þá er „ofurraunveruleiki og eftirlíking banabiti sérhvers lögmáls og sérhvers ásetnings eða markmiðs“ 3. Reglur og vald er það sem umlykur eftirlíkingarnar og frummyndir þeirra. Við erum sífellt að framleiða og endurframleiða raunveruleikann en valdið hefur ekki framleitt annað en tákn sinnar eigin líkingar. Baudrillard segir einnig að það sé eftirspurn samfélagsins sem kallar á táknin.

Baudrillard kemur einnig með dæmi um Disneyland sem ofurraunveru og hina fullkomnu fyrirmynd fyrir hin flæktu stig líkneskjanna en hann segir að ímyndunarheimur Disneylands sé hvorki sannur né falskur. Hann sé í raun „fælingarvél, sem hefur verið sett á svið í varnarskyni til að endurgera uppspuna raunveruleikans“ 4.  Ameríka er Disneyland og Disneyland er að sama skapi Ameríka. Ungfrú Ísland er einnig ákveðin fælingarvél, en fegurðarsamkeppnin er sett á svið og hún vissulega endurgerir einhvern raunveruleika eins og ég hef komið inn á hér fyrr í greiningunni. Baudrillard nefnir að Disneyland sé borginni lífsnauðsynlegt vegna hlutverks þess í að skapa ímyndunarheim sem er framsetning á ákveðnum raunveruleika 5. Ég set spurningarmerki við það hvort að Ungfrú Ísland sé íslensku samfélagi nauðsynleg, en aftur á móti virðist það vera svo að þrátt fyrir að keppnin yrði lögð algjörlega niður að þá myndu einungis spretta upp önnur líkneski sem eru náskyld Ungfrú Ísland. Fegurðarsamkeppnir eru haldnar víða um heim og virðast vera fleiri en halda mætti í fyrstu, enda til alls kyns útfærslur á slíkum keppnum sem eiga að þjóna hinu og þessu hlutverki í góðgerðarmálum heimsins. Líkneski fyrir óraunhæfa fegurðarstaðla geta þá birst einnig á öðrum vettvöngum, til að mynda mætti nefna myndaforritið Instagram þar sem ofurraunveruleiki spilar stórt hlutverk. Ungfrú Ísland keppnin fær mikla gagnrýni í samfélaginu en samt sem áður virðast mjög margir vilja fylgjast með henni. Ofurraunveruleikinn heillar og líkneskin verða fyrir meiri hylli heldur en myndir og persónur raunheimsins. Disneyland er fantasíuheimur skapaður af samfélaginu fyrir veruleikaflótta og samkvæmt Baudrillard er hann líkneski eða ofurraunveruleiki sem er táknmynd fyrir raunveruleikann. Fegurðarsamkeppnin Ungfrú Ísland er einnig ofurraunveruleiki skapaður af samfélaginu en endurspeglar í raun þann heim sem við lifum og hrærumst í á hverjum degi. Dómarar fegurðarsamkeppninnar eru hvarvetna í hversdagslífinu og erum við oftar en ekki sjálfskipaðir dómarar yfir öllu. Dæmt er þá um útlit, fas og hegðun einstaklinga út frá fyrirfram gefinni forskrift og erum við samfélagið oft vægðarlaus í dómgæslu okkar. Þannig er fegurðarsamkeppnin einungis þverskurður af nútíma samfélagi sem metur fegurð og yfirborð hluta ofar nánast öllu öðru. Fegurðarsamkeppni kvenna er fremur ný hugmynd en þær hafa verið haldnar reglulega frá aldamótunum 1900. Síðar komu einnig samkeppnir á milli barna og karlmanna en þeir flokkar samfélagsins eru ekki undanskildir og eru einnig undir vökulu auga fegurðarstaðlanna. Við erum í fegurðarsamkeppni hvern einasta dag, en hvern erum við þá að keppa við í hinum raunverulega heimi? Þar má telja meðal annars aðra einstaklinga í samfélaginu, óraunverulegar auglýsingar, stjörnur hvíta dregilsins og módel tískuvörurisanna. Konum er sagt að þær séu of feitar hvern einasta dag með markaðsetningarflæði um hvernig hin fullkomna kona eigi að líta út. Margar konur í hinum vestræna heimi svelta sig til að reyna að passa inn í það mót sem samfélagið gefur okkur. Þrátt fyrir að það sé enginn einn áhrifamikill eigandi stórrar fegurðarsamkeppni sem segir þeim að gera það þá eru ýmsir þættir sem nánast kalla á að konur hegði sér og líti út á ákveðinn hátt. Baudrillard talar um að eftirlíking snúist að mestu leyti um að tákn veruleikans komi í stað veruleikans sjálfs og að það bægi frá raunverulegi ferli með því að koma með kerfisbundin tvífara þess 6. Ungfrú Ísland dregur oft upp fordæmingu í samfélaginu og sprettur ávallt upp mikil gagnrýni á keppnina, en þrátt fyrir það berast keppninni ávallt fjöldi umsókna. Árið 2016 bárust keppninni til að mynda 200 umsóknir 7. Þó hafa margir fyrri keppendur talað opinskátt um að keppnin hafi breytt þeim til hins verra, og  einn keppandi talaði jafn vel um að Ungfrú Ísland væri „niðurlægjandi lífsreynsla“ og að hún sjálf hafi ekki þekkt sjálfa sig því að keppnin mótaði hana í einhverja allt aðra persónu hún hafði verið 8.  Ungfrú Ísland er nefnilega hálfgert karníval, þar sem ákveðnu fegurðarmóti er stórlega hampað og allir þáttakendur reyna og eru skikkaðir til að troða sjálfum sér eins mjúklega og þeir geta í mótið til að þóknast ákveðnu valdi. Sá stimpill að vera „nógu falleg“ til að fá að keppa í Ungfrú Ísland er síðan viðurkenning í samfélagi sem er heltekið af fegurðarstöðlum. Karnívalið fær sitt fulla líf í keppninni en á meðan keppnin er við lýði bægist raunverulega keppnin frá sjónarsviði manna og gagnrýnin lendir því alltaf á líkneskjunum fremur en á raunverulegu heildarmyndinni.

Ungfrú Ísland getur því bæði fallið undir skilgreiningu Baudrillard á líkneski en einnig er hægt að líta á hana sem ákveðin ofurraunveruleika þar sem Ungfrú ísland er ýktur vettvangur fyrir flótta og fyrir sköpun. Ungfrú Ísland er einnig líkneski því það er framleiðsla eftirlíkingar en eftirlíking er það ferli þegar eitthvað raunverulegt, til dæmis fegurðarsamkeppnin, kemur í stað þess sem framsetningin á við um. Fegurðarsamkeppnin er þá líkneski fyrir fegurðarstaðla samfélagsins en einnig ákveðinn ofurraunveruleiki sem þáttakendur og áhorfendur stíga inn í í þeirri trú að þar séu þeir að horfa á eða taka þátt í einhverju sem er ýkt sjónarspil þegar það er í raun djúpstæð framsetning á veruleikanum sem við búum við.

 

   [ + ]

1. Jean Baudrillard. Frá eftirlíkingu til eyðimerkur. „Framrás líkneskjanna“. (Bjartur, Reykjavíkurakademían, Reykjavík 2000)  Bls. 42-43
2. Jean Baudrillard. Bls. 48-49
3. Jean Baudrillard. Bls. 56
4, 5. Jean Baudrillard. Bls. 52
6. Jean Baudrillard. Bls. 44
7. Eggert Jóhannesson. Mbl.is. „ Hátt í 200 umsóknir í Ungfrú Ísland. Skrifuð 26. maí 2016 ( Sótt af : http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/05/26/hatt_i_200_umsoknir_i_ungfru_island/  þann 22. Nóvember 2016)
8. ELG. Víkurfréttir. „Niðurlægjandi lífsreynsla“. (Sótt af:   http://m.vf.is/frettir/nidurlaegjandi-lifsreynsla/39650  þann 22. nóvember 2016)